Flækjustigið kryddar tilveruna

  Embættismönnum er ekki alltaf lagið að hanna einfalt og skilvirkt kerfi.  Þvert á móti.  Algengara er að hlutirnir stangist á við hvern annan.  Allt lendi í pattstöðu.  

  Á síðustu öld seldu vinahjón mín bílinn sinn.  Þau voru að flytja til útlanda.  Allt gekk vel.  Flutningurinn gekk eins og í sögu.  Þá kom babb í bátinn.  Kaupandanum tókst ekki að umskrá bílinn.  Ástæðan var sú að bíllinn var upphaflega skráður í gegnum Tryggingastofnun.  Konan er öryrki og fékk einhverja tolla eða gjöld felld niður við kaupin.  Til að bíllinn yrði skráður á nýja kaupandann þurfti að ganga frá málum við Tryggingastofnun.

  Haft var samband við Tryggingastofnun.  Þá vandaðist málið.  Þar fengust þær upplýsingar að fyrst þyrfti að umskrá bílinn.

  Fyrir daga internets fóru samskipti fram í gegnum sendibréf á pósthúsi.  Bréfin gengu fram og til baka.  Lengi vel gaf hvorug stofnunin sig.  Eftir ótal bréfaskipti í marga mánuði náðist lending.  Í millitíðinni olli pattstaðan fjárhagslegum erfiðleikum.  Það var þó aukaatriði.

  Eftir innkomu internets er ekkert lát á flækjustigi.  Færeyska lögregluembættið (sem heyrir undir Danmörku) auglýsti að Færeyingum væri skylt að skrá skotvopn sín fyrir tiltekinn dag.  Samviskusamur hálf áttræður byssueigandi á Austurey brá við skjótt.  Hann brunaði á lögreglustöðina í Rúnavík. En, nei. Þar var honum tjáð að skráningin væri hjá Umhverfisstofu í Þórshöfn á Straumey.  Ekkert mál.  En, nei. Þegar á reyndi þá var Umhverfisstofan ekki komin með pappíra til að fylla út.  Hinsvegar var maðurinn upplýstur um það að hann þyrfti að fara aftur á lögreglustöðina í Rúnavík.  Í þetta skipti til að fá sakavottorð.  Það er alltaf gaman að eiga erindi til Rúnavíkur.  Þar er vínbúð Austureyjar.

  Þegar pappírar voru komnir í Umhverfisstofu brá kauði undir sig betri fætinum og brunaði til höfuðborgarinnar.  Töluverðan tíma tók að fylla út í alla reiti.  Að því loknu kvaddi hann starfsfólkið með handabandi.  Við það tækifæri fékk hann að heyra að skýrslugerðin kostaði 4000 kall (ísl).

  Svo heppilega vildi til að hann var með upphæðina í vasanum.  En, nei.  Umhverfisstofa tekur ekki við reiðufé.  Allt í góðu.  Hann dró upp kort.  En, nei.  Það má bara borga í Eik-banka.  Hann skottaðist niður í miðbæ.  Eftir töluverða leit fann hann Eik.  Bar upp erindið og veifaði 4000 kallinum.  En,  nei.  Hann mátti einungis millifæra af bók.  Þá kom upp ný staða.  Hann á ekki í viðskiptum við Eik og á enga bók þar.  Þá var minnsta mál að opna bók og leggja peninginn inn til að hægt væri að millifæra.  En, nei.  Það væri svindl.  Eik tekur ekki þátt í svoleiðis.  Eina rétta leiðin fyrir hann væri að millifæra úr sínum rótgróna viðskiptabanka yfir til Eikar.  

  Ekki var um annað að ræða en fara langa leið upp í nýja Nordik-bankann í Þórshöfn.  Þar var millifært yfir í Eik.  Að því loknu snéri hann aftur í Eik.  Þar sótti hann kvittun.  Með hana fór hann glaður og reifur í Umhverfisstofu.  Gegn henni fékk hann vottorð um að hann væri búinn að skrá byssuna sína.  Allir urðu glaðir því að allir fóru eftir settum reglum.  Þetta tók ekki nema tvo vinnudaga.      

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.