29.8.2007 | 22:56
Óli Palli er snillingur!
Það er mikil gæfa fyrir rás 2 að búa að jafn góðum útvarpsmanni og Óla Palla. Einum þeim albesta í útvarpssögu landsins. Hann er með góðan músíksmekk en jafnframt mjög umburðarlyndur og fordómalaus gagnvart allskonar músík.
Þekking hans á músík er góð. Hann er ágætur gítarleikari. Til viðbótar er hann afskaplega áhugasamur um það sem er að gerast í músík. Hann er mættur hvort sem er á Músíktilraunir, hljómleika vítt og breitt um landið eða í nágrannalöndum. Allsstaðar er Óli Palli mættur fyrstur manna á svæðið. Hann er með puttann á púlsinum.
Til viðbótar er hann þægilegur útvarpsmaður. Með þægilega útvarpsrödd og laus við þá sjálfsupphafningu sem einkennir marga útvarpsmenn á öðrum útvarpsstöðvum. Einkum Effemm 957.
Í dag heyrði ég í Óla Palla ræða á rás 2 við Lönu Kolbrúnu, djassgeggjara, um yfirstandandi djasshátíð. Talið barst að bloggi. Óli Palli sagði: "Uppáhaldsbloggarinn minn er Jens Guð." Lana sagðist ekki geta tekið undir það. Óli Palli ítrekaði sitt viðhorf. En Lana var á öðru máli.
Sem er allt í lagi mín vegna. Djassþættir Lönu á rás 1 hafa verið hundleiðinlegir. Og djass er leiðinleg músík.
Nei, nei, ég segi nú bara si svona. Djassþættir Lönu hafa verið eyrnakonfekt. Djassmúsík er jafnframt mín uppáhaldsmúsík. Að sjálfsögðu er bara hið besta mál að Lana skuli ekki taka undir lofsamleg ummæli Óla Palla um bloggið mitt. Djassþættir hennar eru jafn góðir eftir sem áður og áhugi hennar á djassi og kynning hennar á djassi er jafn aðdáunarverð þó að hún sé neikvæð í garð bloggsins míns. Ég geri mér grein fyrir því að minn bloggstíll er ekki allra. Þvert á móti þykir mér flott hjá henni að vera hreinskilin með það. En jafnframt þykir mér upphefð í að Óli Palli sé á öðru máli. - Þó að hann hafi klikkað á að útvega mér síðasta Rokklandsdiskinn. Sem hann var þó búinn að lofa mér.
Ég vil bæta því við að rás 2 er einkar heppin með fleiri dagskrárgerðarmenn. Þar er rjóminn: Andrea Jóns, Guðni Már, Freyr Eyjólfs, Snorri Sturluson, Ásgeir Eyþórs, Kalli Sigurðs og Ásgeir og eflaust fleiri sem ég er að gleyma í fljótu bragði.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (46)
28.8.2007 | 21:28
Arnþrúður skýtur föstum skotum á Hildi Helgu
Fram hefur komið í dagblöðum og víðar að Hildur Helga Sigurðardóttir hafi kært Arnþrúði Karlsdóttur, eiganda Útvarps Sögu. Hildur Helga telur sig eiga inni ógreidd laun hjá Arnþrúði. Í dagblöðum hefur einnig komið fram að Arnþrúður telur sig ekki skulda Hildi Helgu laun. Þvert á móti þá skuldi Hildur Helga Arnþrúði vegna leigubílakostnaðar sem hún hafi látið skrifa á Útvarp Sögu.
Í símatíma hjá Arnþrúði í dag á Útvarpi Sögu spurði hlustandi út í málið. Arnþrúður svaraði því til að fólk þyrfti nú að mæta í vinnuna til að fá greitt fyrir vinnu. Svo bætti Arnþrúður við: "Og þegar fólk mætir þá þarf það að vera í þannig ásigkomulagi að það geti sinnt vinnunni."
28.8.2007 | 14:10
Sérkennileg merking
Ég flyt inn snyrtivörur frá ýmsum löndum. Bandarísku vörurnar eru sumar merktar sérkennilegum texta. Yfirleitt er ástæðan sú að einhver málaferli eða leiðindi hafa átt sér stað og verið er að fyrirbyggja að slíkt endurtaki sig.
Fyrir mörgum árum birtu bandarísk kvennablöð upplýsingar þess efnis að snyrtivörur endast lengur ef þær eru geymdar í ísskáp. Í einni verslunarkeðju oftúlkuðu menn þetta og ætluðu heldur betur að varðveita endingu síns lagers af snyrtivörum og skelltu honum í frysti. Það þoldu snyrtivörurnar ekki og skemmdust með tilheyrandi leiðindum sem eftirmála. Eftir það eru kassar frá framleiðanda sólkrema rækilega merktir "Ekki frystivara".
Í gær var ég að taka á móti sendingu af Banana Boat Aloe Vera geli. Það kemur í ósköp venjulegum pappakössum. Þeim er lokað með breiðu límbandi. Ég er vanur að opna kassana með því að kippa límbandinu af eða rista það í sundur með penna eða lykli.
Það fór ekki framhjá mér í gær þegar ég tók á móti sendingunni að ný áberandi merking er komin á kassana. Þar segir stórum stöfum: "Opnið kassann með því að fjarlægja límbandið" (To open strip tape).
Ég velti fyrir mér hvaða leiðindi geta hafa komið upp varðandi jafn einfalt verk og að opna pappakassa.
26.8.2007 | 23:15
5 atriði sem skautað er framhjá í ævisögu Bobs Dylans
Bob Dylan kom verulega á óvart með ævisögu sinni, Chronicles, í fyrra. Reyndar ekki í fyrsta skipti sem hann hefur komið á óvart. Bókin þykir ekki meistaraverk í stíl og sver sig ekki á þann hátt í samlíkingu við texta Dylans. Á móti kemur - og skiptir kannski meira máli - að hún er mjög skemmtileg. Margar kannast við að hafa byrjað að glugga í bókina í bókabúð og ekki getað hætt að lesa. Keypt bókina og velt fyrir sér ýmsu sem þar kemur fram.
Bókin er líka áhugaverð vegna þess að Dylan hefur alltaf verið hraðlyginn. Hann lýgur á færibandi að þeim sem hann umgengst og ekki síður í viðtölum við fjölmiðla.
Við skráningu á bókinni virðist lygaáráttan ekki hafa sótt á kallinn.
Margir hafa tekið eftir að í bókinni skautar Dylan aftur á móti framhjá atriðum sem ætla mátti að Dylan hefði gert skil í bókinni. Þau helstu eru:
- Ástarsamband hans og Jóhönnu frá Bægisá (eins og Halldór Laxness kallaði þjóðlagadrottninguna Joan Baez). Það var hún sem kynnti hann og söngva hans fyrir þjóðlagasenunni. Þegar ástarsamband þeirra hófst var hún heimsfræg, á forsíðu fréttablaðsins Time og ofarlega á vinsældalistum en Dylan óþekktur. Til gamans má geta að áður en Dylan kynntist Joan þá sat hann að sumbli með mági hennar, Richard Farina. Dylan spurði Richard: "Hver er einfaldasta leið mín til að slá í gegn?" Richard svaraði í gríni: "Að taka upp ástarsamband við Joan Baez." Nokkrum dögum síðar hitti Richard þau Dylan og Baez. Þá voru þau byrjuð saman. Í bókinni afgreiðir Dylan ástarsamband þeirra í 7 orðum.
- Alvarlegt mótorhjólaslys sem Dylan lenti í 1966. Það afgreiðir hann í 14 orðum í bókinni.
- Þegar Dylan hitti Bítlana í fyrsta skipti þá kenndi hann þeim að reykja hass. Það er ekki stafkrókur um það í bókinni.
- Stærsti vendipunktur á tónlistarferli Dylans var þegar hann setti kassagítarinn til hliðar og fór að rokka með hljómsveit. Þá var hann orðinn stærsta nafnið í vísnatónlist. Hann var stærsta nafnið á helstu tónlistarhátíð þjóðlagatónlistar, Newport Folk Festival. Þar voru áhorfendur komnir til að hlusta á rjómann í órafmagnaðri þjóðlagatónlist. Þeir fengu áfall er Dylan mætti með rafmagnaða rokkhljómsveit. Áheyrendur bauluðu Dylan af sviðinu. Honum til undrunar og áfalls. Í bókinni er ekki minnst orði á þetta.
- Hér er atriði sem kannski er ekki í samræmi við ofantalin atriði. Dylan hefur átt fleiri en eina konu. Í bókinni nefnir hann "konuna mína" án þess að tilgreina við hverja hann á.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 23:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.8.2007 | 14:13
Rýnt í niðurstöður könnunar um besta rokksöngvarann
Hvað er skemmtilegra en góð skoðanakönnun? Ekkert. Nema kannski ennþá betri skoðanakönnun. Þannig var einmitt síðasta skoðanakönnun. Þar var reynt að finna besta íslenska rokksöngvarann. Ég dró línuna við að þá sem ráða við öskursöngstílinn sem einkennir gott rokk. Ég útilokaði þá sem eru minna þekktir og þá sem hafa ekki verið í hringiðunni til margra ára. Niðurstaðan var eftirfarandi:
1. Bubbi 27,9%
Sigur Bubba kemur ekki á óvart. Ekki aðeins vegna vinsælda kóngsins heldur einnig vegna þess að hann hefur þol í góða rokkdagskrá. Sama hvort hefur verið með Utangarðsmönnum, Egói, Das Kapital, MX-21 eða Stríði & friði.
2. Eiríkur Hauksson 19,5%
Ég bjóst við að bilið yrði styttra á milli á Eika og Bubba. Eins og Eiki er frábær rokksöngvari þá er að öllum líkindum léttpoppið að þvælast fyrir honum í svona könnun. Margir þekkja hann einungis sem Eurovisjon-söngvara.
3. Jenni í Brain Police 9,4%
Framan af í könnunni vakti undrun mína að nafni minn var lengst af ekki öruggur í 3ja sætinu. Ég var svo viss um að hann næði þessu sæti. Í spjalli við kunningja mína verð ég var við að sumir telja hann dálítið einhæfan söngvara. Engu að síður eru allir séu sammála um að hann sé frábær söngvari.
4. Atli Fannar í Haltri hóru 8,8%
Ég sá ekki fyrir að Atli Fannar yrði í 4ða sæti. Að vísu er Hölt hóra frábær hljómsveit og Atli Fannar vel að þessu sæti kominn. Ég skemmti mér alltaf rosalega vel á hljómleikum Höltu hórunnar. En ég var ekki búinn að átta mig á að staða Atla Fannars og Höltu hórunnar væri ekki svona sterk.
5. Bóas í Reykjavík! 8,6%
Bóas er bara frábær söngvari. Líka frábær "performer". Mér þótti reyndar gamla hljómsveitin hans, Vígspá, ennþá skemmtilegri hljómsveit en Reykjavík! Það er af því að ég er sérvitur.
6. Biggi í Gildrunni 8,2%
Ef einhver er John Fogerty Íslands þá er það Biggi í Gildrunni. Getur öskrað út í eitt án þess að blása úr nös og getur þanið sig í hæstu hæðir.
7. Birkir Fjalar í I Adapt 6,6%
Birkir Fjalar var ekki aðeins frábær trommari í Bisund og Stjörnukisa heldur einhver líflegasti söngvari harðkjarnans. Hann gefur allt í dæmið.
8. Siggi Pönk í Forgarði helvítis 6,0%
Siggi Pönk er bara snillingur. Hjúkka og anarkisti. Er til flottari blanda? Forgarðurinn er einhver kraftmesta hljómsveit rokksögunnar. Og ekki er hann síðri með pönksveitinni DYS.
9. Krummi í Mínus 5,1%
Eðal töffari og eðal söngvari í eðal hljómsveitinni Mínusi. Ég hefði viljað sjá Krumma ofar á listanum. En það er svo sem ekki slæmt að vera einn af 9 bestu rokksöngvurum landsins.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 14:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.8.2007 | 03:56
Mest óþolandi íslenska dægurlagið
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (57)
18.8.2007 | 23:15
Úrslit í skoðanakönnun um besta rokksöngvarann
Nú er komin niðurstaða í skoðanakönnun um besta íslenska rokksöngvarann. Ég tilkynnti í upphafi að útkoman yrði birt þegar 500 atkvæðu væru greidd. Sá atkvæðafjöldi nægir vel til að niðurstaðan sé marktæk.
Reyndar kom fljótlega mynd á niðurstöðuna sem breyttist lítið þó að atkvæðum fjölgaði. Þrjú efstu sætin taldi ég nokkuð gefin. Ég var ekki eins viss um önnur sæti. En þetta er niðurstaða 534 atkvæða:
1. Bubbi 27,9%
2. Eiríkur Hauksson 19,5%
3. Jenni í Brain Police 9,4%
4. Atli Fannar í Haltri hóru 8,8%
5. Bóas í Reykjavík! 8,6%
6. Biggi í Gildrunni 8,2%
7. Birkir Fjalar í I Adapt 6,6%
8. Siggi Pönk í Forgarði helvítis 6,0%
9. Krummi í Mínus 5,1%
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.8.2007 | 02:03
Snilldarþýðing
Ég heyrði áðan út undan mér Snorra Sturluson afgreiða ágæta næturvakt á rás 2. Snorri á það sameiginlegt með flestum dagskrárgerðarmönnum rásar 2 að vera með ágætan músíksmekk - ef við skautum framhjá Kiss. Snorri spilaði hið ljúfa lag með Bob Marley "No Woman, No Cry". Sumir vilja meina að titill lagsins beri keim af jamaískri málvillu. Titillinn eigi að vera "No Woman don´t Cry" ef hangið er í kórréttri ensku. Snorri þýddi titilinn "Hættu að gráta hringaná". Frábær þýðing.
Til gamans má geta þess að ég tók símaviðtal við Bob Marley í námunda við 1980 og tók þátt í að reyna að fá hann til hljómleikahalds á Íslandi. Það gekk ekki eftir.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
16.8.2007 | 00:01
Einn góður
Þennan heyrði ég í dag. Þrátt fyrir andúð á ljóskubröndurum þá hló ég.
Rúnar vörubílstjóri var að keyra upp Kringlumýrarbraut síðasta vetur. Frostbarinn snjór lá yfir borginni. Þegar Rúnar bíður á rauðu ljósi við gatnamót Suðurlandsbrautar bankar ljóska á bílhurðina. Rúnar skrúfar niður rúðuna og ljóskan segir:
- Hæ, ég heiti Dísa. Ég var að keyra á eftir þér. Það datt hluti af hlassinu á bílnum þínum.
Um leið kemur grænt ljós og Rúnar brunar áfram án þess að svara Dísu. Hann þarf aftur að stoppa á rauðu ljósi við Miklubraut. Aftur bankar Dísa á bílhurðina. Þegar Rúnar skrúfar niður rúðuna segir hún:
- Hæ, ég heiti Dísa. Það datt aftur hluti af hlassinu á bílnum þínum.
Enn kemur grænt ljós áður en Rúnar nær að svara. Við næstu gatnamót stoppar Rúnar á rauðu ljósi. Hann stekkur út úr bílnum. Hleypur að bíl Dísu, rífur þar upp hurðina og hrópar:
- Hæ, ég heiti Rúnar. Ég vinn við að dreifa salti á götur borgarinnar!
Vísindi og fræði | Breytt 19.10.2007 kl. 11:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
15.8.2007 | 23:33
Diskó og pönk
Ég kíkti á skemmtilega sýningu í Árbæjarsafni. Hún heitir Diskó og pönk. Þar hitti ég tónlistarmann frá Akureyri sem stundar íshokkí. Ég nefndi við hann að mér þætti gaman að sjá á sýningunni sitthvað sem ég kom að á sínum tíma. Meðal annars auglýsingu pönkplötubúðinni minni Stuð.
Maðurinn sagðist þá hafa keypt plötur í póstkröfu frá búðinni. Það sem honum þótti sérkennilegt var að ásamt plötunum innihélt pakkinn límbandsrúllu, reglustriku, tússpenna og samanbrotin auglýsingaplaköt fyrir pönkplötur.
Hann mundi eftir því að hafa beðið um hraðafgreiðslu á plötunum vegna þess að þær átti að nota á diskóteki um helgina.
Þarna hafði greinilega einhver verið að flýta sér um of við að ganga frá póstkröfunni.
Eftir smá spjall rifjaði ég upp að eitt sinn hafði Sævar frændi minn Sverrisson, meðeigandi búðarinnar, söngvari og frábær náungi, verið að flýta sér svakalega við að senda póstkröfu til Akureyrar. Hann hafði þann hátt á að nota reglustriku við að skrifa utan á póstkröfur. Í umræddu tilfelli týndi hann reglustrikunni í miðju kafi og gleymdi að bæta krók undir y í Akureyri.
Tveimur dögum síðar var hringt frá Akureyri. Viðmælandinn hellti sér yfir Sævar fyrir að skrifa einfalt i í Akureyri. Hótaði að hætta frekari viðskiptum við Stuð-búðina ef menn gætu ekki lært að skrifa y í Akureyri. Sævar reyndi að slá þessu upp í létt grín. Þá spurði viðkomandi þessarar áleitnu spurningar:
"Hvernig myndi þér líða ef þú fengir póstkröfu þar sem ekkert y væri í Reykjavík?"
Maðurinn sem ég hitti í Árbæjarsafni taldi sig ráma í að vera sá sem gerði þessa athugasemd. Sem er merkilegt þar sem við afgreiddum daglega 3 - 5 póstkröfur.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.8.2007 | 22:10
Skondið atvik
Það eru margir ágætir þættir á Útvarpi Sögu. Meðal þeirra eru þættir þar sem hlustendur hringja inn og spjalla. Ásgerður Jóna Flosadóttir er með vikulegan þátt þar sem ýmis fyrirtæki gefa hlustendum eitt og annað: Út að borða, snyrtivörur og gönguferð fyrir einn upp á Esju.
Í síðasta þætti hringdi inn gamall blindur maður, Páll Stefánsson. Hann er einn af fastahlustendum Útvarps Sögu. Hringir inn í alla símatíma. Það er oft gaman að honum. En í þessu tilfelli var það ekki heldur var Ásgerður Jóna óvart fyndin. Hún var greinilega eitthvað utan við sig þegar Páll hringdi inn. Ásgerður spurði:
- Hvernig líst þér á að ég bjóði þér á Sögusafnið í Perlunni?
Páll minnti Ásgerði á að hann er blindur. Hún spurði þá;
- En keyrir þú bíl?
Sjónvarp | Breytt 19.10.2007 kl. 11:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
11.8.2007 | 20:15
Andrea Jóns er snillingur
Hún Andrea Jónsdóttir er ein af þessum manneskjum sem er bara frábær. Í Blaðinu í dag er viðtal við hana í tilefni af Gay Pride deginum og hún spurð út í viðhorf fólks til samkynhneigðar hennar. Niðurlagið í svari hennar er hægt að heimfæra yfir á flest annað:
"Á vissan hátt verður maður að sýna eðlilegum skammti af fordómum skilning en berjast gegn heiftarlegum fordómum."
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.8.2007 | 16:48
Allt í rugli á Prestbakka
Frá því að byggð reis í Breiðholti hefur sú hefð skapast í raðhúsunum á bökkunum að hver hugsar um viðhald síns húss. Einungis gaflar hafa verið sameiginlegt viðhaldsverkefni. Um þetta hefur ríkt samhugur og engin ágreiningsmál kviknað. Fyrr en núna á Prestbakka.
Fjórir af 6 íbúðareigendum í raðhúslengju þar hafa ekki sinnt viðhaldi á húsþökum. Þökin hafa hriplekið til margra ára og eru við það að grotna niður. Eigendurnir horfa fram á háan kostnað. Rætt var við Húseigendafélagið. Þar var hvatt til þess að farið yrði eftir fjölbýlishúsalögum um sameiginlegan kostnað allra íbúða við þakviðgerðir. Þar með yrðu þeir íbúðaeigendur sem þegar hafa skipt um þak á eigin reikning neyddir til að taka einnig þátt í kostnaði við ónýt þök skussanna. Þetta þótti sumum skussanna heillaráð
Einn íbúðareigandinn vinnur hjá Almennu verkfræðistofunni. Sú stofa var fengin til að halda utan um verkið.
Svala Jóhannesdóttir og Hebbi Guðmunds búa á Prestbakka 15. Þau endurnýjuðu þakið hjá sér fyrir nokkrum árum. Og þykir eðlilega ósanngjarnt að þurfa að borga fyrir endurnýjun á þökum hjá öðrum. Þegar þau reyna að höfða til sanngirnissjónarmiða er vísað í Húseigendafélagið og lögin.
Meirihlutinn í raðhúslengjunni kyrir málið áfram af mikilli hörku. Fyrst var mánaðargjald húsfélagsins ákveðið 50.000 kr. Sem þykir í hærri kantinum. Síðan var það hækkað í 500.000 kr. Það er yfir þeim mörkum sem venjuleg fjölskylda ræður við ofan á önnur útgjöld við rekstur heimilis.
Ég hef imprað á þessu áður: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/271662/
Framkvæmdir við Prestbakkann eru hafnar. Svölu og Hebba undrar hvernig staðið er að málum. Smiður var fenginn til að rölta í kringum raðhúsalengjuna og punkta niður hvar steypuskemmdir sjást og fleira sem þarf að laga. Fyrir röltið kom reikningur upp á 165.000 kr. Hebbi þekkir smið sem var til í að rölta þennan hring án þess að taka krónu fyrir. Og punkta niður hvað þarf að lagfæra.
Það er allt eftir þessu. Almenna verkfræðistofan var búin að rukka 2 milljónir kr. fyrir sína aðkomu ÁÐUR en verkframkvæmdir hófust.
Verktaki sem tók að sér múrvinnu hefur tvívegis sést á svæðinu. Laxveiðiárnar mega ekki bíða. 17 og 22ja ára guttar, sem eru í vinnu hjá honum, sjá um verkið. Þeir brutu niður vegg á milli Prestbakka 17 og 19. Slógu síðan upp mótum fyrir nýjum vegg. Steypubílar mættu á svæðið og steypunni var hellt í mótin. Þegar slegið var utan af þessu blasti ónýtur veggur við. Guttarnir höfðu ekki áttað sig að það þarf að járnbinda steypu.
Þá var byrjað upp á nýtt á fullum taxta (hátt á fimmta þúsund kall með vsk á tímann). Að þessu sinni var járnbundið. Samt sem áður er veggurinn lítið skárri en í fyrri atrennu. Húseigandinn á nr. 17 hringdi í verktakann. Sá reif bara stólpakjaft. Var sennilega pirraður yfir að vera truflaður með veiðistöng úti í miðri á. Hebbi er að hugsa um að fá sett lögbann á framkvæmdir.
Ef smellt er á myndirnar þá stækka þær og verða skýrari.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.8.2007 | 13:43
Hver er hann þessi Ágúst?
Ég sá í dagblaði heilsíðuauglýsingu frá Stöð 2. Þar er fullyrt í fyrirsögn að Ágúst sé skemmtilegri. Í auglýsingunni er enga skýringu að finna á því hver þessi Ágúst er. Né heldur í samburði við hvern hann er skemmtilegri.
Fyrst datt mér í hug að þetta snérist um Ríó tríó. Að Ágúst Atlason sé skemmtilegri en Helgi P eða Óli Þórðar. En ég fann enga vísbendingu um það.
Þá datt mér í hug að þetta snúist um rás 2. Að Ágúst Bogason sé skemmtilegri en Óli Palli eða Guðni Már. Það stenst ekki. Eða þannig. Enda væri það skrýtið af Stöð 2 að auglýsa hver er skemmtilegastur á rás 2.
Gátan er óleyst.
7.8.2007 | 11:58
Tapað og ekki fundið
Stjórnleysið og ringulreiðin í Írak tekur á sig ýmsar myndir. Núna var varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, Pentagon, að viðurkenna að Bandaríkjaher er búinn að týna 147.000 rifflum í Írak. Hann er líka búinn að týna 50.000 skammbyssum í Írak. Þetta er hættulegt. Fólk deyr af völdum byssa.
Ég er viss um að ég yrði skammaður ef að ég myndi týna svona mörgum rifflum og skammbyssum.
Góðu fréttirnar eru þær að Bandaríkjaher er jafnframt búinn að týna 100.000 skotheldum vestum í Írak. Kannski þau bjargi lífi einhvers. Þar til viðbótar hafa 100.000 öryggishjálmar týnst. Þá eru ótaldir heilu milljarðarnir í peningum sem Bandaríkjaher hefur týnt í Írak.
Til viðbótar hafa næstum 4000 Bandaríkjamenn týnt lífinu í Írak. Ofan á þetta bætist að bandarískar leyniþjónustur hafa týnt sínum gamla starfsmanni Osama bin Laden. Og það án þess að hafa fundið hann.
Spil og leikir | Breytt 19.10.2007 kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.8.2007 | 15:20
Skondið atvik rifjað upp
Vegna frétta um að söngkonan Kim Wilde hafi gist á Egilsstöðum fyrir helgi þegar hún var á leið til Færeyja þá rifjaðist upp skemmtilegt atvik. Það átti sér stað á G!Festivali í Götu í Færeyjum fyrir 2 árum. Meðal þeirra sem þar komu fram voru gömlu jálkarnir í sænsku þungarokkshljómsveitinni Europe. Síðhærðir miðaldra liðsmenn hljómsveitarinnar skáru sig dálítið úr í samanburði við stuttklippta ungliða annarra hljómsveita.
Þarna var einnig stelpnahljómsveit frá Vestmannaeyjum, VaGínas. Í augum stelpnanna í VaGínas litu karlarnir í Europe allir eins út: Gamlingjar með sítt hár sem þeir allir skiptu í miðju. Stelpurnar fengu þó stjörnur í augun þegar þær gengu fram á einn Europe-liðann daginn eftir. Þær drógu í hvelli upp penna og blöð til að herja út eiginhandaráritanir. Jafnframt ljósmynduðu þær sig í bak og fyrir með heimsfrægu poppstjörnunni. Þeim þótti spaugilegt að þessi heimsvana súperstjarna fór hjá sér við ákafa og hrifningu stelpnanna. Hann var hreinlega feiminn við þær.
Á heimleið til Íslands sýndu stelpurnar samferðarfólkinu afrakstur ferðarinnar: Myndir af karlinum úr Europe og eiginhandaráritanir hans. Þeir sem betur þekktu til Europe sáu strax að myndirnar voru ekki af neinum úr Europe. Nafnið á eiginhandaráritunum, Jógvan á Heygum, passaði heldur ekki við neinn í Europe. En hljómar mjög færeyskt.
![]() |
Færeysk tónlistarhátíð fauk út í veður og vind |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
31.7.2007 | 23:45
Góð uppástunga hjá Sigurði Kára
Margir strákar alast upp við að lesa ævintýrabækur um spennandi leynifélög. Sumir fullorðnast aldrei upp úr þessum ævintýraheimi bernskunnar. Þeir ríghalda í ævintýraljóma þess að allt sem er leyndó sé skemmtilegast af öllu. Því meiri leynd þeim mun meira gaman.
Það sem fram fer á bakvið tjöldin í reykfylltum herbergjum er toppurinn á tilverunni. Menn ganga í leynireglur eða í stjórnmálaflokka þar sem leynd hvílir yfir fjármálum og öllu sem hægt er halda leynd yfir. Skjöl merkt TRÚNAÐARMÁL eru sérlega spennandi. Launaleynd, leyniskjöl, leyniþjónusta og allt sem er leyni-eitthvað kitlar og fullnægir ævintýraheimi leyniáráttunnar.
Svo eru aðrir sem reyna að skemma þennan leik með því að vilja hafa lýðræðið gegnsætt og frjálst. Allt uppi á borðum.
Sigurður Kári, alþingismaður og baráttumaður fyrir leynd, kom með ansi skemmtilegan vinkil á baráttu sína fyrir launaleynd í útvarpsviðtali í dag. Hann lagði til að fólk myndi nota opinn aðgang að álagningaskrá skattsins með því að finna út hverjir í hverfinu eru tekjulægstir. Síðan yrðu börn þeirra lögð í einelti vegna lágra tekna foreldranna. Aldeilis ljómandi áhugavert dæmi.
Þetta er ekki aðeins skemmtilegur leikur heldur veitir hann vesalingunum aðhald. Þeir myndu reyna að hífa upp tekjur sínar með aukavinnu eða koma sér í þokkalega launaða vinnu. Besta ráðið er að skipta um vinnu með því að ná starfslokasamningi í gömlu vinnunni upp á 1600 milljónir. Og málið er dautt.
![]() |
Er álagning einkamál? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Trúmál og siðferði | Breytt 2.8.2007 kl. 22:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
31.7.2007 | 02:13
Annað lag með Gyllinæð
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2007 | 23:57
Farið yfir úrslit í skoðanakönnun um bestu íslensku lagahöfundana
Fyrir nokkrum dögum lauk skoðanakönnun um bestu íslensku lagahöfunda rokkgeirans. Með orðinu rokkgeiri á ég við lagahöfunda sem hafa starfað í rokkhljómsveitum og eiga heima í sögu rokksins.
Upphaflega miðaði ég við að könnunni lyki við 500 greidd atkvæði. Þar með væri niðurstaðan marktæk. Frá fyrstu 50 greiddum atkvæðum lá endanleg röð fyrir. Hún breyttist ekkert. Nema hvað að Megas og Bubbi skiptust á 1. og 2. sæti alveg upp að 584 greiddum atkvæðum. Munurinn var svo lítill og þeir skiptust svo reglulega á sætum að ég tók til ráðs að láta kjósa sérstaklega á milli þeirra tveggja.
Í því tilfelli miðaði ég líka við að könnunni lyki við 500 greidd atkvæði. Þau hlóðust hinsvegar svo hratt inn að fyrr en varði voru þau orðin 900 og úrslit orðin afgerandi.
Niðurstaðan er þessi:
1. Megas (63,3%)
Mörgum hættir til að líta framhjá snilli Megasar sem lagahöfundar. Fólk einblínir í hans mörgu frábæru texta hans og gleymir að hlusta eftir og meta magnaðar laglínur hans. Þetta sama henti Bob Dylan framan af. Söngstíllinn er ekki fagurfræðilega góður, truflar marga, en textarnir eru slíkt konfekt að þeir skyggðu á flottar laglínur. Það var ekki fyrr en aðrir fóru að flytja lög Dylans sem menn áttuðu sig á því að lögin eru ekki síðri textunum.
Enn í dag átta ýmsir sig ekki á því hvað Megas er góður lagahöfundur. Það hefur þó verið að opinberast æ betur þegar lögin eru flutt af öðrum. Þrjár plötur hafa komið út með einungis söngvum Megasar í flutningi annarra. Þar af tvær í fyrra. Í fljótu bragði held ég að annar íslenskur lagahöfundur hafi ekki verið heiðraðir jafn oft á þennan hátt.
Sem lagahöfundur ræður Megas við marga stíla. Mörg lög hans eru gullfalleg og seyðandi. Dæmi um það eru Tvær stjörnur og Fílahirðirinn. Önnur eru grípandi slagarar. Dæmi: Spáðu í mig og Fatlafól. Rútubílasöngvar og vinsæl dansiballalög. Fyrrnefnda lagið hefur verið "coverað" af Kolrössu krókríðandi og Bjögga Halldórs.
Megas er vel að titlinum besti íslenski lagahöfundurinn kominn.
2. Bubbi (36,3%)
Sennilega liggja fleiri lög eftir Bubba á plötum en aðra Íslendinga. Að minnsta kosti síðustu 27 ár. Kannski er Gunni Þórðar á svipuðu róli ef við teljum frá 1964. Bubbi á afar létt með að hrista fram úr erminni slagara með grípandi krækjum. Mér er minnisstætt þegar hann skilaði af sér ónefndri plötu. Útgefandinn nefndi við hann að það vantaði "smelli" á plötuna. Þeir þyrftu helst að vera tveir. Bubbi fór heim og samdi tvo slíka um kvöldið. Daginn eftir voru þeir hljóðritaðir með hraði og slógu rækilega í gegn.
Að óreyndu reiknaði ég með að Bubbi myndi sigra í þessari skoðanakönnun. Gífurlegar og stöðugar vinsældir hans vísuðu í þá átt. Ég ætla ekki að gera lítið úr hans hæfileikum sem góðs lagahöfundar þó að ég lýsi yfir ánægju með að þær hafi ekki ráðið úrslitum í þessum leik. Enda er það ekki lítill titill að vera annar tveggja bestu íslensku lagahöfunda.
