Hrakfarir strandaglóps

  Fyrir nokkru átti ég erindi til Akureyrar.  Dvaldi þar á gistiheimili.  Þegar ég hugði á heimferð spurði kona við innritunarborðið hvort strandaglópur mætti fljóta með suður.  Um unglingspilt var að ræða.   Nokkru áður hafði hann hitt akureyrska stelpu á Músíktilraunum í Reykjavík.  Í kjölfarið keypti hann eldgamla bíldruslu til að heimsækja dömuna.  Fjármálin voru reyndar í klessu.  Hann átti aðeins 25 þús kall í vasanum.  Engin kort.  Þetta hlyti að reddast einhvernvegin.    

  Bíllinn gaf upp öndina í Hrútafirði.  Stráksi lét það ekki á sig fá.  Sá að vísu eftir því að hann var nýbúinn að fylla á bensíntankinn.  Hann reyndi án árangurs að fá far á puttanum.  Að vörmu spori stoppaði rúta hjá honum.  Þetta var áætlunarbíll á leið til Akureyrar. 

  Kominn til Akureyrar bankaði hann upp hjá stelpunni.  Hún var ekki heima.  Hann spurði foreldra hennar hvort hann mætti hinkra eftir henni.  Nei.  Ekki var von á henni heim fyrr en eftir tvo tíma eða síðar. 

  Úti var rok og grenjandi rigning.  Stráksi fann litla matvöruverslun.  Þar hímdi hann í góða stund uns búðin lokaði.  Þá færði hann sig yfir í sjoppu.  Hann var ekki með síma.  Að þremur tímum liðnum bankaði hann aftur upp heima hjá stelpunni.  Hún var komin heim.  Þau spjölluðu saman í forstofunni í góða stund.  Að því kom að hann spurði hvort það væri nokkuð mál að gista hjá henni.  Hún snöggreiddist.  Spurði hvort hann væri klikkaður.  Þau þekktust ekki neitt og hún hefði enga aðstöðu til að hýsa ókunnuga. 

  Þetta kom ferðalangnum í opna skjöldu.  Hann var fæddur og uppalinn í litlu sjávarþorpi.  Þar er til siðs að hýsa gesti.  Jafnvel í nokkra daga.  Stelpan benti á að í miðbænum væru ýmsir gistimöguleikar.  Hún bað hann um að ónáða sig ekki aftur. 

  Þetta var ástæðan fyrir því að hann varð staurblankur strandaglópur á gistiheimilinu.  Þegar ég tók hann með suður hafði hann ekkert borðað í tvo daga.

  Er við ókum framhjá bilaða bílnum spurði ég hvort hann vilji stoppa við hann.  Nei,  hann sagðist ekki vilja sjá drusluna framar.

  Ég benti honum á að búið væri að brjóta annað framljósið og stuðara.  "Ég braut það óvart.  Ég ætlaði að keyra nokkrar vegastikur niður.  Ég hélt að þær væru úr timbri.  Þær eru úr járni."       

  Hann bætti við að þetta væri ekki fyrsti bíllinn til vandræða.  Er hann var nýkominn með bílpróf æfði hann sig í að hringspóla á heimilisbílnum í gamalli sandgryfju.  Svo var fótboltakeppni fyrir utan þorpið.  Fjöldi áhorfenda.  Kauði ákvað að hringspóla á malarveginum þarna.  Ekki tókst betur til en svo að bíllinn sveif útaf veginum og sat pikkfastur ofan í skurði.  

  "Mjög niðurlægjandi því allir þekktu mig," viðurkenndi hann.

  Talið barst að sjómannsferli hans.  Hann sagði hana reyna á taugarnar.  Sem dæmi hefði skipstjórinn verið að öskra á hann út af litlu sem engu.  Ósjálfrátt grýtti hann fiski í kallinn.  

  - Hvernig brást hann við?  spurði ég.

  - Hann rak mig.  Það var óheppilegt.  Ég fékk enga vinnu í þorpinu.  Þess vegna neyddist ég til að flytja til Reykjavíkur og vinna á bónstöð í Kringlunni.  

  Skyndilega æpti drengurinn er við renndum inn í Reykjavík:  "Andskotinn!  Ég gleymdi að allt geisladiskasafnið mitt er í skottinu á bílnum!"      

  Nokkrum dögum síðar átti ég erindi í Kringluna.  Ákvað að heilsa upp á gaurinn.  Þá var búið að reka hann - fyrir að skrópa dagana sem hann var strandaglópur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður I B Guðmundsson

Þetta minnir mig á sögurnar um Gísla, Eirík og Helga. Þessi nær þeim öllum!!

Sigurður I B Guðmundsson, 8.10.2024 kl. 09:15

2 identicon

Það kæmi mér ekki á óvart að þessi óheppni ungi maður hafi álpast inn á landsfund vinstri grænna um helgina og ráfað þar um með hinum villuráfandi sauðunum. Þjóðin svo gott sem búin að hafna þeim alveg á Alþingi, en þau neita að fara fyrr en þau hafa fengið tugi milljóna framlag frá ríkissjóði í Janúar. 

Stefán (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 09:19

3 Smámynd: Jens Guð

Sigurður I B,  hann trompar þá bræður!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 10:12

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  góður punktur!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 10:14

5 identicon

Þetta vill vera örlög margra góðra drengja, og líka slæmra, að þegar þeir eltast við bíldruslur og aðrar druslur þá fer allt í skrúfuna. Best að vera ekkert að eltast við druslur.

Bjarni (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 11:25

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Já margur góður drengurinn hefur farið "flatt" á því að vera að eltast við kvenfólk.  Mér er mjög minnistætt að maður sem ég þekki nokkuð vel, þurfti vegna heilsubrests að fara að ganga við göngustaf.  Maður koma að máli við hann og spurði hvort ekki væri betra fyrir hann að fá sér "hækju" þá svaraði hinn: "Nei ég held ekki, ég er búinn að prófa að vera kvæntur"..................

Jóhann Elíasson, 8.10.2024 kl. 12:35

7 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  góður!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 12:37

8 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  nú hló ég upphátt!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 12:38

9 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Segi nú ekki annað en svona eiga ungir menn að vera, -ekki vera að víla fyrir sér smámuni.

Magnús Sigurðsson, 8.10.2024 kl. 15:44

10 Smámynd: Jens Guð

Magnús,  það er mikið til í því!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 16:20

11 identicon

Þegar minnst er á kvenfólkið dettur mér alltaf í hug vísan: Margur hefur farið flatt á fegurð margra kvenna. Nema Jón í Siglunesi. Það hefur hann ekki gert.

Jósef Smári Ásmundsson (IP-tala skráð) 8.10.2024 kl. 17:14

12 Smámynd: Jens Guð

Jósef Smári,  takk fyrir skemmtilega vísu - og sérkennilega!

Jens Guð, 8.10.2024 kl. 17:59

13 identicon

Þær eru nú allar þínar færslur Jens fullar af húmor og án allra leiðinda. Engin pólitík og ekkert sem gæti stuðað. En þegar ég les ummælin við þínum færslum þá virðast þau öll koma frá miðaldra eða eldri körlum.  Þau eru vel meintar og ættu ekki að ganga fram af neinum,

Hvar er unga fólkið og konurnar?

Bjarni (IP-tala skráð) 9.10.2024 kl. 11:53

14 Smámynd: Jens Guð

Bjarni,  takk fyrir hlý orð í minn garð.  Fyrir mörgum árum tók ég ákvörðun um að halda mig alfarið á jákvæðum nótum í bloggheimum.  Það er skemmtilegra.  Ég er orðinn formlegt gamalmenni.  Ég vil ekki vera nöldrandi gamalmenni. 

    Á fyrstu árum bloggsins fóru konur mikinn.  Þær voru virkari.  Líka í athugasemdakerfinu.  Svo voru gerðar breytingar á uppstillingu Moggans á bloggi.  Það lagðist illa í margar af virkustu konubloggurunum.  Þær flutti sig hver á fætur annarri yfir á Facebook og aðra samfélagsmiðla.  Í dag eru hlutfallslega fáar konur virkar á blog.is.  Ungt fólk hefur aldrei komið sér fyrir á blog.is.  Það heldur sig víst við TikTok og í einhverjum mæli á Facebook og einhverjum öðrum miðlum sem ég kann ekki að nefna.  Ég held að almennt hafi ungt fólk lítinn áhuga á því sem gamlir karlar skrifa. 

Jens Guð, 9.10.2024 kl. 13:49

15 Smámynd: Guðjón E. Hreinberg

Eins og venjulega, öld eftir öld, kynslóð eftir kynslóð, kvenfólkið ræðast á okkur með augnhárum og ferómónum og hausinn á okkur breytist í ofsoðinn graut - svo koma femínistar og halda því fram að við vitstola karldýrin höfum eitthvað vald.

Klassísk saga um okkur alla.

Guðjón E. Hreinberg, 10.10.2024 kl. 04:02

16 Smámynd: Jens Guð

Guðjón,  mig langar að segja:  Þú talar fyrir þig.  En staðreyndin er sú að það er margt til í þessu hjá þér - ef maður lítur í kringum sig. 

Jens Guð, 10.10.2024 kl. 04:16

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband