Færsluflokkur: Matur og drykkur

Afi og flugur

  Börnum er hollt að alast upp í góðum samskiptum við afa sinn og ömmu.  Rannsóknir staðfesta það.  Ég og mín fimm systkini vorum svo heppin að alast upp við afa á heimilinu.  Hann var skemmtilegur.  Reyndar oftar án þess að ætla sér það. 

  Afi hafði til siðs að vera með hálffullt vatnsglas á náttborðinu.  Ofan á glasinu hafði hann pappírsblað til að verja það ryki.  Stríðin yngsta systir mín tók upp á því að lauma flugu ofan í glasið.  Ekki daglega.  Bara af og til. 

  Þetta vakti undrun afa.  Honum þótti einkennilegt að flugan sækti í vatnið.  Ennþá furðulegra þótti honum að hún kæmist undir pappírsblaðið.  Afi sagði hverjum sem heyra vildi frá uppátæki flugunnar.  Allir undruðust þetta jafn mikið og afi.  

  Aldrei varð afi eins furðu lostinn og þegar könguló var komin í glasið.   


Ósætti út af kjúklingavængjum

  Ofbeldi tíðkast víðar en í bandarískum skemmtiþáttaseríum.  Stundum þarf ekki mikið til.  Jafnvel að gripið sé til skotvopna þegar fólki mislíkar eitthvað.  Það hefur meira að segja hent á okkar annars friðsæla Íslandi;  þar sem flestir sýna flestum takmarkalausa ást og kærleika. 

  Í Vínlandinu góða,  nánar tiltekið í Utah-ríki,  vildi umhyggjusamur faðir gera vel við þrítugan son sinn.   Á heimleið úr vinnu keypti hann handa honum vænan skammt af kjúklingavængjum.  Viðtökurnar voru ekki jafn fagnandi og pabbinn bjóst við.  Stráksa mislíkaði að kallinn hafði ekki keypt uppáhaldsvængina hans heldur einhverja aðra tegund.  Mönnum getur sárnað af minna tilefni.  Hann stormaði inn á baðherbergi.  Þar var ein af byssum heimilisins geymd.  Kauði nýtti sér það.  Hann tók byssuna og skaut á kallinn.  Sem betur fer var hann ekki góð skytta í geðshræringunni.  Kúlan fór yfir í næsta hús og hafnaði þar í uppþvottavél. 

  Kallinn stökk á strákinn og náði að afvopna hann.  Áður tókst drengnum að hleypa af tveimur skotum til viðbótar.  Bæði geiguðu að mestu en náðu samt að særa kallinn. 

  Einhver bið verður á að gaurinn fái fleiri kjúklingavængi.  Hann er í fangelsi.  

vængir

           

  .    


Höfrungar til vandræða

höfrungar

 

 

 

 

 

 

 

 Á dögunum rákust færeyskir smábátaeigendur á höfrungavöðu.  Þeir giskuðu á að um væri að ræða 200 kvikindi.  Það er ágætis magn af ljúffengu kjöti.  Þeir ákváðu að smala kjötinu inn í Skálafjörð.  Hann er lengstur færeyskra fjarða,  14,5 km.  Allt gekk vel.  Nema að höfrungunum fjölgaði á leiðinni.  Að auki varð misbrestur á að að láta rétta menn í landi vita af tíðindunum.  Fyrir bragðið mættu fáir til leiks.  Þess vegna lenti það á örfáum að slátra 1400 dýrum.  Það tók tvo klukkutíma.  Einungis lærðum og útskrifuðum mænustungufræðingum er heimilt að lóga hvölum í Færeyjum.  

  Útlendir Sea Shepherd liðar í Færeyjum notuðu dróna til að senda aðfarirnar út í beinni á netsíðum erlendra fjölmiðla.  Meðal annars BBC. 

  Dýradráp er ekki fögur og aðlaðandi sýn fyrir nútímafólk sem heldur að kjöt og fiskur verði til í matvöruverslunum.  Ég vann í sláturhúsi á Sauðárkróki til margra ára sem unglingur.  Þar rann ekki minna blóð en þegar dýrum er slátrað í Færeyjum (sjá myndina fyrir neðan úr sláturhúsi).

  Ef sláturhús væru glerhús er næsta víst að sömu viðbrögð yrðu við slátrun á svínum, kindum, kjúklingum,  hestum og beljum og eru nú við höfrungadrápinu í Færeyjum. 

  Samt.  Höfrungadrápið var klúður.  Alltof mörg dýr.  Alltof fáir slátrarar.  Þetta var of.  Á venjulegu ári slátra Færeyingum um 600 marsvínum (grind).  Fram til þessa eru skepnurnar reknar 2 - 3 km.  Í þessu tilfelli voru höfrungarnir reknir 50 km.

  Stuðningur færeysks almennings við hvalveiðar hefur hrunið.  Þingmenn tala um endurskoðun á lögum um þær.  Sjávarútvegsfyrirtæki hafa opinberlega mótmælt þeim.  Líka færeyska álfadrottningin Eivör.  Hún er að venju hörð á sínu og hvikar hvergi í ritdeilum um málið.   

  Dráp á höfrungum þykir verra en grindhvaladráp.  Höfrungarnir þykja meira krútt.  Samt hef ég heyrt að höfrungur hafi nauðgað liðsmanni bandaríska drengjabandsins Backstreet Boys.  

sláturhús 

 

 

 


Aðdáunarverður metnaður

  Á árum áður voru Prince Polo og kók þjóðarréttur Íslendinga - þá sjaldan er þeir gerðu sér dagamun.  Í dag er þjóðarrétturinn pylsa og Kristall með sítrónubragði. 

  Þangað til nýverið samanstóð pylsan af uppsópi af gólfi kjötiðnaðarmannsins.  Það eru breyttir tímar.  Nú til dags er eru meiri er meiri sérviska við framleiðsluna.

  Vinsælustu sölustaðir pylsunnar eru afgreiðslulúgur Bæjarins bestu.  Varast ber að rugla þeim saman við samnefnt héraðsfréttablað á norðanverðum Vestfjörðum.  Pylsan í Bæjarins bestu kostaði 430 kall uns verðið hækkaði í 480 á dögunum.  Nokkru síðar skreið það í 500 kall.  Núna er erlendir ferðamenn komu til landsins og hófu að hamstra pylsu var verðið snarlega hækkað í 550 kall.

  Þetta er alvöru bisness.  Fyrst að ferðamaðurinn er reiðubúinn að borga 550 kall með bros á vör þá um að gera að sæta lagi.  Hann hefur ekki hugmynd um að í bensínsjoppum á borð við Kvikk kostar pylsan 349 kall.  Verðmunurinn er 201 króna. 

pylsa 


Ferðagjafarvandræði

  Ég vaknaði upp með andfælum þegar í útvarpinu glumdi auglýsing um ferðagjöfina.  Þar var upplýst að hún væri alveg við það að renna út.  Ég hafði ekki leist mína út.  Nú voru góð ráð dýr.  Ég var ekki á leið í ferðalag eitt né neitt.  Ég var bara á leið í Kringluna.  Ég brá mér í Hamborgarafabrekkuna sem þar er staðsett.

  Ég tilkynnti afgreiðsludömu að ég hefði hug á að virkja ferðagjöfina.  Ég dró upp takkasímann minn.  Hann hefur þjónað mér dyggilega frá síðustu öld.  Hún spurði hvort ég væri ekki með snjallsíma.  Nei,  bara þennan.  Ég veit ekki einu sinni hvað snjallsími er.  Daman fórnaði höndum og skipaði mér að hinkra.  Ég hlýddi möglunarlaust.  Hún brá sér frá og sótti aðra afgreiðsludömu.  Sú reyndi að virkja gjöfina.  Án árangurs.  Ég bað hana að reyna aftur.  Hún fórnaði höndum og sagði að þetta virkaði ekki.  

  Næst átti ég erindi í Hamraborg í Kópavogi.  Þar er Subway.  Ég þangað.  Afgreiðslumanneskjan komst ekki lengra en sú í Kringlunni.  Hún reyndi samt aftur og aftur.  Ungur karlmaður blandaði sér í málið.  Hann var allur af vilja gerður að hjálpa.  Eftir nokkrar atrennur áttaði hann sig á því hvernig hlutirnir virkuðu.  Hann er greinilega tölvusnjall.  Hann var allt í einu kominn með strikamerki í símann sinn.  Hann gaf dömunni fyrirmæli um að taka mynd af því og þá væri dæmið í höfn.  Það gekk eftir.

  Til að klára inneignina gerði ég mér ferð í Pítuna í Skipholti.  Afgreiðsludaman sagðist þurfa að gúggla hvernig hún gæti afgreitt dæmið.  Eftir smástund sagði hún:  "Þetta virkar ekki í tölvunni.  En ég get græjað þetta í snjallsímanum mínum."  Það gekk eins og í sögu.

   Á meðan ég beið eftir matnum varð ég vitni að eftirfarandi:  Ung kona fékk máltíð sína.  Skömmu síðar stormaði hún með diskinn sinn að afgreiðsluborðinu.  Spurði hvort að hún hefði pantað þennan rétt.  Afgreiðsludaman játti því og benti á að það stæði á kvittun hennar.  Konan sagði:  "Ég ætlaði ekki að panta þetta.  Ég ætlaði að panta..."  Ég náði ekki hvað hún nefndi.  

  Afgreiðsludaman tók erindinu vel.  Sagði eitthvað á þessa leið:  Ekkert mál.  Ég afskrifa pöntun þína og læt þig fá máltíðina sem þú ætlaðir að panta.

  Þetta er þjónustulund til fyrirmyndar.       

 

kótilettur 


Veitingaumsögn

 - Réttur:  International Basic Burger

 - Veitingastaður:  Junkyard,  Skeifunni 13A í Reykjavík

 - Verð:  1500 kr.

 - Einkunn:  ** (af 5)

  Hamborgarinn er vegan en ekki úr nautakjöti.  Samt bragðast hann eiginlega eins og grillaður nautakjötsborgari.  Alveg ljómandi.  Á matseðlinum segir að hann sé reiddur fram með tómatssósu,  sinnepi,  lauk og súrsuðum gúrkum.  Ég sá ekki né fann bragð af sinnepi.  Né heldur lauk.  Ég hefði gjarnan vilja verða var við sinnep og lauk.  Hinsvegar voru gúrkusneiðarnar að minnsta kosti tvær. 

  Borgaranum fylgdu franskar kartöflur og kokteilsósa.  Á matseðlinum segir að sósa sé að eigin vali.  Mér var ekki boðið upp á það.  Kokteilsósa er allt í lagi.  Verra er að hún var skorin við nögl.  Dugði með helmingnum af frönskunum.  Fór ég þó afar sparlega með hana.  Á móti vegur að frönskuskammturinn var ríflegur.   

  Junkyard er lúgusjoppa við hliðina á Rúmfatalagernum.  Á góðviðrisdegi er aðstaða fyrir fólk að setjast niður fyrir utan og snæða í ró og næði. 

borgari

 

 

 

 

 

 

 

 

Á matseðlinum er mynd af hamborgara sem er mjög ólíkur raunverulegum International Basic Burger.  Við gætum verið að tala um vörusvik.  Auglýsingaborgarinn er til að mynda með osti og bólginn af meðlæti.   

 source       


Börn

 Börn geta verið fyndin.  Óvart.  Ég átti erindi í Krónuna.  Langaði í Malt.  Á einum gangi voru tveir ungir drengir.  Annar sennilega tveggja ára.  Hinn kannski sex eða sjö.  Sá yngri kallaði á hinn:  "Erum við ekki vinir?"  Hinn játti því.  Þá spurði sá stutti:  "Af hverju labbar þú þá svona langt á undan mér?"  Mér þótti þetta geggjað fyndið.


Illmenni

  Ég er fæddur og uppalinn í sveit,  Hrafnhóli í Hjaltadal,  í útjaðri Hóla.  Öll unglingsár vann ég í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki.  Það var gaman.  Við slátruðum hátt í sjö þúsund lömbum hvert haust.  Og slatta af öðrum dýrum.  Ég vann við að vigta skrokkana,  grysja þá og koma fyrir í frysti.  Í frystinum mátti maður bara vera í 25 mínútur í einu.  Á þeim tíma sturtaði ég í mig brennivíni.  Er komið var úr frystinum helltist víman hratt og skemmtilega yfir mann.  Það var gott "kikk".  .  

  Ég hef fullan skilning og umburðarlyndi gagnvart fólki sem drepur dýr sér til matar.  Mörg dýr gera það sjálf.  En sjaldnast sér til einskærrar skemmtunar.  Fólk sem drepur dýr sér til skemmtunar er vont fólk. 

dýradráp gdýradráp adýradráp bdýradráp ddýradráp edýradráp hdýradráp i


Smásaga um stefnumót

  Ný vinnuvika er að hefjast.  Tvær vinkonur og vinnufélagar ræða um helstu tíðindi helgarinnar.

  - Ég fór á dásamlegt stefnumót í gær,  upplýsir önnur.

  - Nú?  Segðu frá,  svarar hin forvitin.

  - Ég fór inn á stefnumótasíðu á netinu.  Hitti þar myndarlegan mann.  Eftir heilmikið spjall bauð hann mér á stefnumót.

  - Hvernig gekk það fyrir sig?

  - Hann sótti mig á slaginu klukkan sex.  Það veit á gott þegar karlmaður er stundvís.  Ekki síst af því að ég beið eftir honum úti á gangstétt og frekar kalt. 

  - Bölvað ógeðið.  Ég veit allt um svona perra.  Þeir nota öll fantabrögð til að komast að heimilisfangi konunnar.  Tilgangurinn er að geta njósnað um hana.  Jafnvel brjótast inn til hennar þegar hún er ekki heima og planta allskonar njósnabúnaði.

  - Róleg.  Þetta var allt mjög rómantískt.  Um leið og hann renndi í hlað þá stökk hann út úr bílnum,  rétti mér eina rós með orðunum "viltu þiggja þessa rós?"

  - Þvílíkur nirfill!  Ein ómerkileg rós!  Maðurinn er algjör aurapúki.

  - Þetta var tilvísun í bachelor-sjónvarpsþættina.  Svo sætt og rómantískt.  Við fórum á glæsilegt steikhús.  Hann stakk upp á því að við færum hægt yfir sögu.  Myndum verja góðum tíma í forrétti, aðalrétti,  eftirrétti og spjall. 

  - Karlhelvítið.  Þetta er aðferðin sem þeir nota;  sitja yfir konunum klukkutímum saman og endurtaka frasa.  Þetta er heilaþvottur.

 - Þetta var mjög notaleg stund.  Maturinn var algjör veisla og hann valdi handa mér besta rauðvín sem ég hef bragðað.  Sjálfur drekkur hann ekki áfenga drykki.

 - Dæmigerður óþverri;  hellir dömuna ofurölvi til að gera hana meðfærilegri.  Klárlega laumaði hann að auki nauðgunarlyfi í drykkinn.

  - Nei,  það voru engin vandræði.  Þvert á móti.  Stefnumótið var ljúft í alla staði.  Í miðju kafi stökk hann að píanói á sviðinu og söng og spilaði nokkra ljúfa íslenska ástarsöngva.

  - Helvítis ruddi.  Skildi þig eina eftir úti í sal eins og ódýra vændiskonu.  Neyddi þig samtímis til að sitja undir sóðalegum klámvísum.  Maðurinn er snargeggjaður og hættulegur.  Þú verður að kæra kvikindið til að forða öðrum konum frá því að lenda í klónum á skepnunni.

  - Allt stefnumótið var ævintýri.  Að vísu kom upp ágreiningur þegar ég krafðist þess að borga helminginn af matarreikningnum.  Hann tók það ekki í mál. 

  - Karlrembudjöfull.  Niðurlægir þig með skilaboðum um að þú sért honum óæðri.  Hann sé merkilegri en þú.  Hann sé með hærri tekjur og þú ekki borgunarmanneskja til jafns við hann.  Ef þú hittir hann aftur verður þú að hafa með þér piparsprey.  Ef hann reynir eitthvað þá spreyjar þú piparnum í augun á honum.

 - Ég gerði það í gær.  Þegar við gengum að bílnum hans þá spreyjaði ég piparnum í augun á honum.  Hann missti jafnvægi og skall í jörðina.  Ég sparkaði af alefli í hausinn á honum.  Rotaði hann.  Svo stal ég veskinu hans og bílnum.  Ég sel bílinn á eftir í partasölu.  

  - En hann veit nafn þitt og heimilisfang.

  - Nei,  ég var með falskt nafn á stefnumótasíðunni.  Ég er búin að eyða prófíl mínum þar.  Ég gaf honum aldrei upp heimilisfang mitt heldur heimilisfang næsta húss við hliðina.   


Afmælisveisla aldarinnar

  Guddi ákvað að halda upp á sjötugsafmæli sitt með stæl.  Hann talaði um það sem afmælisveislu aldarinnar.  Hann bauð sínum bestu vinum.  Þeir voru foreldrar mínir og hjónin á Hólkoti í Unadal í Skagafirði.  Fleiri yrðu ekki í veislunni.  Þeir myndu bara flækjast fyrir.  Veislan yrði á Hótel Mælifelli á Sauðárkróki.  Ekkert til sparað:  Dýrustu forréttir,  dýrustu aðalréttir,  dýrustu desertar,  dýrasta koníakið,  dýrustu vindlarnir.   

  Guddi stóð við sitt og stýrði veisluhöldum með glæsibrag. Eftir desertinn pantaði Guddi dýrustu vindla á línuna.  Gestirnir afþökkuðu vindlana.  Hann fékk sér hinsvegar rándýran vindil.  Þjónninn benti honum á að bannað væri að reykja vindil inni.  Guddi sýndi því skilning.  Sagðist bara bregða sér út og reykja vindilinn þar.  Sem hann og gerði.  Nema hann skilaði sér ekki aftur inn.  

  Þegar ekkert bólaði á Gudda í langan tíma tóku gestir að ókyrrast.  Að lokum fór pabbi út að leita að honum.   Þar var enginn Guddi. 

  Sem betur fer voru gestirnir með ávísanahefti og gátu gert upp við Mælifell.  Annað hefði orðið vandræðalegt. 

  Næstu misseri varð Gudda tíðrætt um veislu aldarinnar.  Sagði hverjum sem heyra vildi frá henni.  Ekki síst þótti honum gaman að rifja upp við gestina og spyrja hvort að þetta hafi ekki verið veisla aldarinnar.  Mamma spurði hvers vegna hann hafi stungið af úr veislunni.  Guddi svaraði:  "Veislan var búin og þá fóru náttúrulega allir heim til sin." 

veisla  

  

    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.