Enn eitt klúðrið við val á kosningalagi

  Ótrúlega oft opinbera frambjóðendur til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku gargandi skilningsleysi og ranghugmyndir við val á kosningalagi.  Þetta er einkennilegt.  Meðal annars vegna þess að framboð kostar meira en alltof dýr pylsa í Bæjarins bestu.  Bara til að eiga möguleika á að ná árangri í forvali kostar nokkur þúsund milljónir íslenskra króna.  Stór hluti kostnaðarins rennur til allskonar rándýrra ímyndunarfræðinga,  spunameistara,  almannatengla,  auglýsingafræðinga,  sálfræðinga og þannig mætti lengi áfram telja.  

  Sérfræðingastóðið virðist aldrei læra hvernig á að standa að vali á kosningalagi.  Það sækir um leyfi hjá umboðsskrifstofu viðkomandi söngvahöfundar og flytjanda.  Þar á bæ er venja að samþykkja á færibandi notkun á öllum lögum,  hvort heldur sem er til notkunar í auglýsingar fyrir bíla eða sjampó,  í sjónvarpsþætti,  í bíómyndir eða hvað sem er.  Spilun á lagi á sem flestum vígstöðvum er fagnað - að öllu jöfnu.    

   Vandamál frambjóðenda Republikanaflokksins er að margar rokkstjörnur eru ekki stuðningsmenn þeirra.  Þó að umboðsskrifstofan hafi samþykkt notkun á lagi þeirra þá bregðast þær hinar verstu við.  Dæmi um þetta er þegar George W. Bush gerði út á lag Toms Pettys,  "Won´t Back Down".  Tom brást hinn versti við.  Vegna andúðar á flestu sem Bush stóð fyrir fordæmdi hann "misnotkun" á laginu. Þetta varð Bush til töluverðrar háðungar.

  Minna þekktur frambjóðandi "misnotaði" annað lag eftir Tom Petty,  "American Girl",  höfundinum til lítillar gleði.

  Ronald Reagan gerði lag Brúsa frænda "Born in the USA" að sínu kosningalagi.  Jafnframt vitnaði hann til Brúsa í framboðsræðum.  Brúsi samþykkti uppátækið með þeim skilyrðum að Reagan myndi hlusta á plötuna "Nebraska".  Þar syngur Brúsi um fátæka fólkið í Bandaríkjunum.

  Nú hefur auðmaðurinn Donald Trump skotið sig í fótinn með því að hefja framboð sitt í forvali Republikanaflokksins til forsetaembættis með lagi Njáls Unga,  "Rockin´ in the Free World".  Njáll hefur tekið uppátækinu illa.  Í frétt tímaritsins Rolling Stone er hann sagður styðja tiltekinn frambjóðanda Demókrataflokksins.  Í yfirlýsingu sem Njáll sendi frá sér í gærkvöldi segist hann aftur á móti ekki styðja bandaríska pólitík.  Hún hafi verið tekin yfir af stórfyrirtækjum.  

  Frambjóðandi Republikana,  John McCain,  lenti í þeirri neyðarlegu stöðu 2008 að Dave Grohl krafðist þess að hann hætti að nota Foo Fighters lagið "My Hero".  Áður hafði McCain neyðst til að hætta við að nota sitthvert lagið frá John Mellencamp og Jackson Brown vegna mótmæla þeirra. 

  Mörg fleiri dæmi mætti rifja upp.  Líka í öðrum löndum.  Núna er færeyska álfadísin Eivör heldur betur ósátt við það að færeyski Fólkaflokkurinn notar lag með henni í sínum auglýsingum.  Hún er ekki stuðningsmaður þess flokks.

  Á sínum tíma þótti bratt þegar breska Margrét Thatcher gerði lag Johns Lennons,  "Imagine", að sínu kosningalagi. Rökin voru þau að í eina skiptið sem John neytti atkvæðisréttar þá kaus hann ungur drengur Íhaldsflokkinn.    


mbl.is Young ekki ánægður með Trump
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Wilhelm Emilsson

Góð upprifjun. Í Neil Young laginu er hann er meðal annars að bauna á Repúblikana. Donald Trump, og allir hans spunameistarar, virðast ekki hafa fattað það. Sælir eru fattlausir, því þeir fatta ekki hvað þeir eru vitlausir.

Wilhelm Emilsson, 18.6.2015 kl. 00:09

2 Smámynd: Jens Guð

Wilhelm,  það er einmitt meinið:  Frambjóðendurnir virðast ekki skilja eða skynja fyrir hvað rokkararnir standa.  Reyndar er næsta víst að kjósendur þeirra fatti það ekki heldur.

  Breski forsætisráðherrann,  David Cameron,  gerði á sínum tíma mikið úr aðdáun sinni á The Smiths.  Viðbrögð bæði Morrisseey og Marrs voru þau að hella sér yfir kauða.  Úthúða honum og hans pólitík.  

  Tony Blair lenti öðru vísi í þessu.  Fyrst naut hann stuðnings og velvildar ýmissa rokkara.  Hann hampaði því.  Náði um tíma að stimpla sig inn í rokkstjörnusviðsljós.  Þeir yfirgáfu hann hver á fætur öðrum með formælingar á vörum.  Hann lærði bratt að hætta að reyna að viðra sig með rokkurum.   

Jens Guð, 18.6.2015 kl. 20:47

3 Smámynd: Wilhelm Emilsson

"Hann lærði brátt að hætta að reyna að viðra sig með rokkurum." Heh heh :)

Wilhelm Emilsson, 18.6.2015 kl. 22:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.