Athyglisverður samanburður á rófustöppum - yfir 100% verðmunur!

þorramatur

  Núna er þorramánuður,  sem svo er kallaður í höfuðið á Þorra,  langafasyni Kára,  þess er ræður vindum.  Á þorra borðar fólk súran hval,  kæstan hákarl,  hrútspunga og annan þjóðlegan veislumat í öll mál.  Einn af mörgum kostum við þorramat er að það þarf ekki að elda hann.  Hann er keyptur tilbúinn úti í búð.

  Rófustappa er ómissandi með þorramat.  Í byrjun þorra keypti ég allar tegundir af rófustöppu sem ég fann:  Frá Íslensku grænmeti,  Kjarnafæði,  Ora og Stjörnusalati.  Það kom mér í opna skjöldu að rófustöppurnar bragðast líkar hver annarri. 

  Þegar betur var að gáð er uppistaðan í öllum rófustöppunum gulrófur (um eða yfir 90%).  Skemmtileg tilviljun.  Í öllum rófustöppunum er einnig sykur,  kartöflur (eða kartöfluduft) og salt. 

  Í rófustöppunni frá Ora er að auki mjólkurduft,  jurtaolía,  bindiefni (E471 og E450) og óskilgreint krydd.

  Í rófustöppunni frá Kjarnafæði er líka sítrónusafi, pipar og sorbat.

  Í samanburðarsmakki eru rófustöppurnar frá Kjarnafæði og Ora bestar.  Það örlar á að hinar séu of sykraðar.  Eina rófustappan sem var búin að skilja sig á öðrum degi eftir opnun umbúða var frá Stjörnusalati.  Hinar voru alveg eins og nýjar daginn eftir.

  Upplýsingar um næringargildi vantar á umbúðir frá Ora.  Upplýsingar um meðhöndlun (kælivara og hvað stappan er lengi neysluhæf eftir að innsigli er rofið) vantar á umbúðir frá Íslensku grænmeti.  

  Vegna þess hvað rófustöppurnar bragðast líkt skiptir verðið á þeim mestu máli.  Þar munar nokkru.  Stöppurnar frá Ora og Kjarnafæði keypti ég í Hagkaupum en hinar í Nóatúni.  Ég ætla að þessar verslanir séu í svipuðum verðflokki.  Hagstæðustu kaup eru í þessari röð:

1.  Kjarnafæði.  350 gr á 224 kr.  Kílóverð 640 kr.

2.  Stjörnusalat.  250 gr á 239 kr.  Kílóverð 956 kr.

3.  Íslenskt grænmeti.  220 gr á 239 kr.  Kílóverð 1086 kr.

4.  Ora.  300 gr á 399 kr.  Kílóverð 1330 kr.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég hélt fyrst, þegar ég sá titil færslunnar, að þú ætlaðir að fara að fjalla um ríkisstjórnarflokkana!

 Kveðja,

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 17:50

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

e450 er fósfat

E471 er hert fita og ætti ekki að vera notuð í matvæli í miklum mæli

er ekki alveg að fatta afhverju ORA notar þetta í vöru sem ætti að vera auðveld í framleiðslu nema þá til þess eins að binda meira vatn í rófurnar og spara þar með hráefni.... 

Annars skemmtilegur lestur á þessum rófustöppusamanburði.

Óskar Þorkelsson, 25.1.2009 kl. 18:25

3 Smámynd: Óskar Þorkelsson

sítrónusafinn hjá Kjarnafæði er til að lengja geymsluþolið í kæli.

Óskar Þorkelsson, 25.1.2009 kl. 18:26

4 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  þessi var góður!

  Óskar,  bestu þakkir fyrir þennan fróðleik.

Jens Guð, 25.1.2009 kl. 19:02

5 identicon

Er það ekki í þessum viðskiptum eins og öllum öðrum sem íslendingar stunda, svindl og svínarí skal það vera !   

JR (IP-tala skráð) 25.1.2009 kl. 20:16

6 Smámynd: Hannes

Það borgar sig oft að kíkja aðeins á verðmiðann áður en maður kaupir. Áhugavert hvernig það er alltaf verið að bæta efnum útí og kalla það svo E þetta og E hitt sem mjög margir kunna ekki að lesa.

Hannes, 25.1.2009 kl. 20:45

7 Smámynd: Ómar Ingi

Spara matinn brensinn er orðin svo dýr

Ómar Ingi, 25.1.2009 kl. 21:00

8 Smámynd: Óskar Þorkelsson

E efni eru ekki af hinu illa.. þetta er bara flokkunarkerfi sem kemur í veg fyrir svindl í matvælum..

Þannig að ef ég flyt inn matvæli frá langtibúrtistan þá er ég viss um að efnin sem gefin eru upp séu rétt.. til þess eru E númer.  þetta er til öryggis fyrir neytendur.

Óskar Þorkelsson, 25.1.2009 kl. 21:03

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Lifir í neðstu lífsins tröppu,
á lifrarpylsu og rófustöppu,
hefur í rassi þrusu þjöppu,
þrífst því vel á sviðalöppu.

Þorsteinn Briem, 25.1.2009 kl. 21:45

10 Smámynd: Jens Guð

  JR,  það er kannski ofmælt varðandi rófustöppurnar.  Rófustappan frá Ora er reyndar of dýr fyrir minn smekk.  Á móti kemur að hún er í glerkrukku.  Glerkrukkan er klárlega dýrari en plastumbúðir hinna framleiðandanna.  Mér dettur í hug að herta fitan sem Ora notar gegni því hlutverki að haldi rófustöppunni þéttri.  Það er að segja að hún skilji sig ekki næstu daga eftir að krukkan er opnuð.

  Hannes,  takk fyrir að hafa ekki móðgast verulega út í mig þegar ég fór yfir strikið í bulli á annarri bloggsíðu.  Ég biðst afsökunar á því. 

  Ómar,  það er rétt að ölið er orðið það dýrt að verðið er farið að koma niður á matnum.

  Óskar,  aftur takk fyrir fróðleikinn.   Það er gott að fá útskýringu á dæminu frá kjötiðnaðarmanni.

  Steini,  takk fyrir stökuna.  - Þó hún sé dálítið skrítin.  En fyndin fyrir því.

Jens Guð, 25.1.2009 kl. 23:28

11 Smámynd: Hannes

Það var ekkert Jens. Þú Last bara hluta kommentana og sást ekki heildarmyndina. Afsökunarbeiðnin er tekin til greina.

Hannes, 25.1.2009 kl. 23:53

12 Smámynd: S. Lúther Gestsson

Talandi um þorramat þá stakk ég hákarlsbita upp í hundinn minn í kvöld, hann hefur ekki horft framan í mig ennþá.

S. Lúther Gestsson, 26.1.2009 kl. 00:39

13 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Namm namm þorramatur góður er.  Ég er svo hagsýn húsmóðir að ég bý til mína eigin rófustöppu

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 26.1.2009 kl. 00:47

14 Smámynd: Hannes

Óskar. Það er gott að vera með svona flokkunarkerfi en fólk þarf að kunna að lesa það og ég kann það ekki og ég veit ekki um neinn sem getur lesið þetta flokkunarkerfi. 

Hannes, 26.1.2009 kl. 00:48

15 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég fékk þorramatinn minn í 10 lítra pláztfötu frá minni frú, sauð sjálfur sauðalærið & rófurnar, átti afgáng af laufabrauði frá því um jól, & fékk eina væna beitu frá Ólafsfirði.  Flatkökur & rúgbrauð bakar mitt konudýr & fær kynlíf í staðinn.  Smér var keypt í KEA-Samkaupum.

ORA hefur lítið framleitt á Íslandi á þezzari öld, grunar því rófustöppuna um að vera jafn Thaílenzk & gulu & grænu baunirnar þeirra.

Steingrímur Helgason, 26.1.2009 kl. 01:12

16 Smámynd: Ásgerður Jóna Flosadóttir

Sæll Jens,  flottur pistill eins og alltaf, en við borðum hrútseistu, ekki hrútspunga. Einhver misskilningur í  gangi hjá þjóðinni . Ég elska hrútseistu ef ég mætti velja þorramat, vel súrsuð.

En þar sem þú ert í Frjálslynda flokknum, að ég held,  þá erum við með þorrablót laugardaginn 7. febrúar n.k. í Skúlatúninu.  Fólk kemur með sinn þorramát og drykkjarföng.  Við bjóðum upp á uppstúf, rófustöppu og hákarl.  Nokkuð gott tilboð ekki satt.  Sjáum við þig ekki örugglega.

Með þorrakveðju,

Ásgerður Jóna Flosadóttir

Ásgerður Jóna Flosadóttir, 26.1.2009 kl. 01:49

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

DAGLEGUR MATSEÐILL í Hlíð í Skíðadal leit svona út:

Kl. 7. Kaffi og kleinur.

Kl. 9. Súrt slátur, hræringur, kaffi og kleinur.

Kl. 12. Sviðakjammar, rófustappa, hræringur, kaffi og kleinur.

Kl. 16. Kaffi og kleinur.

Kl. 19. Sviðasulta, rófustappa, hræringur, kaffi og kleinur.

Kl. 21. Kaffi og kleinur.

Kl. 24. Kaffi og kleinur.

Þorsteinn Briem, 26.1.2009 kl. 05:14

18 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Hannes Adam, ég kann í sjálfu sér ekkert að lesa E númer frekar en þú, en það er auðvelt að nálgast þessar upplýsingar á netinu ef menn vilja.. en þvi miður þá krefst sú lesning stundum smá kunnáttu í efnum sem notuð eru í matvælaiðnaði.

Ég nota þessa síðu mikið.

http://www.food-info.net/uk/index.htm

 hún skýrir sig sjálf, e númer eru þarna einhverstaðar fyrir miðju, hægt að velja þó nokkur tungumál og svo framvegis.

Steingrímur, þetta með ORA niðursuðuverksmiðjuna er rétt.. ég fór einmitt að hugsa þetta um daginn hvort ORA væri enn íslenskt, ég held að þeir séu bara umpökkunarverksmiðja eða bara merkingaverksmiðja.. Engin framleiðsla í raun.

Óskar Þorkelsson, 26.1.2009 kl. 08:29

19 identicon

Mér þykir það mjög skrítið að sjá að Ora er með mjókurduft í rófustöppunni, ekki er nú þörf né venja að hafa slíkt í rófustöppu. Getur hreinlega verið verulega varasamt fyrir einstaklinga með mjólkuróþol/ofnæmi, sem grunlausir skólfa slíkri í sig í þorraboðum eða krakkar í (leik)skólamötuneyti. Mér þykir þetta stórhættulegur leikur hjá Ora og sýna mikið ábyrgðarleysi.

Guðmundur A. (IP-tala skráð) 26.1.2009 kl. 08:43

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

ORA: "Fyrirtækið framleiðir á innlendan og erlendan markað. Mikil áhersla hefur verið lögð á útflutning hin síðari ár og þá helst á hrogna- og fiskafurðum. Í dag er útflutningur orðin mjög stór hluti af rekstrinum og erlendir markaðir fyrirtækisins ekki síður mikilvægir en sá innlendi.

Helstu útflutningslönd Ora eru: Danmörk, Svíþjóð, England, Belgía, Frakkland, Spánn, Ítalía, Þýskaland, Austurríki, Bandaríkin, Pólland, Ástralía og Kína."

Jón Árni Jónsson
, menntaskólakennari á Akureyri: "Bróðir minn á verksmiðju sem heitir ORA, sem þýðir strönd."

Þorsteinn Briem, 26.1.2009 kl. 08:52

21 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður Lúther,  það er einmitt ráðið ef maður vill ekki láta hundinn sinn góna á mann:  Að stinga hákarlsbita upp í kvikindið.

  Jóna Kolbrún,  það eru forréttindi að kunna að búa til rófustöppu.

  Steingrímur,  assgoti er þetta góð verkaskipti hjá þér og frúnni.  Og það sem skiptir mestu:  Að allir séu ánægðir.

Jens Guð, 26.1.2009 kl. 19:05

22 Smámynd: Jens Guð

  Ásgerður Jóna,  það er vissulega réttara að tala um hrútseistu.  Einhverra hluta vegna er þó rík og almenn hefð fyrir því að tala um hrútspunga.  Orðið hrútseistu er ekki í Orðabók Menningarsjóðs né í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar.

  Ég er fæddur og alinn upp í sláturhúsi norður í Skagafirði.  Þar var aldrei talað um hrútseistu.  Hinsvegar var stundum talað um kviðsvið.  Það orð er til í Orðabók Menningarsjóðs.

  Þeir sem framleiða og selja þorramat nota allir orðið hrútspungar.

  Ég er í FF og mæti ef ég verð á landinu.  Ég er á leið að kynna mér skrautskrift í A-Evrópu.  Ég legg sennilega af stað umrædda helgi.

  Steini,  frábærlega er hann broslegur matseðillinn í Hlíð.  Ég sprakk líka úr hlátri við lestur tilvitnunarinnar í Jón Árna Jónsson. 

Jens Guð, 26.1.2009 kl. 19:55

23 Smámynd: Jens Guð

  Guðmundur,  mér datt strax í hug að mjólkurduftið hefði það eina hlutverk að drýgja rófustöppuna með ódýru hráefni.  Ég veit reyndar ekkert hvort mjólkurduft er dýrt eða ódýrt.  Þetta var bara eitthvað sem flaug mér í huga um leið og ég las innihaldslýsinguna.

Jens Guð, 26.1.2009 kl. 19:59

24 Smámynd: Óskar Þorkelsson

Mjólkurduftið er frekar dýrt hráefni , kostar um 800 kr kg

Til eru sterkjur sem gera sama gagn á 250 kall kg.. 

Svo ég segi eins og þið ég skil ekki notkun þess í rófustöppu.. 

Óskar Þorkelsson, 26.1.2009 kl. 20:12

25 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Knús knús í hús og ljúfar góðar kveðjur......

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 26.1.2009 kl. 20:24

26 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  það er snilld að hafa kjötiðnaðarmann í umræðunni. 

  Linda mín,  knús á þig.

Jens Guð, 26.1.2009 kl. 20:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.