Nú er ég svo aldeilis hissa

  22.  janúar 2007 kærði Böðvar bílstjóri líkamsárás sem hann varð fyrir í starfi sínu er hann var staddur á biðstöð við Fjörð. Hann mundi eftir því að skömmu áður þegar hann var að beygja út á götuna hafi bifreið komið á töluverðri ferð miðað við aðstæður og þeytt bílflautuna en strætisvagninn var kominn út á götuna og hélt áfram ferð sinni. Þegar hann síðan stöðvar á biðstöðinni við Fjörð var barið fast á hurðina næst honum og var þar komin Olga Soffía  Sergeijsdóttir. Honum leist ekki á að hleypa henni inn í vagninn vegna þess hversu æst hún var. Hann opnaði þó að lokum hurðina.  Þá jós Olga Soffía yfir hann svívirðingum og lamdi í mælaborðið. Hann bað konunni að róa sig en hún hlýddi ekki.

  Böðvar vísaði henni þá út úr vagninum en þegar hann stóð upp úr sæti sínu kýldi Olga Soffía hann hnefahögg á vinstri kinn við nef. Hann varðist næsta höggi með því að bera fyrir sig vinstri framhandlegg.  Síðan greip hann um hægri hendi konunnar sem þá reyndi að kýla hann með vinstri hendi sem hann náði einnig taki á. Þannig hélt hann báðum höndum hennar,  setti hana út úr vagninum og sleppti eftir smástund.  Hún hljóp þá burtu eins hratt og fætur toguðu. Í framhaldinu fór Böðvar á slysadeild LSH í Fossvogi þar sem hann fór í læknisskoðun og beið ótrúlega lengi eftir röntgenmyndatöku.

  Olga Soffía heldur því fram við lögreglu að Böðvar hafi espað upp í henni reiði með þeim afleiðingum að hún kýldi hann einu höggi á kinnina. Hafi Böðvar þá tekið utan um hana og lyft henni út úr vagninum. Hún kveðst hafa reynt að losa sig án árangurs og að lokum sagt við Böðvar að hún ætlaði að kvarta við yfirmann hans. Böðvar hafi þá sleppt henni. Fyrir dómi sagði Olga Soffía að til átaka milli hennar og Böðvars hafi ekki komið fyrr en hann var búinn að láta hana út úr vagninum og að hann hafi byrjað áflogin.

  Vitnið Friðrik Stefánsson, sem var annar tveggja farþega sem voru inni í vagninum í umrætt sinn, kveðst hafa séð hvar ung kona kom inn í vagninn og fór að rífast við bílstjórann og síðan slegið hann hnefahöggi í andlitið. Bílstjórinn hafi þá tekið utanum konuna og borið hana út úr strætisvagninum og sett hana niður fyrir utan vagninn. Þegar bílstjórinn kom aftur inn í vagninn sýndi hann vitninu hvar höggið lenti í andliti hans. Kveðst Friðrik ekki hafa séð bílstjórann ýta með neinum hætti á konuna eða hrinda henni áður en hún sló hann.

  Verjandi Olgu Soffíu heldur því fram fyrir dóminum að hún sé svo rosalega grönn og afar smávaxin að hún hafi ekki líkamsburði til að slá stóran og sterkan. Ekki fellst dómurinn á að slíkar vangaveltur hafi við nein rök að styðjast enda liggur fyrir áverkavottorð sem lýsir afleiðingum höggsins sem eymslum á vinstri kinn rétt við nefið og yfir kinnbeinsbogasvæði, svolítilli bólgu á kinninni og  tannholdi, mari á kinn og kinnbeini vinstra megin. Þá hefur verjandi byggt á því að Olga Soffía hafi slegið til Böðvars í neyðarvörn og því eigi atlaga hennar að vera henni refsilaus. Gegn andmælum Böðvars og framburði vitnisins Friðriks telur dómari fráleitt að halda því fram að Böðvar hafi verið árásaraðili sem Olga Soffía hafi þurft vinna gegn með neyðarvörn.

  Böðvar lýsti því fyrir dóminum að hann hafi haft eymsli um alllangt skeið þar sem höggið lenti en þau séu nú horfin og að hann telji litlar líkur á að hann bíði varanlegan skaða af högginu sem ákærða veitti honum.

  Óumdeilt er að Olga Soffía missti stjórn á skapsmunum sínum sem varð til þess að hún vann verknað þann sem hún er ákærð fyrir. Þykir dómara því rétt að dæma ákærðu 30.000 þúsund króna sekt og vararefsingu sektar 4 daga fangelsi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Ingi

Af hverju ertu hissa ?

Ómar Ingi, 26.1.2008 kl. 20:41

2 Smámynd: Hrönn Sigurðardóttir

Þurfa konur virkilega að rífast við strætóbílstjóra til að fá faðmlag?

Hrönn Sigurðardóttir, 26.1.2008 kl. 20:44

3 Smámynd: Magnús Geir Guðmundsson

Ætlaði nú að spyrja hins sama er náungin að ofan gerir, hann skaust upp rétt í sama mund og ég byrjaði að skrifa!

Ah, ég skil, þú hefur búist við að hún yrði dæmd til hegningarvinnu og gert að sæta sálfræðimeðferð vegna ofsalegrar ofbeldishneigðar ekki satt?

Magnús Geir Guðmundsson, 26.1.2008 kl. 20:45

4 Smámynd: Vilhelmina af Ugglas

Mikill snillingur ertu Jenni minn!

Ég man eftir þér í barnaskóla!

Þá voru valdahlutföllin aðeins önnur.

Eins og gerist og gengur.

Vilhelmina af Ugglas, 26.1.2008 kl. 21:19

5 identicon

Af hverju sleppa konur alltaf svona létt frá refsingu? Af hverju voru bílstjóranum ekki dæmdar mannsæmandi bætur vegna áverkanna og vinnutaps?

Birgir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 21:21

6 identicon

Sem betur fer eru strætisvagnabílstjórar ekki með bein í nefinu.

Steini Briem (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 21:27

7 identicon

Auðvitað eru viðbrögð hennar ofsafengin og óásættanleg, en mikið skil ég hana að reiðast ökulagi strætós. Það er alveg með ólíkindum hvað þeir halda að þeir eigi heiminn og svína mann hægri vinstri. Ég var að keyra fyrir um ári síðan, á pínulítilli púddu, og það munaði hársbreidd að strætó færi hreinlega yfir mig. Veit ekki hversu oft ég hef hringt og kvartað undan strætó (er nú samt engin nöldurkelling, það þarf mikið til að ég kvarti) og svo er ég oft skíthrædd þegar ég ferðast með strætó sjálf, sem er nú ansi oft. En ég myndi nú aldrei fara að kýla bílstjórann svosem...

Ása Ninna Katrínardóttir (IP-tala skráð) 26.1.2008 kl. 22:52

8 Smámynd: Jens Guð

  Ómar og Maggi,  ég var hissa allan tímann sem ég las dóminn.  Mér þykir þetta svo sérkennilegt mál:  Að pínulítil og mjó kona skuli snöggreiðast svona út í aksturslag strætisvagns og elti hann uppi.  Hamist á hurðinni þangað til bílstjórinn opnaði,  lesi honum pistilinn,  lemji mælaborðið og kýli kallinn.  Reyni síðan að ljúga sig frá þessu.

  Ég veit það ekki.  Mér þykir þetta allt eitthvað skrítið.  Líka að verjandi konunnar haldi því fram að sú litla sé - vegna smæðar - ófær um að kýla stóran karlmann.  En í sömu andrá beitir verjandi fyrir sig að sú litla hafi kýlt stóra karlmanninn í neyðarvörn. 

  Hrönn,  þær þurfa að kýla strætóbílstjóra til að fá faðmlag.

  Fullur,  ég veit ekki hver Tinna Sif er eða hvað hún gerði af sér.

  Vilhelmina,  hvernig getur þú munað eftir mér í barnaskólanum á Hólum í Hjaltadal?  Segðu mér deili á þér.

  Birgir,  ég skil ekki dóminn.  Né heldur hvers vegna tekið er fram í dómsorði að strætóbílstjórinn hafi þurft að bíða lengi eftir röntgenmyndatöku á LHS.  Hver hefur ekki þurft að bíða lengi eftir myndatöku þar?

  Steini,  það kom sér vel í þessu tilfelli.  Hehehe!

  Óskar,  ertu vondur við konur?

Jens Guð, 26.1.2008 kl. 23:03

9 Smámynd: Ómar Ingi

Þá spyr ég hissa

Hvað myndir þú gera sem dómari Jens ?

Ómar Ingi, 26.1.2008 kl. 23:06

10 Smámynd: Jens Guð

  Ása,  strætóbílstjórar eru sennilega jafn misjafnir og þeir eru margir.  Ég keyri um á litlum sendibíl allan daginn.  Ég hef aldrei orðið fyrir leiðinlegri eða varasamri framkomu af hálfu strætisvagna.  En ég dreg ekki í efa að inn á milli í strætóflotanum megi finna tillitslausar frekjur og glanna.

  Ég á eina góða minningu síðan ég ferðaðist með strætó frá námsárum mínum.  Þá stökk 12 - 13 ára krakki út úr vagninum við stoppustöð.  Hann lenti eitthvað illa,  meiddi sig og átti erfitt með að standa á fætur.  Vagnstjórinn snaraðist út og hélt á krakkanum inn í vagninn.  Tilkynnti síðan í hátalarkerfið að hann vonaðist til þess að farþegar hafi skilning á því að hann verði að skutla krakkanum á Slysó til að láta skoða hann.  Hugsanlega hafi krakkinn brotnað.

  Allir virtust hafa skilning á þessu.  Og að minnsta kosti mér þótti þetta falleg framkoma hjá bílstjóranum.

  Ómar,  ég þekki ekki þau fordæmi sem eldri dómar hafa sett í hliðstæðum málum.  Ég þekki heldur ekki hvort að íslenskir dómstólar hafa heimild til að dæma fólk til að sækja reiðistjórnunarnámskeið.  Ég veit að víða í Bandaríkjunum er það nánast regla að dæma skapofsafólk á slík námskeið þegar það hefur brotið af sér er það missir stjórn á skapi sínu.

  Það á ekkert frekar við í þessu máli en mér þykir alltaf skrítið þegar fórnarlambi í ofbeldisbroti eru ekki dæmdar bætur heldur er ofbeldismanneskjan dæmd til greiðslu sektar (sem rennur til ríkissjóðs).   

Jens Guð, 26.1.2008 kl. 23:46

11 identicon

Já kellingin fékk ansi lága sekt. Þekki nokkra sem hafa rétt danglað frá sér, verið kærði og fengið mikið hærri sekt. Ætli konur fá vægari dóma af því að þær eru konur ?

Bjöggi (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 00:16

12 Smámynd: Jens Guð

  Bjöggi,  einhvernveginn þykir mér að fórnarlambið,  strætóbílstjórinn,  hefði frekar átt að fá bætur heldur en ríkissjóður. 

Jens Guð, 27.1.2008 kl. 01:36

13 identicon

Og hvað gerði hann henni til að verðskulda þetta reiðikast, finnst það ekki koma fram, keyrði hann eins og bavíani? Jafnvel þó hann hefði gert það þá væru þessi viðbrögð hennar samt út í hött.

Ari (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 03:45

14 identicon

Já það er svolítið til í því. Samt ódýrt hnefahögg hjá kellu !

Bjöggi (IP-tala skráð) 27.1.2008 kl. 13:34

15 Smámynd: Jens Guð

  Það kemur ekki fram um hvað olli reiði konunnar nákvæmlega.  Aðeins þetta að strætóbílstjórinn mundi eftir því að þegar hann beygði út á götu þá hafi bíll á góðri ferð nálgast og flautað. 

  Dómarinn virðist ekki hafa séð ástæðu til að komast að því hvað olli reiðikastinu heldur hvernig barsmíðarnar gengu fyrir sig.

Jens Guð, 28.1.2008 kl. 01:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.