Algjör snilld! Ótrúlegt en satt!

  Larry_Walters

  Larry Walters hét bandarískur vörubílstjóri,  fæddur 1949 og dáinn 1993.  11 árum áður en hann svipti sig lífi setti hann saman heimalagað loftfar úr hægindastól og 45 helium-fylltum veðurathugunarblöðrum.  Í þessum stól skaust Larry 16.000 fet (næstum 5 kílómetra) upp í loftið og setti úr skorðum flugumferð yfir Long Beach flugvelli.   

  Larry dreymdi um að komast í bandaríska flugherinn.  Vegna sjóndepru kappans var umsókn hans hafnað af flughernum.  Það var þá sem Larry hófst handa við að hanna flugfarið. 
  Hugmyndin var nokkuð ólík raunveruleikanum.  Hann ætlaði einungis að svífa 30 metra ofar jörðu í nokkra daga.  Þegar hann væri búinn að sveima um nægju sína ætlaði hann að skjóta gat á blöðrurnar og ná mjúkri lendingu.
  Larry nestaði sig með áfengi og nokkrum vel smurðum samlokum.  Einnig hafði hann meðferðis talstöð,  myndavél og byssu til að skjóta á blöðrurnar.  
  Larry að óvörum sveif stóllinn ekki hægt og rólega upp í loftið heldur skaust eins og korktappi næstum 5 km upp til himins og inn á flugstjórnarsvæði Long Beach flugvallar.  Larry tapaði gleraugunum af sér um leið og stóllinn tók flugið.  Fyrir bragðið gat hann ekki notið útsýnisins. 
  Hann skaust upp að hlið TWA flugvélar.  Gapandi af undrun tilkynnti flugmaðurinn flugturninum að við hlið sér í 16.000 feta hæð svifi maður í hægindastól. 
  Flugturninn náði sambandi við talstöð Larrys.  Larry stamaði og hikstaði í geðshræringu en bað þó um að fjölskylda sín væri látinn vita að hann væri heill á húfi.  Því næst tók Larry að skjóta á blöðrurnar til að lækka flugið.  En það var ískalt í þessari hæð og Larry missti byssuna fljótlega úr krókloppnum höndum.
  Eftir 45 mínútur í loftinu brotlenti Larry á rafmagnslínu og rotaðist í 20 mínútur.  Hann var handtekinn af fjúkandi reiðum flugvallarlögreglumönnum sem spurðu hvern fjandann hann væri að pæla.  "Maður getur ekki bara setið aðgerðarlaus,"  stundi Larry.   Síðar sagði hann að þetta hafi verið eitthvað sem hann varð að gera eftir að hafa hugsað um þetta frá 13 ára aldri. 
  Larry var kærður og dæmdur fyrir að brjóta allskonar lög er varða flugrýmisreglur.  Meðal annars að fljúga án flugskírteinis.
frétt af Larry

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þessi saga hlýtur að vera skrökulýgi.

Númi (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 23:21

2 identicon

E-n tímann heyrði ég nú þessa sögu löngu síðan... mjög fyndið hjá honum

en ekki fyndið að hann skv. wikipedia hafi skotið sig til bana í hjartað og látist :(

p.s. upprunalega planið var víst að svífa 30 fet (9 metra) ofan jörðu. En hann sveif 600x hærra

ari (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 23:22

3 identicon

engin skrökvilygi Númi. Ef þetta er á wikipedia (nútíma biblíunni) þá er þetta satt:

http://en.wikipedia.org/wiki/Larry_Walters

ari (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 23:23

4 Smámynd: Árni Gunnarsson

Ég er nú ekki hissa þó þessi vitleysingur hafi misst byssuleyfið!

Árni Gunnarsson, 13.8.2008 kl. 23:44

5 Smámynd: Ómar Ingi

Fólk er fífl

Ómar Ingi, 13.8.2008 kl. 23:50

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Er ekki óþarfi að eyðileggja góða sögu með efanum? Ef þetta GÆTI verið satt þá er sagan góð!

Mosi 

Guðjón Sigþór Jensson, 14.8.2008 kl. 00:21

7 identicon

æi blesaður karlinn...

alva (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 00:27

8 identicon

..maður bara kennir í brjósti um hann...en hann er samsagt dauður núna...mér finnst þetta svolítið frábært sko..

alva (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 00:28

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Vindur allur úr Walters,
vínið einnig og Kippers,
upp hann skaust,
og af því hlaust,
þar Wiki nú pedíu vers.

Þorsteinn Briem, 14.8.2008 kl. 00:55

10 Smámynd: Jens Guð

  Sagan er sönn.  Þess vegna lét ég fylgja með færslunni myndir með netföngum sem hægt er að fletta upp á.  Sonur minn hefur sankað að sér heimildum um þennan "merka" mann og benti mér á þetta.  Það eru til heilu netsíðurnar tileinkaðar uppátæki mannsins.  Ég hafði færsluna stutta en það er hægt að skrifa langan texta um uppátæki mannsins. 

  Eftir uppátækið varð maðurinn eftirsóttur í viðtöl hjá fjölmiðlum sem veltu sér upp úr dæminu.  Viðtölin staðfesta að margt þvældist fyrir Larry annað en gáfur.  Í aðra röndina er þetta verulega broslegt en í hina röndina sorglegt.   

  Samt er gaman þegar menn láta æskudrauma rætast þó að í þessu tilfelli hefði ef til vill verið betra að leyfa þessu að vera bara æskudraum sem ekki rættist.

Jens Guð, 14.8.2008 kl. 01:01

11 Smámynd: Skattborgari

Hann er án efa það furðulegasta sem flugmaður flugvélanar hefur lent í á sinni starfsævi. alltaf gaman af svona rugludöllum.

Skattborgari, 14.8.2008 kl. 02:22

12 Smámynd: Haraldur Davíðsson

Ég myndi gefa mikið fyrir að sjá framan í flugmanninn og flugumferðarstjórann, ætli turninn hafi haldið að flugmaðurinn væri á sýru.....

...sorglegur endir hjá kallinum samt.

Haraldur Davíðsson, 14.8.2008 kl. 07:22

13 Smámynd: Siggi Lee Lewis

Svona á að ferðast um!! Þetta er alvöru!

Siggi Lee Lewis, 14.8.2008 kl. 10:16

14 identicon

Svo ég grípi nú til útjaskaðs frasa sem endurtekið hefur fengið mig til að slökkva á útvarpinu/sjónvarpinu mínu undanfarna mánuði þá hefur Larry greinilega verið maður sem lét verkin tala  Takk fyrir þessa ágætu sögu.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 10:27

15 identicon

Var einmitt að horfa á mynd um daginn þar sem aðalsöguhetjan gerði einmitt það sama og Larry - ég hafði ekki hugmynd um að þetta hefði verið gert í alvörunni :)  http://www.alltrailers.net/danny-deckchair.html

Marý (IP-tala skráð) 14.8.2008 kl. 11:12

16 identicon

Merkilegt hvað það loðar oft við fólk sem lætur drauma sína rætast og er máski ekki eins og fólk er flest að vera vitleysingar og fífl. 

...désú (IP-tala skráð) 15.8.2008 kl. 15:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.