Kvikmyndaumsögn

 - Titill:  Lof mér að falla

 - Leikstjóri:  Baldvin Z

 - Helstu leikendur:  Elín Sif Halldórsdóttir,  Eyrún Björk Jakobsdóttir,  Þorsteinn Bachmann,  Sólveig Arnarsdóttir... 

 - Handrit:  Baldvin Z og Birgir Örn Steinarsson

 - Einkunn:  *****

  15 ára Magnea kynnist 18 ára Stellu.  Magnea er góður námsmaður; á gott líf og bjarta framtíð.  Stella fiktar við eiturlyf.  Magnea laðast að henni og ævintýralegum lífsstíl hennar.  Fyrr en varir eru þær orðnar djammfélagar og Magnea farin að fikta við eiturlyf.  

  Framan af er mikið fjör,  hvort heldur sem er á skemmtistöðum eða í gleðskap í heimahúsum.  Fylgifiskurinn er skróp í skóla og farið á bakvið foreldra.  Hægt og bítandi harðnar ástandið og verður ofbeldisfyllra.  Samviskan hverfur, svikin verða grófari og ósvífnari.

  Myndin kemur þessu aðdáunar vel til skila.  Hún er afar trúverðug.  Enda byggð á sönnum atburðum.  Elín Sif og Eyrún Björk túlka Magneu og Stellu á sannfærandi hátt.  Ótrúlegt að þær séu ekki menntaðar í leiklist og að þetta sé frumraun þeirra á því sviði.  Hugsanlega skilaði reynsluleysi þeirra sér í raunverulegu sakleysislegu fasi í fyrri hluta myndarinnar.  

  Myndin flakkar til og frá í tíma.  Ég fattaði það ekki strax.  Kannski vegna þess að ég er vandræðalega ómannglöggur.  Einnig ruglaði mig pínulítið í ríminu að Magnea og Stella skiptu ítrekað um hárlit.  Þetta kom ekki að sök eftir að ég áttaði mig á þessu.  Frekar að þetta hjálpaði við að staðsetja þær á tímalínu.

  Að mestu er sneitt framhjá sýnilegu ofbeldi.  Óhugnaðurinn er meira gefinn í skyn eða nefndur í samtölum.  Þetta er mun áhrifaríkara en grafískar senur.

  Átakanlegt er að fylgjast með varnar- og ráðaleysi foreldranna.

  Músík leikur töluvert hlutverk.  Hún er í höndum Ólafs Arnalds.  Hann kann fagið.

  "Lof mér að falla" er áhrifaríkasta mynd íslensku kvikmyndasögunnar.  Frábær í alla staði.  Skilur mikið eftir sig.  Besta forvarnarmynd sem hægt er að sýna í grunnskólum. 

  "Vonarstræti" hefur verið velt úr sessi.  Það er ekki lengur besta íslenska kvikmyndin.     

  

lof mér að falla


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,, Framan af er mikið fjör " er einmitt setning sem á við svo margt á Íslandi og því gæti titilinn ,, Lof mér að falla " átt við svo margt á Íslandi, svo sem bankana, flugfélögin, frjálshyggjuna, já og auðvitað ,, eiturlyfjaparadísina " Ísland, þar sem fólk pantar dóp á netinu rétt eins og pizzur, læknar dópa upp unglinga og gamalmenni og fjársvellt og fámenn lögregla eltist við uppdópaða ökumenn allan sólarhringinn. Já, framan af er mikið fjör, en svo endar fólk á fjársvelltum og undirmönnuðum sjúkrastofnunum. Þá er gott að eiga að snillinga eins og Baldvin Z og Birgi Örn Steinarsson, sem sjá hlutina í réttara ljósi en ríkisstjórnir og þingmenn á ofskömmtuðum launum. 

Stefán (IP-tala skráð) 10.9.2018 kl. 21:17

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Var að sjá þessa mynd. Spurning hvort að það ætti að bjóða unglingum í t.d. tíunda bekk frítt á þessa mynd hreinlega sem fræðsluefni???

Sigurður I B Guðmundsson, 12.9.2018 kl. 21:19

3 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þetta er góð greining hjá þér.

Jens Guð, 14.9.2018 kl. 05:28

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  ég mæli eindregið með því.

Jens Guð, 14.9.2018 kl. 05:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.