Andri á Færeyjaflandri - leiðrétting - útskýring

 
  Sjónvarpsþáttaserían Andri á Færeyjaflandri hefur heldur betur slegið í gegn.  Situr sem fastast á Topp 10 yfir það sjónvarpsefni sem flestir horfa á hverju sinni.  Enda bráðskemmtileg og fróðleg.   Á Fésbókinni hneykslast óþarflega margir á því að samtöl Andra við Færeyinga fara fram á ensku.  
 
  Förum yfir það.  Áratugum saman stunduðu margir Færeyingar sjó við Íslandsstrendur.  Áratugum saman hlustuðu Færeyingar til sjós og í Færeyjum á íslenska útvarpið. Færeyingar skildu íslensku. það var auðvelt fyrir Færeyinga að spjalla við Íslendinga á íslensku.  
  Þetta breyttist 1991.  Þá fauk langbylgjumastur íslenska útvarpsins út í veður og vind.  Íslenska útvarpið datt út.  Í kjölfarið lengdi færeyska útvarpið dagskrá sína úr stuttri daglegri útsendingu yfir í langa útsendingu.  Að auki hömstruðu Færeyingar gervihnattadiska og fóru að fylgjast með mörgum útlendum sjónvarpssendingum.
 
  Þegar ég fór fyrst til Færeyja,  1993,  var auðvelt að ræða við Færeyinga á íslensku.  Þeir skildu mig og ég skildi þá.  
 
  Á þessari öld hefur orðið mikil breyting.  Færeyska hefur færst hratt frá íslensku.  Útlendu sjónvarpsefni er kennt um.  Líka því að Færeyingar sækja í æ ríkari mæli framhaldsnám til Danmerkur.  Náminu fylgir iðulega lengri búseta í Danmörku áður en aftur er snúið heim til Færeyja (oft með dönskum maka). 
 
  Ungir Færeyingar skilja í dag ekki íslensku.  Íslendingar skilja í dag ekki færeysku.  
 
  Færeyskir fjölmiðlar hafa oft samband við mig.  Vilja ræða tiltekin fréttnæm mál eða hafa almennt viðtal.  Ég skil færeysku ágætlega.  Ég tala líka einfalda færeysku. En alltaf setja Færeyingarnir þennan fyrirvara:  "Til að forðast misskilning skulum við spjalla á ensku."  Vissulega eru ótrúlega mörg orð þau sömu í færeysku og íslensku en hafa ólíka merkingu. Ég þekki mörg dæmi þess.  
 
  Andri Freyr talar dönsku. Færeyingar eru nánast tvítyngdir.  Þeir tala dönsku eins og innfæddir.  Málið er að helmingur Færeyinga hefur andúð á dönskum yfirvöldum,  dönskum embættismönnum og dönsku. Nýleg skoðanakönnun í Færeyjum leiðir í ljós að ungir Færeyingar hafna dönskunámi og vilja að enska sé tekin upp sem annað tungumálanám í staðinn.   
 
   
  
  
     

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Gott hjá þér Jens að skýra þetta vel.

Helga Kristjánsdóttir, 28.11.2014 kl. 01:11

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Einmitt.  Voru margir færeyingar sem skildu þokkalega íslensku vegna atriða sem nefnd eru - og svo gátu þó nokkuð margir færeyingar talað svona blöndu af íslensku og færeysku þannig að íslendingar gátu vel skilið.

Að mínu mati leiddi þetta síðastnefnda til ákveðins miskilnings.  Sumir íslendingar tóku þessa færeysk/íslensku blöndu sem raunverulega færeysku.  Og urðu síðan frekar hissa þegar þeir lentu í þeim aðstæðum að þurfa að tala við færeyinga sem töluðu bara ekta færeysku og skildu ekkert íslensku.

Það má alveg sjá dæmi í þættinum af eldra fólki í færeyjum sem skilur vel íslensku og talar.  Td. sjósundkonan í Vestmanna.

Það er líka ákveðinn málýsku munur milli staða og  eyja, að ég tel.  Þó eg vilji ekkert fullyrða að hann sé mjög mikill í dag.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.11.2014 kl. 01:38

3 identicon

Lífsgæðakapphlaupið er ekki að drepa færeyinga og þar og á fleiri sviðum getum við lært heilmikið af þessum einu sönnu vinum okkar. Það þyrfti að senda marga íslenska stjórnmálamenn og stjórnendur til færeyja til náms í mannlegum samskipum, sérstaklega framsóknarmenn. En það er líklega til of mikils ætlast að meira að segja færeyingar geti kennt þeim sauðum nokkuð mannlegt.    

Stefán (IP-tala skráð) 28.11.2014 kl. 08:26

4 Smámynd: FORNLEIFUR

Ég kom þ´s fyrr til Færeyja en þú. Maður gat vel talað við gamalt fólk á íslensku, sér í lagi menn sem höfðu verið á Íslandi á vertíð. En það hjálpaði að hafa haft smá byrjunar færeysku í MH !!

FORNLEIFUR, 28.11.2014 kl. 09:08

5 Smámynd: FORNLEIFUR

þá í stað þ´s

FORNLEIFUR, 28.11.2014 kl. 09:08

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

FLott hjá þér að leiðrétta þennan misskiling þú ert ötull talsmaður Færeyinga og það eiga þeir svo sannarlega skilið. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.11.2014 kl. 12:42

7 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Andri alltaf góður en hvenær verður þú gerður að sendiherra eða ræðismaður í Færeyjum???

Sigurður I B Guðmundsson, 28.11.2014 kl. 19:37

8 Smámynd: Jens Guð

  Helga,  takk fyrir það.  

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 22:13

9 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Bjarki,  það er rétt hjá þér að innan Færeyja er mismunandi framburður og mállýskur á milli eyja. Öldum saman voru eyjarnar 18 einangraðar hver frá annarri. Það var ekki fyrr en leið á síðustu öld sem farið var að tengja þær með brúm.

 Ég kannast við þetta sem þú segir um samslátt færeysku og íslensku.  Eitt sinn var ég að selja færeyskar plötur á íslenskum markaði.  Mér til aðstoðar var Færeyingur sem lengi hafði búið á Íslandi.  Að söluborðinu kom fjölskylda og spurði um eitt og annað varðandi plötuúrvalið.  Færeyingurinn afgreiddi fjölskylduna og útlistaði hitt og þetta um plöturnar.  Eftir nokkurn tíma sagði mamman í fjölskyldunni:  "Segðu þetta frekar á færeysku.  Við erum færeysk."  Færeyingurinn hrökk við,  horfði undrandi og afsakandi á mig og stundi upp:  "Úps!  Ég hélt að ég væri að tala á færeysku."

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 22:29

10 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  þetta er allt rétt hjá þér.  Færeyingar eru blessunarlega lausir við lífsgæðakapphlaupið.  Þeir taka öllu með ró.  Eru aldrei að flýta sér.   

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 22:32

11 Smámynd: Jens Guð

  Fornleifur,  það er frábært að færeyska hafi verið kennd í HM.  Ég var frekar seinn til að heimsækja Færeyjarnar og vissi þá ekkert um land og þjóð.  En rambaði á að tala bara íslensku þar.  9 ára sonur minn var með í för.  Hann langaði til að kaupa kveikjara handa ömmu sinni.  Við fundum búð sem seldi pípur,  tóbak og þess háttar.  Strákurinn spurði afgreiðslumanninn að því hvort að hann seldi kveikjara.  Afgreiðslumaðurinn svaraði:  "Aha.  Tú er jáari.  Kveikjari?  Kveikjari?  Aha; kveikja eld.  Tað er tendrari."  Svo lagði afgreiðslumaðurinn nokkra kveikjara á borðið og strákurinn keypti einn þeirra.         

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 22:45

12 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  þeir eiga það einmitt svo mikið skilið.  

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 22:45

13 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður I B,  2007 var opnað íslenskt sendiráð í Færeyjum.  Eða eiginlega öllu fremur sendistofa vegna þess að Færeyjar eru ekki sjálfstætt ríki heldur hluti af danska sambandsríkinu. Hún hefur alltaf verið vel skipuð.  Fyrsti íslenski sendiherrann í Færeyjum var Eiður S. Guðnason.  Sá næsti var Albert Jónsson.  Núna er það Þórður Bjarni Guðjónsson.  Samkvæmt strangri skilgreiningu voru þeir og eru kannski frekar alræðismenn.  Ég á ekkert erindi í svona dæmi.  Hinsvegar hafa Færeyingar margoft sýnt mér ýmiskonar og óvæntan virðingarvott.  Það yrði löng upptalning að taka það saman.  Þar á meðal eru boðsferðir til Færeyja og 500 hundruð þúsund króna gjöf í peningum.  Bara svo fátt eitt sé nefnt.  Eiginlega allt meira og minna súrrealískt.      

Jens Guð, 28.11.2014 kl. 23:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband