14.9.2008 | 23:06
Viðamiklar upplýsingar um Tý og væntanlega hljómleikaferð hljómsveitarinnar til Íslands
Hér fyrir neðan eru ítarlegar upplýsingar um hljómleikaferð færeysku víkingarokkaranna í Tý til Íslands fyrstu helgina í október. Jafnframt fylgja góðar upplýsingar um hljómsveitina og hlekkir yfir á myndbönd hennar. Þessar upplýsingar eru teknar saman af Þorsteini Kolbeinssyni. Hann hefur veg og vanda að hljómleikum Týs:
Týr sló í gegn hérlendis fyrir allnokkrum árum með laginu Ormurinn langi. Mun sveitin spila hérna á þrennum tónleikum, einum á Akureyri og tveimur í Reykjavík, þar af stórtónleikum á NASA.
Sveitin hefur aldeilis stækkað sinn aðdáendahóp síðan við heyrðum síðast frá þeim og strax eftir þessa Íslandsheimsókn munu drengirnir halda á brott á túr um Evrópu með ekki ómerkari böndum en Hollenthon (Austurríki), Alestorm (Skotlandi) og Svartsot (Danmörku) en Týr verður
aðalnúmerið þar.
Það hefur verið ótrúlega gaman að fylgjast með uppgangi þessarar sveitar frá því hún kom hingað síðast. Með þriðju plötu sína í farteskinu, Ragnarök, komst sveitin á samning við evrópskt útgáfufyrirtæki sem í kjölfarið endurútgaf eldri útgáfur sveitarinnar (How Far to Asgaard og Eric The Red) og þá fóru hjólin að snúast fyrir alvöru. Sveitin varð æ tíðari gestur á hinum ýmsu tónleikaferðalögum sem kristallaðist í því að sveitinni bauðst til að spila á hinni virtu Wacken Open Air þungarokkshátíð í Þýskalandi í fyrra. Slík var eftirvænting fyrir þá tónleika að tónleikasvæðið troðfylltist og urðu margir frá að hverfa.
Eftir þessu var tekið og bauð sænska víkingametalsveitin Amon Amarth sveitinni að slást í för á stórri tónleikaferð þeirra um Evrópu þá um haustið.
Það sem hefur svo verið að gerast hjá sveitinni í ár hefur engan endi ætlað að taka þar sem hver risa túrinn á fætur öðrum hefur boðist drengjunum. Í byrjun vors hélt sveitin á risatúr undir nafninu
Paganfest (með ekki ómerkari sveitum en Ensiferum, Korpiklaani, Turisas, Moonsorrow og Eluveitie) sem spannaði bæði Evrópu og Bandaríkin.
Í júní hélt sveitin á 2 vikna túr um Austur-Evrópu en það sem gerir þetta sumar einna hvað merkilegast er að sveitin hefur spilað á ótrúlega mörgum stórum metalfestivölum í Evrópu: Tuska í Finnlandi, Bang Your Head, Party San Open Air og Summer Breeze í Þýskalandi, Bloodstock í Bretlandi og einnig nokkrum minni eins og Rock Harz Open Air í Þýskalandi, Metal Heart í Noregi og Metal Show í Lettlandi.
Sveitin hefur skapað sér sess fyrir að flytja ýmis þjóðleg kvæði og vísur frá Norðurlöndunum og setja þau í þungarokksbúning. Á nýjustu plötunni, sem heitir einfaldlega Land, taka þeir íslenska lagið Ævi mín er eintómt hlaup eftir Brennivíni, gamla vísu sem birtist á útgáfu frá kvæðamannafélaginu Iðunni fyrir allnokkru síðan. Á plötunni heitir lagið einfaldlega Brennivín en í allt syngja þeir á fjórum tungumálum á plötunni (íslensku, ensku, færeysku og norsku).
Eftir fjögurra ára fjarveru frá Íslandi er löngu kominn tími á að frændur okkar heimsæki okkur aftur en tónleikar þeirra verða sem hér segir:
- Föstudaginn 3. október heldur sveitin í víking til Akureyrar og spilar á Græna Hattinum ásamt m.a. Hvanndalsbræðrum og Disturbing Boner.
- Laugardaginn 4. októberverður slegið upp til heljarinnar veislu á Nasa, þar sem sveitin mun nýta fulltingis m.a. Mammút og Severed Crotch.
- Sunnudaginn 5. októberverða svo tónleikar fyrir alla aldurshópa í Hellinum TÞM.
- Að auki verða Týr gestir í Popplandi á Rás 2 föstudaginn 3. október, þar sem búast má við einhverjum tónum frá þeim.
Nánar um tónleikana:
Föstudagur 3. október
Græni Hatturinn á Akureyri
Húsið opnar - byrjar: 21:00 - 22:00
Miðaverð: 1500
Forsala aðgöngumiða í Pennanum Akureyri.
Aldurstakmark: 18 ár
Hljómsveitir:
Týr
Disturbing Boner
Finngálkn
Provoke (áður Sepiroth)
Hvanndalsbræður
Laugardagur 4. október
Nasa við Austurvöll, Reykjavík
Húsið opnar - byrjar: 21:00 - 22:00
Miðaverð: 2300 (endilega mæta með pening í beinhörðum)
Aldurstakmark: 20 ár
Hljómsveitir:
Týr
Severed Crotch
Mammút
Dark Harvest
Perla
Sunnudagur 5. október
Hellirinn í Tónlistarþróunarmiðstöðinni TÞM Hólmaslóð, Reykjavík
Húsið opnar - byrjar: 18:00 - 18:30
Miðaverð: 1500 (endilega mæta með pening í beinhörðum - enginn posi á
staðnum)
Aldurstakmark: Ekkert
Hljómsveitir:
Týr
Gone Postal
Trassar
Hostile
Palmprint in Blood
Heimasíður hljómsveitarinnar:
http://www.tyr.net
http://www.myspace.com/tyr1
Video:
Sinklars Visa af Land
http://www.youtube.com/watch?v=0I1geB7U5VI
og lagið sem byrjaði þetta allt saman: Ormurin Langi af How Far to Asgaard
http://uk.youtube.com/watch?v=vtjksfgCp0I
Live video:
Ramund hin unge af Eric the Red - Live at Wacken
http://uk.youtube.com/watch?v=oo7OE7Xd8Kw
Allar plötur Týs fást í húsgagnaversluninni Pier í glerturninum við Smáratorg - og eflaust í einhverjum plötubúðum.
Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Lífstíll, Menning og listir, Spil og leikir | Breytt 15.9.2008 kl. 03:00 | Facebook
Athugasemdir
Já, heyrðu, hvað varð um Viking Band, eina fjáreyzka hljómsveitin sem að var nú eitthvað skemmtileg, enda krákuðu gamlar krákur úr íslenzku 'Skallapoppi' með ~brill~.
Reyndar söng Ingvar í Pöpunum ágætiz 'fjáreyzku' líka í 'láttu mjer ekki liggja' í den, en það var nú líka 'bítlahermikráka' & líklega djöflinum danzkskotnari.
Steingrímur Helgason, 14.9.2008 kl. 23:53
Ég færi á tónleika ef ég væri á Los Klakos, eins og vinur okkar segir. Spyr líka eins og Zteini; -hvað varð um VB?
Helga Guðrún Eiríksdóttir, 15.9.2008 kl. 00:31
Steingrímur og Helga, Víking Band hætti og Íslendingurinn í hópnum, Njáll hljómborðsleikari, flutti til Los Klakos og opnaði pöbb í Hafnarfirði. Njáll var einskonar hljómsveitarstjóri og matreiddi íslensku lögin ofan í VB. Íslensku lögin voru sérstaða VB þannig að án Njáls var ævintýrið á enda.
Jens Guð, 15.9.2008 kl. 00:47
Ég mæti á Græna Hattinn og ég er farinn að hlakka ægilega mikið til.
Bubbi J. (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 18:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.