30.12.2009 | 11:43
Rokkveisla ársins
Nú verður í annað sinn haldin á Íslandi undankeppni fyrir alþjóðlegu hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle. Wacken er nafnið á smábæ í Norður-Þýskalandi sem á hverju sumri umturnast í einn allsherjar risa þungarokksbæ þegar Wacken : Open : Air hátíðin er haldin. Fyrstu helgina í ágúst þjarka þar inn fyrir bæjarmörkin 80.000 gestir hvaðanæva úr heiminum til að hlusta á kanónur þungarokksins spila. Hefur þessi hátíð verið haldin sleitulaust síðan 1991 og verður því 2010 hátíðin sú 21. í röðinni en Wacken er af mörgum talin Mekka allra þunga-rokkshátíða.
Á síðustu árum hafa skipuleggjendur hátíðarinnar gefið fjöldanum öllum af ungum og efnilegum hljómsveitum tækifæri til að koma og spila á þessari hátíð. Í því skyni settu þeir á laggirnar hljómsveitakeppnina Wacken Metal Battle árið 2004. Sigursveit keppninnar hlýtur m.a. að launum alþjóðlegan hljómplötusamning, fullt af græjum og hljóðfærum og auðvitað heiðurinn af því að spila að ári fyrir mörg þúsund manns á mun betri stað í prógramminu á Wacken. Þeim er auk þess boðið að spila á hinum ýmsum undankeppnum næstu Metal Battle keppni út um allan heim!
Í ár munu 26 þjóðir halda undankeppnir í sínu landi. Sigursveit hvers lands fyrir sig fær þátttökurétt í lokakeppninni sjálfri á Wacken hátíðinni í ágúst.
Fyrirkomulag keppninnar - erlend aðkoma
Hljómsveitir senda inn umsókn um að fá að vera með, og fer sérstök nefnd yfir umsóknirnar og velur 6 sveitir til að taka þátt í keppninni. Einungis eitt kvöld verður haldið, ólíkt öðrum hljómsveitakeppnum sem farið hafa fram hér á landi. Í keppninni sjálfri mun dómnefnd sjá um að velja sigurvegara. Erlendir aðilar sitja í henni ásamt Íslendingum. Meðal þeirra sem koma er blaðamaður frá einu stærsta metal-tímariti Evrópu, Aardschok magazine. Hann er einnig með sitt eigið bókunar- og umboðsskrifstofufyrirtæki, sem sér um að bóka tónleika fyrir fjöldann allan af hljómsveitum sem eiga leið um Benelux löndin á tónleikaferðalögum sínum og skipulagningu eins stærsta metalfestivals Hollands, Eindhoven Metal Meeting. Frá sama fyrirtæki kemur líka annar aðili sem er burðarás hjá fyrirtækinu.Sannarlega kanónur hér á ferð og það er því ekki annað hægt að segja en að vera þessa manns hér er mikill fengur fyrir þær sveitir sem þær eiga eftir að berja augum. Möguleikar sveitanna til að láta á sér kræla á einum stærsta markaði þungarokks í heiminum, Evrópu, munu ekki gera neitt annað en að aukast.
Wacken Open Air Hópferð Íslendinga
Wacken er stórglæsileg hátíð, þar sem aðbúnaður, aðstaða, öryggi, almenn framkvæmd og utanumhald er til fyrirmyndar. Það kom því ekki á óvart að hátíðin hlaut Live Entertainment Awards verðlaunin í flokknum Festival of the Year í Þýskalandi 2008. Slíkt er sérlega eftirtektarvert í ljósi þess að um 500 tónlistarhátíðir eru haldnar í landinu á ári hverju. Það hefur verið uppselt á þessa hátíð síðan 2006 og fyrir síðustu hátíð var svo komið að það var þegar orðið uppselt á hana heilum 7 mánuðum áður en hátíðin er haldin.Síðan 2004 hefur hópur Íslendinga fjölmennt á þessa hátíð í sérstakri hópferð sem danska fyrirtækið Livescenen stendur fyrir með sérstakri milligöngu Restingmind Concerts á Íslandi. Slíkt er að sjálfsögðu einnig tilfellið fyrir 2010 hátíðina og ættu áhugasamir einmitt að setja sig í samband við Restingmind ef þeir vilja skella sér með.
Verðlaun keppninnar
Sveitin sem stendur uppi sem sigurvegari Metal Battle á Wacken hlýtur eftirfarandi:
* Fyrstu verðlaun: Hljómplötusamningur við Wacken Records sem gildir fyrir allan heiminn. Samið verður við sigursveitina sérstaklega um ákvæði samningsins.
* Eins árs stuðningssamning (endorsement) við Washburn gítarframleiðandann og Eden bassamagnararisann. Sveitin hlýtur að auki tvo gítara, Eden 2x440W bassamagnarahaus og tvö 4x10 bassabox. Hún hlýtur einnig Mapex Meridian Maple Go-Large trommusett, eitt stk Marshall JVM 210 H gítarmagnara og 5 stk symbala frá Paiste.
Sveitirnar sem vinna sína undankeppni og fara á Wacken hljóta einnig eftirfarandi:* 1 stk Black Panther 14" x 5.5" sneriltrommu frá Mapex og sérstakan "Friends of Washburn" samning og "Friends of Eden" samning. Þessir samningar gera sveitunum kleift að kaupa Washburn og Eden græjur á alveg sérstökum kjörum í eitt ár.
* Íslenska sveitin fær að ferðast frítt með hópferð Íslendinganna frá Kaupmannahöfn og beint á Wacken í boði Livescenen.
Umsóknarfrestur og skráning
Þær sveitir sem hafa áhuga á að taka þátt í þessu skrá sig með því að senda kynningarpakka á Restingmind Concerts. Þær samþykkja um leið reglur keppninnar sem má finna á www.metal-battle.com. Hægt er að skrá sig á tvo vegu:
1) Með því að senda:
* CD með a.m.k. 3-4 lögum
* Mynd af sveitinni
* Upplýsingar um sveitina (bio)
* Contact info
á póstfangið:
WOA Metal Battle Ísland
c/o Þorsteinn Kolbeinsson
Rafstöðvarvegur 33
110 Reykjavík
 2) Skráning á netinu: Sveitir senda epk (electronic press kit) í gegnum vefsvæðið sonicbids.com. Nánari upplýsingar um þetta í netfanginu hér að neðan.
Umsóknarfrestur er til 20. janúar með innsendingaraðferð 1), en 8. janúar með 2). Athugið að ekki komast allar sveitir að sem senda inn umsóknir, þannig að það borgar sig að vanda sig við gerð umsóknanna.
Stærsti þungarokksviðburður ársins
Það er líklega ekki vanmat að segja að þessi viðburður sé einn stærsti þungarokksviðburður ársins (sem ekki inniheldur erlenda artista), ef ekki sá stærsti. Það er ekki á hverjum degi sem íslenskar þungarokkssveitir munu koma fram á Wacken Open Air, eins og verður einmitt afleiðing þessarar keppni.
Keppnin mun fara fram á Sódóma Reykjavík, laugardaginn 13. mars 2010.Meginflokkur: Tónlist | Aukaflokkar: Lífstíll, Menning og listir, Spil og leikir | Breytt s.d. kl. 11:53 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.