Þannig týnast bílar

  Lögreglan hefur vottað að fólk eigi til að týna bílnum sínum.  Margir kannast við það.  Þar af er ekki alltaf verið að blanda lögreglunni í málið.  Fyrst eru fleiri möguleikar kannaðir.

  Eitt sinn - sem oftar - átti ég leið í Kringluna.  Þetta var rétt fyrir lokun.  Eftir að hafa útréttað fór ég út á bílastæði.  Ég mundi ekki hvar ég hafði lagt bílnum.  Það gerist iðulega.  Sjaldan þarf ég að rölta langt áður en hann blasir við.  Það tókst ekki í þessu tilfelli.  Þó vissi ég fyrir víst að hann var á jarðhæð og ekki í hliðarsal.  

  Eftir dágóða stund hringdi ég í konuna og lýsti stöðunni.  Ég átti að sækja hana úr vinnu.  Hún ráðlagði mér að hinkra á meðan bílum fækkaði á stæðunum.  Leið svo og beið.  Bílum fækkaði fyrir framan mig.  Að því kom að ég kannaðist við einn.  Rann þá upp fyrir mér ljós:  Ég mundi skyndilega eftir því að ég var á leigðum bíl.  Minn var á verkstæði.  Því hafði ég steingleymt!

bananabíll  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér finnst verst að finna ekki bílinn strax á geymslusvæði á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega þegar komið er úr heitum löndum í kulda eða rigningu hér. Þá er gott að eiga litríka bíla innan um gráan bílflotann. 

Stefán (IP-tala skráð) 8.7.2024 kl. 08:19

2 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  þetta er víst stórt vandamál þarna!

Jens Guð, 8.7.2024 kl. 08:33

3 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Fórum einu sinni til Feneyja (ca85) á Fíat og lögðum bílnum á bílastæði og fórum svo með bát út í Feneyjar. Þegar við vorum búin að skoða hitt og þetta og ætluðum til baka þá vissum við ekki hvaða bát við áttum að taka enda mörg bílastæði. Ekkert gekk að fá aðstoð en að lokum sáum við róna sem gat bent okkur á rétt skip. Þegar við komum til baka var planið enn fullt af hvítum Fíatbílum svo það tók okkur góðan klukkutíma að finna þann rétta. 

Sigurður I B Guðmundsson, 8.7.2024 kl. 12:55

4 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  fáir eru hjálplegri en góðir rónar!

Jens Guð, 8.7.2024 kl. 14:45

5 identicon

Sagan segir, sem gefur vísbendingu um að sagan sé uppspuni, að einn útrásarvíkinganna hafi þótt vera kominn tími á að endurnýja Range Roverinn sinn.  Brunaði uppí umboðið til að sækja þann nýja og hentist svo á honum heim í Arnarnesið.

Fékk svo símtal nokkrum vikum síðar frá umboðinu þar sem hann var beðinn um að fjarlægja gamla Range Roverinn af bílastæði umboðsins.

Sumir bílar týnazt, aðrir gleymast.

Bjarni (IP-tala skráð) 9.7.2024 kl. 00:29

6 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  takk fyrir skemmtilega sögu,  hvort sem hún er nálægt sannleikanum.

Jens Guð, 9.7.2024 kl. 06:56

7 identicon

Í framhaldi af sögu Bjarna hér að ofan, þá rifjast upp fyrir mér dagsönn saga af útrásarvíkingi sem var að sækja sérpantaða lúxusútgáfu af Range Rover. Þegar hann var að yfirgefa staðinn á nýja bílnum, þá sá hann annan alveg eins bíl og rauk þá inn og keypti hitt eintakið umsvifalaust. 

Stefán (IP-tala skráð) 9.7.2024 kl. 07:46

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  svona var þetta á útrásarárunum!

Jens Guð, 9.7.2024 kl. 07:55

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og sautján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.