Brosleg hlið á bisness

 

mistök14

 

  Fyrir nokkrum árum flutti hingað til lands frá nágrannalandi miðaldra kona.  Indæls kona.  Hún hafði lent í gjaldþroti í heimalandinu og vildi byrja upp á nýtt hérlendis.  Ég vissi aldrei hvað olli gjaldþrotinu.  Aðspurð var eina svarið að hún væri bisnesskona.  Það svar var henni tamt við fleiri spurningum.
.
  Hér fékk hún vinnu. Hún var bisnesskona.  Þess vegna stússaði hún í ýmsu meðfram sinni föstu vinnu.
  Fljótlega eftir komuna til Íslands keypti hún tvö ný reiðhjól og auglýsti reiðhjólaleigu í smáauglýsingum dagblaða.  Var nokkuð drjúg yfir uppátækinu og upplýsti hróðug hvað reiðhjólin yrðu fljót að borga sig upp.  Hún náði magnafslætti á kaupverðinu út á að kaupa tvenn hjól á einu bretti.  Þau voru ekkert dýr.  Kannski 60 -70 þúsund kall til samans.  Frásögn hennar á dæminu endaði alltaf á setningunni:  "Ég er bisnesskona!"  Um leið rétti hún upp þumal til áherslu orða sinnar.
.
  Enginn leigði af henni reiðhjól.  Henni tókst þó að lána vinapari reiðhjólin dagstund án þess að rukka um leigu.  Uppskriftin var sú að vinaparið myndi láta berast út að þetta væru góð hjól og ákjósanleg til leigu.  Hún var ánægð með þetta "sölutrix" og frásögnin endaði á yfirlýsingu um að hún væri bisnesskona.  Þar með lauk sögu reiðhjólaleigunnar.  Ég veit ekki hvað varð um ónotuð reiðhjólin.
.
  Næst tók hún á leigu 3 herbergi á gistiheimili.  Þar voru herbergi leigð út í langtímaleigu án þjónustu.  Mánaðarleiga fyrir herbergið var 25 þúsund kall.  Hún auglýsti herbergi til leigu á 3000 kall nóttina með morgunverði.   Veglegum morgunverði sem hún lagaði.  Henni tókst að leigja tveimur Rússum sitthvort herbergið í viku.  Þá var hún heldur betur sæl og lýsti því daglega yfir að hún væri bisnesskona.  Fleiri viðskiptavini fékk hún ekki en var með herbergin á leigu í 3 eða 4 mánuði.
.
  Því næst hóf konan að mála myndir.  Hún kunni ekki anatómíu (módelteikningu).  Líkamshlutföll voru á skjön við raunveruleikann.  Hún kunni heldur ekki perspektíf (fjarvídd).  Landslagsmyndir voru því nokkuð flatar og myndir af húsum dálítið skakkar. 
  Ég reyndi að kenna henni smá í anatómíu og perspektífi.  Hún tók ekki tilsögn.  Þrætti fyrir þær athugasemdir sem ég gerði við galla í málverkum hennar.  Bar fyrir sig að hún væri náttúrutalent og bisnesskona.
  Hún setti auglýsingar í dagblöð um að hún tæki að sér að mála andlitsmyndir og landslagasmyndir eftir ljósmyndum.  Skráði sig hjá Viðskiptanetinu fyrir 25.000 kall og birgði sig upp af málningastriga,  málningu og hugði á mikil viðskipti.
  Einn viðskiptavinur stakk upp kolli.  Hann vildi fá tvö málverk eftir ljósmyndum.  Konan setti upp 35 þúsund kall fyrir eitt málverk.  Viðskiptavinurinn prúttaði.  Vildi fá magnafslátt.  2 málverk á einu bretti fyrir 60 þúsund.  Konan sagði stolt frá því að hún hafi hafnað prúttinu.  Það væri enginn afsláttur á uppsettum taxta:  35 þúsund kall fyrir málverkið.  Tvö á 70 þúsund.  Frásögn hennar á viðræðunum við viðskiptavininn endaði á setningunni:  "Ég er bisnesskona!"   Hún veifaði þumalputta til að undirstrika hvað hún væri hörð í horn að taka í bisness.  Léti engan komast upp með að prútta við sig.
  Það heyrðist aldrei meira frá þessum eina viðskiptavini.  Ekkert málverk var selt.  Af og til tilkynnti konan um væntanlega málverkasýningu hér og þar í Reykjavík.  Þær tilkynningar enduðu alltaf á setningunni:  "Ég er bisnesskona!" 
  Einhverra hluta vegna varð aldrei nein málverkasýning eftir að sýningarhaldarar höfðu skoðað málverk hennar.
.
  Konan kom á skrautskriftarnámskeið hjá mér.  Hún tók illa kennslu.  Vildi frekar frumsemja eigin skrautskrift.  Meingallaða.  Sagðist vera náttúrutalent og bisnesskona.  Hún auglýsti að hún tæki að sér skrautskriftarverkefni.  Einhverjir kíktu á sýnishorn hjá henni.  En leituðu annað eftir að hafa skoðað sýnishorn.
.
  Þetta eru bara örfá dæmi af mörgum sem konan tók sér fyrir hendur.  Loks flutti hún frá Íslandi tímabundið.  Reyndi þá fyrir sér í öðru landi með sama árangri og hérlendis.  Kom svo aftur til Íslands nokkru síðar til að selja búslóð sína:  Sjónvarp,  hljómflutningstæki,  hillusamstæður,  rúm,  bíl,  örbylgjuofn,  frystikistu,  ísskáp,  ryksugu,  brauðrist,  kaffivél og annað slíkt.  Auglýsti búslóðina til sölu.  Allt seldist upp á einu kvöldi.
  Gallinn var sá að bisnesskonan ruglaði saman danskri krónu og íslenskri.  Seldi allt á einu núlli minna en eðlilegt var.  Ég kom að þegar hún seldi síðasta pakkann:  Vegleg hljómflutningstæki.  Þá bað hún mig um að þýða fyrir sig samtal við ungt par sem sýndi hljómflutningsgræjunum áhuga.  Parið skildi ekki íslenskuna hennar.  Þó hún væri búin að hæla sér af og til fyrir að vera búin að ná fullkomnu valdi á íslensku.  Það var engin ástæða til að gagnrýna þá fullyrðingu þó raunveruleikinn væri annar.
  Hljómflutningstækin samanstóðu af vinylplötuspilara,  kassettutæki, útvarpi, magnara og stórum hátölurum.  Með í pakkanum var afruglari frá Stöð 2.  Konan hélt því fram að afruglarinn væri geislaspilari.  En átti í erfiðleikum með að finna út hvernig geisladiskur væri settur í hann.  Sagðist samt hafa notað geislaspilarann mikið.og skildi hvorki upp né niður í að afruglarinn væri ekki geislaspilari.  Það læddist að henni grunur um að hafa fyrr um kvöldið kannski selt geislaspilarann sem vídeótæki.  En ekki vissi hún hvað hafði orðið um vídeótækið.  Sem hún hafði þó notað mikið.  Ég stakk upp á að hún hafi ef til vill selt vídeótækið sem örbylgjuofn.  Nei,  hún sagðist muna eftir að hafa selt örbylgjuofninn sem örbygljuofn.
 
  Unga parið var næstum því orðið afhuga kaupum á hljómflutningsgræjunum þegar það spurði um ásett verð.  "2500 kall," svaraði bisnesskonan.  Parið hváði og konan endurtók "2500 kall".  Parið skellti sér á hljómflutningsgræjurnar og staðgreiddi.
  Þegar parið gekk út með stór og mikil,  já,  og góð hljómflutningstækin veifaði konan framan í mig afrakstri búslóðasölu dagsins.  Þetta var kannski 15 eða 20 þúsund kall.  "Ég er bisnesskona!" sagði hún hreykin og rétti upp þumalputta.  Síðan flutti hún úr landi.  Síðast þegar ég frétti af henni hafði hún ráðið sig sem enskukennara í Afríku.  Mér varð hugsað til þess að hún þyrfti frekar en flestir aðrir að læra ensku.
 Tungumál eru ekki hennar sterka hlið.
mbl.is Hlutafé FL var fært niður og nafni breytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Þorkelsson

skemmtilega saga :)

Óskar Þorkelsson, 2.5.2009 kl. 08:31

2 identicon

Sjáðu þetta myndband með Eddie Meduza heitnum.        http://www.youtube.com/watch?v=aZtLakQimD4

Það er samsvörun í því við söguna

Kveðja

Leifur

Þorleifur Ásgeirsson (IP-tala skráð) 2.5.2009 kl. 13:50

3 Smámynd: Hlédís

Mér dettur í hug setning höfð eftir landsfrægum sögumanni:" Það verður að laga söguna í hendi sér, svo hún lifi!"

Hlédís, 2.5.2009 kl. 14:20

4 Smámynd: Ómar Ingi

hehehehehe

Ómar Ingi, 2.5.2009 kl. 21:03

5 Smámynd: Jens Guð

  Óskar,  það besta er að sagan er sönn og frekar dregið úr en ýkt.

Jens Guð, 2.5.2009 kl. 21:42

6 Smámynd: Jens Guð

  Þorleifur,  takk fyrir hlekkinn.  Ég kíki á hann á eftir. 

  Sonur þinn þekkir til bisnesskonunnar og getur staðfest að lýsingin er sönn og rétt.

Jens Guð, 2.5.2009 kl. 21:44

7 Smámynd: Jens Guð

  Hlédís,  þessi frásögn er í engu löguð. 

Jens Guð, 2.5.2009 kl. 21:53

8 Smámynd: Jens Guð

  Ómar,  takk fyrir innlitið.

Jens Guð, 2.5.2009 kl. 21:55

9 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Góð saga

Gunnar Th. Gunnarsson, 2.5.2009 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.