Smásaga um fót

  Bænastund er að hefjast.  Bænahringurinn raðar sér í kringum stóra bænaborðið.  Óvænt haltrar ókunnugur gestur inn á gólf.  "Ég er með mislanga fætur," segir hann.  "Getið þið beðið fyrir kraftaverki um að þeir verði jafn langir?"

  "Ekki málið," svarar forstöðumaðurinn. "Leggstu á bakið hér ofan á borðið.  Við græjum þetta."

Sá halti hlýðir.  Forstöðumaðurinn leiðir bæn. Svo sprettur hann á fætur og grípur um fót gestsins,  hristir hann kröftuglega og hrópar:  "Í Jesú-nafni skipa ég þér fótur að lengjast!"

  Þetta endurtekur hann nokkrum sinnum.  Að lokum hrópar hann sigri hrósandi:  "Ég fann fótinn lengjast!  Þú ert heill, félagi."

  Hann hjálpar gestinum að renna sér niður af borðinu.  Þar fellur hann í gólfið en bröltir á fætur og fellur jafnharðan aftur í gólfið.  Það fýkur í hann.  Hann hrópar:  "Helvítis fúskarar!  Þið lengduð vitlausan fót!"

  Forstöðumaðurinn reiðist líka.  Hann hvæsir:  "Það má ekki á milli sjá hvor fóturinn er vitlausari.  Báðir snarvitlausir!"

  Hann grípur um axlir gestsins og dregur hann að útidyrunum.  Gesturinn er á fjórum fótum og spyrnir við.  Hann minnir á kind í réttum sem þráast við að vera dregin í dilk. 

  Forstöðumaðurinn nær að henda honum út á hlað.  Þar sparkar hann kröftulega í rassinn og hrópar:  "Þakkirnar fyrir hjálp okkar eru ekkert nema vanþakklæti.  Nú er munurinn á fótunum sá sami og þykkt gangstéttarhellu.  Þú getur ólað hana á þig og gengið óhaltur."

  Gesturinn fylgir ráðinu.  Það reynist heillaráð. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Gott að þetta var bara smásaga!!

Sigurður I B Guðmundsson, 21.4.2021 kl. 11:14

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  það er eins gott!

Jens Guð, 21.4.2021 kl. 11:38

3 Smámynd: Theódór Norðkvist

Skemmtileg saga, en er nokkur fótur fyrir henni?

Theódór Norðkvist, 21.4.2021 kl. 15:55

4 Smámynd: Jens Guð

Theódór,  það er flugufótur fyrir sögunni.

Jens Guð, 21.4.2021 kl. 16:21

5 identicon

Þetta var skondin saga og sennilega flugufótur fyrir henni, en þú átt eftir að fá seinni sprautuna, Stjáni, er það ekki?

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 21.4.2021 kl. 19:28

6 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári, ég á eftir að fá seinni sprautuna.

Jens Guð, 21.4.2021 kl. 19:37

7 identicon

Þarna er líklega einstaklingur sem sér ekki lengur nokkurn mun á Sjálfstæðisflokknum og Vinstri Grænum og veit ekk í hvorn fótinn hann á að stíga.

Stefán (IP-tala skráð) 22.4.2021 kl. 11:09

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  vel orðað!

Jens Guð, 22.4.2021 kl. 12:44

9 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sigurður Magnússon heitinn var mikill félagsmálamaður og var vel að manni, ef frá er talið að annar fóturinn var styttri en hinn svo að það sást á göngulaginu. 

Þegar hann tók að sér að vera í forsvari fyrir svonefndri trimmherferð í kringum 1970 þar sem göngur og hlaup voru ofarlega á dagskrá.

Á þessum árum var það sagt um illa farna drykkjumenn og róna að þeir voru komnir í ræsið, og var átt við ræsið við gangstéttirnar í Hafnarstrætinu.

Þegar fréttist af nýjasta átakinu hjá Sigurðu, var birt skopmynd af honu þar sem hann hljóp eftir gangstéttarbruninni í Hafnarstræti með styttri fótinn uppi á gangstéttarbruninni en hinn lengri ofan í ræsinu. 

Þótti mörgum þetta gráglettið um of og kunnu ekki að meta þennan humor. 

Ómar Ragnarsson, 22.4.2021 kl. 16:10

10 Smámynd: Jens Guð

Ómar,  takk fyrir skemmtilega sögu.

Jens Guð, 23.4.2021 kl. 08:28

11 identicon

Ég veit um konu með tvo jafn stutta fætur. Á tveimur jafn stuttum gengur hún alltaf gegn straumnum, en það er ekki við fæturna að sakast, heldur höfuðið sem sumir segja vera rangt skrúfað á, eða þannig. 

Stefán (IP-tala skráð) 23.4.2021 kl. 17:33

12 Smámynd: Theódór Norðkvist

Eigi skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnstuttir.

Theódór Norðkvist, 23.4.2021 kl. 21:24

13 Smámynd: Jens Guð

Stefán (# 11),  þessi var góður!

Jens Guð, 24.4.2021 kl. 08:00

14 Smámynd: Jens Guð

Theódór (# 12),  heillaráð!

Jens Guð, 24.4.2021 kl. 08:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband