Dúndur flott kvikmynd

  Ég hef verið með horn í síðu Skjábíós síðan vesalingar þar á bæ hófu auglýsingaherferð sem afhjúpaði ótrúlega aulaleg viðhorf til sjónvarpsefnis.  Þið kannist við þessar auglýsingar.  Þær hefjast á því að þulur kynnir sjónvarpsdagskrá kvöldsins.  Áður en hann hefur lokið máli sínu er skrúfað fyrir hann og annar þulur boðar að enginn þurfi að horfa á leiðinlegt sjónvarpsefni því hægt sé að finna eitthvað skemmtilegt í skjábíó.

  Það hafa verið nokkrar útgáfur af þessari auglýsingu.  Allar eiga það sameiginlegt að sjónvarpsdagskráin sem þulurinn byrjar að lesa hljómar verulega áhugaverð.  Í fljótu bragði man ég eftir að kynnt er leikin grænlensk kvikmynd,  ísraelsk gamanmynd og norskur heimildarþáttur um dreng í Afríku sem þarf að fara um langan veg til að sækja vatn. 

  Eftir að hafa heyrt flestar auglýsingarnar í þessari syrpu frá Skjábíói er ljóst að höfundur auglýsingaherferðarinnar hefur heimóttalega fordóma gagnvart sjónvarpsefni frá löndum sem við erum ekki vön að sjá kvikmyndir eða sjónvarpsefni frá.  Hann er með öðrum orðum heimskur í upprunalegri merkingu þess orðs.

  Nú hef ég ekki heyrt aulaauglýsinguna í langan tíma.  Þess vegna kíkti ég á Skjábíó.  Þar er fátt um fína drætti,  að venju.  En þeim mun meira af drasli.  Samt fann ég áhugaverða heimildarmynd um tónlistarmanninn Joe Strummer.  Leikstjóri hennar er Julien Temple sem áður hefur gert vel heppnaða heimildarmynd um bresku pönksveitina The Sex Pistols.

  Joe Strummer var söngvari og gítarleikari bresku pönksveitarinnar The Clash.  Þessar tvær hljómsveitir,  The Sex Pistols og The Clash leiddu bresku pönkbyltinguna á síðari hluta áttunda áratugarins.  Mikið gekk á hjá báðum hljómsveitunum og þær störfuðu náið saman.  The Sex Pistols starfaði stutt og sendi aðeins frá sér eina alvöru plötu en The Clash varð ofurgrúppa á heimsmælikvarða.  Þar munaði mestu að hún sló rækilega í gegn í Bandaríkjunum.

  Myndin nær að fanga togstreituna sem það olli Joe Strummer að verða súperstjarna og hljómsveit hans að mörgu leyti það sem pönkhugsjón hans var uppreisn gegn.  Blessað dópið setti einnig sitt mark á hljómsveitina.

  Þetta er löng mynd.  Sléttar tvær klukkustundir (og vel það með pissuhléi og kaupum á poppkorni).  Hún dregur upp sanna mynd af breiskleika Joes og ótal mótsögnum í hans persónu.  En samt rímar þetta allt einhvern veginn saman þegar upp er staðið.  Maður öðlast skilning á þessari að mörgu leyti ringluðu persónu,  sem sagði eitt í dag og annað á morgun.  En var engu að síður trúverðug í einlægni og opinskáum yfirlýsingum.  Mér datt stundum Bubbi Morthens í hug þegar ég horfði á myndina.  Einnig vegna þess að músíksmekkur þeirra lá saman:  Bandarísk þjóðlagamúsík (Woody Guthrie),  bandarískur blús,  jamaískt reggí,  heimspopp (World Music) og pönk.

  Myndin heitir einfaldlega  Joe Strummer.  Ég ætla að fleiri en aðdáendur pönks og The Clash hafi góða skemmtun af að kíkja á myndina.

  Joe Strummer féll frá,  rétt um fimmtugt.  Myndbandið hér að ofan er gert eftir fráfall hans.  Þarna flytur hann Bob Marley slagarann  Redemption Song.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Ekta þú

Ómar Ingi, 8.5.2009 kl. 09:01

2 identicon

Sæll vinur,er með dvd diskinn Viva Joe Strummer (the Clash and beyond). Stórskemtileg heimildar mynd um kappann og viðtöl við pönklið héðan og þaðan, ásamt helling af músík frá Clash, the Mescaleros ofl. Og svo innilega til hamingju með daginn vinurinn og hafðu það sem allra best.

viðar (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 09:18

3 Smámynd: doddý

hæ jens - íranskar gamanmynd hef ég ekki haft færi á að sjá og bíð spennt eftir slíku efnir á ruv. þeir þar á bæ ættu að taka þetta "sýndarefni" til birtingar í stað endur endur endur sýninga á hollívúdd dóti. strummer var og verður alltaf yfirtöffari allra og laaaaaaaaangflottastur. kunningi minn fór á tónleikana og talaði þar við strummer baksviðs en var fullur. félagar hans sögðu honum frá því daginn eftir og hann mundi ekki eftir samtalinu, hvað þá að hafa verið baksviðs. mér finnst þetta jafnsorglegt og partýið sem vinur þinn bauð í og engin kom. kv d

doddý, 8.5.2009 kl. 10:56

4 Smámynd: Einar Sigvaldason

Þarf að sjá þessa mynd, The Clash voru frábærir.

Gæti ekki verið meira sammála þér með þessar auglýsingar hjá SkjáBíó. Þær eru óendalega heimskulegar. Sérstaklega komandi frá fyrirtæki sem sérhæfir sig í lágkúrulegu sjónvarpsefni (sem ég held að sé meiri áhrifavaldur á menningu og lundarfar en margan grunar).

..var ekki ein af þeim eitthvað með aldrað fólk sem var afar ósmekklega gefið í skyn að væri nú ekki cool í dag... ég er samt kannski að rugla saman við aðra auglýsingu...

Einar Sigvaldason, 8.5.2009 kl. 11:38

5 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Góð áminning hjá þér gamli, tek heilshugar undir með þér og öðrum, óþolandi snobb fyrir engilsaxneskri lágmenningu, en svona telja menn bara að eigi að bera sig að í í samkeppninni á markaðnum. Margt breskt efni reyndar mjög gott, sem þessi mynd er einmitt dæmi um, en að einblínt sé á "Hollívúddfabrikuna" meira og minna sem "hið góða", er ljóta dellan!

Magnús Geir Guðmundsson, 8.5.2009 kl. 14:20

6 Smámynd: Linda Linnet Hilmarsdóttir

Innlitskvitt og ljúfar kveðjur

Linda Linnet Hilmarsdóttir, 8.5.2009 kl. 20:47

7 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Ingi,  ég vissi ekki að það væri neitt ekta við mig.  Bara gervi eitthvað.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 23:42

8 Smámynd: Jens Guð

  Viðar,  takk fyrir afmæliskveðjuna.   Viva Joe Strummer  er önnur mynd en sú sem hægt er að sjá í Skjábíói.  Ég hef ekki séð  Viva Joe Strummer  en skilst að hún sé meira eins og hrár klukkutímalangur sjónvarpsþáttur heldur en mikið unnin löng kvikmynd.  En áreiðanlega áhugaverð.  Jói var ansi merkilegur náungi ekki síður en flottur tónlistarmaður.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 23:54

9 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  ég vissi að strákarnir í The Clash héldu til í Laugardalshöllinni ásamt nokkrum Íslendingum alla nóttina eftir hljómleikana.  Gott ef fylgdi ekki sögunni að hópurinn hafi leikið sér í fótbolta er leið að morgni.  Ég hitti liðsmenn The Clash ekki en nokkrum vikum fyrir hljómleikana gerði nokkurra þátta syrpu fyrir ríkisútvarpið um The Clash og pönkið.

  1983 eða ´84 sögðu bresku poppblöðin frá sólósmáskífu sem trommari The Clash,  Topper Headon,  var að senda frá sér.  Lagið á A-hlið hét  Reykjavík.  Um svipað leyti ruglaðist Topper og var tekinn úr umferð.  Ég man ekki hvort hann var settur á geðveikrahæli eða í afeitrun vegna heróínfíknar.  Eða hvorutveggja.  Mig minnir að hann hafi einnig lent í fangelsi.  En smáskífan kom aldrei út. 

  Einhver sagði mér löngu síðar að í laginu  Reykjavík  hafi Topper sungið um íslenska stelpu sem hann hitti eftir hljómleikana í Laugardalshöll.  Ég man ekki hver sagði mér þetta né hvernig sá vissi þetta. 

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:08

10 Smámynd: Jens Guð

  Doddý,  ég minnist þess ekki að hafa séð íranska kvikmynd af neinu tagi.  En mér þykir gaman að sjá kvikmyndir frá framandi löndum.  Ég sæki í myndir frá löndum sem maður sér að öllu jöfnu lítið um sjónvarpsefni eða kvikmyndir frá.  Ég man eftir rosalega öflugri mynd frá Kóreu.  Hún fjallaði um mann sem var til fjölda ára læstur inni í herbergi.  Hann vissi ekki hver hélt honum föngnum.  Loks var honum sleppt og þá tók við óvænt og mergjuð framvinda.

  Joe Strummer var merkilegur náungi.  Ég hef lesið ótal bækur um The Clash og pönkið,  fylgdist jafnframt mjög vel með pönkinu beint í æð.  Joe var sá pönkari sem auðveldast var að hrífast að bæði sem persónu ekki síður en tónlistarmanni.  Þó hann væri uppreisnarmaður,  kjaftfor og stundum ruddalegur var hann einnig viðkvæmur.  Forðaði sér stundum fremur en takast á við erfiðar aðstæður.  Var reyndar eirðarlaus og sótti í lífsstíl flækingsins.  Kannski að hluta vegna þess hvað hann var heillaður af Woody Guthrie sem var þessi ekta bandaríski farandsöngvari.  Flæktist um og festi hvergi rætur.  

  Einnig hef ég séð margar óhemju flottar kínverskar myndir.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:30

11 Smámynd: Jens Guð

  Einar,  þú ert að vitna til auglýsingarinnar þar sem sagt er frá Ólympíuleikum aldraðra.  Áhugaverð hugmynd en ber höfundi auglýsingarinnar dapurlegt vitni í þessu samhengi.

  The Clash var stórmerkileg hljómsveit.  Hún bar viðurnefnið "eina bandið sem skiptir máli" (the only band that matter).  Meira um það síðar.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:40

12 Smámynd: Jens Guð

  Maggi,  það hafa svo sem verið gerðar margar góðar kvikmyndir í Bandaríkjunum,  Bretlandi,  Ástralíu og öðrum enskumælandi löndum.  En það ber einkenni andlegrar fátæktar þegar menn fara í baklás gagnvart kvikmyndum og sjónvarpsefni frá öðrum menningarsvæðum.  Agulýsingaherferð Skjábíós er því fyrirtæki til skammar.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:47

13 Smámynd: Jens Guð

  Auglýsingaherferð átti að standa þarna.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:48

14 Smámynd: Jens Guð

  Linda kæra,  knús á þig.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:49

15 identicon

Sæll

Ekki gleyma franska ljósmyndaranum sem kom til að taka myndir hér á landi, mig daðlangaði að sjá þá myndi

Kv. Arnar

Arnar (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 21:22

16 Smámynd: Jens Guð


  Arnar,  ég man ekkert eftir þessum franska ljósmyndara. Rámar hinsvegar í breska ljósmyndara sem voru ekki í uppáhaldi hjá liðsmönnum The Clash.

Jens Guð, 13.5.2009 kl. 23:24

17 Smámynd: Jens Guð

  Helgi,  ég met að óreyndu meiri akk í að kynnast Mickey Dread en liðsmönnum The Clash, að frátöldum Joe Strummer.

Jens Guð, 13.5.2009 kl. 23:39

18 Smámynd: doddý

meira óstuðið að missa af þessum tónleikum. kv d

doddý, 14.5.2009 kl. 17:40

19 Smámynd: Jens Guð

  Doddý,  þú mátt naga þig í handarkrikann fyrir að missa af hljómleikum The Clash 1980 í Laugardalshöll.  Ég held að þetta hafi verið flottustu hljómleikar sem ég hef upplifað.  Ekki alls fyrir löngu las ég í Morgunblaðinu fullyrðingu þess efnis að hljóðfæraleikur liðsmanna hafi verið góður að undanskildum bassanum.  Þar er ég ósammála.  Að vísu var bassaleikurinn reikull í fyrstu lögum The Clash.  En þeim mun betri og flottari er á leið.  Hæstu hæðum náði bassaleikurinn í  "London Calling".  Eftir hljómleikana var Rúnar Erlingsson,  bassaleikari Utangarðsmanna,  mér sammála um að bassaleikurinn hjá The Clash hafi verið toppur kvöldsins.

Jens Guð, 15.5.2009 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.