5.12.2009 | 04:19
Smásaga um rjúpu
Jón A. og Jón Ó. eru systrasynir. Nýverið sammæltust þeir um að vera áfram systrasynir næstu ár. Jafnvel lengur ef vel gengur. Jón A. er ómerkilegur þjófur og lygari. Jón Ó. er merkilegur þjófur og lygari. Hann er hér með úr sögunni. Jón A. er hinsvegar á heimleið. Fyrst kemur hann við í Nóatúni. Þar skokkar hann léttur á fæti - þrátt fyrir að vera 190 kíló - berfættur að kjötborðinu. Á skokkinu reynir hann að láta hné ná hæstum hæðum. Það er til að ná góðri teygjuæfingu á lærivöðvum.
Jón A. dregur ekki erindið. Hann vindur sér umsvifalaust að afgreiðslumanninum svo snöggt að þeir hrökkva báðir í kút. Jón A. spyr hvort til séu ófrosnar rjúpur. Afgreiðslumaðurinn biður Jón A. um að troðast ekki fram fyrir 10 manna röðina. En bendir honum á að flestar rjúpur landsins séu ófrosnar. Það sé góð tíð og rjúpan haldi á sér hita með því að fljúga um fjöll.
Jón A. spyr hvort ófrosnar rjúpur séu til sölu í búðinni. Afgreiðslumaðurinn segir svo ekki vera. Aftur á móti sé gott tilboðsverð á kjúklingum. Við það "snappar" Jón A. Hann missir stjórn á skapi sínu og öskrar: "Ertu klikkaður? Hvernig heldur þú að það komi út að hafa talið konunni trú um að ég sé búinn að vera á rjúpnaskytteríi alla helgina og segist svo hafa bara skotið hænur?"
Jón A. bíður ekki svars. Hann skokkar léttfættur út úr búðinni. Er reiðari sem aldrei fyrr. Utan við búðina spilar útlendingur á harmóniku. Jón A. hendir fjórum 5 þúsund köllum í kassa fyrir framan harmónikuleikarann. Í þann mund sem Jón A. klifrar upp í jeppann sinn fær hann bakþanka. Hann sér eftir að hafa gefið harmónikuleikaranum svona mikinn pening og snýr við. Hann fiskar 100 kall upp úr kassa harmónikuleikarans og hleypur með peninginn að jeppanum.
Kominn inn í jeppann er Jón A. svo reiður að hann grípur riffilinn og ákveður að fara aftur inn í búðina og skjóta afgreiðslumanninn. Í sama mund áttar hann sig á að hann er ekki í Bandaríkjunum. Við það bráir af honum og hann leggur riffilinn varlega frá sér í farþegasætið. Svo heldur hann áfram för heim á leið. Áður en hann veit af er hann farinn að blístra sónötu fyrir píanó og selló eftir Chopin. Jón A. er svo laglaus að hann þekkir ekki lagið.
Konan tekur fagnandi á móti Jóni A. "Hvernig gekk?" spyr hún glaðlega. Jón viðurkennir skömmustulegur að illa hafi gengið. Sem aldrei þessu vant er satt. En bætir við að hann hafi gengið á 7 fjöll áður en hann fann rjúpur. Þegar hann ætlaði að skjóta þær kom ekkert skot úr rifflinum. Þá uppgötvaði hann að þetta var felgulykill sem hann var með í höndunum en ekki riffill. Það var ekki um annað að ræða en ganga aftur yfir 7 fjöll og skipta á felgulyklinum og rifflinum. Og ganga síðan aftur til baka yfir 7 fjöll. Þegar þangað kom voru rjúpurnar horfnar. "Einhver kom að í millitíðinni og stal rjúpunum," fullyrðir Jón A. og vonast eftir samúð.
Sú von verður að engu þegar konan segir ávítandi: "Ég verð að refsa þér fyrir þetta klúður. Héðan í frá færð þú ekki að hafa vasa á þínum fötum." Hún fer rakleiðis í fataskáp Jóns A. og klippir alla vasa af fötum hans. Því næst rekur hún Jón A. úr buxum, jakka og skyrtu og klippir vasana af þeim.
Með fötin í fanginu fer konan að gráta. "Það er alltaf sama sagan með þig," segir hún hágrátandi. "Þú gerir ekki annað en hlaða á mig verkefnum. Nú þarf ég að sauma fyrir götin eftir vasana á öllum þínum fötum. Af því að ég er bara húsmóðir leyfir þú þér að koma svona fram við mig. Þetta er óþolandi." Hún grætur með fólskuhljóðum.
Jón A. veit í fyrstu ekki hvað hann á að gera. Þetta er vandræðalegt. Hann skokkar léttfættur að heimabíóinu, stingur myndinni "Blossa" í DVD spilarann og setur hana af stað. Þegar myndin hefst segir Jón A. með ákveðni í röddinni: "Nú hefur þú ástæðu til að gráta. Og láttu það eftir þér. Þó ekki sé nema vegna þess hvað myndin er illa gerð."
-------------------------
Fleiri smásögur:
www.jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/978349
Meginflokkur: Bækur | Aukaflokkar: Matur og drykkur, Menning og listir, Spaugilegt | Breytt 20.1.2010 kl. 20:29 | Facebook
Athugasemdir
Af hverju finnast alltaf rjúpnaskyttum rjúpur rosalega góðar?
Siggi Lee Lewis, 5.12.2009 kl. 04:31
Siggi Lee, eru rjúpnaskyttur eitthvað fyrir að borða rjúpur? Ég held ekki. Þetta hefur meira að gera með nestið (bjórinn).
Jens Guð, 5.12.2009 kl. 05:01
Hver einasta setning í thessari smásögu kom mér á óvart.
Gjagg (IP-tala skráð) 5.12.2009 kl. 05:31
Skemmtileg saga. Ef ég væri maðurinn þá myndi ég losa mið við helvítis kellinguna.
Hannes, 5.12.2009 kl. 12:04
Gjagg, takk fyrir það. Gaman að heyra þetta.
Jens Guð, 6.12.2009 kl. 00:49
Hannes, einhver verður að sjá um heimilið.
Jens Guð, 6.12.2009 kl. 00:50
Jens það er miklu ódýrara að ráða kellingu til að þrífa en að vera sér úti um eiginkonu til þess.
Hannes, 6.12.2009 kl. 02:22
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.