Furðulegar fjölskyldumyndir

  Sú var tíð að ljósmynd af kjarnafjölskyldunni skipaði háan sess í tilverunni.  Það er ekkert svo langt síðan.  Þá stóð mikið til.  Þetta var heilmikið fyrirtæki.  Fyrst þurfti að panta tíma á ljósmyndastofu.  Þar vann fagfólk;  sprenglærðir ljósmyndarar.  Þeir voru með alvöru ljósmyndagræjur.  Rándýrar og plássfrekar.  Þessu fylgdu allskonar hlutir á borð við ljóskastara,  bakgrunnstjöld og svo framvegis. 

  Tími á ljósmyndastofu lá ekki á lausu samdægurs.  Ekki heldur næstu daga.  Það var allt uppbókað langt fram í næsta mánuð.

  Þegar loks kom að stóru stundinni fóru allir í sitt fínasta skart.  Iðulega keypt sérstaklega fyrir myndatökuna.  Í millitíðinni var einnig farið í klippingu og hárið snurfusað á hárgreiðslustofu.  Síðan fór heilmikill tími í að stilla fjölskyldunni virðulega upp í stúdíóinu.  Mikið var í húfi.  Ljósmyndatakan,  framköllun á filmu og stækkanir á hágæða ljósmyndapappír kostaði sumarhýruna.  Eftirprentanir voru gefnar öðrum í fjölskyldunni í jólagjöf.  

  Hér eru skemmtileg dæmi (myndirnar stækka og verða skýrari ef smellt er á þær):

furðu fjölskyldumynd - sítt að aftan

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Á níunda áratugnum þótti fátt flottara en blásið stutt hár að framan og sítt að aftan.  Flottast þótti að fjölskyldan væri samstíga í þessari hártísku. Takið eftir því hvað bakgrunnstjaldið setur ævintýralegan blæ á.

furðu fjölskyldumynd - blásið hár

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumum þótti of bratt að hella sér í sítt að aftan.  Einkum glam-rokk áhangendur.  Þeir vildu hafa allt hárið eins og úfna heysátu.  Þetta kallaðist hár-metall og hefur ekki elst vel.  Ef pabbinn var fjarri góðu gamni á ljósmyndadaginn þá dró ljósmyndarinn fram trúverðuga dúkku sem staðgengil.

furðu fjölskyldumynd - með hönd á pung

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ljósmyndarinn þurfti að huga að mörgu áður en smellt var af.  Eru ekki allir með sparibros?  Enginn mátti skyggja á annan.  Allt eftir því.  Undir álaginu vildu smáatriði sleppa framhjá rannsakandi augnráði hans.  Einkum ef óöruggur patti greip sig kröftugu hreðjataki í taugaveiklun.

furðu fjölskyldumynd - í greipum pabba

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Allra hressasta fólk lét eftir sér að bregða á leik.  Glímukappi undirstrikaði kraftana með því að taka fjölskylduna hálstaki.

furðu fjölskyldumynd - amma í uppreisn

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ekki eru alltaf allir til í að taka þátt í galgopahætti.  Síst af öllu í útimyndatöku þar sem hópurinn krossleggur vinstri fót á þann hægri.  Amma lætur ekki egna sér út í svoleiðis fíflagang.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband