Umsögn um jólahlaðborð

jolahla_bor.jpg

 

  - Staður:  Restaurant Reykjavík

  - Verð á jólahlaðborði:  4900 kr.

  - Einkunn: ***1/2 (af 5)

  Við áttum bókað borð. Sem betur fer.  Það var fullsetið á öðrum borðum.  Okkur var vísað upp á aðra hæð.  Þar eru margir salir eða herbergi.  Á borð var strax borið niðurskorið hvítt hveitibrauð,  smjör og vatni hellt í glös.  Jafnframt var tekið við pöntunum á áfengum drykkjum.  Þjónar voru flestir útlendingar.  Sem er bara í góðu lagi.  Þeir kunnu ensku.

  Eftir að hafa borðað vel af brauði með smjöri og þambað vatn komst ókyrrð á hópinn.  Þá fór fólk að leita uppi jólahlaðborð. Innan skamms fannst það í einu herbergi.  Úrval var gott og fjölbreytt.  Illilega vantaði merkingar við hvað er hvað.  Auglýstir höfðu verið síldarréttir.  Kannski voru þeir þarna en við fundum þá ekki.  En af nógu öðru var að taka.  Hinsvegar var ekki gott að átta sig á hvað var hvað.  Með lagni mátti þekkja lúðupaté,  rækjupaté,  villibráðapaté,  gæsalifrarpaté... Margt annað var ráðgáta.  Gott úrval var af fiskiréttum en ómögulegt að ráða í hvaða fiskar þetta voru.  Ennþá síður hvaða köld sósa passaði við hvaða fisk.

  Ég held að ég hafi rambað á grafið hrefnukjöt,  saltaða nautstungu...  Ekki lá ljóst fyrir fyrr en smakkað var á hvað var grafinn lax og hvað var reyktur lax.  Hangikjötið var gott.  Virkilega gott.  Með þetta var rölt inni í borðsal.  Nokkru síðar uppgötvuðu einhverjir að í öðru herbergi mátti finna finna heita rétti:  Kalkún,  rifjasteik og lambalæri.  Lambalærið var blóðsteikt (hefði mátt fá 5 mínútur til viðbótar) en kalkúnninn var virkilega góður.  Þar var líka að finna - en nokkuð seint - heitar kartöflur og uppstúf.  Þá á ég við að hangikjötið var í herberginu með köldu réttunum. Þrjár heitar sósur voru í boði en engar upplýsingar um mun á þeim.  Einnig gratíneraðar kartöflur og sitthvað fleira.

  Sömuleiðis ris a la mande,  brúntertu með rjóma og fleiri eftirréttir.  Maturinn var allur góður en leiðsögn vantaði.  

  Verst var að síendurspiluð var plata með leiðinlegum enskum jólasöngvaklisjum.  Leiðinlegum lögum sem mátti umbera í einni spilun en varð óþolandi í 3ju endurspilun. 

  Til að hífa jólahlaðborð Kaffi Reykjavík upp úr ***1/2 stjörnu í 5 þarf aðeins að kippa eftirfarandi í lag:  Leiðbeina gestum um hlaðborðið,  merkja réttina og spila hátíðlegri og fjölbreyttari jólalög en enskar jólapoppklisjur.  Eðal væri til að mynda að heyra jólaplötu Hauks Morthens og "Hvít er borg og bær" með jólalögum Ingibjargar Þorbergs.  Og helst með umslaginu sem ég teiknaði fyrir Lp-útgáfuna.  Það umvaf músíkina þeim hátíðlega blæ sem þurfti.   Núna er umslagið komið í vemmilega og poppaða geisladisksútfærslu sem dregur músíkina niður á lægra plan.  Skamm,  skamm.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ég er hissa að þetta hlaðborð sem var svona illa kynnt hafi fengið 3 og hálfa stjörnu í einkunn.  Mér finnst að þjónustan hafi verið verulega slæm.  Flestir vilja vita hvað er á boðstólnum áður en hlaðið er á diskana. 

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 7.12.2009 kl. 03:03

2 Smámynd: Jens Guð

  Jóna Kolbrún,  góður matur bjargaði þessu í horn.  Sérstaklega hangikjötið og kalkúnninn.

Jens Guð, 7.12.2009 kl. 03:30

3 Smámynd: Kári Harðarson

Er þetta ekki smekksatriði með merkingarnar?  Ef þeir hefðu merkt alla réttina, myndi þá ekki einhver kvarta yfir því að þetta væri alltof stofnanalegt og ekki nógu jólalegt?  Þekkja ekki allir velflesta réttina í sjón?  Verðmerkingar í verslunum eru annað mál...

Það er leiðinlegt að sitja undir illa valinni tónlist.  Ég hef oft tekið eftir því að mikið er lagt upp úr innréttingum, en ekki tónlistinni.  Stundum er hávaði í kælivélum sem eyðileggur stemninguna.

Það virðist vera séríslensk árátta að halda að tónlist verði að vera til staðar öllum stundum þótt ekkert sé til hennar vandað.

Kári Harðarson, 7.12.2009 kl. 13:08

4 Smámynd: Jens Guð

  Kári,  hugsanlega er smekksatriði hvort merkja eigi rétti á hlaðborðum.  Flestir staðir sem bjóða upp á mikið úrval merkja rettina.  Ef maður hefur fyrir framan sig 3 heitar brúnar sósur (eins á Restaurant Reykjavík) og veit ekki mun á þeim er, jú, hægt að fá sér sitt lítið af hverri,  fara síðan að borði sínu,  smakka hver er best,  fá sér þá nýjan disk og fylla hann af bestu sósunni. 

  Þetta er lítið mál þegar lítið er af fólki.  En töluvert mál á háannatíma þegar biðraðir eru við hvern rétt.  Gangar eru jafnframt þröngir þarna á efri hæð Vesturgötu 2 þannig að það myndast troðningur.  Mun þægilegra er fyrir viðskiptavininn að lesa á litla miða þar sem stendur: Koníakssósa; villisveppasósa;  rauðvínssósa.

  Eins er það þegar staðið er fyrir framan 6 - 7 kalda fiskrétti sem líta svipað út.  Eflaust var um sitthverja fisktegund að ræða.  Eða hvað?  Maður spyr sig.

  Jafnframt þegar staðið er fyrir framan margar tegundir af paté.  Það er hjálp í að vita hvað er hvað.  Sumir hafa ofnæmi fyrir tilteknum hráefnum.  Aðrir hafa ekki beinlínis ofnæmi en fá þó óþægindi af einstaka hráefni.

  Það er engin ástæða til að merkja laufabrauð eða súkkulaðitertu.  En það hjálpar mikið að merkja rétti sem eru ekki auðþekktir.   

Jens Guð, 7.12.2009 kl. 17:53

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Þetta er óvenju slappt jólahlaðborð.

Sigurður Þórðarson, 7.12.2009 kl. 21:36

6 Smámynd: fingurbjorg

Já þetta var alveg frábært jólahlaðborð hjá þeim, vel útilátið og mikið úrval en réttirnir hefðu sko sannarlega átt að vera merktir, erfitt að njóta einhvers sem maður veit ekkert hvað er, eins og ég, matvandi ofnæmisbjáninn. En mikið svakalega var maturinn góður.

fingurbjorg, 8.12.2009 kl. 00:09

7 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  jólahlaðborðið er gott sem slíkt.  Það er að segja maturinn.  Það eru aðrir hlutir í ólagi sem þó er auðvelt að kippa í lag.  Ef vilji er fyrir hendi að segja.

Jens Guð, 8.12.2009 kl. 02:50

8 Smámynd: Jens Guð

  Fingurbjörg,  takk fyrir síðast.  Ég kvitta algjörlega undir þessa lýsingu þína.  Og bæti því við að hópurinn var skemmtilegur. 

Jens Guð, 8.12.2009 kl. 02:54

9 identicon

 Hvad tók átid langan tíma?  Ég hef mikla ánaegju af thví ad borda hangikjöt.  Thad merkilega er, er ad ég get bordad 2var sinnum meira magn af hangikjöti en af öllum ödrum mat.  Heitur bringukollur er í uppáhaldi.

Hangikjöt, kartöflur og uppstúfur...nammi namm.

Gjagg (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 04:27

10 Smámynd: Jens Guð

  Gjagg,  ég tók ekki tímann.  Við voru 6 félagar í  Hljómplötuklúbbnum íslensk tónlist  sem fórum saman.  Við vorum ekkert að flýta okkur vegna þess að það þurfti að spjalla margt og mikið um vinylplötur og músík.

  Ég giska á að við höfum sest að borði kannski um klukkan hálf átta eða átta.  Það leið töluverður tími þangað til við fórum í sjálft hlaðborðið.  Kannski hálftími eða hátt í klukkutími.  Tíminn líður hratt í skemmtilegum félagsskap.  Allir fóru tvær ferðir í hlaðborðið í það minnsta.  Fyrst í forrétti og hangikjöt.  Síðan í heitu réttina.  Sumir fengu sér einnig eftirrétt.  Enginn var að flýta sér.  Mig grunar að klukkan hafi verið langt gengin í 11 þegar við yfirgáfum Kaffi Reykjavik.

  Hangikjöt er gott.  Einkum þetta tvíreykta.  Ég man ekki hvort það er hangikjötið sem kallast Húskarla hangilæri.  

Jens Guð, 8.12.2009 kl. 06:25

11 identicon

Ég er með tvær veigamiklar spurningar: Er meðfylgjandi mynd frá viðkomandi jólahlaðborði á Kaffi Reykjavík? Hvað kostuðu svo ósköpin?

Kristinn Pálsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 13:21

12 Smámynd: Jens Guð

  Kristinn,  meðfylgjandi mynd er ekki frá jólahlaðborðinu á Kaffi Reykjavík.  Þetta er útlend mynd af jólahlaðborði.  Jólahlaðborðið á Kaffi Reykjavík kostar 4900 kall (1000 króna verðlækkun frá í fyrra).

Jens Guð, 8.12.2009 kl. 14:29

13 identicon

Þá veit maður það. Ég er mjög sáttur með að þetta sé mynd frá útlöndum enda ekki mjög áhugaverð matföng. Sjálfur er ég á leiðinni með vinahóp á þetta téða jólahlaðborð á Kaffi Reykjavík.

Kristinn Pálsson (IP-tala skráð) 8.12.2009 kl. 15:25

14 Smámynd: Jens Guð

  Kristinn,  ég ráðlegg ykkur að panta borð fyrirfram.  Allavega ef þið farið um helgi.  Svo er gott að vita að heitan mat og eftirrétti er að finna í einu herbergi annarsvegar og hinsvegar kaldan mat og forrétti í öðru.  Einkum er áríðandi að vita að hangikjötið er með kalda matnum en kartöflur í uppstúf í hinu herberginu.  Hópurinn sem ég fór með klikkaði á þessu.  Vissi ekki af kartöflum í uppstúf fyrr en eftir að hangikjötið hafði verið snætt með köldu kartöflusalati.

Jens Guð, 8.12.2009 kl. 21:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.