Snöfurleg redding í Skagafirði

  Fjölskylda í Reykjavík átti leið til Akureyrar.   Það var áð í Varmahlíð.  Þar var snæddur ágætur heimilismatur.  Þegar halda átti ferð áfram uppgötvaðist að í ógáti höfðu bíllyklar verið læstir inni í bílnum.  Neyðarráð var að kalla út íbúa í Varmahlíð,  Rúnar frá Sölvanesi.  Hann er þekktur fyrir að geta opnað allar læsingar.  Honum brást ekki bogalistin fremur en áður og síðar.  Hægt og bítandi þvingaði hann dyrarúður niður og tróð vírsnöru að hurðalæsingatakka. Þar herti hann á snörunni og dró takkann upp.  Þetta er snúnara en það hljómar þar sem takkar eru uppmjóir.    

  Ég fylgdist ekki náið með.  Sá út undan mér að hann hljóp á milli hurða og kannaði hvar rúður voru eftirgefanlegastar.  Ég spanderaði ís á fjölskylduna á meðan Rúnar kannaði möguleika.  Þetta er þolinmæðisvinna.  Skagfirðingar eru aldrei að flýta sér.  Eftir drykklanga stund gekk ég út að bílnum.  Rúnar hafði þá hamast töluvert á hurðunum farþegamegin.  Nú var hann byrjaður að hamast á hurðunum bílstjóramegin.

  Ég gekk að framhurð farþegamegin og tók fyrir rælni í hurðarhúninn.  Dyrnar opnuðust þegar í stað.  Ég kallaði á Rúnar:  "Hey,  dyrnar eru opnar!"  Hann kallaði til baka þar sem hann baksaði við bílstjórahurðina:  "Ég veit það.  Ég er búinn að ná báðum hurðunum þarna megin opnum.  Ég er alveg við það að ná hurðunum hérna megin líka opnum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ertu viss um að þetta hafi ekki verið í Hafnarfirðinumcool?

Jósef Smári Ásmundsson, 30.8.2015 kl. 08:30

2 identicon

Hann var náttúrlega Lýtingur.

Tobbi (IP-tala skráð) 30.8.2015 kl. 21:20

3 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári,  ég tel nokkuð víst að mér hafi ekki orðið á að rugla saman Varmahlíð og Hafnarfirði.  Útiloka það samt ekki.

Jens Guð, 1.9.2015 kl. 21:50

4 Smámynd: Jens Guð

Tobbi,  það útskýrir margt.  

Jens Guð, 1.9.2015 kl. 21:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.