Vinsældir = gæði?

  aabba

  Fólk með vondan músíksmekk vísar stundum til þess að uppáhaldsplata þess eða flytjandi sé vinsælt fyrirbæri.  Það eru rökin fyrir því að um hágæða dæmi sé að ræða.  Þessi rök halda ekki vatni.  Vinsældir eru enginn mælikvarði á gæði.  Það er ekki einu sinni samhengi þar á milli.

  Ef samasemmerki er á milli vinsælda og gæða er Séð og heyrt besta selda tímarit landsins og Rauðar ástarsögur bestu bókmenntirnar.

  Söluhæsta plata heims er "Thriller" með Michael Jackson.  Heimildum ber ekki saman.  Sumar segja hana hafa selst í 60 milljónum eintaka.  Aðrar um 100 millj.   "Greatest Hits 1971 - 1975" með Eagles er sennilega næst söluhæst.  Hún hefur selst í um 40 milljónum eintaka. 

  Eru þetta bestu plötur sögunnar?  Þær komast aldrei í toppsæti yfir bestu plötur sögunnar þegar slíkir listar eru teknir saman.

  Bítlarnir hafa selt rösklega 1000 milljónir platna.  ABBA er næst söluhæsta hljómsveit heims með 370 milljónir seldra platna.

  Förum aðeins yfir hvað ræður plötusölu.  Þar ræður markaðssetning öllu.  Ekki gæði.  Plötufyrirtæki veðja á tilteknar plötur.  Ekki út frá gæðum heldur hversu auðvelt er að fjárfesta í þeim.  Plötufyrirtæki hafa sömuleiðis missterka möguleika á að búa til góða sölu. 

  Tökum "Thriller" sem dæmi.  Útgefandinn var CBS,  einn af risunum á alþjóðamarkaði.  Bandarískt fyrirtæki í eigu japanska hljómtækjaframleiðandans Sony.  Einn af hæst settu lykilmönnum fyrirtækisins var Íslendingurinn Ólafur Jóhann Ólafsson,  rithöfundur.  Með góða yfirsýn yfir evrópska markaðinn.

  Michael Jackson var blökkumaður en búinn að láta breyta sér í hvíta konu.  Öflugasti auglýsingamiðill Bandaríkjanna í músík var sjónvarpsstöðin MTV.  Þar á bæ var á þeim tíma vinnuregla að sýna ekki myndbönd blökkumanna.  CBS fór í verkfall gegn þessari stefnu.  Hótaði að loka fyrir sýningar á myndböndum með sínum skemmtikröftum ef myndband með Michael Jackson væri ekki í spilun á MTV.  CBS var með vinsælustu myndbönd með Bruce Springsteen og fleirum og gaf eftir.  Eftir hart stríð tók MTV myndbönd með Michael Jackson til sýningar.  Og þau slógu í gegn.  Við áhorf á MTV bættust 15% blökkumanna í Bandaríkjunum. 

  Við bættist að Sony opnaði upp á gátt fyrir Michael Jackson í Asíu og Evrópumarkaðurinn var líka virkjaður.

  Þetta þýðir ekki að "Thriller" sé besta plata allra tíma.  Reyndar þræti ég ekki fyrir að platan sé nokkuð vel heppnuð fyrir sinn hatt.  En djöfull leiðinleg fyrir minn smekk.

  Skoðum annað dæmi.  Lagið "Strawberry Fields Forever" með Bítlunum var fyrsta lag Bítlanna til margra ára til að "floppa".  Það náði ekki toppsæti breska vinsældalistans né ýmissa annarra evrópskra vinsældalista.  Síðar er þetta lag iðulega í toppsæti yfir bestu lög Bítlanna og jafnvel bestu lög rokksögunnar.

  Enn annað dæmi:  Plötunni "London Calling" með The Clash var slátrað af gagnrýnendum og náði hæst í 11.  sæti breska vinsældalistans.  Hún náði hæst í 27.  sæti bandaríska vinsældalistans.  Síðar var þessi plata valin besta plata níunda áratugarins af vinsælasta poppblaði heims,  bandaríska blaðinu Rolling Stone og er jafnan í efstu sætum yfir bestu plötur rokksögunnar.   

  Umræða um ABBA er hér aðeins fyrir neðan á blogginu mínu.  Þau gerðu allt fyrir frægðina nema koma nakin fram.  En samt næstum því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Skattborgari

Það sem skiptir mestu máli sambandi við sölu er hvernig varan er auglýst. Ef léleg plata er rétt markaðasett af aðilum sem vita hvað þeir eru að gera þá geta þeir selt mikið af henni að sama skapi selst virkilega góð plata ekki neitt ef hún er illa markaðssett af mönnum sem vita ekki hvað þeir eru að gera.

Taktu hana Britney sem dæmi án efa ein versta söngkona ever en með réttri markaðssetningu þá varð hún mjög vinsæl og seldi miljónir platna.

Kveðja Skattborgari.

Skattborgari, 27.10.2008 kl. 23:45

2 Smámynd: Ómar Ingi

Vinsældir og gæði fara nú sjaldnast saman kallinn minn þetta veistu nú líka þrátt fyrir að þú sért aðalega í gervigrasinu

Ómar Ingi, 27.10.2008 kl. 23:46

3 Smámynd: Jens Guð

  Skattborgari,  þetta er nákvæmlega punkturinn.

  Ómar,  ég veit þetta betur en margur annar.  Vann við markaðssetningu 13 ár. 

Jens Guð, 28.10.2008 kl. 00:02

4 Smámynd: Steini Thorst

Vá, aldrei datt mér í hug að þér tækist að pirra mig Jens en núna gerðir þú það.

Þú setur þig á svo rosalega háan hest í umfjöllun þinni um músík að ég held held bara að engum hafi tekist annað eins, jafnvel ekki hrokafyllstu menn sem þó hafa það framyfir þig að sýna í skrifum sínum og máli að þeir kunna að fjalla um músík án þess að falla í þá gryfju að vera bara að reyna að fá athygli.

Fólk með vondan músíksmekk segir þú. Hver ert þú að segja að einhver hafi vondan músíksmekk? Er hann vondur af því að hann er ekki sá sami og þinn eða er hann vondur vegna þess að það er búið að skilgreina hvað er góður smekkur og hvað ekki? Hvort er það, því það er annað tveggja? Við vitum báðir að það er ekki búið að skilgreina góðan og vondan smekk á tónlist frekar en annari list svo þarna er um að ræða að ástæðan sé einvörðungu sú að ekki sé um sama tónlistarsmekk að ræða og þinn.

Þú svarðir mér um daginn varðandi Andra Bachman að þú værir að gagnrýna tónlist hans algjörlega á faglegum nótum og algjörlega óháð þínum smekk, að þannig gagnrýndir þú tónlist. Hvaða kjaftæði er það nú eiginlega? Málið er að þú færð bara rosalega mikið útúr því að ÞYKJAST hafa "vit" á tónlist og ert að reyna að eigna þér einhvern sess sem hinn vitri tónlistargagnrýnandi. Og svo fellur þú í þá gryfju að athyglissýkin rekur þig áfram,...hahaha

Abba? Frábær tónlist, æðisleg bara. Af hverju segi ég það? Vegna þess að ég fíla Abba. En er eitthvað annað sem fær mig til að fullyrða að þarna sé um frábæra tónlist að ræða? Já, það að ennþá, eftir öll þessi ár, þá er Abbatónlistin svo rosalega vinsæl að hundruð milljóna manna hlusta á og dansa við worldwide. Gæði? Tjahh,....þeir verða nú held ég seint sakaðir um að vera lélegir tónsmiðir Björn og Benny,......nema kannski af hinum mikla jens GUÐ !! 

Þú fílar pönktónlist, það hefur komið fram. Og veistu, það er alveg merkilegt að einmitt einhverjir verstu tónlistargagnrýnednur sem til eru, eru einmitt gamlir pönkarar. Og hvað er pönkari? Að mörgu leyti er pönkari bara hrokagikkur sem þykist stærri og meiri en umhverfi sitt og veit allt betur en aðrir.

Og hananú,...nú er ég búinn að koma á framfæri skoðun minni á þér sem tónlistargagnrýnanda. NB, sem tónlistargagnrýnanda, ekki sem bloggara því þú ert fínn í því :)

Steini Thorst, 28.10.2008 kl. 00:12

5 identicon

Þetta er allt afstætt gamli. Allir eiga bara að fíla það sem þeir fíla. Vinsældapopp til jaðarskringilegheita.

annars vil ég benda þér á frétt frá frændum vorum góðum: ;)

http://www.kringvarp.fo/index.asp?s=49&Id=62683

Ari (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 00:57

6 Smámynd: Jens Guð

  Stein Thorst,  er ekki til góður eða vondur músíksmekkur?  Er ekki til góður eða vondur bókmenntasmekkur?  Er ekki til góður eða vondur kvikmyndasmekkur?

  Ef svar þitt er nei ertu að hafna allri greiningu á listfræði,  hvort sem hún snýr að myndlist,  músík,  bókmenntum eða öðru.

  Þar með ertu búinn að hafna skilgreiningu á góðri eða vondri myndlist,  góðum eða vondum kvikmyndum,  góðri eða vondri músík og svo framvegis.

  Eitt er að hafa smekk fyrir myndlist,  bókmenntum,  matreiðslu,  músík eða kvikmyndum.  Annað er að átta sig á því hvað er vont og gott.  Fólk getur haft gaman að ómerkilegum gamanþætti í sjónvarpi en áttað sig jafnframt á að þátturinn sé þunnur þrettándi.  Fólk getur líka áttað sig á að tiltekin kvikmynd sé góð þó höfði ekki til smekks manns.

  ABBA er ekki merkileg hljómsveit þó að músík kvartettsins höfði til þín á meðan þú ryksugar heima hjá þér.  McDonalds hamborgari er ekki merkilegur matur þó að þér þyki hann vera góður.  "Fraiser" er ekki merkilegur sjónvarpsþáttur þó hann skemmti þér. 

  Þú hafnar skilgreiningu á góðri og vondri list.  Þar með hafnar þú listfræði.  Vond myndlist er jafn góð og góð myndlist.  Vondar kvikmyndir eru jafn góðar og góðar kvikmyndir.  Það er ekkert viðmið.  Allt er á sama stalli.  Það er ekkert vegið eða metið sem gott eða vont.

  Þér þykir músík ABBA æðislega frábær.  Er þá allt í einu til eitthvað viðmið?  Æðislega frábær í samanburði við hvað? Eitthvað sem hvorki er gott né vont? 

  Þú ferð offari er þú sakar mig um að skilgreina lög BB í ABBA sem léleg.  Ég tók fram að þeir séu góðir lagahöfundar.  Með því tók ég af vafa um að ég væri ekki að afskrifa það sem ABBA hefur sér til ágætis.

  Ég held ekki fram að ég sé best til þess fallinn að skilgreina góða og vonda músík.  Ég er öfgakall í músík.  Ég hlusta fremur á pönkrokk en ABBA.  Einmitt vegna þess að ég er meðvitaður um að minn músíksmekkur er öfgakenndur vitnaði ég til almenns álits þeirra sem fjalla um músík í helstu poppblöðum heims.  Margar þær hljómsveitir sem ég held mest upp á og margar þær plötur sem ég hlusta mest á eru ekki á algengum listum yfir bestu plötur rokksögunnar.  Ég geri mér grein fyrir því og átta mig á ástæðum þess.

  Gott væri að fá frá þér dæmi um verstu tónlistargagnrýnendur úr hópi gamalla pönkara.  Ég hef alveg áhuga fyrir því að ræða þetta frekar við þig.  Það er gott að þú hafir sterkar skoðanir á umræðuefninu.  Ég fagna því.  Til þess opnaði ég þessa umræðu.  Ég hef engan áhuga á að skjóta þín viðhorf í kaf.  Þau eru ekkert verri en mín.  Þvert á móti vil ég heyra meira frá því sem þú ert að halda fram.  Skjóttu kallinn minn!

Jens Guð, 28.10.2008 kl. 01:14

7 Smámynd: Jens Guð

  Ari,  hann Kári P vinur okkar stendur sig.  Hellti sér yfir Tjallann.  Engu að síður er full ástæða til að ræða poppið og vinsældir í bland. 

Jens Guð, 28.10.2008 kl. 01:17

8 identicon

Vinsældir hafa ekkert með gæði að gera... vinsældir hafa allt með innprentun að gera, ég leyfi mér að benda á td kristni eða islam :)

Djö er ég góður að slamma trúarbrögðin hahahaha

DoctorE (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 09:45

9 Smámynd: Skarfurinn

Takk fyrir athyglisverða grein Jens, en ertu viss um að muni svona miklu á The Beatles & Abba þ.e.a.s.  1000 milljónir og 400 milljónir, og hvar er Elvis í röðinni ?

Sá eftir þér haft einhversstaðar  að The Tremeloes hafi byrjað langt á undan Bítlunum, mínar heimildir herma að Brian Poole hafi stofnað sitt band árið 1959 en The Beatles árið 1960, þar munar ekki miklu, reyndar höfðu John, Paul og félagar verið í ýmsum böndum frá 1957, er þetta ekki rétt ?

Skarfurinn, 28.10.2008 kl. 09:49

10 Smámynd: Þórður Helgi Þórðarson

Get alveg verið sammála einhverju sem þú segir jens líka mörgu sem Steini Thost segir.

Að reyna að halda því fram að Thriller sé djöfulli leiðinleg er náttúrulega bara smekks atriði og halda því fram að Fræblarnir séu frábærir sömuleiðis.

Jéns, þú átt það svolítið til að tala út frá þínum smekk og gera að reglu, þú talar alltaf um að pönk sé svo merkilegt  og harðkjarni og hvað þetta heitir allt saman.

Það vita allir að þeir sem spiluðu pönk á sínum tíma voru ekki tónlistarmenn, þótti flott að kunna ekkert á hljóðfæri, söngvarinn mátti ekki syngja og hafa fáir gert nokkuð að viti eftir að einhver liðsmaður sveitarinnar drap sig og sveitin lagði upp laupana, voða cool en tengist ekkert tónlist.

ABBA grílan sem er að drepa mig er aðlega vegna þess að þessi tónlist er búin að öskra á mann síðan ´74 með engum breytingum, sömu 5-7 lögin og eðlilegur maður missir vit en eðlilegar kéllingar fara á "sing a long".

Mér finnst Jens líka stundum sýktur af "anti hype" veirunni, það er: tónlist sem er vinsæl er viðbjóð, dót sem engin þekkir er frábært!

Ég viðurkenni alveg að ég þjáist létt af þeirri veiru líka.

Tónlist er alltaf smekks atriði og það er jú til lélegt tónlist: ófrumleg (vinsældar popp), illa spiluð (pönk) og svo mætti lengi telja.

Vil bara benda þér á eitt atriði sem ég tengist mjög náið.

Love Guru: þar gerði ég tónlist sem ég þoli ekki: allar stefnurnar, Scooter strumpa technoið, R&B, Farin (sungið með Nylon!) og leiðinlegasta lag sem ég hef heyrt ,Nína og Geiri til að nefna eitthvað, með öllum frösum sem lýsa minni andstæðu og allt verkefnið gert í nettu gríni gegn öllu því sem ég tel mig standa fyrir, en þessi lélega tónlist var vel unninn.

Leitt frá því að segja, þetta náði vinsældum.... hvað segir það um tónlist og vinsældir hennar?

Þegar menn vísvitandi gera vonda tónlist.

Þórður Helgi Þórðarson, 28.10.2008 kl. 10:14

11 identicon

Sæll Jens,

ég hef einungis eina athugasemd, enda hef ég lítið vit á tónlist, hlusta bara á það sem mér finnst skemmtilegt. En athugasemdin mín er um aðferðafræðina þína. Þú vitnar í einhverja lista yfir bestu tónlist heimsins, sem skríbentar hinna og þessa tónlistartímaritanna og blaðanna hafa tekið saman. Þetta er svolítið takmarkandi, enda tiltölulega fáir sem standa að baki hverjum lista fyrir sig. Eini "listinn" sem tekinn er saman af öllum þeim sem hlusta yfir höfuð á tónlist, er listinn yfir mest seldu tónlistina. Þar höfum við öll jafnan atkvæðisrétt, og satt að segja finnst mér að ég hafi alveg jafn mikinn rétt á minni skoðun og þú, og að mín tilfinning fyrir tónlist sé alveg jafn "rétt" og þín, hversu ómenningarleg sem ég nú er.

Samkvæmt því er ABBA bara betri en Sex Pistols!

Ágústa (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 12:23

12 identicon

„THE SMITHS„fannst mér bera af á sínum tíma en þeir seldu bara þokkalega.Ekki einu sinni hálfdrættingar á við t.d JULIO IGLESIAS

HÖRÐUR HALLDÓRSSON (IP-tala skráð) 28.10.2008 kl. 12:32

13 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Jens, takk fyrir að vekja athygli á þessu eldfima máli. Það hefur aldrei verið nauðsynlegra en nú að komast að því hvað er nautasteik og hvað hamborgari í tónlist!

Hér er listi yfir þá tónlistarmenn sem eiga flestar plötur af þeim 500 sem Rolling Stones valdi sem bestu plötur sl. áratuga. Ég fann enga Abba plötu þar en listinn er valinn af yfir 250 tónlistarblaðamönnum.

Number of albums from each decade

  • 1950s and earlier – 29 albums (5.8%)
  • 1960s – 126 (25.2%) (with 7 of the top 10)
  • 1970s – 183 (36.6%) (with the other 3 of the top 10)
  • 1980s – 88 (17.6%)
  • 1990s – 61 (12.2%)
  • 2000s – 13 (2.6%)

 En fólk má hlusta á Abba mín vegna svo lengi sem ég þarf ekki að hafa þetta í eyrunum....

Ævar Rafn Kjartansson, 28.10.2008 kl. 13:04

14 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Ætlaði að setja hér inn lista með því sem ég er að fíla af RS listanum en hann hefði orðið langloka. Set inn slóðina á 500 bestu plöturnar hér. Annars kom mér á óvart að sjá þessa á listanum nr. 40. Forever Changes, Love -  hélt að það væri sérviska í mér að fíla hana!

Ævar Rafn Kjartansson, 28.10.2008 kl. 13:16

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

1. Bóndinn Guðmundur Kjögx er góður söngvari en enginn hefur heyrt hann syngja.

2. Einar Melax kemur í fjósið til Guðmundar Kjögx, heyrir hann syngja og býður honum plötusamning.

3. Guðmundur Kjögx syngur inn á plötu í Stúdíói Einars Melax.

4. Allir eru með einhvern tónlistarsmekk.

5. Margir eru með smekk fyrir söng Einars Melax og platan selst vel.

Eða:

1. Bóndinn Guðmundur Kjögx er lélegur söngvari og enginn hefur heyrt hann syngja.

2. Einar Melax kemur í fjósið til Guðmundar Kjögx, heyrir hann syngja og býður honum plötusamning.

3. Guðmundur Kjögx syngur inn á plötu í Stúdíói Einars Melax.

4. Allir eru með einhvern tónlistarsmekk.

5. Margir eru með smekk fyrir söng Guðmundar Kjögx og platan selst vel.

Niðurstaða: Hægt er að vera annað hvort góður eða lélegur söngvari. Hins vegar er hvorki hægt að vera með góðan eða lélegan smekk en hægt er að vera með smekk fyrir lélegum söng. Pönkið gekk til dæmis ekki út á að syngja eða spila vel, heldur voru það skynhrifin sem giltu.

Þorsteinn Briem, 28.10.2008 kl. 13:26

16 Smámynd: Þorsteinn Briem

5. Margir eru með smekk fyrir söng Guðmundar Kjögx og platan selst vel, átti þetta að sjálfsögðu að vera í báðum tilfellum.

Þorsteinn Briem, 28.10.2008 kl. 13:33

17 Smámynd: Guðni Már Henningsson

Þetta með vont eða gott er dálítið vandmeðfarið. Blús og jass voru löngum úthrópuð sem vond tónlist jafnvel tónlist djöfulsins.. Van Gogh þótti versti málari sögunnar þegar hann var að mála...ég held mig við þá skilgreiningu að það sé einungis til leiðinleg eða skemmtileg tónlist...og þá miða ég við minn smekk. þess má geta að Elvis er búinn að selja talsvert meira en milljarð platna og því marki náði hann fyrir mörgum árum síðan...dauður að vísu. Síðan þá hafa komið út fjölmargar plötur með honum sem selst hafa gríðarvel....

Guðni Már Henningsson, 28.10.2008 kl. 13:42

18 Smámynd: Einar Bragi Bragason.

Eru þetta bestu plötur sögunnar? Þær komast aldrei í toppsæti yfir bestu plötur sögunnar þegar slíkir listar eru teknir saman....hverjir skrifa í þessi blöð..........jú tónlistar voanbís eins og þú Jens.....

Afhverju eru síðan til blóð þar sem hljófæraleikarar velja lista en ekki skríbentar,,,,td eins og Down Beat ofl.....

ABBA gerði snilldar músik á snilldar hátt.....og er mun ofar á mínum prívat lista en gömlu hipparnir þínir.....

M.Jackson er líka snilld.....hver einasta plata sem hann hefur gert hefur komið með einhver ný sánd í bransann.

Annars held ég að flestir músikantar myndur skrifa undir að Steely Dan séu kóngarnir....

Hvernig á maður að taka mark á manni sem veit jafn lítið um tónlist og þú......sorrý bara satt...

Vissir ekki einu sinn hver Árni Scheving var (einn af okkar bestu hljóðfæraleikurum ever)þegar hann dó í fyrra.

Þetta er aftur á móti gott viðhorf hjá Guðna Má sem þú ættir að taka þér til fyrirmyndar...

Einar Bragi Bragason., 29.10.2008 kl. 00:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband