Svona matreiðir þú besta lambalæri í heimi

  Svokallaður skyndibiti (fast food) er einnig kallaður ruslfæði (junk food).  Réttilega.  Það þarf enga sérfræðikunnáttu í heilsu- og næringarfræði til að átta sig á því.  Til er brosleg bandarísk heimildarkvikmynd um þetta. Hún heitir Supersize me.  

  Andstæða skyndibitans er hægeldun (slow food).  Vandamálið er að fólk almennt kann ekki hægeldun.  Það stillir hita á of háa tölu.  Sama hvort er um að ræða eitthvað í potti eða á pönnu og þó einkum það sem er eldað í ofnskúffu.

  Tökum lambalæri sem dæmi.  Kúnstin við bragðbesta lambalæri er að rispa grunnt netmunstur á yfirborð þess. Ekki má rista ofan í sjálft kjötið.  Síðan er lærinu komið fyrir í ofnskúffu.  Salti, pipar og sítrónusafa er nuddað frekjulega ofan í rispurnar.  Olíu er penslað yfir.  Rósmarin og hvítlauksrifjum er plantað í óhófi yfir og undir lærið.  

  Í ofnskúffuna er hellt úr kældri hvítvínsbelju þannig að fljóti upp að börmum.  Í fallegt hvítvínsstaup er einnig hellt hvítvíni.  Það er sötrað og hellt í aftur og sötrað.  Fólk finnur á sér hvað oft þarf að endurtaka þetta.

  Til að halda safa í kjötinu þarf að þekja með steikarfilmu (eða álpappír) allt sem stendur upp úr hvítvínsleginum.  Skúffunni er stungið lipurlega inn í ofninn.  Hitinn stilltur á 78 - 80°.  Enginn má skipta sér af ofninum næstu klukkutíma. Best er að þykjast ekki sjá hann.  

  Að 14 klukkutímum liðnum er stokkið óvænt að ofninum,  hann opnaður og steikarfilmunni svipt burt með svo hröðum handtökum að líkist galdri.  Hitinn er aukinn í 187 - 190°.  Þannig standa mál í næstu 47 mínútur (þetta er trix til að fá ysta lag lærisins til að brúnast og herðast lítið eitt).  Á meðan er rifjað upp dæmið með að sötra hvítvín,  fá sér aftur í glas,  halda áfram að sötra o.s.frv.

  Lokahnykkurinn felst í því að merja (nú) mjúk hvítlauksrifin ofan í rispurnar á lærinu. Soðið má (það er ekki skylda) nota í bestu sósu sem til er.  Bragðbetra lambalæri færð þú aldrei og hvergi.

  Það er líka upplagt að endurtaka þetta stundum án lambalæris.   

lamb

      

   

   

         


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta er allt of flókið fyrir mig nema þetta með hvítvínið!!

Sigurður I B Guðmundsson, 25.4.2016 kl. 22:31

2 identicon

Á þetta ekki að vera að 4 klst liðnum er stokkið?....

Guðbjörg Helga Jóhannesdóttir (IP-tala skráð) 26.4.2016 kl. 13:44

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  lambalærið er hvort sem er algjört aukaatriði í þessu dæmi.  

Jens Guð, 26.4.2016 kl. 20:16

4 Smámynd: Jens Guð

  Guðbjörg Helga,  nei,  14 klukkutímar eru heppilegur tími.  Ef lærið er lítið og rýrt duga færri klukkutímar. Þó lágmark 10.   

Jens Guð, 26.4.2016 kl. 20:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband