Erfiður starfsmaður

  Einn kunningi minn er rafvirki.  Köllum hann Nonna.  Á dögunum bættist óvænt á hann stórt verkefni í nýbyggingu.  Hann auglýsti þá eftir vönum rafvirkja sem gæti hafið störf strax og lofaði mikilli vinnu framundan.  Sá fyrsti sem svaraði auglýsingunni var ráðinn án frekari bollalegginga.  Honum var sagt að mæta bara í vinnuna klukkan 9 daginn eftir.

  Klukkan var langt gengin í 11 þegar starfsmaðurinn mætti.  Köllum hann Gumma.  Nonni spurði hvers vegna hann kæmi svona seint.  Svarið var:

  - Ég lagði af stað alveg á réttum tíma og ætlaði að taka strætó.  En þá sá ég að veðrið var svo gott að ég ákvað að ganga hingað.  Það var mjög hressandi.

  Nonni sagði að þannig geti hlutir ekki gengið fyrir sig.  Það þurfi að vera föst regla á því að menn mæti í vinnuna klukkan 9,  hvort sem þeir taka strætó eða ganga til vinnu.  Sýndi hann Gumma síðan hvar setja átti upp margar innstungur. 

  - Leyfðu mér að sjá hvernig þú setur upp eina innstungu,  bað Gummi.

  - Þú kannt að setja upp innstungur,  fullyrti Nonni í undrun. 

  - Já,  auðvitað.  Mig langar bara til að sjá hvernig þú gerir það.

  Nonni setti upp eina innstungu þó honum þætti þetta kjánalegt.  Gummi fylgdist áhugasamur með og tók svo við.  Allt gekk vel.  Gummi aðlagaðist vel öðrum sem unnu í byggingunni.  Hann stimplaði símanúmer allra inn í farsímann sinn.

  Daginn eftir var Gummi ekki mættur klukkan 9.  En um hálf 10 hringdi hann í einn þarna í vinnunni og bað hann um að sækja sig.  Sá spurði Nonna hvort hann mætti skjótast úr vinnunni til að sækja Gumma.  Nonni bað um að fá að tala við Gumma í símanum og tilkynnti honum að það komi ekki til greina að starfsmenn noti vinnutímann í að sækja hvern annan.

  - Já,  já,  ég er alveg sammála því,  svaraði Gummi.  Hinn hefur misskilið það sem ég sagði við hann.  Ég var bara að tilkynna veikindi.  Ég er að drepast úr hausverk og kemst ekki í vinnuna í dag.

  Daginn eftir mætti Gummi sprækur og hress um klukkan 10.  Hann gaf þá skýringu að strætóferð hafi fallið niður. 

  Eftir hádegi þurfti Nonni að skreppa frá í nokkra klukkutíma.  Hann setti Gumma fyrir nokkur smá verkefni.  Þegar Nonni kom aftur um 5 leytið sá hann ekki að Gummi hefði gert neitt.  Nonni spurði:

  - Hvað er í gangi?  Vannstu ekki neitt á meðan ég var frá?

  - Jú,  jú.  Ég er búinn að vera á fullu.  En ég skal viðurkenna að þetta hefur samt einhverveginn unnist seint.

  Verkefnið var komið í tímaþröng.  Því var ákveðið að vinna fram á kvöld.  Í matartímum borðaði vinnuflokkurinn á matsölustað með heimilismat.  Þegar haldið var í kvöldmat mótmælti Gummi.

  -Æ,  við skulum ekki borða þarna núna.  Förum frekar á pizza-staðinn.

  Nonni útskýrði fyrir honum að vinnuflokkurinn væri í föstu fæði á matsölustaðnum.  Þar borði hann út á reikning og fái magnafslátt.  Gummi hélt þó áfram að malda í móinn.  Sagði að nóg væri að borða mat með kartöflum í hádegi.  Á kvöldin sé betra að borða pizzur.  Nonni lét sig ekki en benti Gumma á að hann gæti farið á pizza-staðinn en þá á eigin kostnað.  Gummi sagðist ekki eiga pening. 

  Daginn eftir mætti Gummi ekki í vinnuna.  Klukkan 11 hringdi Nonni í hann og spurði hvort hann ætlaði ekki að mæta til vinnu.  Gummi svaraði:

  -Mér er illt í maganum.  Það er út af því að þú vildir ekki að við borðuðum pizzur.  Ég varaði þig við því að það ætti ekki að borða mat með kartöflum á kvöldin heldur pizzur.  En þú vildir ekki taka mark á því. Það er þér að kenna að mér er illt í maganum.

  Nonni sagði Gumma að mæta ekki oftar í vinnuna.  Um mánaðarmótin kom Gummi til að fá greitt fyrir sitt litla vinnuframlag.  Þegar hann var spurður um kennitölu kom í ljós að hann var aðeins 17 ára.  Við nánari eftirgrennslan kom jafnframt í ljós að hann var ekki rafvirki og hafði aldrei komið nálægt vinnu við rafmagn áður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

já starfsmaðurinn er erfiður en vinnuveitandinn er ekki alveg með á nótunum...

Óskar Þorkelsson, 27.2.2008 kl. 17:44

2 Smámynd: J. Einar Valur Bjarnason Maack

Nonni er náttúrulega ekki alveg í sambandi að ráða mann án þess að athuga kennitölu fyrst...

J. Einar Valur Bjarnason Maack , 27.2.2008 kl. 17:49

3 Smámynd: Jens Guð

  Ég veit ekki hvað Gummi sagði um sig í símtalinu þegar hann var ráðinn.  En ég veit bara að Nonni var afskaplega ánægður að fá rafvirkja sem gat hafið störf strax.

  Ég er sjálfur þaulvanur að ráða fólk í vinnu án þess að spyrja um kennitölu.  En eftir á að hyggja hefði Nonni átt að spyrja um kennitölu.  Menn reikna bara ekki með svona uppákomu.

Jens Guð, 27.2.2008 kl. 17:56

4 identicon

Pizzurnar eru klárlega sökudólgurinn í þessu máli

DoctorE (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 17:59

5 identicon

Eitt sinn var ég með rafvirkja í vinnu heima hjá mér hér í Reykjavík að kveldi til en einhvern veginn tókst honum að klúðra verkinu þannig að rafmagnið fór af allri götunni. Sökudólgurinn var fljótur að láta sig hverfa, svo sá undir iljarnar á honum, og fljótlega kom flokkur manna frá Rafveitunni til að kanna málið.

Þeim fannst verk rafvirkjans svo merkilegt að þeir tóku myndir af því í bak og fyrir, sífellt bættist í hópinn og allir greinilega í miklu stuði. Þeir komu rafmagninu loks aftur á götuna, ég sagðist ekki muna hvað hinn seinheppni rafvirki héti og hópurinn, sem nú var orðinn að árshátíð rafvirkja, lét gott heita, enda hafði þessi óvænta uppákoma greinilega bjargað deginum fyrir þessum miklu stuðboltum.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 18:25

6 Smámynd: Gulli litli

Gott efni í idnadarmann!!!!

Gulli litli, 27.2.2008 kl. 20:16

7 Smámynd: Jens Guð

  Einar,  vissulega er öryggi í því að vinnuveitandi hafi góðar upplýsingar um starfsfólk.  Sjálfur laug ég til um aldur þegar ég 16 ára fékk vinnu í álverinu í Straumsvík.  Lágmarksaldur þar var 18 ár.  Þetta var fyrir tíma kennitölunnar.

  DoctorE,  þær eru að minnsta kosti samsekar.

  Steini,  þetta var góð saga.

  Gulli,  eru þetta ekki fordómar gagnvart iðnaðarmönnum?  Hehehe!

  Valdemar,  sagan er sönn en ég nota ekki rétt nöfn hlutaðeigenda.

Jens Guð, 27.2.2008 kl. 20:59

8 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Sannar sögur geta verið lyginni líkastar.

Sigurður Þórðarson, 27.2.2008 kl. 22:02

9 Smámynd: Jens Guð

  Magnús, svona ungur maður þarf að vera ansi kærulaus eða sjálfsöruggur til að þykjast vera rafvirki og halda að hann komist upp með það.  Ég held að menn þurfi að fara í gegnum 3ja eða 4ra ára nám,  bæði verklegt og bóklegt,  til að teljast rafvirkjar.

  Fyrir mörgum árum var 12 ára strákur að hjálpa mér í útkeyrslu á heildsölunni.  Þá rakst hann á auglýsingu þar sem Ikea óskaði eftir verslunarstjóra.  Stráksi taldi þetta geta orðið góða sumarvinnu fyrir sig og sótti um í fullri alvöru.  Fyllti út þar til gert umsóknareyðublað samviskusamlega og skýrði sannleikanum samkvæmt frá fyrri störfum (blaðaútburður,  aðstoð við útkeyrslu og á lager),  skólagöngu o.s.frv.

  Hann heyrði aldrei neitt frá Ikea.   

Jens Guð, 27.2.2008 kl. 22:11

10 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Lnglundargeð er mikið hjá þessum vinnuveitenda, ég hefði látið hann fara strax sama daginn.  Það kemur nefnilega fljótlega í ljós hverrar gerðar menn eru.  Og svona lagað á ekki að líðast.  En sagan er góð.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.2.2008 kl. 22:14

11 Smámynd: Gulli litli

Jú fordómar af fenginni reynslu!

Gulli litli, 27.2.2008 kl. 22:38

12 identicon

Þessi pjakkur hefir verið ansi borubrattur eða svo,en Jens hvað gengur á hjá sýsla á Sauðárkróki,ha?Gamla heimabænum þínum.

Númi (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 22:47

13 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  það er rétt.  Ég segi þér að gamni við tækifæri hver rafvirkinn er.

  Ásthildur,  þessi Nonni er mikið ljúfmenni og hrekklaus.  Ég veit að það er mikill erill á honum í vinnunni.  Hann er á stöðugum hlaupum að kaupa inn allskonar efni,  mæla hitt og þetta,  reikna út,  afgreiða símtöl o.s.frv.  Oft er hann að vinna á fleiri en einum stað samtímis og þeytist þá eins og jó-jó á milli. 

Jens Guð, 27.2.2008 kl. 22:51

14 Smámynd: Jens Guð

  Númi,  ég hef ekkert heyrt um sýsló.  Í hvaða klandri er hann?

Jens Guð, 27.2.2008 kl. 22:59

15 identicon

Sýslumaðurinn í Skagafirði hefur áminnt yfirlögregluþjóninn á Króknum og hundinn hans fyrir óhlýðni í starfi. Þetta kom fram í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins, Jens.

Steini Briem (IP-tala skráð) 27.2.2008 kl. 23:17

16 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 27.2.2008 kl. 23:52

17 Smámynd: Halla Rut

Fyrstu mínútuna sem starfsmaður mætir í vinnu öðlast hann 7 daga veikinda rétt fyrir barnið sitt. Starfsmaður getur mætt fyrsta daginn, skilað inn uppsagnar bréfi og sagt að barnið sitt veikt og fengið 7 daga greitt.   

Halla Rut , 28.2.2008 kl. 00:02

18 Smámynd: Halla Rut

Er sýsli ekki bara einn af þeim sem er að vinna vinuna sína og lítur ekki undan þótt um sveitunga sína sé að ræða.

Halla Rut , 28.2.2008 kl. 00:06

19 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Þessi saga...

Ég var með svona orm í vinnu... son minn.

Hlynur Jón Michelsen, 28.2.2008 kl. 00:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband