Hvað þýða hljómsveitanöfnin?

   

  Hljómsveitanöfn eru ekki öll sem sýnist.  Dæmi um slíkt er The Rolling Stones.  Nafnið er iðulega þýtt sem Rúllandi steinar.  Það er ekki röng þýðing.  Hinsvegar er nákvæmari þýðing Flakkarar.  Nafnið er sótt í sönglag blúsarans Muddy Waters,  Rollin Stone.  Þar er haft eftir óléttri konu að sonurinn verði flakkari. Eirðarlaust fólk sem unir sér aldrei lengi á sama stað;  er á stöðugu flakki er kallað rolling stone.

   Á kreppuárunum í Bandaríkjunum urðu margir flakkarar í leit að vinnu.  Þeir urðu laumufarþegar í vöruflutningalestum.  Til að vera ekki lúbarðir á lestarstöðvum þá stukku þeir út úr lestinni á ferð.  Tæknin var að hlaupa út í sömu átt og lestin og rúlla sér kollhnísa eftir grasinu.  Úr fjarlægð líktust þeir rúllandi steinum.

   Í eldri merkingu er orðatiltæki sem segir að mosi vaxi ekki á rúllandi steini.

  The Kinks.  Stundum hefur hljómsveitin verið kölluð Kóngarnir.  Það er rangt.  Nafnið er ekki skrifað með g.  Orðið kink þýðir að eitthvað sem á að vera beint sé bogið.  Það er líka notað yfir óhefðbundið kynlíf.  Hérlendis er talað um kinky. 

  The Hollies.  Algeng skoðun er að nafnið sé sótt í bandaríska tónlistarmanninn Buddy Holly.  Hið rétta er að jólatrésgreinar sem hýbýli eru skreytt með að heiðnum sið  á jólum eru kallaðar hollies á Englandi. 

  The Byrds.  Nafnið hljómar vel,  Fuglarnir.  Vandamálið var að Bítlarnir og fleiri Bretar kölluðu ungar og aðlaðandi dömur birds.  Til aðgreiningar frá þeim var nafnið skrifað með y - í og með undir áhrifum frá The Beatles.  Aðalsprauta The Byrds,  Roger McGuinn,  hafði dálæti á djassstjörnunum Donaldi Byrd og Charlie Byrd.  

  Sex Pistols.  Nafnið má þýða sem kynhólka eða typpi.  Því var ætlað að auglýsa tískufataverslun umboðsmannsins,  Sex.

  Pink Floyd.  Við getum talað um Bleika froðu.  Nafnið var sótt í uppáhalds blúsista hljómsveitarinnar,  Pink Andersen og Floyd Council.

  Sham 69.  Nafnið getur þýtt Sviðsett munnmök.  Öllu fremur kenndi hljómsveitin sig við heimabæ sinn,  HerSHAM á Englandi.  69 er númer þjóðvegar sem liggur í gegnum bæinn.  Vegurinn er í daglegu tali kallaður Sham 69.  

  Handriðið.  Nöfn íslenskra hljómsveita eru jafnan augljós og skiljanleg:  Hljómar,  Flowers,  Paradís,  Utangarðsmenn...  Á níunda áratugnum neitaði auglýsingadeild Ríkisútvarpsins að afgreiða auglýsingar pönksveitarinnar Sjálfsfróunar.  Nafni hljómsveitarinnar var þá breytt í Handriðið.  Engar athugasemdir.  

  Talking Heads.  Nafnið er oft þýtt sem Talandi höfuð.  Meðal annars samdi og söng hljómsveitin Spilafífl magnað lag,  Talandi höfuð.  Betur hljómar að þýða nafnið Höfðatal.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Það er alltaf jafn gaman að lesa svona fróðleik sem maður vissi ekki um áður skiptir kannski ekki miklu máli en gerir það að verkum að maður veit hlutina núna.  Góður og skemmtilegur pistill Jens sem gefur lífinu mikið gildi.  Bestu þakkir.....

Jóhann Elíasson, 10.9.2024 kl. 14:45

2 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  takk fyrir það!

Jens Guð, 10.9.2024 kl. 14:56

3 identicon

Gaman að lesa pistlana þína! Afsakaðu dónaskapinn en fleiri máltæki eru um þessa mestu rokkhljómsveit allra tíma:-, svo sem „Sjaldan grær um of oft hrærðan stein“ og á ensku er það „A rolling stone gather no moss“ og á dönku „Rullende sten samler ingen mos“ og hana nú :-)

Þorlákur Karlsson (IP-tala skráð) 10.9.2024 kl. 23:16

4 Smámynd: Jens Guð

Þorlákur,  takk fyrir fróðleikinn!

Jens Guð, 11.9.2024 kl. 07:38

5 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Þetta eru mjög góðar þýðingar og skýringar. Þetta er svolítið ókannað svið, en hljómsveitarnöfn hafa oft verið notuð til að hneyksla eða fá athygli. Bruni BB var pönkhljómsveit og vísaði í hörmulegan atburð, dauða stjórnmálamanns sem var elskaður, og þannig nafn átti að hneyksla. Þeysarar voru að valda hneykslun með búningum sínum, og Bubbi og fleiri notuðu anarkistatákn. Á hippatímanum var í tízku að vera með gáfuleg og skrýtin nöfn sem kölluðu á pælingar. Nafn er markaðssetning.

Rolling Stones bjuggu til viljandi ímynd villinga. Flækingarnir gæti verið einnig þýðing á þeirra nafni. 

Ætli rokkið hafi ekki kallað á skrýtin hljómsveitarnöfn eftir 1955? Garðfuglarnir, The Yardbirds, Uppvakningarnir, Zombies, Fallegu hlutirnir, The Pretty things, Rjómi, Dyrnar, Flauelsundirheimarnir, Risaeðlan T. Rex, Þunglyndu blámarnir, Þakkláta andlátið...

Ég hvet Jens Guð til að skrifa bók um þetta og fara útí smáatriðin og sögu þessara hljómsveita, innlendra og útlendra. Ég myndi kaupa hana!

Ingólfur Sigurðsson, 11.9.2024 kl. 16:01

6 Smámynd: Jens Guð

Ingólfur,  bestu þakkir fyrir þessar áhugaverðu vangaveltur!

Jens Guð, 11.9.2024 kl. 17:23

7 identicon

Jimmy Page dreymdi um að stofna supergrúppu og það tókst honum svo sannarlega. Eitthvað var til umræðu að í hljómsveitina kæmu Jeff Beck og The Who meðlimirnir Keith Moon og John Entwistle. Það voru þeir síðarnefndu sem áttu hugmyndina að nafninu Led Zeppelin. Nafnið Black Sabbath kom frá samnefndri hryllings kvikmynd. David Robert Jones tók nafnið Bowie frá bandarískum uppfinningamanni. Jethro Tull kemur frá 18 aldar landbúnaðarmanni. Uriah Heep er persóna úr bókinni David Copperfield eftir Charles Dickens. Nafnið Lynyrd Skynyrd var til höfuðs Leonard Skinner, sem var strangur íþróttakennari hljómsveitarmeðlima og var sérstaklega á móti síðu hári þeirra. Crass er tilvísun í textalínu ,, the kids was just crass ,, úr lagi eftir David Bowie. Paul McCartney notaði nafnið Paul Ramone þegar hann bókaði hótelherbergi, þaðan kemur nafnið Ramones. Badfingers er frá vinnuheiti Paul á laginu With a Little Help From My Frinds, sem var Badfinger. Velvet Underground er eftir bók um sadómasókisma eftir Michael Leigh. Steely Dan er heiti á dildó í bókinni Nakid Lunch eftir William S Burroughs. Simple Minds kemur úr textalínu lagsins Jean Genie eftir David Bowie. AC/DC er nafn sem systir Young bræðra sá á saumavél. Radiohead kemur frá Talking Heads laginu Radio Head. Pantera kemur frá bílnafninu De Tomaso Pantera, gítarleikari þeirra átti slíkan bíl. Toto er eftir nafni hundsins í Galdrakarlinn í Oz. Deacon Blue kemur frá Steely Dan laginu Deacon Blues. Depeche Mode er tekið beint frá nafni á frönsku tímariti. Gang Of Four er tekið frá pólitískri fylkingu í Kína. Iron Maiden er eftir pyntingartæki í kvikmyndinni The Man in The Iron Mask. Joy Division var nafn á vændisálmu nasista úr skáldsögunni The House of Dolls. Amma Eddie Wedder hét Pearl og nafnið Pearl Jam varð til eftir magnaða hljómleika með Neil Young. Soundgarden kemur frá skúlptúr í Seattle The Sound of Garden. Judas Priest er tekið úr texta eftir Bob Dylan ,, The Ballad Of Frankie Lee and Judas Priest ,,. Kaleo merkir ,, Röddin ,, á hawaiísku. Brain Police er tekið úr texta eftir Frank Zappa ,, Who are the Brain Police. Systir Jónsa heitir Sigurrós. 

Stefán (IP-tala skráð) 11.9.2024 kl. 20:07

8 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  meiriháttar flott samantekt hjá þér.  Takk,  takk!

Jens Guð, 11.9.2024 kl. 20:44

9 identicon

Áhugaverður fróðleikur hér á ferð, Procol Harum var nefnd eftir burmískum ketti.

Bjarni (IP-tala skráð) 12.9.2024 kl. 00:14

10 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  takk fyrir fróðleiksmolann.

Jens Guð, 12.9.2024 kl. 07:31

11 identicon

Af því að Bjarni nefnir hér að ofan hljómsveitina Procul Harum sem gerði margar stórgóðar plötur, þá langar mig að nefna til sögunnar listmálarann George Underwood sem hannaði albúm Procul Harum, Shine On Brigthly. Underwood hefur hannað yfir 100 plötualbúm, m.a. fyrir T Rex, Marc Bolan, Gentle Giant, Tom Paxton, All the Young Dudes albúmið með Mott The Hoople sem David Bowie produceraði, Hunky Dory og Ziggy Stardust albúmin með David Bowie. Ef þið hafið áhuga á myndlist þá skuluð þið endilega fletta honum upp. Þó að George Underwood sé virtur og þekktur listmálari í Englandi, þá er hann þó líklega þekktastur fyrir að hafa málað annað auga David Bowie himinblátt. Þeir voru æskufélagar og bekkjarfélagar ásamt Peter Framton. Þegar Bowie og Underwood voru unglingar lenti þeim saman út af stúlku sem báðir voru hrifnir af. Mikið högg á annað auga Bowies orsakaði umskiptin á litnum og það urðu tímabundin vinaslit, en þegar Bowie sá að þetta útlit vakti mikla athygli þá tókst með þeim ævilangur vinskapur. 

Stefán (IP-tala skráð) 12.9.2024 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og fjórum?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband