Pamela Anderson strandaglópur í Færeyjum

Pamela í Færeyjum
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
  Í júní ætluðu bandarísku hryðjuverkasamtökin Sea Shepherd að slá sér upp með árás á 48 þúsund manna samfélag í Færeyjum  Átakið kallast Grind Stop 2014.  Það gengur út á að stöðva veiðar Færeyinga á marsvínum (grind).  
 
  Eins og segir í afbökuðu orðatiltæki þá hefur allt farið afsíðis sem getur farið afsíðis.  Félagar í SS fjölmenntu til Færeyja.  Hluti þeirra var staðinn að stórtækum og grófum þjófnaði á matvælum í skipinu Norrænu og aftur í verslun í Nolsoy í Færeyjum.   Þar stálu hryðjuverkamennirnir bjór.  Trúverðugleiki um gott siðferði flaug út um gluggann.  Hafi hann verið til staðar.  Sem er óvíst.  Þess í stað urðu liðsmenn Sea Shepherd aðhlátursefni í Færeyjum.  
 
  Iðulega ná Færeyingar marsvínavöðum yfir sumartímann.  Þó er allur gangur á því.  Í sumar hefur fátt borið til tíðinda í þeim efnum.  Liðsmenn SS hafa staðið í erindisleysu í fjöru í Færeyjum,  gónt út á haf án þess að verða varir við hval.  Fyrr en í fyrradag.  Þá varð vart við marsvín úti fyrir Haraldssundi.  Veður var óhagstætt.  Þess vegna voru mótorbátar ekki ræstir út.  Hinsvegar sigldi skip SS til móts við hvalina og fældi þá úr sundinu.
 
  Sýslumaður Norðureyjanna hefur kært uppátækið.  Þar er um formlega stjórnsýsluaðgerð að ræða.  
 
  Til tíðinda dró um síðustu helgi.  Þá tilkynnti kanadíska leikkonan Pamela Anderson komu sína til Færeyja.  Erindið var að vekja athygli heimsins á (misheppnuðu) átaki SS gegn hvalveiðum Færeyinga.  
 
  Pamela er heimsfræg leikkona og Playboy fyrirsæta.  Líka fræg fyrir að hafa verið eiginkona trommuleikara glysrokksveitarinnar Mötley Crue,  Tommy Lee.  
 
  Pamelu gekk illa að komast til Færeyja.  Hún flaug til Danmerkur en komst ekki þaðan á auglýstum tíma.  Sem átti að vera fyrr í vikunni.  Hún slapp loks til Færeyja í dag og hélt þar blaðamannafund.    
  Ljóskan er illa að sér um samgöngur til og frá Færeyjum.  Færeyingar reka eitt flugfélag,  Atlantic.  Frábært flugfélag sem gaman er að ferðast með (ókeypis bjór).  Það er oft uppbókað.  Einkum í kringum hátíðir á borð við Ólafsvökuna sem fór fram í þessari viku.   
 
  Nú er Pamela strandaglópur í Færeyjum.  Ekkert laust flugsæti næstu daga.  
 
  Pamela grætur það ekki.  Á blaðamannafundinum í dag sagðist hún vera dolfallin yfir fegurð Færeyja.  Sjálf alin upp á eyju í Kanada og sé því eyjastelpa.
 
  Á fundinum hélt hún því fram að hvalir séu gáfaðar skepnur sem leggi mikið upp úr nánum fjölskyldutengslum.  Fjölskyldan sé hornsteinn í þeirra tilveru.
 
 Þetta er rangt hjá kellu.  Hvalir eru heimskir.  Jafnvel í samanburði við Tommy Lee.   Fjölskyldutengsl þeirra ná lítið út fyrir nýfædda kálfa.     
   
  Pamela leyfði fyrirspurnir á blaðamannafundinum.  Hún lýsti jafnframt yfir áhuga á að skiptast á skoðunum við færeyska hvalveiðimenn eftir blaðamannafundinn.   Allt gekk þetta lipurlega fyrir sig.  Allir voru kurteisir og yfirvegaðir.   Eins og Færeyinga er von og vísa.  Sjálf var Pamela ljúf sem lamb.  Hún sýndi viðmælendum sínum virðingu,  hlustaði á þeirra skoðun en hvikaði hvergi frá sínum viðhorfum.  
 
  Þrátt fyrir að ekki hafi náðst niðurstaða sameiginlegs viðhorfs þá skoraði Pamela prik með fagmannlegri og góðri framkomu.  Hún er atvinnuleikkona.   
   
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú barmmikla brjóstgóða mær

þú blómlega síðjúgra hind

auðvitað áttu í Fær-

eyjum að pass´uppá grind.

