Útvarp Saga slær í gegn

  Þær útvarpsstöðvar sem njóta mestrar vinsælda á Íslandi eru Útvarp Saga,  Rás 2 og Bylgjan.  Það er að segja hafa mesta hlustun.  Bera höfuð og herðar yfir allar aðrar.  Netsíður þessara þriggja útvarpsstöðva eru sömuleiðis vinsælustu netsíður útvarpsstöðva (netsíðan visir.is er þá skilgreind sem málgagn Bylgjunnar þó að hún sé enn fremur síða Fréttablaðsins og Stöðvar 2).  

  Á netsíðunum www.visir.is og www.utvarpsaga.is er daglega boðið upp á skemmtilegan samkvæmisleik.  Hann felst í gamansamri skoðanakönnun.  Léttri spurningu er varpað fram.  Lesendur merkja við svar sem hentar þeim.  

  Eðlilega tekur almenningur þessu sem þeim lauflétta samkvæmisleik sem hann er.  Þetta er ekki hávísindaleg skoðanakönnun byggð á nákvæmum þverskurði þjóðarinnar.  Þátttakendur velja sig sjálfir í úrtak.  Niðurstaðan speglar viðhorf hlustenda viðkomandi útvarpsstöðva.  Ekkert að því nema síður sé.  Þetta er til gamans gert.

  Skoðanakannanir af þessu tagi njóta mikilla vinsælda.  Þátttakendur sveiflast frá mörgum hundruð daglega upp í nokkur þúsund.  Yfirleitt liggur niðurstaða fyrir snemma fyrir.  Eftir 100 greidd atkvæði er niðurstaða jafnan sú sama og eftir 4000 greidd atkvæði.

  Hvor útvarpstöðin fyrir sig varpar fram hátt í eða um 300 skoðanakönnunum á ári.  Spurningarnar eru iðulega settar fram í gáska.  Kastað fram í samhengi við það sem hæst ber í umræðu hverju sinni.

  Á dögunum var spurning í skoðanakönnun Útvarps Sögu:  "Treystir þú múslimum?"  Meirihluti þátttakenda svaraði:  Já.  

  Grallari í húsvísku grínhljómsveitinni Ljótu hálfvitunum brást við með yfirlýsingu um að banna að músík spaugaranna væri spiluð á Útvarpi Sögu.  Sem hún hvort sem er var ekki spiluð á Útvarpi Sögu.  

  Þetta vakti nokkra athygli.  Þá stökk á vagninn dægurlagasöngvari sem vildi líka - að venju - og þurfti athygli.  Enda í miðju kafi við að kynna nýja ljóðabók.  Hann endurtók yfirlýsingu Ljóta hálfvitans.  Rifjaðist þá upp ósjálfrátt slagarinn "Ég er löggiltur hálfviti..."

  þessi viðbrögð við því að meirihluti hlustenda Útvarps Sögu treystir múslimum vekur upp fleiri spurningar en svör.  Af hverju er ekki gott að meirihlutinn treysti múslimum?  Við erum að tala um hálfan annan milljarð fólks.  Þar af margt úrvals fólk karla og kvenna.

  Í næstu skoðanakönnun Útvarps Sögu var spurt:  "Treystir þú Bubba Morthens?"

  Viðbrögð voru ofsafengin.  Bubbi spurði hvort að eigandi Útvarps Sögu væri fyllibytta.  Það er víst verra en að vera skemmdur dópisti.  Skilst mér.  Eða eitthvað svoleiðis. Nema kannski ekki.  Ég veit það ekki.  Eða bara skemmdur án þess eða í bland.  Bara eitthvað. Svo ofsafengin voru viðbrögð að brotist var inn í tölvubúnað Útvarps Sögu og niðurstaðan brengluð í gegnum IP-tölu í Sviss!  Þá var kátt í höllinni.

  Eftir stendur:  Útvarp Saga er þjóðarútvarp.  Þjóðin hlustar.  Þjóðin tjáir sig.  Útvarp Saga er opið útvarp.  Allir fá þar að tjá sig í þrjá klukkutíma á dag.  Þar fyrir utan eru á dagskrá Útvarps Sögu ótal þættir þar sem meðal annarra fá að viðra sín viðhorf fulltrúar múslima,  andstæðingar múslima,  tónlistarmenn,  hagfræðingar,  talsmenn ríkisstjórnar,  talsmenn stjórnarandstæðinga og svo framvegis.  

  Útvarp Saga er góður og opinn vettvangur lýðræðislegrar og gagnrýnnar umræðu um þjóðmál.  

  Bubbi má vel við una.  Hann hefur fengið mikla og þarfa athygli út á upphlaupið. Það er gott.  Líka fyrir nýju ljóðabókina.  Hann býr einnig að því að fjöldi útlendinga hefur krákað (cover songs) lög hans.  Alveg frá því um miðja síðustu öld.  Hér fyrir neðan krákar John Fogerty (1973) GCD lag hans um Hótel Borg.  Það er gaman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gamall skallapoppari og uppþornaður dópisti, eða hvað ? skríður undan verndarvængjum útrásarvíkinga og nánast sprænir í brók af hræðslu við frjálsa útvarpsstöð. Hver er nú athyglissjúkur ? Hver er nú rúinn trausti og vinsældum ? Hver er nú löggiltur hálfviti ?

Stefán (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 08:19

2 identicon

Fallega gert af Arnþrúði Karlsdóttur að bjóða Bubba Morthens í spjall.  Hún ætlar ekki að loka hann inni í tilbeiðslubúri heldur býður hún honum að hafa samband í símatímanum eða að kíkja í heimsókn í dag klukkan fjögur.  Ég vona að hann treysti sér til að mæta og spjalla við hana.  Það gæti orðið skemmtilegt.  Kannski les hann upp eitt ljóð í leiðinni.  Ég mæli annars með því að Útvarp Saga og Bubbi Morthens fái markaðsverðlaunin í ár.  

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 10:10

3 identicon

Gæti líka verið spurning um útivistarleyfi frá 365 miðlum Elín ?

Stefán (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 10:48

4 identicon

Að hann sé fastur í búri 365 miðla?  Þú segir nokkuð Stefán.  Ef svo er þá vona ég að þeir hleypi honum út í dag.

Elín Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 10:59

5 identicon

Mín skoðun er sú að hann skorti kjark til að mæta. Það er öruggara að gelta inni í búri en að mæta hinum ,, imyndaða andstæðingi " í raun.

Stefán (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 12:13

6 identicon

Ha,ha,ha, margt til í þessu.

Þar sem ég er löggiltur hálfviti varðandi rokkmúsikk þá heyri ég ekkei mikin samhljóm með Bubba og Foggerty þarna en í báðum lögum greini ég Magnús Eiríks!

https://www.youtube.com/watch?v=CnHi3I4QbcY

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.10.2015 kl. 14:23

7 Smámynd: Jens Guð

  Stefán,  það kostar átak að skríða út úr bómullarhnoðra 365.  

Jens Guð, 13.10.2015 kl. 21:46

8 Smámynd: Jens Guð

Elín,  þú ert bjartsýn.

Jens Guð, 13.10.2015 kl. 21:46

9 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  prófaðu þá að bera saman:

https://www.youtube.com/watch?v=i8Fe04N7aBc

og

https://www.youtube.com/watch?v=PFMIviT3gEo

Jens Guð, 13.10.2015 kl. 21:59

10 Smámynd: Sindri Karl Sigurðsson

Jens mér finnst þessir pistlar þínir alveg snyrtilega flottir, tek ofan. Mig langar aftur á móti að vita af hverju þú kallar þig gervigrasalækni?

Sindri Karl Sigurðsson, 13.10.2015 kl. 22:29

11 Smámynd: Jens Guð

Sindri Karl,  takk fyrir hlý orð.  Mér þykir fyndið að orðið gervigrasalæknir hafi tvöfalda merkingu.  Getur þýtt að viðkomandi sé plat-grasalæknir.  Getur líka þýtt að viðkomandi lækni með gervigrasi,  samanber grasalæknir.  Þetta er aulahúmor hjá mér.

Jens Guð, 14.10.2015 kl. 09:00

12 identicon

Þetta er alveg rosalega svakalega mikið stolið hjá JJ Cale.

Að hann skuli ekki skammast sín að stela svona frá Bubba.

Merkilegast hvernig hann fór að því og gefa lagið út mörgum árum á undan.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 16.10.2015 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband