Færsluflokkur: Vísindi og fræði
4.9.2022 | 01:43
Hvenær hlæja hundar?
Hundar hafa brenglað tímaskyn. Þeir kunna ekki á klukku. Þeir eiga ekki einu sinni klukku. Þegar hundur er skilinn eftir einn heima þá gerir hann sér ekki grein fyrir því hvað tímanum líður. Hann áttar sig ekkert á því hvort heimilisfólkið er fjarverandi í fimm mínútur eða fimm klukkutíma. Oft dottar hann þegar hann er einn.
Hundar hafa kímnigáfu. Þegar þeim þykir eitthvað verulega fyndið þá anda þeir eldsnöggt frá sér. Það hljómar eins og þeir séu að snýta sér. Húmor hunda er ekki upp á marga fiska. Hundur hlær að ýmsu sem er ekki sérlega fyndið. Sömuleiðis er hægt að segja hundi bráðfyndinn brandara án þess að hann sýni viðbrögð. Setur bara upp hundshaus og horfir sljór á mann. "Pönslínan" fer fyrir ofan garð og neðan. Engu að síður er góð skemmtun að vita þetta og kannast við þegar hundur hlær. Eitt sinn missteig ég mig heima fyrir framan símborð og féll við. Þá hló heimilishundurinn tvisvar.
Þegar hundur horfir neikvæður á mann þá leitar skott hans til vinstri. Þegar hann er jákvæður leitar það til hægri.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.8.2022 | 00:01
Furðufluga
Ég var að stússa í borðtölvunni minni. Skyndilega flaug pínulítil fluga á milli mín og skjásins. Ég hélt að hún færi strax. Það gerðist ekki. Hún flögraði fyrir framan mig í augnhæð. Það var eins og hún væri að kanna hvort hún hefði séð mig áður. Þetta truflaði mig. Ég sló hana utanundir. Hún hentist eitthvað í burtu.
Nokkrum sekúndum síðar var hún aftur komin á milli mín og skjásins. Ég endurtók leikinn með sama árangri. Hún lét sér ekki segjast. Í þriðja skipti var hún komin fyrir framan mig. Ég gómaði hana með því að smella saman lófum og henti henni vankaðri út á stétt.
Háttalag hennar veldur mér umhugsun. Helst grunar mig að henni hafi þótt þetta skemmtilegt. Í hennar huga hafi við, ég og hún, verið að leika okkur.
17.7.2022 | 05:52
Raunverulegt skrímsli
Víða um heim er að finna fræg vatnaskrímsli. Reyndar er erfitt að finna þau. Ennþá erfiðara er að ná af þeim trúverðugum ljósmyndum eða myndböndum. Sama hvort um er að ræða Lagarfljótsorminn eða Loch Ness skrímslið í Skotlandi. Svo er það Kleppsskrímslið í Rogalandi í Noregi. Í aldir hafa sögusagnir varað fólk við því að busla í Kleppsvatninu. Þar búi langur og þykkur ormur með hringlaga munn alsettan oddhvössum tönnum.
Margir afskrifa sögurnar sem óáreiðanlegar þjóðsögur. En ekki lengur. Á dögunum voru tvær ungar vinkonur á rölti um Boresströndina. Þær voru að viðra hund. Hann fann skrímslið dautt; meterslangan hryggleysingja, 5 punda. Samkvæmt prófessor í sjávarlíffræði er þetta sníkjudýr. Það sýgur sig fast á önnur dýr, sýgur úr þeim blóð og hold. Óhugnanlegt skrímsli. Eins gott að hundurinn var ekki að busla í vatninu.
Ef smellt er á myndina sést kvikindið betur.
22.5.2022 | 03:58
Félagsfærni Bítlanna
Félagsfærni er hæfileiki til að eiga samskipti við aðra. Það er lærð hegðun. Börn herma eftir öðrum. Félagslynt fólk á öllum aldri speglar annað fólk. Góðir vinir og vinkonur tileinka sér ósjálfrátt talsmáta hvers annars, hegðun, ýmsa takta, húmor, smekk á fatnaði, músík og allskonar.
Á upphafsárum Bítlanna voru þeir snyrtilega klipptir; stutt í hliðum og hnakka en dálítill lubbi að ofan greiddur upp. Svo fóru þeir að spila í Þýskalandi. Þar eignaðist bassaleikarinn, Stu Sutcliffe, kærustu. Hún fékk hann til að greiða hárið fram á enni. Hinir Bítlarnir sprungu úr hlátri er þeir sáu útkomuna. Þeir vöndust hárgreiðslunni. Innan skamms tóku þeir, einn af öðrum, upp sömu greiðslu. Nema trommarinn, Pete Best. Hann hefur alla tíð skort félags- og trommuhæfileika. Öfugt við arftakann, Ringo.
Þegar fram liðu stundir leyfðu Bítlarnir hártoppnum að síkka meira. Að því kom að hárið óx yfir eyru og síkkaði í hnakka. Svo tóku þeir - tímabundið - upp á því að safna yfirvaraskeggi. Þegar það fékk að fjúka söfnuðu þeir börtum. Um leið síkkaði hárið niður á herðar.
Áður en ferli hljómsveitarinnar lauk voru allir komnir með alskegg. Hártíska Bítlanna var aldrei samantekin ráð. Þeir bara spegluðu hvern annan. Á mörgum öðrum sviðum einnig.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
9.4.2022 | 03:51
Íslenskt hugvit vekur heimsathygli
Í Danmörku er starfrækt ein fullkomnasta og afkastamesta vinyl-plötupressa heims, RPM Records. Þar er meðal annars boðið upp á hágæða grafíska hönnun og tónlistarmyndbönd fyrir youtube. Eigandinn er grafískur hönnuður að mennt og lærður kvikmyndagerðarmaður. Hann kemur úr Svarfaðardal og heitir Guðmundur Örn Ísfeld.
Afurðir RPM Records hafa margar hverjar ratað í heimspressuna. Núna síðast segir bandaríska tímaritið Rolling Stone frá nýjustu plötu kanadísku poppstjörnunnar Weeknd, margfalds Grammy-verðlaunahafa auk fjölda annarra verðlauna og viðurkenninga.
The Weeknds Newest Record Could Destroy Your Turntable Or Your Extremities
Out of Time available as a vinyl record pressed into an actual, working saw blade.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 07:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
25.3.2022 | 07:10
Logið um dýr
Mannskepnan er eina lífveran í heiminum sem lýgur. Lýgur og lýgur. Lýgur upp á aðrar manneskjur. Lýgur um aðrar manneskjur. Lýgur öllu steini léttara. Þar á meðal um dýr. Sumar lygar eru svo útbreiddar og rótgrónar að í huga margra eru þær sannleikur. Dæmi:
- Gullfiskar eru sagðir vera nánast minnislausir. Þeir muni aðeins í 3 sek. Þeir syndi fram og aftur um fiskabúr og telji sig alltaf sjá nýtt og framandi umhverfi. Hið rétta er að minni gullfiska spannar margar vikur.
- Hákarlar eru sagðir sökkva til botns ef þeir eru ekki á stöðugri hreyfingu. Þetta á við um fæsta hákarla. Örfáar tegundir þurfa hreyfingu til að ná súrefni.
- Kvikmyndir hafa sýnt hákarla sem banvæna mönnum. Allt að því árlega berast fréttir af hákarli sem hefur bitið manneskju. Þetta ratar í8 fréttir vegna þess hvað það er fátítt. Af 350 tegundum hákarla eru 75% ófærir um að drepa manneskju. Þeir eru það smáir. Ennfremur komast fæstir hákarlar í kynni við fólk. Hákarlar hafa ekki lyst á mannakjöti. Í þau skipti sem þeir bíta í manneskju er það vegna þess að þeir halda að um sel sé að ræða. Selir eru þeirra uppáhaldsfæða. Líkur á að vera lostinn af eldingu er miklu meiri en að verða fyrir árás hákarls.
- Mörgum er illa við að hrísgrjónum sé hent yfir nýbökuð brúðhjón. Þau eru sögð vera étin af fuglum sem drepast í kjölfarið. Þetta er lygi. Hrísgrjón eru fuglunum hættulaus.
- Rakt hundstrýni á að votta heilbrigði en þurrt boða óheilbrigði. Rakt eða þurrt trýni hefur ekkert með heilbrigði að gera. Ef hinsvegar rennur úr því er næsta víst að eitthvað er að.
- Í nautaati ögrar nautabaninn dýrinu með rauðri dulu. Nautið bregst við. En það hefur ekkert með lit að gera. Naut bregst á sama hátt við dulu í hvaða lit sem er.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
18.3.2022 | 03:49
Hámark letinnar
Leti er listgrein út af fyrir sig. Það þarf skipulag til að gera ekki neitt. Eða sem allra minnst. Skipulag og skapandi hugsun. Margar af bestu uppfinningum mannsins urðu til vegna leti. Líka margt spaugilegt.
Ástæða getur verið að smella á myndirnar til að átta sig betur á hvað er í gangi.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
21.2.2022 | 08:55
Eru býflugur fiskar?
13.2.2022 | 06:04
Bráðskemmtileg svör barna
Eftirfarandi svör barna við spurningum eru sögð vera úr raunverulegum prófum. Kannski er það ekki sannleikanum samkvæmt. Og þó. Börn koma oft á óvart með skapandi hugsun. Þau sjá hlutina fyrir sér frá fleiri sjónarhornum en kassalaga hugsun fullorðna fólksins.
- Hvar var sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna undirrituð?
- Neðst á blaðsíðunni
- Hver er megin ástæða fyrir hjónaskilnuðum?
- Hjónaband
- Hvað getur þú aldrei borðað í morgunmat?
- Hádegismat og kvöldmat
- Hvað hefur sömu lögun og hálft epli?
- Hinn helmingurinn
- Hvað gerist ef þú hendir rauðum steini í bláahaf?
- Hann blotnar
- Hvernig getur manneskja vakað samfleytt í 8 daga?
- Með því að sofa á nóttunni
- Hvernig er hægt að lyfta fíl með einni hendi?
- Þú finnur ekki fíl með eina hönd
29.1.2022 | 00:41
Töfrar úðans
Ég var að selja snyrtivörur, alnáttúrulegar heilsusnyrtivörur úr Aloe Vera plöntunni að uppistöðu til. Aldraður maður á Egilsstöðum hringdi í mig. Hann bað mig um að senda sér í póstkröfu sólarolíu sem heitir Dark Tanning Oil Spray. Ástæðuna sagði hann vera þreytu í augum. Hann grunaði að úðaspreyið gæti gert sér gott. Einkum vegna þess að Aloe Vera var uppistöðuhráefnið.
Nokkrum vikum síðar hringdi maðurinn aftur til að fá fleiri úðabrúsa. Hann sagði að reynslan væri svo góð við að spreyja í augun að hann væri byrjaður að spreyja í eyrun líka. Með jafn góðum árangri. Eyrun hvíldust vel útspreyjuð.
Nokkrum vikum síðar hringdi hann enn í mig. Hann vantaði fleiri úðabrúsa. Nú var hann byrjaður að spreyja upp í munninn á sér undir svefninn. Allt annað líf. Hann svæfi eins og kornabarn. Að auki væru draumfarir ljúfari.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)