Smásaga um týnda sæng

  Gistiheimilið lætur lítið yfir sér.  Það er sparlega merkt - ef frá eru talin vel merkt bílastæði.  Enginn hörgull er á viðskiptavinum.  Hvert herbergi er jafnan uppbókað.  Umsjónarmaður hússins hefur þann hátt á að skúra gólf um klukkan fjögur að morgni.  Þá eru nefnilega engir á ferli.  Engir til að trufla skúringarnar né rölta um blaut gólf á sokkunum.

  Að loknum vel heppnuðum skúringum er kallinn vanur að skríða upp í rúm og leggja sig.  Þá brá svo til eitt sinn að sængin hans var horfin.  Sama hversu vel hann leitaði;  sængin fannst ekki.  Hann hinkraði frameftir morgni þangað til gestir fóru á ról.  Þá bankaði hann upp á hjá öllum og spurði hvort þeir vissu hvar sængin hans væri.  Enginn kannaðist við sængina.

  Góðar eftirlitsmyndavélar eru út um allt hús.  Verra er að vegna persónuverndar tekur tvo daga að fá að skoða myndirnar.  Á meðan þurfti umsjónarmaðurinn að sofa sængurlaus dúðaður í föt.  Þegar myndirnar voru loks skoðaðar sást að umsjónarmaðurinn sjálfur arkaði með sængina inn í þvottahús.  Þar tróð hann henni inn í þvottavél.  Mikið rétt.  Þarna var sængin komin er að var gáð.  Niðurstaðan var sú að kallinn hefði gengið í svefni.  Honum var brugðið við þessa uppgötvun.  Á móti komu fagnaðarlæti yfir að fá sængina aftur í fangið.  

sæng 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Elíasson

Hann hefur semsagt séð sæng sína útbreidda þegar hann skoðaði eftirlitsmyndböndin......

Jóhann Elíasson, 7.5.2025 kl. 09:42

2 Smámynd: Jens Guð

Jóhann,  góður!

Jens Guð, 7.5.2025 kl. 09:50

3 identicon

Fyrir margt löngu lagði ég leið mína í verslunina Dún og Fiður á Laugavegi. Ætlunin var að kaupa góðan kodda og sæng fyrir unga dóttir mína. Ég bar upp erindi mitt við afgreiðsludömuna, en spurði um leið hvaða söngkonu væri verið að spila þarna í hljómflutningstækjum. Dömunni varð virkilega hverft við og sagði svolítið rjóð í vöngum að þetta væri Geir Ólafs bróðir sinn. Ég hálfskammaðist mín og gekk á dyr sængurlaus. Seinna fór Geir að læra söng hjá Kristjáni Jóhanns og náði karlmannlegri söngrödd. 

Stefán (IP-tala skráð) 7.5.2025 kl. 10:16

4 Smámynd: Jens Guð

Stefán,  Geir er orðinn mjög öflugur söngvari.  

Jens Guð, 7.5.2025 kl. 10:28

5 identicon

Já Jens, miðað við árangurinn gæti Kristján Jóhanns alveg eins breytt vatni í vín. 

Stefán (IP-tala skráð) 7.5.2025 kl. 13:09

6 Smámynd: Jóhann Elíasson

Í sambandi við athugasemd Stefáns # 5, datt mér í hug maður sem var með mér á sjó fyrir mörgum árum.  Forsagan var sú að skipstjórinn ætlaði í frí og þá varð fyrsti stýrimaður skipstjóri og ég fyrsti stýrimaður næsta túr.  Skipstjórnum var skítsama hvers konar fugla við yrðum með í næsta túr þannig að hann réð tvo menn sem vantaði í túrinn bara í gegnum síma.  Annar þeirra kom beint af Kleppi og hann trúði því að hann væri "Messías" endurborinn (enda var hann bara kallaður Messías í þessum túr, en hann fór bara þennan eina túr), hinn var"krónískur" lygari og svei mér þá Messías hafði vinninginn sem persóna.  Strax og "strákarnir" um borð áttuðu sig á veikleika Messíasar byrjuðu þeir að andskotast í honum og það fyrsta sem þeir spurðu hann að og var hjarta þeirra næst; var hvort hann gæti breytt vatni í vín.  Hann hélt það nú (enda geta nú flestir bruggað).  Þá sáu þeir að þeir yrðu  nú að leggja eitthvað flóknara fyrir hann og spurðu hvort hann gæti gengið á vatni.  Hann hugsaði sig lengi um og sagði svo..... Nei en ér að vinna að því.......

Jóhann Elíasson, 7.5.2025 kl. 16:45

7 Smámynd: Jens Guð

Stefán (#5),  Kiddi Jó er göldróttur.

Jens Guð, 7.5.2025 kl. 17:01

8 Smámynd: Jens Guð

Jóhann (#6),  bestu þakkir fyrir skemmtilega sögu!

Jens Guð, 7.5.2025 kl. 17:02

9 identicon

Góður Jóhann - Á ungligsárum var ég talsvert á sjó og kannast því við það hvernig mannskap var mokað um borð í togara. Svo vann ég á Kleppsspítala og þar voru sko margir snillingar sem upplifðu heiminn og tilveruna á allt annan hátt en flest fólk gerir. Ég vann líka sem dyravörður, en slík störf virðast mér vera mun hættulegri í dag vegna grjótharðra eyturlyfja og gengjastríða. 

Stefán (IP-tala skráð) 7.5.2025 kl. 18:42

10 Smámynd: Jóhann Elíasson

Já, maður fékk að kynnast þeim mörgum nokkuð skrautlegum á þessum árum (1977-1986) og luma ég á nokkrum góðum sögum af sjónum, sem  ég á kannski eftir að setja hér inn í bland við annað.......

Jóhann Elíasson, 7.5.2025 kl. 19:56

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband