Áhugaverð ræða Ólafs F. Magnússonar, fyrrverandi borgarstjóra

ólafurf.

  Eins og ég sagði frá á dögunum - og fréttastofur fjölmiðlanna hafa nú einnig sagt frá - hefur Ólafur F.  Magnússon yfirgefið Frjálslynda flokkinn og stofnað nýtt framboð,  H-listann.  Ég hef komist yfir ræðu Ólafs þar sem hann gerði borgarstjórn grein fyrir ákvörðun sinni í gær.  Það er hin fróðlegasta lesning og þess vegna birti ég hana hér í heild:

 

Forseti, góðir borgarfulltrúar.

  Fyrir tíu árum, um vorið 1999, var ég í þeirri sérkennilegu stöðu, að vera borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, en gat engan veginn hugsað mér að kjósa flokkinn í Alþingiskosningum þá um vorið. Árið áður hafði ég verið í framboði fyrir flokkinn til borgarstjórnar og kosið hann í síðasta sinn á lífsleiðinni. Því mér hafði smám saman orðið ljóst, og alveg hvellljóst um vorið 1999, að Sjálfstæðisflokkurinn stóð ekki lengur fyrir þeim gildum, sem alla tíð hafa mótað lífsskoðun mína. Gildum umhyggju og réttlætis og baráttunnar fyrir velferð og öryggi þegnanna ásamt óskoruðu eignarhaldi almennings yfir auðlindum til lands og sjávar og rétti ófæddra kynslóða til að erfa landið okkar fagra með einstöku náttúrufari sínu.

  Sjálfstæðisflokkurinn var þá þegar farinn að starfa þvert á þessi gildi með gegndarlausri græðgis- og einkavinavæðingu, spillingu, valdníðslu og niðurgreiddum náttúruspjöllum. Pólitík sem gat með góðu móti kallast öfug Hróa hattar pólitík með rányrkju á auðlindum og eigum almennings, umhverfissóðaskap og stalíniskri stóriðjustefnu.

  Þegar ég gerðist frumstofnandi og ábyrgðarmaður grasrótarhreyfingarinnar Umhverfisvinir um haustið 1999, vissi ég að dagar mínir í Sjálfstæðisflokknum væru taldir. Það var hins vegar sannarlega þess virði að fórna stjórnmálaferli sínum fyrir jafn góðan málstað og þann að bjarga náttúruperlu á borð við Eyjabakka og forða því að þeim væri sökkt fyrir minna en engan efnahagslegan ávinning. En í þeirri baráttu kynntist ég rækilega því valdi óttans sem þáverandi forysta og ráðandi öfl innan Sjálfstæðsisflokksins beittu gegn öllum þeim, sem voguðu sér að efast um ágæti þeirrar ósjálfbæru og óhagkvæmu ofurvirkjanastefnu, sem hefur tröllriðið náttúru landsins og efnahag þjóðarinnar.

  Það var því vonum seinna, að ég sagði mig úr Sjálfstæðisflokknum, hér í pontu borgarstjórnarsalarins, í upphafi borgarstjórnarfundar hinn 20. desember árið 2001, klukkustundu áður en þáverandi umhverfisráðherra felldi úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um að ekki skyldi ráðist í Kárahnjúkavirkjun, vegna umtalsverðra og óafturkræfra umhverfisáhrifa hennar. Með úrsögn minni úr Sjálfstæðisflokknum var auðvitað og ekki í fyrsta sinn talið fullvíst að pólitískum ferli mínum væri lokið. Rétt eins og allt benti til þegar talningu var að ljúka í borgarstjórnarkosnungunum vorið 2002, þegar ég náði óvænt kjöri sem óháður borgarfulltrúi í samstarfi við Frjálslynda flokkinn. Samstarfi sem nú er komið að leiðarlokum vegna þess einstaka getuleysis , sem núverandi forysta Frjálslynda flokksins hefur sýnt, í einu og öllu, nema að hrekja á brott alla þá sem vilja vinna meintum málstað flokksins gagn. Málstað sem ég hélt að snerist um að vernda auðlindir almennings til sjávar og sveita fyrir þeirri gegndarlausu græðgisvæðingu og auðlindasóun, sem höfuðspillingaröfl íslenskra stjórnmála, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafa stundað tiltölulega óáreittir um árabil og hafa alla aðstöðu til að stunda áfram um nokkurt skeið á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur.

  Senn fer þó að fjara undan helmingaskiptameirihlutanum í Reykjavík, þegar tillögur mínar í borgarstjórn frá síðasta ári, um að fjárframlög til frambjóðenda í prófkjörum verði gerð opinber ná fram að ganga. Allir vita að þá kemur fiskur undan steini. Og athygli vekur að einungis fulltrúar vinstri grænna hafa staðið vaktina við hlið mér gegn spillingunni í borgarstjórn Reykjavíkur. Rétt eins og fulltrúar vinstri grænna stóðu einir vaktina í umhverfis-, orku- og auðlindamálum fyrir síðustu Alþingiskosningar, sem og árið 1999, en bæði þá og í vor átti ég ekkert annað val, sem einlægur talsmaður sjálfbærrar umhverfis- og auðlindastefnu en að kjósa einmitt vinstri græna.

  Í Alþingiskosningunum í vor gat ég ekki stutt,eins og ég hefði viljað, allt það ágæta fólk, sem hefur haft hugsjónir Frjálslynda flokksins um að vernda auðlindir í eigu almennings gagnvart eignaupptöku í þágu sérhyggju- og græðgisvæðingar. Því er um að kenna að forysta flokksins boðaði gegndarlitla ofveiði- og ofurvirkjanastefnu, stefnu þar sem auðlindin er hvorki vernduð né nýtt með sjálfbærum hætti og ekkert hugsað um næstu kynslóð á Íslandi. Það samrýmist ekki upphaflegum hugsjónum flokksins, að halda áfram að láta almenning greiða niður orkusölu til erlendra álbræðslurisa, á sama tíma og okrað er á innlendum orkukaupendum. Það samræmist ekki heldur hugsjónum flokksins að fórna náttúruperlum fyrir minna en ekki neitt og nýta aðeins brot af hitaorkunni úr iðrum jarðar við raforkuframleiðsluna. Ég ítreka að ég ber góðan hug til þeirra frambjóðenda og stuðningsmanna Frjálslynda flokksins, sem reyndu að þreyja þorrann fram til hins síðasta, þrátt fyrir slaka frammistöðu formannsins, fyrrverandi þingflokksformannsins og framkvæmdastjórans, sem hafa sett flokkinn málefnalega og fjárhagslega á höfuðið. Þessir þremenningar hafa sýnt dugleysi og óráðsíu og seint verða þeir vændir um hreinlyndi eða að tala vel um félaga sína.

  Á borgarstjórnarvaktinni hef ég oftast staðið einn vörð um verndun umhverfisins og náttúru- og menningarminja, auk þeirrar þungu áherslu sem ég legg á velferðar og öryggismál, enda mótaður af bakgrunni mínum sem heilbrigðisstarfsmaður. Ég vænti engu að síður sívaxandi stuðnings við og samstarfs um mín sjónarmið af hálfu borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa vinstri grænna, sérstaklega gagnvart spillingarmálunum, enda er það einbeittur vilji minn að vinna gegn þeirri rótgrónu spillingu, sem tíðkast hefur hjá helstu valdaflokkum íslenskra stjórnmála, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, sem illu heilli sitja enn að kjötkötlum borgarinnar og nýta það óspart í fyrirgreiðslum, launagreiðslum, ferða- og dagpeningagreiðslum og veislugjörðum sjálfum sér til dýrðar en á kostnað borgarbúa.

Góðir borgarfulltrúar og góðir Reykvíkingar.

  Um leið og ég segi öllu samstarfi borgarstjórnarflokks F-listans við Frjálslynda flokkinn slitið, boða ég nýtt framboð óháðra, sem ég hyggst leiða í næstu borgarstjórnarkosnungum, að líkindum undir merkjum H-lista og með einkunnarorðunum: „Hreinskilni, hæfni, heiðarleiki,“ þó að einkunnarorðin góðu frá 2002 „Umhyggja, hreinskilni, réttlæti“, séu enn í fullu gildi. Á allt þetta skortir hjá núverandi meirihluta í borgarstjórn Reykjavíkur. Það er brýn þörf á því að venjulegt fólk með eðlileg tengsl við atvinnulíf og mannlíf í borginni láti ekki útsendara á vegum óprúttinna fjárplógsmanna, hagsmunaafla og stjórnmálaflokka hrekja sig frá því að starfa að borgarmálum. Það hefur svo sannarlega verið reynt gagnvart mér en ekki tekist. Með því vil ég sýna öðrum borgarbúum gott fordæmi um leið og ég hvet allan almenning til virkrar þáttöku í borgarlífinu og að gefa duglausum atvinnvinnustjórnmálamönnum reisupassann. Af langri reynslu þekki ég vel þá ríku tilhneigingu atvinnustjórnmálamanna að hugsa fyrst og fremst um eigin velferð og vera ávallt tilbúnir að sveigja frá hugsjónum sínum og fyrirheitum. Ég mun hins vegar sem óháður borgarfulltrúi berjast fyrir velferð og öryggi allra borgarbúa, enda aðeins skuldbundinn af orðum mínum og sannfæringu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er nokkuð ánægður með hann Ólaf, að koma með þessa yfirlýsingu.Hann hefur að mörgu leiti verið trúr sjálfum sér og fylgt eigin sannfæringu en ef svo má segja að hann hafi lent í röngu partýi á réttum tíma sem hafi gert honum pólítíska ferli.. ja ekki gott,en ég óska honum alls hins besta.

Víðir (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:15

2 identicon

Mér finnst það í raun óafsakanlegt að hafa farið í samstarf með spillingarflokki sjálfstæðismanna þann flokk sem hann hefur gagnrýnt undanfarin ár? Hversu slæmt var þá samstarfið með samfylkingunni að hann gerði þetta?

Jóhann (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 21:29

3 Smámynd: Bjarni G. P. Hjarðar

Fór í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn!  Hvað þarf að segja meira  um þennan uppskafning.

Bjarni G. P. Hjarðar, 6.5.2009 kl. 21:40

4 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Ég vil minna á að Ólafur náði fram öllum kosningamálum F- listans í málefnasamningi við Sjálfstæðisflokkinn.  Margrét hafði gefið eftir öll kosningaloforð f-listans og því taldi Ólafur brýna þörf á að flýta komu sinni í borgarstjórn úr veikindaleyfi. Það varð meðal annars til þess að miðbærinn sem var farinn að líta út eins og ruslahaugur í þágu verktaka er orðinn snyrtilegur og bjartur á ný.

Sigurður Þórðarson, 6.5.2009 kl. 21:43

5 Smámynd: Ómar Ingi

Er fullt á geðdeildum landsins ?

Ómar Ingi, 6.5.2009 kl. 22:16

6 Smámynd: Hannes

Góð ræða en ég held að hann væri best geymdur á kleppi alveg eins og þeir sem eru enn í FF ásamt honum Ómari Inga.

Hannes, 6.5.2009 kl. 22:30

7 Smámynd: Jens Guð

  Víðir,  það er aðall Ólafs F.  að hann stendur með sínum grundvallarhugsjónum.  Gefur hvergi eftir og allir vita hvar hann stendur hverju sinni. 

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:02

8 identicon

Þessi maður var ágætur kostur, en það hlustar engin lengur !

Staðfesta og heiðarleiki, gleymdist það þegar myndaður var meirihluti með sjálfstæðisflokknum og þeir sem vorum með honum í meirihluta voru sviknir ?

Það virðist allt vera mögulegt í íslenskri pólitík , líka hjá Ólafi F.  !

JR (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 23:03

9 Smámynd: Jens Guð

  Jóhann,  Ólafur F. er fystur manna til að viðurkenna að hafa verið plataður til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn.  Á móti kemur að í því samstarfi náði hann fram samþykki fyrir öllum sínum helstu baráttumálum.

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:05

10 Smámynd: Jens Guð

  Bjarni G.,  ég hafna því að Ólafur F.  sé uppskafningur.  Hann er heiðarlegur,  hreinskiptinn og samkvæmur sjálfum sér.  Spilling er eitur í hans beinum.  Bæði sem borgarstjóri og borgarfulltrúi hefur hann lagt sig í líma við að mylja ekki undir sig og sinna.  Svo dæmi sé nefnt fór hann aðeins í eina utanlandsferð í borgarstjóratíð sinni.  Sú ferð var til Færeyja í boði Færeyinga. 

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:12

11 Smámynd: Jens Guð

  Sigurður,  Ólafur náði ótrúlega mörgu fram í borgarstjóratíð sinni.  Miðborgarstjóri,  Jakob Magnússon,  sem Ólafur skipaði í það embætti,  fékk nýverið alþjóðleg verðlaun fyrir bestan árangur við endurreisn miðbæjar í heiminum.

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:16

12 Smámynd: Jens Guð

  Ómar Ingi,  þetta er pínulítið ruddalegt.  Ólafur F., lenti í hjónaskilnaði og átti við depurð að stríða - tímabundið.  Hann hefur náð sér fullkomlega af þeim veikindum og er í dag sprækur sem lækur.  Fjórðungur landsmanna á einhvertímann á ævinni við andleg veikindi að stríða.  Í flestum tilfellum er aðeins um tímabundið vandamál að ræða.  Ólafur hefur læknisvottorð upp á að hafa náð sér að fullu.   

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:23

13 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  við sem ennþá erum í FF eigum ekkert erindi inn á Klepp.  Samt er ég viss um að vel væri tekið á móti okkur þar.  Hvort sem Ómar Ingi yrði með í för eða ekki.

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:26

14 Smámynd: Jens Guð

  JR, íslensk pólitík er margslungin.  Við sem erum að vasast í pólitík viljum ná fram okkar stefnumálum á sem flestum sviðum.  Það tókst Ólafi í þessu stutta samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Jens Guð, 6.5.2009 kl. 23:29

15 Smámynd: Hannes

Jens fólk sem heldur dauðahaldi í spilltan flokk á að vera á kleppi. Ég vona að þú þurfir ekki að vera mjög lengi þar inni.

Hannes, 6.5.2009 kl. 23:36

16 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  ég hangi inni í FF vegna andstöðu minnar við kvótakerfið.  Það er margt að í FF.  Mjög margt.  Staðan er skrítin.  Ég hlustaði á útvarpsþáttinn frábæra "Harmageddon" á X-inu í dag.  Þar voru lesin upp bréfaskipti Viðars Helga,  formanns Landssambands ungra Frjálslyndra, við formann fjármálaráðs FF,  Helga Helgason.  Viðar Helgi hefur óskað eftir upplýsingum um fjármál FF en ekki fengið.  Að mér var hvíslað að DV vilji komast yfir þessar upplýsingar.  Ég veit ekkert meira um þetta. En sit þó í stjórn fjármálaráðs FF.  FF hefur á stefnuskrá að vera með opið bókhald. Allt uppi á borðum.  En það er margt skrítið í stöðunni. 

Jens Guð, 7.5.2009 kl. 00:34

17 Smámynd: Hlédís

Hannes og fleiri vinir!

Ekki yrðuð þið né Ólafur lagðir inn á Klepp þó þið bæðuð um það ;)  Þar kemst bara veikt fólk inn - og ekki allt!

Ræðan hér að ofan er góð og sannfærandi. Ólafur er örugglega vænn maður - hvort sem hann hefur alltaf valið sér góða samstarfsmenn eður ei.

Hlédís, 7.5.2009 kl. 00:45

18 Smámynd: Jens Guð

  Hlédís,  Ólafur F.  er vænn maður.  Heiðarlegur, hreinskiptinn og sjálfum sér samkvæmur.  Að auki skemmtilegur og hefur náð sér að fullu upp úr tímabundnum veikindum.  Það er ósmekklegt að hanga í og/eða velta sér upp úr því sem var.  Mestu skiptir í dag að hann hefur náð fullri heilsu og er enn sem fyrr heill og sannur gagnvart sínum hugsjónum. 

Jens Guð, 7.5.2009 kl. 01:00

19 Smámynd: Halla Rut

Hvað er nú margir eftir í flokknum?

Það er meir umferð úr þessum flokk heldur en frá eyjum eftir verslunarmannahelgi og sama skíta og sukklyktin situr eftir.

Halla Rut , 7.5.2009 kl. 02:19

20 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég vil óska Ólafi alls góðs í framtíðinni. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.5.2009 kl. 08:50

21 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Ólafur er örugglega ágætis maður, en í pólitík á hann lítið erindi.  Hann er einfaldlega alltof viðkvæmur fyrir sjálfum sér.

En Jens ég veit að þú ert dyggur aðdáandi Ólafs.

Lét hann þig ekki bara hafa bréfið til birtingar og hvers vegna ekki að segja það?

Jenný Anna Baldursdóttir, 7.5.2009 kl. 08:58

22 Smámynd: Rannveig H

Ég hef aldrei skilið að það sé kki hægt að gera eitthver skil á milli persónuna og pólitíkusins

Rannveig H, 7.5.2009 kl. 11:06

23 Smámynd: Rannveig H

úff var ekki búin áður en ég sendi þetta. Ólafur er ekki maður sem ég myndi kjósa þrátt fyrir góð málefni, tel hann eigi ekki heima í pólitík.

Rannveig H, 7.5.2009 kl. 11:09

24 identicon

Sæll Jens.

Þú þekkir greinilega Ólaf eins og ég þekki hann og ég þakka þér góð orð í hans garð. Ég segi það bara eins og það er....ég er búin að þekkja Ólaf í yfir tuttugu ár og ég hvorki skil né vil skilja ummæli þeirra sem tala niður til hans án þess að hafa hugmynd um hvaða mann hann hefur að geyma.

Ummæli Hannesa hér að ofan skil ég alls ekki, þekki ekki manninn og veit því ekki hvort ég er að lesa það rétt úr orðum hans að vistmenn Klepps séu minna virðingarverðir en aðrir. Mikið vona ég að svo sé ekki.

Addý (IP-tala skráð) 7.5.2009 kl. 14:43

25 Smámynd: Jens Guð

  Halla Rut,  þetta er dálítið eins og sagan um 10 litla negrastráka.  Góðu fréttirnar eru þær að - eftir því er mér skilst -  er góða fólkið eftir í flokknum en vonda fólkið fjölmennir úr honum.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 00:34

26 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur,  ég hef bara haft góð kynni af Ólafi og óska honum sömuleiðis alls góðs í framtíðinni.  Ég er pínulítið spældur yfir brotthvarfi hans úr FF á þessum tímapunkti.  Átta mig ekki alveg á hvað hann er að pæla.  Það eru sveitastjórnarkosningar á næsta ári og ég hefði kosið að öðru vísi væri staðið að málum.  Við erum á nýjum byrjunarreit og þurfum að fara að samstilla strengi fyrir næsta skref.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 00:41

27 Smámynd: Jens Guð

  Jenný,  ég fékk bréfið ekki frá Ólafi.  En næsta bæ við.  Ég er ekki í beinum eða nánum samskiptum við Ólaf.  Ég reikna þó með að mér hafi verið sent þetta erindi með samþykki Ólafs.  Hef ekki spurt út í það.  Ég þekki Ólaf ekki mikið og við erum ekki í spjallsamskiptum í síma eða á öðrum vettvangi.  Þekkjumst þó þannig að við spjöllum saman þegar við hittumst á Landsþingi FF og öðrum fundum FF.  Samskipti okkar eru lítil sem engin umfram það.   

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 00:56

28 Smámynd: Jens Guð

  Rannveig,  Ólafur hefur margt gott fram að færa sem stjórnmálamaður.  Hann er nánast eini alvöru stjórnarandstöðumaðurinn í borgarstjórn.  Veitir meirihlutanum þar harða stjórnarandstöðu. 

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 00:59

29 Smámynd: Jens Guð

  Addý,  ég þekki Ólaf ekki mikið persónulega.  Hef kannski þekkt hann lauslega í 2 ár eða svo.  En hef þeim mun betur fylgst með honum sem heiðarlegum stjórnmálamanni og heilsteyptum hugsjónarmanni.  Góðum manni með sterka réttlætiskennd.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 01:04

30 Smámynd: Steingrímur Helgason

Ég er merkilega merkjanlega eiginlega dáldið á ~Jenzinum~ þarna.

Ég hef horft á margt mér umvert & mikið mætt fólk flýja frá Frjálzlynda Flokknum fyrir kozníngar & ég skildi það oftazt verulega vel.  Innra sem ytra starfið var í tómu klúðri & hver ránghendan á móti hverjum í öllu sem að öngvu máli skipti.  Heiðarleikinn & hreinskiptnin fólkz á milli fótum troðin.

En ég kauz að kjóza Frjálzlynda flokkinn minn enn & aftur fyrir mannezkjulegu stefnumálin & það réttlæti sem að hann vill innleiða aftur í okkar þjóðfélag varðandi þjóðarauðlindina.

Ég er ekkert viðkvæmur fyrir því að vera kallaður ~razisti~ fyrir vikið, enda er ég þjóðernizsinnaður jafnaðarmaður í eðli, & hvernig einhver náúngi minn er mér sóbrenndari á skinnið mér kemur því bara ekkert við, hvað þá hvaða trúarbrögð hann aðhyllizt.

Það er bara ekkert að trufla mig eða mína.

Ég hinz vegar kauz það ekki að reyna að sannfæra náúnga minn um hið sama, því að rótin er að mínu mati rotin í gegn, & því mun ég yfirgefa flokkinn minn með söknuði ázamt hans albezta & gegnheiðarlegazta stjórnmálamanni fyrr & síðar, Ólafi Friðriki Magnússyni, ven mínum.

Gert það áður frá öðrum flokki, & geri það stoltur & keikur aftur & mun verða honum til atkvæða hvar sem að hann kýz að láta til sín taka.

Ómakleg ummæli um drenginn góða eru enda bara vindur undir okkar vængi...

Steingrímur Helgason, 8.5.2009 kl. 01:18

31 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Désk. góður pistill hjá Zteingrími enda af góðu kyni og vel í ætt skotið.

Sigurður Þórðarson, 8.5.2009 kl. 23:37

32 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  takk fyrir þetta ágæta innlegg í umræðuna.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 23:38

33 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  eruð þið Steingrímur ekki frændur?  Mig minnir að það hafi komið upp í umræðunni um Immiflex.

Jens Guð, 8.5.2009 kl. 23:40

34 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Nei við erum ekki skyldir en ég þekki Bertu og Helga foreldra hans ásamt pappalöggunni úr Hrútafirðinum, allt sómafólk.  Ég er að vona að Ólafur komi aftur í flokkinn okkur vantar sterkan leiðtoa til að taka við flokknum ef hann á að komast upp úr þessari lægð sem hann er í núna.

Sigurður Þórðarson, 9.5.2009 kl. 00:27

35 Smámynd: Jens Guð

  Siggi,  sorry,  mig misminnti eða misskildi eitthvað.  Nú þurfum við að spýta í lófana og byggja upp flokkinn að nýju þannig að hann komi sterkur til leiks í sveitastjórnarkosningunum á næsta ári.  Ólafur væri þar góður liðsmaður.  Hann hefur tvívegis leitt flokkinn farsællega til sigurs í Reykjavík.  Síðast með 11% fylgi.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 00:55

36 Smámynd: Hannes

Jens leitaðu þér nú hjálpar og hér er númerið á kleppi 543-1000 og ef þú vilt frekar fara til geðlæknis þá læt ég númer hjá einum þannig fylgja líka 588-8557. Leitaðu þér nú hjálpar Jens batnandi mönnum er best að lifa.

Hannes, 9.5.2009 kl. 01:00

37 Smámynd: Steingrímur Helgason

Hvaða annez er nú þezzi Hannez ?

Siggi, góður þezzi með pappalögguna, frændi fílaði það enda fínt hvað mörgum slíkum var stolið af staurum & funduzt síðar í íbúðum einztæðra mæðra í Breiðholti.

Steingrímur Helgason, 9.5.2009 kl. 01:18

38 Smámynd: Jens Guð

  Hannes,  ég hef góðar heimildir fyrir því að Hlédís (sjá "komment" #17) sé einn besti starfandi geðsjúkdómalæknir landsins.  Það þarf því ekki að leita langt yfir skammt.  Annars er ég vel sáttur við allt ruglið á mér,  af hvaða toga sem það er.  Þar fyrir utan á ég ekkert langt að sækja geðveilur.  Föðursystir mín var hressilega geðveik.  Blessuð sé minning hennar.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 01:50

39 Smámynd: Jens Guð

  Steingrímur,  pappalögga konunnar með gullklósettið var snilld.  Eiginlega alltof frábært uppátæki til að gleymast.  Ég veit um partý á Suðurnesjum þar sem stolið eintak af pappalöggunni hélt uppi fjörinu fram til morguns.  En þá var það farið að láta á sjá,  eins og partýljónin.  Og allir fóru að sofa að morgni sælir og sáttir.

Jens Guð, 9.5.2009 kl. 01:56

40 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Núna á dögunum var það upplýst að veislu og risnukostnaður lækkaði um 40% í krónum talið í borgarstjórnatíð Ólafs F. Magnússonar frá því sem áður hafði verið.  Ferða- risnu og veislukosnaður rauk svo afur upp úr öllu valdi eftir að Framsókn koma aftur inn. Hvernig væri að skipta Óskari Bergssyni út og fá pappaborgarfulltrúa? Ég hef trú á að þannig mætti spara borgarbúum mikið fé.

Sigurður Þórðarson, 9.5.2009 kl. 09:51

41 identicon

Jens, hvers vegna krefst þú ekki þess sem sitjandi stjórnarmaður í fjármálaráði FF að bókhaldið verði uppi á borðinu? Er Helgi Helgason einhver einvaldur þar? Er samstarf ykkar ennþá styrt eftir netmálið fræga milli ykkar tveggja?

Annars finnst mér Ólafur F. vera stórorður að gagnrýna aðra fyrir að tala ekki vel um félaga sína. Ég veit ekki betur en að hann hafi kallað nokkra samstarfsfélaga sína í FF fastista fyrir ekki svo skömmu síðan.

trader (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 16:24

42 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Mér var ekki kunnugt um að Jens væri stjórnarmaður í fjármálaráði en ef svo er þá eru fjármálin í öruggum höndum.

Sigurður Þórðarson, 9.5.2009 kl. 20:51

43 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Er það rétt Jens ert þú í fjármálaráðii?

Sigurður Þórðarson, 9.5.2009 kl. 22:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband