Einfættur hrekkur

  Keith Moon,  tommuleikari bresku rokkhljómsveitarinnar The Who,  var lífsglaður og uppátækjasamur grallari.  Að vísu ekki lífsglaðari en svo að hann fór í keppni við bítlana John Lennon og Ringo Starr,  svo og söngvarann Harry Nilson, um það hver yrði fyrstur til að drekka sig í hel.  Baráttan var hörð og illvíg.  Menn drukku allskonar og ældu yfir margar sætaraðir og viðstadda þegar best lét.  Hvergi dugði til þó að fram kæmu menn sem vottuðu um edrúmennsku þeirra og æluleysi.  Þeir hefðu ekki einu sinni étið túlípana hvað þá meira.  Hinsvegar væru þeir með magabólgur.

  Keith vann keppnina.  Harry Nilson náði 2. sæti.  John Lennon var myrtur.  Ringó er einn eftir.  

  Þrátt fyrir góðar tekjur var Keith alltaf stórskuldugur.  Uppátæki hans voru mörg hver dýr.  Til að mynda að henda sjónvörpum út um hótelglugga og keyra glæsibílum út í sundlaug.

  Eitt sinn fékk Keith vin í lið með sér til að kíkja í vinnugallafataverslun.  Þeir sýndu tilteknum gallabuxum áhuga.  Til að reyna á styrkleika vörunnar tóku þeir í sitthvora skálmina og rykktu samtaka í af öllum kröftum.  Við það rifnuðu buxurnar í sundur í miðju.  Kapparnir héldu á sitthvorum helmingnum.

  Afgreiðslufólk búðarinnar fékk nett áfall og horfði í forundran á.  Áður en hendi var veifað hoppaði inn í búðina einfættur betlari (sem Keith hafði borgað fyrir að taka þátt í sprellinu).  Hann hrópaði:  "Einmitt það sem ég var að leita að.  Ég ætla að fá tvo svona vinstri buxnahelminga!"  


mbl.is Einfættri konu vísað af rauða dreglinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta minnir mig á: Læknirinn segir við sjúklinginn: Ég er með góðar fréttir og slæmar, hvora vilt þú heyra fyrst? Slæmu, sagði sjúklingurinn. Við þurftum því miður að taka af þér báðar fæturnar, sagði læknirinn. Hverjar eru þá góðu fréttirnar sagði sjúklingurinn alveg í losti? Jú, hann Nonni í næsta herbergi er tilbúinn að kaupa inniskóna þína sagði læknirinn!!

Sigurður I B Guðmundsson, 21.5.2015 kl. 07:32

2 identicon

Keith Moon spilaði ekki bara hraðar á trommur en flestir aðrir, heldur lifði hann líka óvenju hratt. Þegar lík hans var krufið kom í ljós að þarna var um líkama að ræða sem var raunverulega helmingi eldri en hann átti að vera. Eitt sinn var Keith Moon á leið með leigubíl út á flugvöll í USA, líklega í LA. Þegar á flugvöllinn var komið, þá bað Moon leigubílstjórann að keyra til baka á hótelið í hvelli þar sem hann hefði gleymt svolitlu þar. Hann fékk aðgang að hótelherberginu og henti sjónvarpinu út um gluggann. Það var einmitt það sem hann hafði gleymt. The Who þurftu yfirleitt að borga fyrir þrjár hæðir á hótelum þar sem þeir bjuggu á hljómleikaferðum í USA vegna hávaða og læta. Eitt sinn týndi Moon Rolls bifreið sinni, sem svo fannst löngu seinna í tjörn sem var á landareign hans og í annað skipti gaf hann ókunnugum drykkjufélaga á bar aðra Rolls bifreið sem hann var nýbúinn að kaupa. Þessir kappar sem þú nefnir þarna Jens, dvöldu mikið heima hjá Lennon og sukkuðu með honum í LA þar sem hann bjó í eitt og hálft ár eftir að Yoko hafði vísað honum á dyr í New York. þetta var hið svokallaða ,, The Lost Weekend " tímabil Lennons þar sem heimspressan fylgdist grant með honum þar sem honum var t.d. hent út af börum, stundum hlandblautum. Aðrir sem oft sukkuðu með þeim félögum þarna voru t.d. Elton John og David Bowie.  

Stefán (IP-tala skráð) 21.5.2015 kl. 08:39

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  þessi er góður! sealed

Jens Guð, 21.5.2015 kl. 20:58

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir fróðleiksmolana.  

Jens Guð, 21.5.2015 kl. 21:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband