Áríðandi upplýsingar fyrir sólarlandafara!

á ströndinnisöluborðkássurfluga í súpunni

 

 

  Margur sólarlandafarinn er varla fyrr mættur á svæðið en magakveisa herjar á hann.  Ástæðan er matareitrun.  Löngum hefur ferðalöngum verið kennt að forðast hrátt salat, grænmeti og annað æti sem er skolað upp úr kranavatni.  Vatnið er löðrandi í bakteríum sem íslenska magaflóran ræður ekki við.  

  Ástæða er til að hefja dvölina á því að slafra í sig jógúrt.  Hún inniheldur varnir gegn vondum bakteríum.

  Nú hefur spænska blaðið El Pais bætt inn í umræðuna fróðleik.  Það greinir frá rannsókn á mat og drykk hjá svokölluðum götusölum.  Bæði á götum úti og á strönd er krökkt af söluborðum og söluvögnum.  Í Barcelóna eru 7000 veitingagötusalar.  Rannsóknin leiðir í ljós að þarna er pottur mélbrotinn.  Sóðaskapurinn er yfirgengilegur.  Matur og drykkur fljóta í E-coli bakteríum.  Magnið er svo svakalegt að það er bein ávísun á matareitrun.  Meira að segja frambornir áfengir kokteilar eru 7200% yfir skaðlausum mörkum.  

  Götusalarnir starfa á svörtum markaði.  Þeir lúta ekki heilbrigðiseftirliti né öðrum kröfum sem gerðar eru til fastra veitingastaða innanhúss.  Þeir halda ekki bókhald og borga lítil sem engin gjöld.  Það er önnur saga.  Hitt skiptir öllu:  Til að lágmarka hættu á matareitrun á ströndinni og göngugötunni:  Ekki kaupa neitt matarkyns af götusölunum.

 

      


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þá er bara að halda sig við bjórinn!!

Sigurður I B Guðmundsson, 24.8.2017 kl. 21:26

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  þetta er gott ráð!  Ég er þegar ákveðinn í að fara eftir því ef ég fer einhvertíma á sólarströnd.

Jens Guð, 25.8.2017 kl. 18:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband