Dularfullt mannshvarf

  Fyrir mánuði gagnrýndi ég - á þessum vettvangi - veitingastað Ikea í Garðabæ fyrir að bjóða ekki upp á lambakjöt.  Viðbrögð voru snöfurleg.  Lambakótelettur voru þegar í stað settar á matseðilinn.  Síðan hef ég ítrekað kvittað fyrir mig með heimsókn í Ikea.

  Í gær snæddi ég þar kótelettur utan matmálstíma.  Klukkan var að ganga þrjú.  Fámennt í salnum.  Á næsta borði sat aldraður maður.  Skömmu síðar bar að annan aldraðan mann.  Án þess að heilsa spurði hann hinn:

  - Hefur þú nokkuð séð hópinn minn?

  - Hvaða hóp? spurði hinn á móti.

  - Ég er með tuttugu manna hóp.  Við vorum að koma af Úlfarsfelli.  Ég leit af honum í smástund áðan hérna niðri.  Svo var hann bara horfinn.  Ég er búinn að leita að honum.  Finn hann ekki.

  Hinn kom ekki með neitt ráð.  Eftir að hafa tvístigið um hríð settist komumaður við borðið hjá honum og sagði:

  - Ég hinkra hérna.  Ég hélt að hópurinn ætlaði að fá sér bita.  Hann hlýtur þá að dúkka upp hér.

  Mennirnir þekktust greinilega.  Þeir spurðu frétta af sameiginlegum kunningjum.  Nokkru síðar var ég mettur.  Stóð upp og gekk á brott.  Hópurinn var ekki búinn að skila sér.  Á útleið skimaði ég eftir honum.  Án árangurs.  Ég hefði viljað benda honum á að hann væri týndur. 

kotilettur  

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ætli Úlfarsfells hópurinn hafi ekki rölt yfir í Costco, en ég hefði valið góðar lambakótelettur umfram þann stórmarkað. 

Stefán (IP-tala skráð) 28.9.2017 kl. 09:27

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Ef þetta voru útlendingar hafa þeir allir farið á "klóið"!!!

Sigurður I B Guðmundsson, 28.9.2017 kl. 21:05

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þarna ertu með líklega skýringu.  Mér datt fyrst í hug að hópurinn hefði brugðið sér í pylsuhornið í Ikea (á meðan gamli maðurinn fór upp rúllustiga við innganginn).  Þess vegna gekk ég þar út úr húsi til að ganga úr skugga um það.  En þar var enginn hópur.  

Jens Guð, 29.9.2017 kl. 10:34

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  þegar svoleiðis staða kemur upp eru þeir vanir að bregða sér á bak við bíla og hús.  Þá er auðvelt að týna þeim!

Jens Guð, 29.9.2017 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.