Ævintýraleg bílakaup

  1980 útskrifaðist ég úr MHÍ.  Þá lauk blankasta kafla ævi minnar.  Nokkru síðar fór ég að skima eftir ódýrum bíl.  Enda kominn með fjölskyldu.  Í gegnum smáauglýsingu í dagblaði bauðst mér að kaupa gamla Lödu.  Tvær systur áttu hann.  Sökum aldurs treystu þær sér ekki lengur út í umferðina.  Þær höfðu reyndar aldrei keyrt nema smávegis yfir hásumarið.  Bíllinn var ótrúlega lítið keyrður. 

  Ég skottaðist til systranna.  Þær bjuggu á efstu hæð í lyftulausri blokk.  Eftir spjall fylgdi önnur þeirra mér út að bíl.  Hún átti erfitt með gang.  Við vorum svo sem ekkert að flýta okkur.

  Bíllinn leit út eins og nýr.  - Hvað sagðir þú að hann væri gamall?  spurði ég.

  - Hann verður 12 ára núna 7. september,  svaraði hún án umhugsunar.

  Ég hrósaði lakkinu.  Hvergi ryð að sjá.  - Jú,  því miður,  andvarpaði konan.  Hún hafði fundið ryðblett.  Hún mundi ekki hvar hann var.  Hófst þá leit.  Ég leitaði líka.  -  Hann er neðarlega,  útskýrði hún.  Að nokkrum tíma liðnum fannst hann neðan við framhurð farþegamegin.  Þetta var smá bóla.  Varla stærri en einn mm í þvermál. 

  -  Ég var heppin að vera komin með ný gleraugu,  sagði hún.  - Ég sé svo miklu betur með þau.

   Ég spurði hvort bíllinn hafi sloppið við óhöpp.  Nei,  það kom dæld á frambretti.  Hún var löguð á verkstæði.  Sást ekki að utan en hún bauð mér að þreifa á brettinu að innanverðu.  Þar mátti finna örlitla ójöfnu.  Jafnframt sýndi hún mér smáa saumsprettu á fóðri fyrir ofan aftursæti.  Aldrei hafði neinn setið í aftursætinu.  Þetta væri framleiðslugalli.  Ég hefði ekki tekið eftir saumsprettunni sjálfur.

  Ég nefndi að gaman væri að setja bílinn í gang og sjá hvernig hann hagaði sér í umferðinni.  Sú gamla dró upp bíllykla.  Í stað þess að rétta mér lyklana þá settist hún undir stýri,  lokaði dyrum og startaði.  Ég bjóst að setjast inn farþegamegin en hún brunaði af stað.  Hún tók stóran sveig á bílaplaninu og ég horfði síðan á eftir henni hverfa fyrir horn blokkarinnar.  Að nokkrum mínútum liðnum kom hún brunandi aftur,  drap á bílnum, kom út skælbrosandi og sagði: -  Það held ég nú að hann mali fallega.  Hann er eins og hugur manns í umferðinni! 

  Ég keypti bílinn án þess að hafa sest inn í hann.  Konan tók af mér loforð um að fara vel með hann.  - Hann þekkir ekkert annað. 

  Hún fékk símanúmer mitt:  - Til að fylgjast með hvernig honum reiðir af.  

lada


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta er skemmtileg saga. Afi minn sem rak bifreiðaverkstæði í meira en hálfa öld í Kópavogi, frá 1950, gerði nokkrum sinnum við bíla þar sem viðgerðirnar kostuðu meira en bílarnir! Til var að menn óskuðu sér að eiga gömul módel sem virkuðu, og þá var þetta leiðin, en þá varð líka að bíða eftir viðgerðinni í marga mánuði.

Ingólfur Sigurðsson, 4.6.2023 kl. 14:38

2 Smámynd: Jens Guð

Ingólfur,  takk fyrir fróðleiksmolana.

Jens Guð, 4.6.2023 kl. 14:45

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Fyrsti bíllinn sem ég eignaðist var þega Ágúst frændi rétti mér lykla að Mini station og sagði að ég mætti eiga hann. Var þetta flottasta gjöf sem ég hafði fegið og enginn toppað hana. 

Sigurður I B Guðmundsson, 4.6.2023 kl. 17:06

4 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Átti að vera Austin Mini station. 

Sigurður I B Guðmundsson, 4.6.2023 kl. 17:37

5 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  Ágúst frændi þinn er klárlega meiriháttar höfðingi!

Jens Guð, 4.6.2023 kl. 17:51

6 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Var og blessuð sé minning hans. Já hann var mikill höfðingi. 

Sigurður I B Guðmundsson, 4.6.2023 kl. 18:36

7 identicon

Ég er semsagt ekki sá eini sem átti Lödu sem fyrsta bíl.  Þessi saga minnir mig á mömmu sem keypti sér Toyotu og komst að því að brettið var byrjað að ryðga, fór með dósina í uboðið og sagði við sölumanninn sjáðu, hér er riðið1

Bjarni (IP-tala skráð) 4.6.2023 kl. 19:41

8 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  hehehe!

Jens Guð, 4.6.2023 kl. 20:09

9 identicon

Sumir fæðast með silfurskeiðar í munnum og þurfa ekki að vinna fyrir hlutunum, aðrir ekki. Þannig fékk dóttir útrásarvíkings síns tíma glænýjan BMW af dýrustu gerð í 17 ára afmælisgjöf og gott ef tveggja herbergja íbúð í Garðabæ fylgdi ekki með, eða kom þá á átján ára afmælinu. Undir stjórn Kötu og VG er unnið hörðum höndum að því að breikka bilið enn frekar milli ríkra og fátækra og fá því sumir nýjar Teslur í 17 ára afmælisgjafir í dag á meðan aðrir þurfa að vinna hörðum höndum með námi fyrir fyrstu bíldruslunni.  

Stefán (IP-tala skráð) 5.6.2023 kl. 09:00

10 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  það er margt til í þessu hjá þér.

Jens Guð, 5.6.2023 kl. 09:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.