Snúður og kjulli

  Börn, unglingar og fullorðnir hafa verulega ólík viðhorf til veislumatar.  Þegar ég fermdist - nálægt miðri síðustu öld - bauð mamma mér að velja hvaða veislubrauð yrði á boðstólum í fermingarveislunni.  Ég nefndi snúða með súkkulaðiglassúr.  Mamma mótmælti.  Eða svona.  Það var kurr í henni.  Hún sagði snúða ekki vera veislubrauð.  Svo taldi hún upp einhverja aðra kosti;  tertur af ýmsu tagi og einhverjar kökur.  Ég bakkaði ekki.  Sagði að snúður væri mitt uppáhald.  Mig langaði ekki í neitt annað.

  Leikar fóru þannig að mamma bakaði eitthvað að eigin vali.  Fyrir framan mig lagði hún hrúgu af snúðum úr bakaríi.  Ég gerði þeim góð skil og var alsæll.  Í dag þykir mér snúðar ómerkilegir og ólystugir.  Ég hef ekki bragðað þá í áratugi.

  Þetta rifjaðist upp þegar ég spjallaði í dag í síma við unglingsstelpu.  Hún á afmæli. Hún sagði mér frá afmælisgjöfum og hvernig dagskrá væri á afmælisdeginum.  Nefndi að um kvöldið yrði farið út að borða veislumat.  "Hvar?" spurði ég,  Svarið:  "KFC".  

snúðurkjuklingur 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þegar ég fermdist fór pabbi með mig til ljósmyndara og þar átti að taka af mér fermingarmyndir. Þegar allt var tilbúið vildi pabbi að ég mundi greiða hárið á mér upp (frá enninu) en þarna voru Bítlanir komnir á fullt og allir greiddu hárið niður og þar á meðal ég. Pabbi var mjög ósáttur við þetta og bleytti á mér hárið og greiddi það upp. Og þegar ljósmyndarinn ætlaði að taka myndirnar sagði ég að ég þyrfti að skreppa á klósettið en fór ekki þangað heldur hljóp ég út og þess vegna eru ekki til neinar fermingarmyndir af mér. 

Sigurður I B Guðmundsson, 5.11.2022 kl. 21:55

2 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B, alltaf góður!

Jens Guð, 6.11.2022 kl. 07:05

3 identicon

Í æsku fékk ég alltaf að ráða því hvað var í matinn á afmælisdaginn. Ég valdi alltaf rauðar SS-pylsur og sæta kartöflustöppu. Mér finnst þessi matur enn góður en pylsurnar eru ekki lengur rauðar heldur "kúkabrúnar". Skítt með það, þær eru jafn góðar og forðum daga.

Sigurður (IP-tala skráð) 6.11.2022 kl. 07:52

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður (# 3),  pylsurnar eru klassík.  Ég held að rauði liturinn hafi verið bannaður.

Jens Guð, 6.11.2022 kl. 09:36

5 identicon

F. fermingarveislu mína 1966 var keypt kransakaka eins og þá var siður. Mér fannst hún vond. Lítil stytta af fermingarstúlku var ofan á henni, svo voru knöll með málsháttum á dönsku, og tók ég upp það fyrsta: Ingen kender kvinden för lyset er slukket, og annað eftir því. Þessi kaka var í raun ætluð brúðhjónum, en stytturnar höfðu víxlast. Við hlógum bara að þessu.

Ingibjörg Ingadóttir (IP-tala skráð) 6.11.2022 kl. 13:25

6 Smámynd: Jens Guð

Ingibjörg,  takk fyrir skemmtilega sögu!

Jens Guð, 6.11.2022 kl. 14:08

7 identicon

Nú þegar Kata Jak fagnar ógurlega sigri Bjarna, sem gerði Gulla að kjúlla, þá fagna ég góðri vetrartíð og fæ mér KFC kjúlla og súkkulaðisnúð í eftirrétt. 

Stefán (IP-tala skráð) 6.11.2022 kl. 16:57

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  Kata splæsir í kampavínsflösku.

Jens Guð, 6.11.2022 kl. 18:33

9 identicon

Jens, Kata þarf líka að fagna dugnaði við að moka úr landi fötluðum og framhaldsskólabörnum. Þarf nokkrar kampavínsflöskur.

Stefán (IP-tala skráð) 7.11.2022 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.