Árinni kennir illur ræðari

  Það er mörgum erfitt að tapa í kosningum.  Vera "lúserinn" í leiknum.  Ekki síst þegar viðkomandi hlýtur hátt á þriðju milljón fleiri atkvæði en sigurvegarinn.  Með óbragð í munni má kalla það að hafa sigrað í lýðræðinu en tapað í (kosninga) kerfinu.      

  Hildiríður Clinton á erfitt með að sætta sig við að hafa orðið undir gleðigjafanum Dóna Trump í kosningum til embættis forseta Bandaríkja Norður-Ameríku.  Bæði tvö hafa kennt stórkostlegu kosningasvindli um úrslitin.  Dóni vill þó láta gott heita.  Hann sættir sig nokkurn veginn við niðurstöðuna.  Er svo gott sem reiðubúinn að taka að sér embættið þrátt fyrir allt.

  Hildiríður heldur hinsvegar áfram að vera með urg.  Hún er tapsár.

  Vissulega er kosningakerfi Bandaríkjanna skemmtileg gestaþraut.  Vægi atkvæða er afar mismunandi eftir ríkjum.  Þökk sé kjördæmakerfinu.  Heimskur almúginn fær ekki að verða sér til skammar með því að kjósa vitlaust.  Þess í stað fer 538 manna hópur gáfaðra kjörmanna með endanlegt vald til að velja forseta.  Þó að þeir séu aldrei allir sammála þá eru þeir samt gáfaðri en skríllinn.

  Opinbert leyndarmál er að kosningasvindl leikur stórt hlutverk í bandarískum kosningum.  Það er allavega.  Kjósendur þurfa að skrá sig á kjörskrá nokkru fyrir kjördag.  Þeir þurfa að gefa upp pólitísk viðhorf.  Þetta eru ekki leynilegar kosningar að því leyti.  Enda ekkert nema kostur að allt sé uppi á borðum,  gegnsætt og án leyndarmála.

  Á kjördag mætir fólk í mörgum ríkjum án skilríkja.  Hver sem er getur kosið í nafni hvers sem er.  Það gera margir.  Hópar kjósa undir nafni annarra.  Margir mæta á kjörstað til að fá þær fréttir að þegar sé búið að kjósa í þeirra nafni.

  Í einhverjum ríkjum þurfa kjósendur að vísa fram skilríkjum.  Ekki hvað skilríkjum sem er.  Í einhverju ríkinu var lögum um það breytt á síðustu stundu þannig að 300 þúsund fátæklingar duttu út af kjörskrá.  Enda hefði sá hópur kosið vitlaust hvort sem er.    

  Í sumum ríkjum eru rafrænar kosningar.  Þar fara "hakkarar" á kostum.  Ekkert síður stuðningsmenn Hildiríðar en Dóna.  Pútín líka.  Þegar upp er staðið hefðu úrslitin ekkert orðið öðruvísi þó að enginn hefði svindlað.  Þegar margir (= allir) svindla mikið þá leitar það að endingu jafnvægis.  

  


mbl.is Kennir Pútín og FBI um ósigurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.