Samband Johns og Pauls

 

  John Lennon og Paul McCartney voru fóstbræður.  Þeir kynntust á unglingsárum á sjötta áratugnum og urðu samloka.  Vörðu öllum frítímum saman við að semja lög og hlusta á rokkmúsík.  John gerði út hljómsveitina Querrymen.  Hún er ennþá starfandi.  Reyndar án Johns.  John var stofnandi hljómsveitarinnar og forsprakki;  söngvari, gítarleikari og söngvahöfundur.

  Paul segir að á þessum tíma hafi allir unglingar í Liverpool vitað af John. Hann var fyrirferðamikill ofurtöffari. Svalasti gaurinn í Liverpool, að sögn Pauls.  Liverpool er hafnarbær.  Íbúar á sjötta áratugnum kannski 200 eða 300 þúsund eða þar í grennd.  John var kjaftfor og reif stólpakjaft við alla,  slóst á börum eins og enginn væri morgundagurinn,  þambaði sterk vín, reykti og svaf hjá stelpum.   Hann var dáldið geggjaður.  Eins og mamma hans. 

  Paul sá í hendi sér að frami sinn í Liverpool væri fólginn í því að vingast við John.  Hann bankaði upp hjá John.  Kynnti sig og spilaði fyrir hann nokkur lög til að sanna hæfileika í hljóðfæraleik og söng.  Jafnframt sagðist Paul vera lagahöfundur. 

 John angaði eins og bruggverksmiðja þegar þeir hittust.  Koníak gutlaði í honum.  Eftir að Paul spilaði og söng fyrir John hugsaði hann eitthvað á þessa leið:  Ég get auðveldlega orðið aðal rokkstjarnan í Liverpool.  En með Paul mér við hlið get ég sigrað heiminn.  Ég verð að gefa eftir forystuhlutverkið.  Deila því með Paul.  Við getum sigrað heiminn saman. Þetta varð niðurstaðan.  Þetta var langsótt niðurstaða á þessum tíma.  Varðandi heimsfrægð.  Liverpool var útkjálki og þótti "slömm". 

  John var um margt afar erfiður í umgengni.  Hann tók skapofsaköst.  Hann var "bully";  árásagjarn til orðs og æðis.  Hann lamdi fyrri konu sína. Hann lamdi Paul og fleiri í hljómsveitinni Querrymen.  

  Paul var og er mjög stjórnsamur og ofvirkur.  Í Bítlunum sýndi hann George og Ringo ofríki.  En forðaðist árekstra við John.  Þegar John gekk fram af honum með gríðarlegri eiturlyfjaneyslu og flaut í sýrumóki við hljóðritun á laginu "She said, she said" 1966 þá ofbauð Paul.  Hann stormaði út úr hljóðverinu, tók ekki þátt í hljóðritun lagsins og lét ekki ná á sér.  George Harrison spilar bassalínu lagsins.  Í bókinni góðu "Beatlesongs" er Paul ranglega skráður bassaleikarinn.  Lagið hljómar í dag ósköp venjulegt.  1969 var þetta brengluð sýra. 

  Annað dæmi er lagið "Come together" á Abbey Road plötunni.  Síðustu hljóðversplötu Bítlanna.  Framan af ferli Bítlanna sungu Paul og John flest lög saman.  Að mörgu leyti var það einkenni Bítlanna og gaf hljómsveitinni forskot á aðrar hljómsveitir.  Undir lok ferils Bítlanna dró mjög úr dúettsöngnum.  Meira varð um þríröddun þeirra Pauls, Johns og Georges.  Líka sólósöngs þeirra hvers fyrir sig.  Paul saknaði tvíröddunarinnar.  Þeir John,  Paul og George voru allir afar flinkir í að radda og sniðgengu iðulega viðurkennda tónfræði.  

  Er John kynnti til sögunnar "Come Together" bað Paul um að fá að radda lagið með honum.  Paul sárnaði mjög er John svaraði:  "Ég græja það sjálfur."  Sem hann reyndar gerði ekki.  Paul laumaðist í skjóli nætur til að radda með í laginu.  John heyrði ekki þá útfærslu fyrr en platan kom út.          


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Fróðleg grein. Takk. 

Sigurður I B Guðmundsson, 30.7.2019 kl. 11:47

2 identicon

Um fystu kynni John og Paul skrifar Mark Lewisohn, bókin ,, Bítlarnir telja í ,, þá kom Paul til að fylgjast með spilamennsku Quarri Men og sá að John spilaði á banjóstilltan gítar og söng texta vitlaust. ,, Paul vr ekkert sérstaklega hlédrægur og bað John um að fá að prófa gítarinn, stillti hann frá banjóstillingu yfir í gítarstillingu og tók svo til við að syngja lagið Twenty Flight Rock af miklum móð og öfugt við John, þá söng Paul textann rétt og kunni öll réttu gripin. Paul fór í fullan sýningarham, að monnta sig, öruggur um hæfileuka sína og sér meðvitaður um áheyrendur sína. Hann skellti sér svo í Be-Bob-A-Lula og Presley lög, skipti síðan yfir á píanó og öskraði Little Richard lagið Long Tall Sally. Enginn í Quarry Men gat gert nokkuð slíkt. ,, Paul sem alltaf hafði ætlað sér að verða stjarna tókst strax það sem hann ætlaði sér með þessu, að vekja aðdáun hjá John, sem sneri sér strax að Paul og bað hann að vera með í hljómsveitinni. Paul sagðist ekki hafa neitt á móti því. Þarna var Paul aðeins 15 ára og John 17 ára. 

Stefán (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 21:02

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  takk fyrir innlitið. 

Jens Guð, 30.7.2019 kl. 21:19

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  takk fyrir fróðleikinn.  Ég veit ekki um sannleiksgildi þessa;  hef grun um að fært sé í stílinn:  Nokkurn tíma tók fyrir John að venja sig af banjóstellingunni.  Blaðamaður spurði hann hvers vegna hann spili bara á 4 efstu strengina.  John svaraði:  Til að skilja 2 neðstu strengina eftir fyrir George. 

Jens Guð, 30.7.2019 kl. 21:29

5 identicon

,, Stórfengleg bók ,, segir Dr Gunni um ,, Bítlarnir telja í ,, sem er ,, saga bítlanna eins og hún var í raun og veru ,,. Það var svo margt sem John féll strax fyrir hjá Paul ,, Ég lagði strax af stað í nýja átt þegar ég kynntist Paul ,, sagði John síðar. ,, Paul var fyndinn sögumaður, góð eftirherma og fær skopmyndateiknari. Hann var heillandi, skarpur, greindur og erfitt að snúa á . Hann spilaði á píanó, var sjálfsöruggur gítarleikari, var frábær í að muna texta og byrjaði að semja lög 13 ára. Hermdi svo vel eftir Little Richard,öskrandi og æpandi röddu að allir voru gáttaðir. Paul vildi gjarnan geðjast fólki og koma vel fyrir, af honum stafaði glaðvært sjálfsöryggi og hann vildi að fólk hefði mikið álit á honum ,,. John bar enga virðingu fyrir þeim sem ekki stóðu uppi í hárinu á honum. Það gerði Paul. Þeir voru eins og skapaðir fyrir hvor annan. Ef einhver gerði athugasemd við það að John væri að umgangast svona mikið sér mun yngri dreng, þá fékk hinn sami umsvifalaust einn á kjammann.

Stefán (IP-tala skráð) 30.7.2019 kl. 22:25

6 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þetta er sérlega góð tilvitnun og sönn:  "John bar enga virðingu fyrir þeim sem ekki stóðu uppi í hárinu á honum." 

Jens Guð, 30.7.2019 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.