Frábært gæludýr

  silfurskotta

  Í DV í gær var viðtal við unga konu sem kvartaði undan silfurskottum í íbúð sem hún leigir.  Í sömu grein segist leigusalinn ætla að senda til hennar meindýraeyði síðar á árinu.  Heyr á endemi!  Meindýraeyði!  Silfurskottan er ekki meindýr fremur en hundar,  kettir,  páfagaukar,  naggrís eða gullfiskur.  Skrifin í DV eru ekkert annað en svívirðilegt níð um einstaklinga sem geta ekki svarað fyrir sig.

  Silfurskottan gerir engum mein.  Þvert á móti þá hjálpar hún til við að halda baðherberjum hreinum,  en þar er hún vön að halda sig.  Henni þykir rakinn þar notalegur,  sem og hitastigið.  Hún er kuldaskræfa.

  Silfurskottan má ekki sjá óhreinindi öðru vísi en reyna að hreinsa þau upp.  Hún borðar þau.  Þegar þið sjáið glansandi hrein og fín baðherbergi þá þarf ástæðan ekki að vera sú að húsbóndinn á heimilinu sé ofvirkur hreingerningakarl.  Það er alveg eins líklegt að vinalegar silfurskottur sjái um hreingerninguna.  Þær telja það ekki eftir sér.

  Vegna þess hvað silfurskottan er dugleg við að borða óhreinindi þá þarf ekki að fóðra hana sérstaklega.  Reyndar þykir henni vænt um að fá smá brauðmylsnu á hátíðisdögum.  En hún sníkir ekki.  Hún vill ekki láta hafa mikið fyrir sér.

  Silfurskottan er hljóðlát.  Svo hljóðlát að þó hún sé klipin með glóandi töng þá þykist hún ekki taka eftir því og gefur ekki frá sér múkk.  Lítið er vitað um gáfnafar silfurskottunnar.  Hún gegnir ekki nafni.  Það getur haft eitthvað með eyrnaleysi hennar að gera.

  Silfurskottan er einfari.  Henni þykir gaman að rölta alein fram og til baka um gólf.  Helst í rökkri.  Henni er illa við sviðsljósið.  Það gerir eðlislæg feimnin.  Hún er ekki jafn áhugasöm um kynlíf og til að mynda kanínur eða rykmaurar.  En slær svo sem ekki hendi á móti smá leik þegar önnur silfurskotta reynir við hana.  Á móti fjörlitlu kynlífi nær silfurskottan háum aldri,  á mælikvarða skordýra.  Við gott atlæti getur hún alveg komist á sjötta ár.  Þá er lengd hennar komin vel á annan cm og hún orðin feit og pattaraleg.   

  Í fljótu bragði er erfitt að finna jafn frábært gæludýr.  Það þarf ekkert fyrir silfurskottunni að hafa.  Það þarf aldrei að hleypa henni út.  Hún er ekki geltandi,  tístandi eða mjálmandi í tíma og ótíma.  Það þarf ekki að þrífa hana,  klippa hana eða neitt slíkt.  Hún er prýði á hverju heimili.  Kannski ekki stofustáss vegna þess að hún heldur sig á baðherberginu.  En gullfalleg.  Eða réttara sagt silfurfalleg og gljáandi.  Það ættu glysgjarnir Íslendingar að kunna að meta.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Björg Þorsteinsdóttir

En þykir henni gott að láta klappa sér? Vill hún láta klóra sér á milli þreifara?

Kristín Björg Þorsteinsdóttir, 29.1.2008 kl. 16:01

2 identicon

,, Silfurskotturnar hafa sungið fyrir mig " söng reyndar Megas, en á þeim árum var hann á þannig efnum að hann heyrði ýmislegt sem aðrir ekki heyrðu, enda söng hann nokkru síðar ,, Afsakið á meðan ég æli ".

Stefán (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 16:08

3 Smámynd: Adda bloggar

Adda bloggar, 29.1.2008 kl. 16:30

4 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Fæ sko bara hroll...

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 29.1.2008 kl. 17:22

5 identicon

Íslendingar eru aular þegar skordýr eru annars vegar, ég líka.

DoctorE (IP-tala skráð) 29.1.2008 kl. 17:33

6 Smámynd: Ragnheiður

Hehehehe ...þetta fannst mér fyndið. Hef búið með slíkum gæludýrum og get staðfest gæluhneigð þeirra á nóttunni. Það var tekið til á mér sjálfri....enda baðgólfið löngu orðið spikk og span

Ragnheiður , 29.1.2008 kl. 17:42

7 Smámynd: Ía Jóhannsdóttir

Jenni minn þú gleymdir einu, hvað þær eru fallegar og glitrandi þarna fyrir neðan þig þegar þú situr á setunni.  Algjört augnayndi   Veistu ég bjó við þetta í nokkur ár hér og þessir óboðnu gestir mínir vöndust furðu vel eða þannig.  Ég skúraði samt WC mitt daglega. E.t.v. hafa þær fengið of mikinn raka og þ.a.l. lifað þessu fjöruga lífi sínu.

  NB ég flutti eins fljótt og ég gat úr þessari meindýraholu   Frábær færsla Thanks a lot!

Ía Jóhannsdóttir, 29.1.2008 kl. 18:09

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Eftir þessa lýsingu viltu ekki segja mér hvað gæludýrakosti kakkalakkar hafa ?

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.1.2008 kl. 18:28

9 Smámynd: Heidi Strand

Dette er drømmekjeledyr for latsekker. De behøver ikke avlives fordi familien skal på ferie og så sparer man å kjøpe mat til de. Når de er døde kunne de tørkes og bli flotte øredobler.(eyrnalokka)
Kakkalakkar er sprøde under tann.

Heidi Strand, 29.1.2008 kl. 18:49

10 Smámynd: Guðborg Eyjólfsdóttir

Úff frekar myndi ég vilja eiga hund, kött, páfagauk og allt heila klabbið en að hafa þessi meindýr inni hjá mér, bjó við þetta einu sinni og þetta var viðbjóður yakk, en flott færsla samt

Guðborg Eyjólfsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:14

11 Smámynd: Ingigerður Friðgeirsdóttir

OJ

Ingigerður Friðgeirsdóttir, 29.1.2008 kl. 19:41

12 Smámynd: Heiða B. Heiðars

.....ættu allir að eiga EINA!!

Þegar þær hafa safnast saman í stóra ættbálka þá hætta þær að vera krútt... þeas ef einhverjum hefur þótt hún krútt

Heiða B. Heiðars, 29.1.2008 kl. 20:10

13 Smámynd: Jens Guð

  Viðar Helgi,  það þarf ekki að selja silfurskottuna í gæludýraverslunum.  Silfurskottan verpir í sprungur eða raufar á gólfinu.  Fólk stígur á sprungurnar,  eggin límast við það og berast þannig í önnur hús.  Ef raka- og hitaskilyrði eru í góðu horfi í baðherbergjum þeirra húsa er stutt í að gæludýrið klekist út.  Alveg ókeypis.

  Kristín Björg,  silfurskottan á það sameiginlegt með gullfiskum að vera lítið fyrir klapp og klór. 

  Stefán,  góður punktur.

  Adda,  takk fyrir innlitið.

  Árni,  þvert á móti er rakastig á baðherbergi rétt ef silfurskottan þrýfst þar.  Reyndar held ég ekki heimili heldur bý ég á gistiheimilum og hótelum.  Það er eins og silfurskottur séu minna fyrir svoleiðis hýbýli. 

  Jóhanna,  góður hrollur af og til er bara til bóta.

  DoctorE,  skordýr eru eiginlega hálfgerðir aular líka.

  Ragnheiður,  til hamingju með að hafa kynnst þessum elskum.  Því miður hafa ekki allir átt þeirri gæfu að fagna.

  Ingibjörg,  ég birti einmitt ljósmynd af einni laglegustu silfurskottunni til að fólk sæji með eigin orðum hvað þetta eru krúttleg dýr.

  Ásthildur,  ég þekki ekki kakkalakka nógu vel.  Ég veit að sumsstaðar erlendis eru þeir steiktir og borðaðir.  Þannig að þeir eru kannski frekar matur en gæludýr.

  Heidi,  góð þessi hugmynd með eyrnalokkana.

  Guðborg,  hugsaðu þér kostnaðinn við að eiga hund,  kött og páfagauk,  auk fyrirhafnarinnar.  Það þarf til að mynda ekki að skrá silfurskottur eða borga leyfisgjald fyrir þær.

  Ingigerður,  takk fyrir innlitið.

  Heiða,  það er rétt hjá þér að silfurskottan á það sameiginlegt með köttum og hundum;  að ef ættbálkurinn er orðinn of stór þá kemur það niður á krúttlegheitunum.

Jens Guð, 29.1.2008 kl. 21:26

14 Smámynd: Hlynur Jón Michelsen

Þetta eru hreint frábærar fréttir.

Ég er lengi búinn að leita mér að hentugu gæludýri en ekki fundið það…  fyrr en nú.

Málið með mig er nefnilega það að mig þykir ákaflega gaman að ferðast um framandi lönd og heimsins höf. Þá er ekkert sérstaklega gáfulegt að vera með gæludýr heima á fróni sem situr og bíður manns sársvangt og einmanna.

Nú sé ég það í hendi minni að málið sé leist.

Hlynur Jón Michelsen, 29.1.2008 kl. 22:22

15 identicon

Mig hálflangar að giftast einni svona silfurskottu, hún hljómar svo fullkominn. Baráttumál framtíðarinnar.

Ari (IP-tala skráð) 30.1.2008 kl. 01:04

16 Smámynd: Magnús Unnar

Stórskemmtileg bloggfærsla hjá þér Jens. Meira svona

Magnús Unnar, 30.1.2008 kl. 01:34

17 identicon

'Eg er brussa af Guðs náð, er hægt að fá hlífðarbúnar fyrir þessi grey svo ég traðki þessar elskur ekki niður. Kannski bruna ég niður í gæludýrabúð og bið um einar 7 silfurskottur svo framalega að það fylgi þeim einhverjar hlífar, já eða búr, hefur þú reynslu hvernig þeim vegni  í búrum? og önnur pæling nú ef mig langar að fara út að labba með þær, veistu þá um einhverja prjónakonu sem að tekur að sér að prjóna á þær svona galla eins og svo margir eru með hundana sína í ?

knús og koss til þín Jens minn

Anna M (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 17:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband