Færeysk hljómsveit nefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna

  Færeyska hljómsveitin Hamferð er íslenskum rokkunnendum að góðu kunn.  Hún hefur spilað vítt og breytt um landið í slagtogi með víkingarokksveitinni Skálmöld.  Þessar tvær hljómsveitir hafa einnig haldið hópinn á hljómleikum erlendis. Hamferð hefur sömuleiðis verið í slagtogi með Sólstöfum og færeysku Tý. 

  Í dag var tilkynnt að Hamferð sé nefnd til Norrænu tónlistarverðlaunanna ásamt Kammersveit Reykjavíkur, fiðluleikaranum Elfu Rún Kristinsdóttur og átta minni spámönnum  (ja,  reyndar eru sænska óperusöngkonan Anne Sofie von Otter og finnska strengjasveitin Apocalyptica skæðir keppinautar.  Ég á plötur með þeim.  Það segir sína sögu). Úrslitin verða tilkynnt við hátíðlega athöfn 27. nóvember á þessu ári.   Vinningshafinn fær 7 glóðvolgar milljónir í sinn vasa.  Til viðbótar fylgir vinningnum gríðarmikil kynning,  frægð og frami um öll Norðurlöndin og víðar. 

  Hamferð spilar dómsdags-metal.  Hljómsveitin er þaulvön að sjá og sigra.  Hún hefur hlotið allskonar verðlaun í Færeysku tónlistarverðlaununum FMA.  Þá sigraði hún í Wacken Battle.  Og nú er röðin komin að Norrænu tónlistarverðlaununm.

  Hér lofar Hamferð guð sinn herra,  hans dýrðlega nafn og æru.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.