Dularfull bilun

  Ég ók í rólegheitum á mínum þrettán ára gamla bíl.  Eðlilega er hann orðinn dálítið lúinn,  blessaður.  Ég kem að rauðu ljósi.  Í útvarpinu - Rás 1 - hljómaði ljúfur og djassaður píanóleikur.  Skyndilega er eins og bensíngjöfin sé stigin í botn.  Það hvín í vélinni.  Ég var ekki með fót á bensíngjöfinni.  Ég leit á hana.  Hún var uppi.  Þetta hafði því ekkert með hana að gera.

  Ég ákvað að bruna að verkstæði sem er þaulvant að gera við bílinn.  Í sama mund breytist hljóðið.  Þá átta ég mig á því að hljóðið kom úr útvarpinu.  Kontrabassi hafði bæst við píanóleikinn.  Hófst með langdregnum tóni sem hljómaði glettilega líkt vélarhljóði bílsins. 

  Þegar lagið var afkynnt kom í ljós að þarna var á ferð bassasnillingurinn, Íslands- og Færeyjavinurinn Niels-Henning heitinn Örsted Pedersen.

  Ég finn ekki lagið á youtube.  Sem gerir ekkert til.  Det var en lördag aften er skemmtilegra.

 

 

           


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Þú verður nú að passa þig á að sofna ekki í umferðinni ef þú hlustar á umræðurnar á Alþingi um Orkupakkann, Jensinn minn. cool

Þorsteinn Briem, 23.5.2019 kl. 01:13

2 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Settu bara CCR disk í tækið og allir vegir vera þér færir!!

Sigurður I B Guðmundsson, 23.5.2019 kl. 09:05

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Átti að sjálfsögðu að vera: allir vegir verða þér færir. (smá fljótfærni)

Sigurður I B Guðmundsson, 23.5.2019 kl. 10:12

4 Smámynd: Jens Guð

Steini,  ég passa mín svo vel á því að ég hef vekjaraklukku með mér í farþegasætinu og læt hana hringja með látum á korters fresti.

Jens Guð, 23.5.2019 kl. 13:54

5 Smámynd: Jens Guð

Sigurður,  diskaspilarinn í bílnm er bilaður.  Sem er ágætt.  Þá rúnta ég bara á milli útvarpsstöðva og heyri sitthvað sem ég hef ekki heyrt áður.  Rás 1 er glettilega góð stöð.  Svo er það X-ið og Útvarp Saga í bland.  Síðan er upplagt að skella CCR á fóninn þegar heim er komið.  Eða sólóplötm Johns Fogertys. 

Jens Guð, 23.5.2019 kl. 14:37

6 Smámynd: Jens Guð

Til gamans:  Ungur færeyskur bassaleikari,  Mikael Blak,  hringdi í danska bassasnillinginn Niels-Henning.  Sagðist vera svo heillaður af bassaleik hans að hann langi til að verða lærlingur hans.  Niels-Henning svaraði því til að hann væri ekki kennari.  Bara hljóðfæraleikari.  Mikael spurði hvort að hann gæti vísað sér á einhvern kennara í Danmörku sem gæti kennt sér svipaðan stíl.  Hann þekkti ekki til í Danmörku af því að hann væri búsettur í Færeyjum.  Niels-Henning spurði:  "Ertu Færeyingur?"  Mikael játaði það.  Þá breyttist hljóðið í Dananum.  Hann sagði:  "Af því að þú ert Færeyingur þá skal ég verða kennarinn þinn.  Þú kemur til Kaupmannahafnar á þinn kostnað.  Ég skal kenna þér ókeypis eins lengi og þurfa þykir."  Vitaskuld þáði Mikael boðið og er í dag bassasnillingur.  Spilar meðal annars með Eivöru til margra ára.  

Jens Guð, 23.5.2019 kl. 14:59

7 identicon

DigitalDreamDoor.com setur NHÖP í níunda sæti yfir bestu jazzbassaleikara, sem er aldeilis flott og verðskuldað. Síðast þegar ég var á Íslandi heyrði ég allt í einu djúp, drafandi óhljóð undir stýri, sem ég taldi vera vélarbilun, en fattaði svo að ég hafði óvart kveikt á Útvarpi Sögu og Sigmundur Davíð var þar á spjalli. Ég var snöggur að skipta yfir á Rás 1 þar sem einmitt hljómaði ljúfur jazz. 

Stefán (IP-tala skráð) 23.5.2019 kl. 19:40

8 identicon

Níels H Ö kom hingað með sitt trio1978.Tónleikarnir voru í Háskólabíói og aldeilis magnaðir.Ég verslað plöturnar TVÆR sem þeir gerðu og hlusta oft á.Niels sá ég líka spilandi með Oscar Peterson og svo með Taniu Maríu.Niels var stórkostlegur bassaleikari.Nr 2.Ron Carter er líklega nr 1.

Ólafur Auðunsson (IP-tala skráð) 23.5.2019 kl. 22:27

9 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  NHÖP á svo sannarlega heima á Topp 10 lista yfir bestu bassaleikara heims.

Jens Guð, 23.5.2019 kl. 22:30

10 Smámynd: Jens Guð

Ólafur,  þú heppinn að vera á þessum hljómleikum. 

Jens Guð, 23.5.2019 kl. 22:32

11 identicon

það er kominn tími á nýtt útvarpstæki í bílinn. Eða nýja hátalara.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 24.5.2019 kl. 15:14

12 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári,  eða nýjan bíl.

Jens Guð, 24.5.2019 kl. 17:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband