Afi hótar bónda - framhald

  Hvort bróðir minn braut rúðuna i skólanum er óvíst.  Aldrei hefur fengist úr því skorið.  Hann hélt fram sakleysi sínu.  Og gerir enn.  Þó er eins og hann verði pínulítið skömmustulegur á svipinn þegar þetta ber á góma.  Bróðir húsbóndans hélt því fram að hann hafi séð bróðir minn brjóta rúðuna. 

  Afi trúði engu upp á sonarson sinn.  Hann sór þess eið að ná fram hefndum.  Tækifærið kom næst er hann fékk far með mjólkurbílnum að skólanum. Ekki var von á skólabílnum á allra næstu mínútum.  Bóndinn bauð afa í kaffi.  Á borð voru bornar kökur og tertur af ýmsu tagi.  Segja má að afa hafi verið haldin veisla.  

  Afi sat gegnt bóndanum við eldhúsborðið.  Þeir spjölluðu um heima og geima.  Virtist fara vel á með þeim;  uns bóndinn spurði:  "Hvað er Mundi með margar ær í hverri kró í vetur?"

  Afi brá við skjótt.  Eldsnöggt teygði hann sig yfir borðið.  Lætin voru svo mikil að gusaðist úr kaffibollanum hans.  Hann lagði krepptan hnefa að kinn bóndans.  Hann kýldi ekki.  Lagði bara hnefann að kinn,  skók hann og hrópaði reiðilega:  "Sonur minn heitir Guðmundur.  Ekki Mundi!"

  Bóndanum dauðbrá.  Hann hikstaði og stamaði:  "Já,  ég hérna...já, meina Guðmundur."

  Afi róaðist þegar í stað og fékk sér síðasta kaffisopann um leið og hann svaraði sallarólegur:  "Það eru ýmist 20 eða 21."

  Næstu daga hældi afi sér aftur og aftur fyrir að hafa hrellt bóndann svo rækilega að hann myndi dreyma martraðir næstu nætur.

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hann hefur heldur betur verrið karl í krapinu hann afi þinn.  Menn hafa þurft að gæta orða sinna, þegar þeir voru í námunda við hann.  Hann minnir mig svolítið á eina frænku mína en maður passaði sig vel á því hvað maður sagði við hana,en þegar hún hringdi í mig einhverjum mánuðum  eftir að maðurinn hennar dó og búið var að jarða hann og allt (hann óskaði víst eftir því að jarðarförin færi fram í kyrrþey).  Ég var ekki alveg ánægður með hvernig hún hafði haldið á málum og sagði við hana að ég hefði oft vitað til að menn væru  jarðaðir í kyrrþey en ég hefði aldrei vitað til þess að men dæju í kyrrþey.  Hún móðgaðist svo mikið konan að hún hefur ekki talað við mig síðan, þetta gerðist fyrir átta árum........ wink

Jóhann Elíasson, 26.6.2021 kl. 13:55

2 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  afi var vandræðagemlingur sem unglingur og yngri maður.  Lítið þurfti til að hann gripi til ofbeldis.  En hann mildaðist með árunum.  

  Frænka þín er greinilega hörkutól. 

Jens Guð, 26.6.2021 kl. 15:02

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Hvað hefði gerst ef bóndinn hefði sagt: Gvendur?????

Sigurður I B Guðmundsson, 27.6.2021 kl. 11:39

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  sem betur fer - fyrir alla - reyndi ekki á það.

Jens Guð, 27.6.2021 kl. 19:12

5 Smámynd: Theódór Norðkvist

Var það út af afa þínum sem orðtakið Hvað gera bændur nú? varð til?

Theódór Norðkvist, 28.6.2021 kl. 10:12

6 Smámynd: Jens Guð

Theódór,  það er líklegt - eða þá að þetta hefur verið út af einhverjum svipuðum náunga.  

Jens Guð, 28.6.2021 kl. 10:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband