Veitingahús - umsögn

Jólahlaðborðhótelsloftleiða 

Staður:  Hótel Loftleiðir

Réttur:  Jólahlaðborð

Verð:  3950 krónur (í hádegi)

Einkunn: ****1/2 (af 5)

  Það er undan fáu að kvarta með jólahlaðborð Hótels Loftleiða.  Forréttir,  aðalréttir og desertar eru fjölbreyttir og úrvalið gott.  Forréttir eru síld af ýmsu tagi,  reyktur lax,  grafinn lax,  heitreyktur lax með piparsósu,  hreindýrapate,  krabbasalat,  rauðspretta í raspi,  heit lifrakæfa með beikoni og sveppum og fjöldi annarra rétta.

  Aðalréttir eru reyktur grís,  hangikjöt,  heit rifjasteik,  kjötbollur,  pylsur og sitthvað fleira.  Í eftirrétt eru Ris a la mande,  ís,  súkkulaðifrauð,  ís,  kökur,  rosalega gott sherrýtriffle og eitt og annað.  Með þessu öllu er fjölbreytt úrval meðlætis;  laufabrauð,  heitar kartöflur í jafningi,  kartöflusalat og svo framvegis.

  Einhver staður,  sem ég man ekki hver er,  auglýsir jólahlaðborð án rauðkáls.  Það er skrítið.  Rauðkál passar vel með hangikjöti.  Ég var ánægður að sjá það á jólahlaðborði Hótels Loftleiða.

  Það eina sem ég sakna á jólahlaðborði Hótels Loftleiða er önd.  Allt annað er eins og best verður á kosið.  Þjónusta góð og umhverfi veislulegt.  Á árum áður þegar ég hef sótt jólahlaðborð Hótels Loftleiða hefur færeysk kona staðið við hlaðborðið og gefið góð ráð um bestu samsetningu á réttum og meðlæti.  Hún var ekki til staðar nú.  En það er svo sem ekki flókið að spila þetta eftir hendinni.

  Ég ætla að fara á jólahlaðborð Hótels Loftleiða í hádeginu á hverjum degi fram að jólum - þegar mér tekst að vakna nógu snemma.  Svo er það glæsilegt sjávarréttahlaðborðið á Sjávarbarnum á kvöldin.  Það kostar aðeins 1300 kall og hefst ekki fyrr en klukkan 18:00.  Þá er ég ætíð vaknaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Ég borðaði einu sinni á Loftleiðum. Hakkaði í mig allan djöfullinn. Jafnvel Rauðvín og bjór sem virtist vera frír! Þegar ég áttaði mig á að staðreyndin væri sú að ég var inn á árshátíð ÍÍS þá forðaði ég mér út blindfullur og saddur!

Siggi Lee Lewis, 14.12.2008 kl. 00:55

2 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm, við sveitalubbarnir viljum hafa helst nýsoðið rauðkál með jólahangikjétinu, baunir, laufabrauð og að sjálfsögðu jafningin, hvítsósuna góðu með kartöflum!

Aldrei annars farið á jólahlaðborð á Loftleiðum, en þó gist þar og borðað við önnur tækifæri, farið á fundi, skákmót og jafnvel...!?

Magnús Geir Guðmundsson, 14.12.2008 kl. 02:56

3 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki ét ég nóg til þess að borga 3950 krónur fyrir máltíð, kannski ef ég væri 2-3 klukkutíma að éta.  En ég efast stórlega að þetta borgi sig fyrir mig, samt er ég enginn horgemlingur. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 14.12.2008 kl. 03:07

4 identicon

Síðasta hálfa stjarnan ætti að koma á kvöldin. Þá færðu öndina þína og romm & rúsínuís, ásamt fleiri sortum af síld.  Á kvöldin er einnig að fá leiðsögnina.

Hvað fleira var var bætt á kvöldin man ég ekki svo gjörla, enda komið ár síðan ég var viðriðinn þetta, og þá aðallega við steikurnar og heita matinn.

Jóhannes H. Proppé (IP-tala skráð) 14.12.2008 kl. 03:55

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er nú ekki gott að vera með öndina í hálsinum. Mæli frekar með héra, nema hann sé falskur. Það er leiðinlegt til lengdar að hlusta á falskan héra.

Þorsteinn Briem, 14.12.2008 kl. 11:29

6 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Já ekki væri verra að skella sér í hlaðborðin og svona til að skerpa minnið þá var það Ida nokkur sem stóð við danska julefrukosten á Loftleiðum í denn.  Sú kona kunni sitt fag.

Eigðu góðan dag Herra Mathákur! 

Ía Jóhannsdóttir, 14.12.2008 kl. 11:49

7 Smámynd: arnar valgeirsson

það er prinsippmál að fara ekki á jólahlaðborð. hjá mér. en verði þér að góðu...

svo sé ég ekki að hægt sé að halda jólahlaðborð án rauðkáls. það er eitthvað feik.

en kreppan er ekki að bíta mjög fast í rassinn á þér jens. þetta er fimmþúsundkall á dag.

ef þú vaknar.

arnar valgeirsson, 14.12.2008 kl. 17:41

8 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  maturinn og vínið hafa greinilega virkað vel.  Það skiptir mestu máli.

  Maggi,  ég sé að þú veist nákvæmlega hvað þarf að vera á borðum til að jólamaturinn sé alvöru veisla.

  Jóna,  fólk gefur sér einmitt í 2 - 3 klukkutíma til að snæða á jólahlaðborði.  Það er regla.

  Jóhannes,  takk fyrir þennan fróðleik. 

  Ingibjörg,  takk fyrir það.

  Arnar,  jólin eru bara einu sinni á ári.  Og vel á annan mánuð þangað til þorramaturinn verður á borðum. 

  Þetta er líka spurning um að eyða ekki peningum í vitleysu.  Sumir borga 8900 kall fyrir jólahlaðborð á Hótel Sögu og taka leigubíl fram og til baka,  fyrir 3000 kall aðra leið.  Drekka rauðvín fyrir 5000 kall með matnum.  Kvöldið er þá komið í 20 þúsund kall.  Ef einhverjum er boðið með er kvöldið komið í 34 þúsund kall.

  Fyrir þann pening fer ég 8 - 9 sinnum á jólahlaðborðið á Hótel Loftleiðum. 

Jens Guð, 14.12.2008 kl. 18:56

9 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Jamm, við þessir sveitó vitum okkar viti!

En þú hefur auðvitað vel efni á þessu, engin utanlandsferð annað árið í röð og svona, nægir eyðslupeningar því til að gera lífið skemmtilegt!

Magnús Geir Guðmundsson, 14.12.2008 kl. 19:46

10 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  ég fór reyndar til Færeyja um páskana og til Bandaríkjanna snemma sumars.  Í fyrra fór ég einnig til Færeyja,  svo og til Danmerkur og Skotlands.

  Þú ert kannski að giska réttilega á að ég fari ekki til útlanda núna um jólin fremur en um síðustu jól.  Þá varð ég að fresta Bandaríkjaför vegna kuldakasts í Vesturheimi.  Núna tími ég ekki að fara til útlanda vegna hruns íslensku krónunnar.

Jens Guð, 14.12.2008 kl. 21:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband