21.10.2016 | 16:29
Tákn flokkanna
Öll alvöru fyrirtæki og félög skarta lógói (einkennismerki/tákni). Af heimsfrægustu best heppnuðu lógóum má nefna Nike, Mercedes Benz og friðarmerkið.
Kostir góðra lógóa er að þau tákni það sem þau standa fyrir. Sem dæmi er Benz-merkið bílstýri. Því augljósar sem táknið er þeim mun betra.
Annar kostur er að lógóið sé ofur einfalt. Þumalputtaregla er að hver sem er geti teiknað lógóið án þess að hafa fyrirmynd fyrir framan sig.
Lógó þarf að þola lélega prentun og mikla smækkun án þess að afskræmast. Það þarf að þola svart-hvíta prentun. Það þarf að vera fallegt og tignarlegt
Flokksmerki íslensku framboðanna til alþingiskosninga eftir viku eru skemmtilega fjölbreytt og flest ólík. Viðhorf mitt til lógóa þeirra er algjörlega óháð viðhorfi til flokkanna.
Nr. 1 Samfylking. Rauður punktur. Einfaldara getur lógó varla verið. Það er stóri kosturinn. Einnig að rauði liturinn staðsetur flokkinn augljóslega til vinstri. Þó að áhorfandinn nemi það varla nema í undirvitund þá lýsist punkturinn örlítið upp til hægri. Það laðar fram tilfinningu fyrir (billjard-) kúlulaga formi. Virkilega djarft lógó. Á móti vegur að andstæðingar geta túlkað merkið sem rautt viðvörunarljós eða rautt stöðvunarljós. Merkið tapar mikið til gildi í svart-hvítu og nýtur sín ekki án samhengis við flokkinn. Til dæmis að taka þá myndi rauður punktur í veggjakroti ekki virka sem stuðningur við Samfylkinguna. Upphaflega var lógóið rauður punktur með þykku hvítu S. Það var fúsk.
Nr. 2 Dögun. Merkið er fallegt, listrænt og sýnir dagrenningu. Samhverfa er kostur. Dökkblár neðri hluti staðsetur flokkinn til hægri. Hann á þó frekar að tákna sjó og land (fjöll). Upphaflega var teikning af fljúgandi sjófugli ofan í merkinu. Blessunarlega ekki lengur. Enda myndar hvíti flöturinn sjófuglstákn að auki. Breyting í fiskveiðimálum er eitt af stóru málum Dögunar (Frjálslyndi flokkurinn er einn af hornsteinum Dögunar).
Nr. 3 Vinstri græn. Lógóið er listrænt og sýnir V laga form. Rauða vinstri hliðin staðsetur framboðið til vinstri. Græni flöturinn undirstrikar grænu pólitíkina. Ókosturinn er að það er ekki auðvelt að teikna merkið án fyrirmyndar.
Nr. 4 Framsóknarflokkurinn. Fallegt, samhverft og tignarlegt lógó. Græni liturinn vísar til landbúnaðar og bænda. Formið er tilvísun í gras. Smart samsetning á dökkum og ljósum lit. Ókosturinn er hvað þetta er flókið. Það er erfitt er að teikna lógóið fríhendis án reglustiku og án þess að hafa fyrirmynd við hönd.
Nr. 5 Viðreisn. Fallegt tákn samsett úr 3 bláum V og 3 appelsínugulum. Það er rífleg áhersla á V, upphafsstaf Viðreisnar. Blái liturinn vísar til hægri. Appelsínuguli liturinn vísar inn að miðju. Merkið líkist vélspöðum á mótorbát. Ókosturinn er að öll þessi V gera merkið heldur betur margbrotið - þó að auðvelt sé að teikna það.
Nr. 6 Björt framtíð. Flötur merkisins og fjólublár litur vísa til heiðursmerkja á borð við orður. Slaufur þar ofan á geta verið útfærsla á B og F. Kostur er að ekkert annað framboð skartar fjólubláum lit. Gallinn er að lógóið er ekki að koma neinum skilaboðum áleiðis. Líka er það alltof flókið. Það er ekki auðvelt að teikna það fríhendis án fyrirmyndar.
Nr. 7 Sjálfstæðisflokkurinn. Í áranna rás hefur táknið, ránfugl, stöðugt færst í rétta átt. Upphaflega var þetta skelfilega flókin myndskreyting fremur en lógó. Á síðari tímum hefur teikningin verið einfölduð verulega. Íhaldsmenn halda eðlilega í allflest óbreytt. Lógóið er engu að síður tignarlegt og blái liturinn vísar til hægri flokks.
Nr. 8 Píratar. Lógóið er ljótt. Það sýnir hring utan um svart-hvítan fána með hvítu merki innan í. Virðist vera útflattur þorskur. Svona óljóst er það klúður (fúsk). Kostur er að fáninn myndar P.
Nr. 9 Alþýðufylkingin. Alltof alltof flókin teikning af rauðum fánum.
Nr. 10 Flokkur fólksins. Flassandi amatörismi. Útlínur Íslands og ofan í þær troðið X F með löngu millibili. Liturinn er ljósbleikur og merkið nánast hverfur þegar það er smækkað. Þar fyrir utan er þessi útfærsla fagurfræðilega afskaplega ljót.
Nr 10 Íslenska þjófylkingin. Allra, allra, allra versta lógó ársins. Flókið og ljótt. Svart letur ofan í dökkbláan bakgrunn. Ótrúleg smekkleysa. Þetta er subbuleg klessa. Í smækkun og í svart-hvítri útgáfu er það algjör klessa.
.
Píratar mælast stærstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkar: Menning og listir, Spil og leikir, Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.10.2016 kl. 06:02 | Facebook
Athugasemdir
Eins ljótt og lógó ÍÞ er, þá er lógóið það fallegasta við flokkinn.
Grrr (IP-tala skráð) 21.10.2016 kl. 18:52
Grrr! Áttu ekki vi að lógóið sé það minnst ljóta við flokkinn?
Tobbi (IP-tala skráð) 21.10.2016 kl. 20:03
Alveg rétt, Tobbi
Grrr (IP-tala skráð) 21.10.2016 kl. 20:56
Skemmtileg samantekt af fagamanni :)
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.10.2016 kl. 22:01
Ég er nú hlutdrægur, en mér finnst lógó Alþýðufylkingarinnar reyndar ansi vel heppnað. Það er ekki hannað til þess að taka sig vel út sem veggjakrot.
Vésteinn Valgarðsson, 21.10.2016 kl. 22:50
Famsóknarlógóið er það eina sem mér virðist augljóslega tákna eitthvað. Maður horfir á það í smá stund, vitandi að þetta er pólitískt lógó, og hugsar: bændur.
Einfalt, og merkingabært.
Samfylkingin gæti eins verið íslensk/japanska verzlunarfélagið. 10 fyrir einfaldleika, en ekkert á öðrum sviðum.
Það var annað lógó - þegar flokkurinn hét eitthvað annað. Það var hendi sem hélt á rós. Það var einhver S&M fílingur í því. Kannski var það of táknænt fyrir þá?
Veit ekki af hveru Björt framtíð er með skipsskrúfu - hef ekki heyrt að þeir séu einhverjir sjóarar.
Það er þó einfalt. Auðvelt að rissa það upp, bara tvær áttur.
Framsókn Viðreisn og VG eru með lógó sem gætu þýtt hvað sem er, tekin án samhengis. Lógó Viðreisnar gæti virkað á fristihús, þar sem það lýkist snjókorni.
Legg ekki í að teikna lógo VG. Það er bara U. Einfalt, merkingarlaust og erfitt. Það er svo stutt síðan þeir voru með annað lógó. Það var engu betra.
Hvað varð um hamarinn og sigðina?
Flokkur Fólksins & Þjóðfylkingin þurfa aðeins að endurskoða sitt. Ég þekki engan sem getur rissað Ísland. Og hvað er þetta? Arial? Plúsinn er að þú vest strax hvað þetta er, og nokkurnvegin hvað þeir þykjast standa fyrir. (Stutt rannsók leiddi í ljós að þetta eru ekki nazistar, og að halda slíku fram er eins og að segja að Hundur og Köttur séu sama tegund byggt á því að þau eru bæði ferfætt rándýr) Það er hægt að einfalda lógó þjóðfylkingarinnar, en flokkur fólksins er í svolítið vondum málum.
Dögun virðist búa að besta grafíska hönnuðinum.
Alþýðufylkingarlógíð lítur út eins og einhver hafi verið að losa málningu úr penslum. Þegar maður skoðar betur eru þarna líka tal-blöðrur, svo upp í hugann kemur að þarna gætu verið myndasöguhöfundar. Ef maður vissi ekki betur.
Ásgrímur Hartmannsson, 22.10.2016 kl. 14:23
Grrr, þú kannt að koma orðumk að því.
Jens Guð, 22.10.2016 kl. 16:58
Tobbi, og þú bætir um betur!
Jens Guð, 22.10.2016 kl. 16:58
Ásthildur Cesil, takk fyrir það.
Jens Guð, 22.10.2016 kl. 16:59
Vésteinn, þú ert dálítið hlutdrægur. Það er komin löng og yfirgripsmikil reynsla á kosti og ókosti lógóa. Þeir hafa verið krufðir til mergjar út frá sálfræði og í allskonar rannsóknum. Milljónir manna og milljónir fyrirtækja og milljónir félagasamtaka vinna með lógó á hverjum einasta degi. Það er búið að greina hvers vegna einföldustu lógó stimplast betur inn í vitund fólks en flóknar myndskreytingar. Þetta er sambærilegt við það að þriggja orða stuðlað og rímað slagorð hittir betur í mark en 10 orða þula sem skortir þetta og skortir hrynjanda að auki (fánarnir í lógóinu eru 10. Ég er að reyna að koma samlíkingunni til skila).
Jens Guð, 22.10.2016 kl. 17:17
Ásgrímur, takk fyrir þínar skemmtilegu vangaveltur. Það er alveg margt til í mörgum af þínum ábendingum. Varðandi tengsl Bjartrar framtíðar vísa ég á gamalt baráttulag formannsins: https://www.youtube.com/watch?v=XjypHTlfE5s
Jens Guð, 22.10.2016 kl. 17:25
Mér var kennt það uppúr miðri síðustu öld að M. Benz logoið þýddi.
Við þjónum í Lofti, Láði og Legi.
Árni Guðmundss0n (IP-tala skráð) 27.10.2016 kl. 21:12
Árni, það var tilgreind djúpa pælingin um að þriggja arma stjarnan vísaði til þessa þriggja. Það gefur einfaldri mynd af stýri tignarlegra gildi. Það er sölutrix hjá hönnuði merkis. Okkur er kennd svoleiðis sölumennska í námi í grafískri hönnun. Kaupandinn fellur fyrir háfleygum útskýringum á djúpri merkingu.
Jens Guð, 29.10.2016 kl. 10:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.