Til gamans má geta að lög Bubba njóta mikilla vinsælda í Færeyjum. Þau eru spiluð á þarlendum böllum og hljómleikum. Ég á sömuleiðis tvær færeyskar plötur þar sem lag hans Talað við glugganner "coverað".
3. Magnús Eiríksson (11,7%)
Ég kaus Magga Eiríks í þessari könnun. Ég tel hann vera jafnbesta lagahöfund landsins. Hann sendir aldrei frá sér slöpp lög (en það hafa bæði Bubbi og Megas gert). Hann semur gríðarlega mörg lög og er allra lagahöfunda mest gagnrýninn á sjálfan sig. Sonur minn hefur heyrt kassettur með lögum eftir Magga sem hefur verið hent í ruslið. Fín lög en ekki nógu öflug að mati höfundar.
4. Gunnar Þórðarson (11,3%)
Það munar aðeins % broti á Magga og Gunna. Eins og Ásthildur Cesil benti á hér á öðrum stað á blogginu þá hefur Gunni ekki verið áberandi að undanförnu. Ég tel þessa fjóra bestu lagahöfunda landsins vera í sérflokki: Gunna, Magga, Bubba og Megas. Þeir eru toppurinn burt séð frá því í hvaða sæti þeir lentu nákvæmlega.
5. Magnús Þór Sigmundsson (4,7%)
Að óreyndu hélt ég að Jóhann yrði í 5. sæti en Magnús Þór í því 6. En Magnús Þór leynir á sér. Ísland er land þitt er klassík. Það er líka ansi magnað lagið eftir hann sem Ragnheiður Gröndal söng. Man í augnablikinu ekki hvað það heitir. Lög Magnúsar Þórs eru ekki beinlínis slagarar heldur þægileg lög sem lifa án þess að fólk fái leiða á þeim.
6. Jóhann Helgason (4,0%)
Jói Helga er lunkinn lagahöfundur. Sum lög hans eru þannig að maður hugsar um þau sem eitthvað sem getur sómt sér vel á alþjóðamarkaði. Það háir kannski lagasmíðum Jóa að þau "renna" öll ljúflega en rífa ekki verulega í. Þessi annmarki kemur best fram á sólóplötum hans. Hvert og eitt lag er fínt út af fyrir sig en ekkert brýtur upp stemmninguna og gargar á mann.
7. Jóhann G. Jóhannsson (3,0%)
Jói G. samdi mörg góð lög með Óðmönnum og á sólóplötum. Síðan fór hann að semja misgóð lög fyrir aðra. Eða öllu heldur mismetnaðarfull lög fyrir aðra. Eftir stendur að lag hans Don´t Try to Fool Me er tvímælalaust eitt allra besta íslenska lag poppsögunnar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.7.2007 | 01:56
Úrslit í könnun um besta íslenska lagahöfundinn
Núna liggja fyrir úrslit í könnun um það hverjir eru bestu íslensku lagahöfundarnir. Ég einskorðaði valið við þá sem eru innan marka rokkgeirans. Þar með útilokaði ég góða vísnasöngvahöfunda og ýmsa sem falla utan rokksögunnar: Atla Heimi, Jón Múla, Jón Ásgeirsson, Hörð Torfa, Bergþóru Árnadóttur o.s.frv. Aðrir bloggarar verða að gera könnun um heildardæmið ef áhugi er fyrir hendi.
Könnunin fór fram í fjórum stigum. Fyrst fékk ég sérstaka 30 manna dómnefnd til að tilnefna þá lagahöfunda sem helst komu til greina. Sá listi var langur og við tók grimmur niðurskurður. Mörgum til skapraunar og ósættis. Líka mér. En beygði mig samt undir rök. Þegar á reyndi voru Megas og Bubbi hnífjafnir upp fyrir 500 atkvæði. Eftir samráð við dómnefnd og bloggara lét ég kjósa sérstaklega á milli þeirra 2ja. Ég ætlaði að láta marktæk 500 atkvæði ráða. En áður en ég vissi af voru atkvæðin orðin 900 og raunhæf úrslit lágu í höfn. Niðurstaðan breyttist ekkert frá 500 atkvæðum til 9oo.
Þannig lýtur listinn út:
1. Megas (63,3%)
2. Bubbi (36,3%)
3. Magnús Eiríksson (11,7%)
4. Gunnar Þórðarson (11,3%)
5. Magnús Þór Sigmundsson (4,7%)
6. Jóhann Helgason (4,0%)
7. Jóhann G. Jóhannsson (3,0%)
Samkvæmt öllum forsendum marktækrar könnunar telst Megas vera besti íslenski lagahöfundur rokkgeirans.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 02:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)