6.4.2016 | 19:36
Misskildasti maður heims
Áðan var hringt í mig frá Bandaríkjum Norður-Ameríku. Í símanum var maður sem ég hef aldrei áður rætt við í síma. Hafði aðeins keypt af honum vörur í fyrrasumar. Samskiptin þá fóru fram í gegnum ópersónulegan tölvupóst.
Erindið í dag var að viðkomandi sagðist vera eitt spurningamerki og verulega forvitinn vegna frétta í bandarískum fjölmiðlum um að allt væri "crazy" á Íslandi. Hann spurði hvernig íslenska heilbrigðiskerfið taki á persónulegum vandamálum hátt settra. Ég skildi ekki spurninguna og gat engu svarað. Stamaði þó út úr mér að það væri áreiðanlega gott að taka sopa af lýsi á morgnana.
Í dag hringdi einnig í mig Íslendingur búsettur í Noregi. Hann sagði að Íslendingar væru aðhlátursefni í Noregi.
Það þarf ekki að fara stóran rúnt um netsíður helstu fjölmiðla heimspressunnar til að sjá að Ísland og Íslendingar séu uppspretta ótal brandara í dag. Íslenskum ráðamönnum er líkt við klaufana í dönsku sjónvarpsþáttunum Klovn og dauða páfagaukinn hjá bresku Monty Python: "Hann er bara að hvíla sig."
Það má líka líkja ástandinu við vaktaseríurnar og kvikmyndina Bjarnfreðarson. Þetta er allt misskilningur.
Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þrætti við sænskan sjónvarpsmann um að tengjast skattaskjóli í útlöndum. Að vísu játaði hann hugsanleg tengsl við verkalýðsfélög sem ættu snertiflöt við peninga í útlöndum. En hann þrætti kokhraustur fyrir það sem í dag liggur fyrir: Að hann og eiginkona hans hafa til fjölda ára geymt hundruð milljóna króna í útlöndum í skjóli frá íslenskum gjaldeyrislögum.
Hann þrætti hraustlega fyrir að hafa selt eiginkonunni hlut sinn í peningasjóði þeirra. Reykjavík Medía hefur undir höndum afrit af undirskrift hans á þeirri leikfléttu. Svo sat hann beggja vegna borðs í samningum við hrægamma föllnu bankanna. Segist þar hafa gengið harkalega fram gegn heimilistekjum sínum. En enginn vissi eða átti að vita það. Kröfuhafar eru þó nokkuð sáttir með allt að 97% afslátt.
Þegar 10 þúsund manns boðuðu mótmælastöðu á Austurvelli fullyrti SDG með hæðnistóni að þetta fólk myndi ekki mæta. 22.427 mættu. Munurinn bendir til þess að SDG sé úr tengslum við þjóðina.
Ítrekað aðspurður um afsögn vísaði SDG því út í hafsauga. Allt tal um það væri misskilningur. Ekkert slíkt kæmi til greina. Í sömu andrá sagði hann af sér.
Í gærmorgun skrifaði SDG Fésbókarfærslu. Þar tilkynnti hann að næsta skref væri að rjúfa þing (og hefna sín þannig á Sjálfstæðisflokknum sem treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við SDG). Forsetanum var misboðið. Hann hafnaði því að embættið yrði dregið inn í reiptog á milli formanna stjórnarflokkanna. Þetta útskýrði forsetinn á blaðamannafundi. SDG brást við blaðamannafundinum með því að saka forsetann um lygar. SDG segist hafa upplifað eitthvað allt annað á fundinum með forsetanum. Gott ef ekki að þeir hefðu bara horft á kúrekamynd saman og maulað poppkorn.
Sigurður Ingi Jóhannsson dýralæknir kvaddi sér hljóðs og tilkynnti að hann væri orðinn forsætisráðherra. SDG væri búinn að segja af sér.
Blaðafulltrúi SDG sendi í kjölfarið út fréttatilkynningu til allra helstu fjölmiðla heims um að SDG væri hvergi búinn að segja af sér. Hann væri aðeins að stíga til hliðar. Heimspressan hendir gaman að þessu um leið og hún játar vandræði við að skilja dæmið. Hún spyr: Hver er munurinn á því að segja af sér eða stíga til hliðar? Þetta er gott grín. Það er hið besta mál að Íslendingar kæti heimsbyggðina. Líka að framsóknarmenn allra sveita landsins syngi: "Should I Stay or Should I go?"
Brýn ástæða er til að taka fram og undirsstrika að hvorki SDG né eiginkona hans eru á leið út í geim í geimskutlu. Það er alveg eins hægt að fara "Eight Miles High" á eyðibýli norður í landi.
Sigmundur: Anna vildi ekki út í geim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Spaugilegt, Spil og leikir, Viðskipti og fjármál | Breytt 7.4.2016 kl. 11:06 | Facebook
Athugasemdir
Fjandi gott sjónarhorn. SDG minnir mig smá, bara smá á "Ég er með 5, já 5 háskólagráður! Og telur sig vera NORMAL. Hum...........
Magnus Tor Magnusson (IP-tala skráð) 6.4.2016 kl. 20:53
"Nú hefur vitleysan náð stjarnfræðilegum hæðum."
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Heimildamynd um Sigmund Davíð myndi auðveldlega toppa bíómyndina um Bjarnfreðarson.
Wilhelm Emilsson, 6.4.2016 kl. 22:47
Kunningi minn sem er sálfræðingur segir að ef hann fengi Sigmund Davíð til sín í sálfræðimeðferð, þá myndi sú meðferð vara í mörg ár og hugsanlega án þess að skila nokkrum árangri. ,, Helvíti er eplið skemmt " varð mér þá að orði og sálfræðingurinn svaraði ,, Hugsanlega er samt eikin sem það féll af enn skammdari ". Þá skildi ég málið betur. Í gær hitti ég í miðbænum skandainavíska fréttakonu sem hér er stödd til að reyna að fá einhvern botn í stjórnmálaástandið hér. Ég sagði henni að hugsa sér Framsóknarflokkinn sem hryðjuverkasamtök, þá væri auðveldara að komast til botns í því sem hér er að ske. Svo benti ég henni á að bestur allra íslendinga til að útskýra það sem hér er í gangi væri maður að nafni Kári Stefánsson, en að hún og aðrir fréttamenn þyrftu sjálf að hafa upp á honum, því að ég vissi ekki hvort honum væri gerður greiði með slíku. Líka nefndi ég að Eva Joley þekki vel til bananalýðveldis okkar, en hún væri nún í sjokki blessunin og líklega alveg orðlaus. Þetta viðtal átti ég áður en ljóst var orðið að næsti / núvernadi forsætisráðherra væri í raun strengjabrúða, sem mun verða stjórnað af búktalara úr aftursætinu.
Stefán (IP-tala skráð) 7.4.2016 kl. 08:16
Góður. Já við erum að athlægi heimsins og ekki bara út af Sigmundi heldur einnig eftir uppákomuna í gær.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2016 kl. 09:16
Mikið er gott að lesa þetta yfirlit og geta brosað, þrátt fyrir skömmina yfir að einhverjir hafi kosið þetta fólk til valda. Vonandi gerist það aldrei aftur. Takk fyrir.
Marta Gunnarsdóttir, 7.4.2016 kl. 10:24
Fínn og skemmtilegur pistill, Jens - Og ekki "commentin" síðri !!
Már Elíson, 7.4.2016 kl. 11:45
Vonandi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2016 kl. 11:45
Jóhannes Kr.Kristjánsson segir að Sigmundur Davíð muni sennilega hata sig á meðan hann lifir, en ég held að þjóðin muni líka hata SD á meðan hann lifir.
Stefán (IP-tala skráð) 7.4.2016 kl. 14:15
ég hata hann alls ekki, en ég eiginlega vorkenni honum, hann skilur ekki af hverju hann þurfti að víkja og hann er ekki búinn að segja sitt síðasta orð. Hann á eftir að verða hausverkur fyrir framsóknarflokkinn og sjálfstæðisflokkinn núna á næstunni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.4.2016 kl. 18:03
Magnús Tor, hann hélt því fram á tímabili að hann væri með 5 háskólagráður. Þegar málið var rannsakaðkom annað í ljós.
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 18:33
Wilhelm, svo sannarlega!
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 18:34
Stefán (#3), vel mælt!
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 18:37
Ásthildur Cesil, takk fyrir það.
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 18:38
Svakaleg minnimáttarkennd er þetta.
Leiðinlegt að sjá góða fólkið hegða sér einsog hysteriskar kerlingar.
Skil ekki hvernig góða fólkið getur notið þess að níðast á Sigmundi Davíð og fjölskyldu hans.
Hatur góða fólksins Sigmundi Davíð er farið að nálgast hatur þess á Davíð Oddsyni.
Richard Ulfarsson (IP-tala skráð) 7.4.2016 kl. 19:42
Richard, samkvæmt lýsingu þinni á sjálfum þér get ég ekki betur séð en að þú sért "góður gæi."
Wilhelm Emilsson, 7.4.2016 kl. 19:49
Marta, þetta fólk kýs hvert annað.
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 21:09
Már, takk fyrir það.
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 21:09
Stefán, ég tek undir með Ásthildi Cesil um að nær sé að vorkenna SDG en hatast við hann.
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 21:11
Richard, eins og þú lýsir ykkur góða fólkinu þá er auðsjáanlega sitthvað til í þessu hjá þér
Jens Guð, 7.4.2016 kl. 21:16
Framsóknarflokkurinn er svo laskaður að hann getur vart talist starfhæfur á þann hátt að fara með svona mikil völd í þjóðfélaginu, nánast fylgislaus að auki. Í Framsóknarflokknum er auk þess hver höndin upp á móti annari og þessi hálfsokkni ryðkláfur á að bera þjóðina uppi og heimurinn fylgist með í forundran yfir þessu spillta stjórnarfari sem hér ríkir. Að þessi afturhaldssami og úrelti stjórnmálaflokkur skuli svo áfram hafa Sigmund Davíð sem formann segir allt sem segja þarf um þann rotna, þversagnakennda hugsunarhátt sem þar ríkir og meginþorri þjóðarinnar skilur alls ekki.
Stefán (IP-tala skráð) 8.4.2016 kl. 09:42
Samkvæmt skoðanakönnunum MMR var fylgi Framsóknarflokksins 32.7% í apríl 2013.
Íslenskir kjósendur verða að axla ábyrgð á fylgi þessa flokks. Núna nælist flokkurinn með næstminnsta fylgi flokka á Alþingi 8.7%. Sigmundur Davíð mun koma með nýja Barbabrellu fyrir kosningar og það er aldrei að vita nema fólk falli fyrir henni.
Wilhelm Emilsson, 8.4.2016 kl. 18:39
Stefán, það er margt til í því.
Jens Guð, 10.4.2016 kl. 17:30
Wilhelm, ég óttast að þú sért sannspár.
Jens Guð, 10.4.2016 kl. 17:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.