Fjölskyldu tengslin þú fannst

fávísum hvölunum í

Ekki svo ólíkt, þú manst

árin með Tómasi Lee

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 2.8.2014 kl. 00:54

2 identicon

Ég held að maður geti sagt, að kerlingin sanni að hún sé blondína, þegar hún talar um fjölskyldu tengsl hvala.

Hún ætti nú frekar að berjast fyrir því að fækka fjölgun mankyns í heiminum.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 2.8.2014 kl. 07:37

3 identicon

Hvalir eru vissulega mjög heimskar skepnur - en það er nú ljótt að segja að hvalir séu heimskari en Tommy Lee, verulega ljótt.

https://www.youtube.com/watch?v=QdQXI79ZPMM

Guðmundur (IP-tala skráð) 2.8.2014 kl. 14:39

4 Smámynd: Jens Guð

Bjarni Gunnlaugur, takk fyrir skemmtilega vísu.

Jens Guð, 2.8.2014 kl. 22:09

5 Smámynd: Jens Guð

Bjarni Örn, já, eða berjast gegn drápi á fólki. Að minnsta kosti svona í leiðinni.

Jens Guð, 2.8.2014 kl. 22:10

6 Smámynd: Jens Guð

Guðmundur, þetta er rétt hjá þér. Eins og glöggt má heyra í viðtalinu sem þú vísar á. Hitt hefur farið hljótt að í dag er þessi Grikki trommuleikari Smashing Pumpkins. Það má líka rifja upp að hann fór í fangelsi fyrir að lemja Pamelu.

Jens Guð, 2.8.2014 kl. 22:19

7 identicon

Mig langar að setja læk á kvæði Bjarna.

Davíð Kristjánsson (IP-tala skráð) 3.8.2014 kl. 00:11

8 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Ég er hvorki með né á móti hvalveiðum. Mér er slétt sama hvort þeir éta eða eru étnir. En hvaða vísindalega staðreynd eða rannsókn sýnir fram á að hvalir séu heimskir?

Siggi Lee Lewis, 3.8.2014 kl. 01:20

9 Smámynd: Jens Guð

Davíð, þú gerir það í raun með þessu "kommenti".

Jens Guð, 3.8.2014 kl. 11:37

10 Smámynd: Jens Guð

Ziggy, stærð heilans - eða réttara sagt hlutfallsleg smæð hans - sýnir fram á það.

Jens Guð, 3.8.2014 kl. 11:39

11 identicon

@Jens, þú ættir að kynna þér vísindi aðeins betur.

Ivan (IP-tala skráð) 3.8.2014 kl. 19:06

12 Smámynd: Jens Guð

Ivan, ég vatt mér í það og fann þetta í Morgunblaðinu:

"Nancy Andreasen er ein þeirra sem rannasakað hafa tengsl milli gáfna og stærðar heila, en hún er prófessor í geðlækningum við læknaháskólann í Iowa í Bandaríkjunum. 67 sjálfboðaliðar tóku þátt í rannsókninni og voru niðurstöður á þá leið að heimskur væri ekki alltaf höfuðstór, því þeir sem voru með stærstan heila höfðu hæstu greindarvísitöluna. Sömuleiðis virtist vera samhengi milli stórs höfuðs og stórs heila."

Jens Guð, 3.8.2014 kl. 19:16

13 Smámynd: Jens Guð

Prófessor við suður-afrískan háskóla segir að gáfnafar hvala hafa verið stórlega ofmetið. Gullfiskar séu gáfaðri en hvalir og einnig hugsanlega kýr.

Paul Manger hefur í nokkur ár rannsakað heila úr smáhvölum, einkum hnísu og stökkli, sem er höfrungategund. Þá hefur hann kannað svefnvenjur þeirra.

„Þegar uppbygging heilans í hvölum og höfrungum er skoðuð sést að heilinn er ekki útbúinn fyrir úrvinnslu flókinna upplýsinga eins og margir halda. Ef við athugum hins vegar að í svefni nota þeir aðeins hálfan heilann í senn má draga þá ályktun að heilinn hafi stækkað svona til þess að framleiða orku sem heldur hita á þeim fáu taugafrumum sem þeir hafa í heilanum,“ segir Manger.

Fram til þessa hafa sumir hvalfriðunarsinnar gengið svo langt að segja að ekki megi drepa hvali vegna þess að gáfnafar þeirra slagi hátt í það sem gengur og gerist hjá mannskepnunni. Manger segir að deilt sé um hversu gáfaðir hvalir séu í samanburði við önnur dýr.

„Sumar rannsóknir sýna að gullfiskar geta leyst þrautir sem hvalir og höfrungar ráða ekki við. Þeir eru augljóslega ekki á neinn hátt greindari en önnur spendýr eða dýr jarðar,“ segir Manger.

Jens Guð, 3.8.2014 kl. 19:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.