Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Minnisstætt viðtal sem leiddi til skjótrar afsagnar

  Í dagblaðinu Tvídægri (24 stundum)  í dag er rifjað upp þegar reyðfirski snillingurinn Helgi Seljan var ungur og efnilegur blaðamaður á DV.  Helgi er reyndar ennþá ungur og efnilegur en hann fékk það verkefni að fiska fréttir af þá nýráðnum fréttastjóra RÚV,  Auðuni Georgi Ólafssyni.  Einhver kurr var meðal fréttamanna RÚV sem töldu ráðninguna vera pólitíska (ég man ekki hvort það var á forsendum Sjálfstæðisflokks eða Framsóknar.  Enda er það aukaatriði) og Auðun Georg ekki þann reynslubolta sem fullyrt var.  Á fyrsta degi lenti Auðun Georg í viðtali sem leiddi til þess að hann sagði af sér.  Viðtalið var og er kennslubókardæmi um það hvernig nýráðinn óhæfur fréttastjóri fremur "hara kiri" eða á íslensku:  Skaut sig í fótinn.

Fréttamaður: Hefur þú átt fundi með formanni útvarpsráðs nýlega?
Auðun: Eeeeeeee...Ekki nýlega, nei.
Fréttamaður: Ég hef öruggar heimildir fyrir því að þú hafir hitt hann að máli eftir hádegi í gær.
Auðun: Iiiiiiii...Ég man nú ekki til þess. Man ekki nákvæmlega hvenær það var.
Fréttamaður: Hvað hefði verið rætt á slíkum fundi.
Auðun: Það er bara trúnaðarmál.
Fréttamaður: Þannig að þú viðurkennir að slíkur fundur hafi verið haldinn, þrátt fyrir að þú neitir því.
Auðun: Ja...ég neitaði því ekkert að hann hafi farið fram en, hérna, gef ekkert upp annað um það.
Fréttamaður: Varstu ekki að neita því að fundurinn hafi verið haldinn?
Auðun: Fundurinn hefur verið haldinn en, hérna, hann var bara trúnaðarmál.
Fréttamaður: Hver boðaði fundinn? 
Auðun: Það var bara trúnaðarmál.
Fréttamaður: Baðst þú um fund eða formaður útvarpsráðs?
Auðun: Ummmmm..., ammmm..., nú man ég það ekki. Ég held að ég hafi óskað eftir þeim fundi bara til að meta aðstæður og fara yfir hver staðan væri hér innanhúss.
Fréttamaður: Hver var niðurstaðan á fundinum?
Auðun: Niðurstaðan á fundinum var bara að halda sínu striki og, hérna, ég veit ekki til að ég gert neitt rangt og bara mæti hér til starfa og haldi mínu striki.
Fréttamaður: Af hverju neitaðirðu því í upphafi að fundur hefði verið haldinn?
Auðun: Iiiiii...Bíddu, hvað áttu við?
Fréttamaður: Ég spurði hvort þið hafið átt fund í gær og þú sagðir nei.
Auðun: Ja, mmmmmm..., aaaaaaa...mig minnti ekki hvenær fundurinn fór nákvæmlega fram.
Fréttamaður: Hann var haldinn í gær.
Auðun: Jaaaaá... Þá var hann haldinn í gær.  

Veitingahús - umsögn

panel_fish_01

Veitingastaður:  Icelandic Fish & Chips,  Tryggvagötu 8,  Reykjavík

Réttur:   Djúpsteikt langa

Verð:  1590 kr.

Einkunn: ***1/2 (af 5)

  "Fiskur og franskar" er einskonar þjóðarréttur Breta;  djúpsteiktur skyndibiti afgreiddur á pappadiskum og snæddur með berum puttunum.   Veitingastaður sem kallast Icelandic Fish & Chips hljómar þess vegna ekki spennandi.  Til viðbótar er kjánalegt að íslenskur veitingastaður í Reykjavík skuli heita útlendu nafni.  Ekki síst vegna þess að staðurinn kennir sig við íslenskt hráefni.  Því ekki að nota íslenskt mál líka? 

  Þegar inn á staðinn er komið blasir við að IF&C er ekki "ódýr" eða subbulegur skyndibitastaður.  Þetta er staður í milliflokki.  Við getum staðsett hann til hliðar við Pítuna og American Style. 

  Gestir sækja sér sjálfir hnífapör.  Ef þá langar í vatn sækja þeir sér það einnig sjálfir.  Það er þó engin ástæða því hálfur lítri af bjór kostar 650 kall,  100 kalli minna en á Hróa hetti.  Ef maður nær að drekka 3 bjóra með matnum sparast þannig 300 kall.   

  Á borðum loga kerti.  Það gefur góða stemmningu. 

  Ég pantaði löngu með ofnbökuðum kartöflum og chillí-skyronnesi.  Ég rétti afgreiðsludömunni 5000 kall og hún gaf mér til baka eins og ég hafi látið hana fá 2000 kall.  Mér var alveg sama.  Engu að síður þótti mér þetta vera þjórfé í hærri kantinum.  Ég hugsaði með mér að sennilega væri um að ræða fátæka einstæða móðir með húsaleigu í vanskilum.  Svo bara hætti ég að hugsa um þetta og fór að leita uppi dagblöð til að lesa á meðan maturinn væri eldaður.

  Nokkru síðar spurði daman hvort verið gæti að ég hafi látið hana fá 5000 kall.  Ég kannaðist við það.  Hún lét mig þá fá einhverja seðla.

  Maturinn er borinn fram á ílöngum mjóum glerdiskum.  Það er stæll á því.  Ekkert pappadrasl. 

  Langan er mjúkur fiskur og laus í sér.  Það þarf varla að skera hann því hann dettur sjálfur í sundur þegar ýtt er við honum eða honum gert hverft við á annan hátt.  Það er milt og ferskt bragð af honum.  Deigið sem hann er steiktur í er úr spelti og bankabyggi.  Það er þunnt og stökkt með bragðgóðum heilsukeim.  Ég er lítið fyrir djúpsteiktan fisk en þetta er sá besti sem ég hef bragðað.  Ég mun fara oftar á ID&C og kanna djúpsteikta rauðsprettu eða hlýra - fyrst langan kemur svona vel út.

  Ofnsteiktu kartöflurnar eru baðaðar í ólífuolíu og kryddaðar með salti og steinselju.  Þær eru skornar í þunnar flögur og blessunarlega vel bakaðar;  dökkar,  stökkar og bragðið er skarpt. 

   Eins og nafnið gefur til kynna er skyr uppistöðuhráefni í skyronnesi.  Hin og þessi krydd eru hrærð saman við þannig að úr verður köld sósa,  eða ídýfa.  Það er hægt að velja um margar gerðir af skyronnesi,  svo sem hvítlauks,  sinneps og svo framvegis.  Ég óttaðist pínulítið að chillí-skyronnesið væri heldur sterkt með þessum mat.  Óttinn var ástæðulaus.  Chillí-skyronnesið er létt og gefur frísklegt bragð.

  Ég held að músíkin á staðnum hafi verið spiluð úr tölvu fremur en að stillt hafi verið á útvarp.  Að minnsta kosti var ekkert talað á milli laga og músíkin við hæfi:  Kunnir slagarar með Róbertu Flack,  Nancy og Frank Sinatra. 

  Ef mælikvarðinn á matinn er í heilum stjörnum talið erum við að tala um 4 af 5.  En 3 og hálf er nær lagi.  Myndin er ekki af mat á IF&C.

Aðrar umsagnir um veitingahús:

 - American Style

 - Pítan
 - Hrói höttur

Hvað er skallapopp?

 desert

  Það er ekki öllum gefið að henda reiður á þeim nöfnum sem notuð eru til að skilgreina króka og kima músíkur.  Meðal annars hefur hent að fólk skilgreini skallapopp ranglega sem eitthvað er snýr að aldri eða útliti poppara.  Þess vegna er brýn ástæða til að árétta hvað skallapopp er.  Til að átta sig betur á því er ágætt að þekkja forsöguna:

  Á seinni hluta sjöunda áratugarins og fyrri hluta þess áttunda var mikil gerjun og gróska í rokkmúsík.  Ekki síður á Íslandi en í nágrannalöndunum.  Hljómsveitir eins og Trúbrot,  Náttúra,  Óðmenn og margar fleiri lögðu metnað sinn í að semja og spila framsækna og nýstárlega tónlist.  Sköpunargleðinni var gefinn laus taumur og hljómsveitirnar fundu sinn eigin hljóm.

  Er leið að miðjum áttunda áratugnum fjaraði framsækna bylgjan út á Íslandi.  Í staðinn urðu áberandi þau vinnubrögð að popparar fóru að kráka (covera) gamla bandaríska popp- og sveitaslagara og gefa út með aðkeyptum bulltextum á íslensku.  Við flutninginn var stuðst við upprunalegu útsetningu laganna. 

  Þarna var um steingelda iðnaðarframleiðslu að ræða,  án andagiftrar og gróanda.  Það er þetta fyrirbæri sem farið var að kalla skallapopp.  Holdgerfingar skallapoppsins urðu HLH og Brimkló,  samanber þjóðsönginn Rækjureggí sem Utangarðsmenn og fleiri sungu:

  Ég er löggiltur hálfviti,

hlusta á HLH og Brimkló.

  Ég er löggiltur öryrki,

læt hafa mig að fífli...


Sparnaðarráð - spörum milljónir!

Denture 

  Margt fólk komið yfir miðjan aldur er með gervitennur,  svokallaða tanngóma.  Hjá næstu kynslóð fyrir ofan mig þóttu þannig gómar glæsilegustu fermingargjafir sem hægt var að gefa og eða fá.  Svona gervigómar eru nefnilega rándýrir.  Og einmitt vegna þess hvað þeir eru dýrir er blóðugt að vita til þess að fólk með gervitennur er jarðsungið með tennurnar þegar það fellur frá. 

  Þessu þarf að breyta.  Fólk getur gefið leyfi fyrir því að eftir dauða sinn séu líffæri þeirra grædd í lifandi fólk.  Svona leyfi þarf að ná yfir gervitennur líka.  Það verður þá hlutverk meðhjálparans í kjölfar kistulagningar að kippa gervigómum úr hinum látna og afhenda sýslumanni.

  Ef vel er haldið utan um þetta verður fljótlega til gott safn gervigóma á öllum sýsluskrifstofum landsins:  Gervigómasafn Eyjafjarðar,  Gervigómasafn Þingeyinga og svo framvegis.  Í þessi söfn koma síðan fátæklingar - ásamt vel stæðum en nískum - og máta upp í sig gervigóma þangað til þeir finna einhverja sem passa.  Þá mega þeir eiga góminn alveg ókeypis.  Mörgum munar um minna.  

---------------

Fleiri góð sparnaðarráð:

http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/537968


Anna á Hesteyri - gestagangur

  anna á hesteyri

  Tveir rígfullorðnir menn heimsóttu Önnu á Hesteyri einn heitan sumardag.  Anna bauð þeim í bæinn að venju og gaf þeim kaffi.  Spjall var hinsvegar þeim annmörkum háð að Anna stillti útvarpið,  rás 1,  á botn skammt frá þeim.  Það var "sinfóníugaul" í útvarpinu,  eins og annar gestanna orðaði það er hann sagði mér söguna.  Þeim þótti þetta óþægilegt og margbáðu Önnu um að lækka í útvarpinu.  Anna sagðist vera að hlusta á útvarpið,  væri farin að tapa heyrn og yrði að hafa útvarpið á hæsta styrk.  Anna sagði þetta vera góða músík.  Enginn sem til Önnu þekkir veit til þess að hún hafi fyrr né síðar haft áhuga á klassískri músík.

  Annað þótti gestunum einkennilegt.  Heitt var í veðri og hlýtt inni í húsinu.  Um leið og gestunum var boðið í bæinn hljóp Anna á milli ofna og hækkaði hita í botn.  Áður en leið á löngu sátu þau þrjú öll í svitakófi eins og í gufubaði.  Þegar gestirnir báðu Önnu um að skrúfa fyrir ofna neitaði hún því.  Sagði að það væri kuldahrollur í sér.  Þó rann svitinn niður andlitið á henni.  Hún er venjulega kappklædd.  Í þetta sinn fækkaði hún fötum og var léttklædd á hennar mælikvarða.

  Vegna hávaðans frá útvarpinu og hitastækjunnar varð heimsóknin styttri en efni stóðu til.

  Nokkru síðar varð Anna uppvís af því að hafa falið kindur sem átti að vera búið að farga vegna riðuveiki á svæðinu.  Mennirnir áttuðu sig þá á því að útvarpið gegndi því hlutverki að jarm frá kindunum heyrðist ekki.  Hitastækjan gegndi því hlutverki að stytta heimsókn gestanna.

  Meira um földu kindurnar hennar Önnu Mörtu síðar.

  Aðrar sögur af Önnu:

- Slóst við mömmu
- Farandssali
- Sendi lögguna
- Einkennilegt aksturslag
- Meira af einkennilegu aksturslagi
- Samanbrotinn konfektkassi
- Nupo létt
- Bílprófið

Tíðar árásir á lögregluna

 Sigurður Pétur ÓlafssonGazman

  Í Morgunblaðinu er haft eftir Geir Jóni Þórissyni,  yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu,  að árásir á lögregluna séu alltof tíðar.  Ég hef ekki kynnt mér málið en hallast að því að Geir Jón hafi sitthvað fyrir sér hvað þetta varðar.  Til að vera ekki yfirdrifinn hefði ég þó að óreyndu látið duga að segja að árásir á lögregluna séu of tíðar.  Hinsvegar geri ég mér ekki grein fyrir því hvað árásir á lögregluna þurfa að vera tíðar til að teljist hæfilegt.  Upplýsingar um það vantar svo hægt sé að hafa þær innan skynsamlegra marka. 


Ég var klukkaður

  Meistarinn sjálfur,  Magnús Geir Guðmundsson,  klukkaði mig.  Leikurinn gengur út á að svara nokkrum spurningum.  Ég hef kíkt á svona klukk-kvitt hjá nokkrum bloggurum og þótt gaman að lesa.  Þetta er öðruvísi klukk en fór mikinn í bloggheimum í fyrra.  Það gekk út að kjafta frá leyndarmálum eða öðru sem fáir vita af.  En hér eru svörin við þessum nýja klukk-leik:

Fjögur störf sem ég hef unnið:


- Merkti kjötskrokka (1. flokkur,  2. flokkur o.s.frv.)  í Sláturhúsi Skagfirðinga á Sauðárkróki,  grisjaði þá og færði inn í frystiklefa.  Þetta vann ég við frá 12 ára aldri til 15.

- Keyrði traktor í álverinu í Straumsvík frá því að ég var rekinn frá Laugavatni og þangað til ég hóf nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands.

- Fyllti í konfekt hjá sælgætisgerðinni Freyju á milli námsvetra í MHÍ.

- Blaðamaður hjá ýmsum tímaritum í 30 ár,  allt frá barnablaðinu Æskunni til dagblaða og ýmissa músíkblaða.

Fjórar bíómyndir sem ég hef glápt á oftar en einu sinni:

- Rokk í Reykjavík

- Sódóma Reykjavíkur

- I Kina spiser de hunde

- Djöflaeyjan 

4 staðir sem ég hef búið á:

- Hrafnhóll í Hjaltadal,  Skagafirði

- Barónsstígur í Reykjavík

- Grettisgata í Reykjavík

- Ásgarður í Reykjavík

Fjórir sjónvarpsþættir sem ég held upp á:

- Silfur Egils

- Kastljós

- Fréttir í Sjónvarpinu og Stöð 2

- Ísland í dag

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt:

- Amarillo,  Texas (að heilsa upp á tengdapabba og hans fólk)

- Aasiaat,  Grænlandi (að spila á rokkhátíðinni Nipiaa Rock Festival tvö ár í röð)

- Edinborg,  Skotlandi (að spila á listahátíð)

- Ýmsir staðir á Færeyjum.  Hef sennilega kíkt um 30 sinnum á Færeyjarnar


Fjórar síður sem ég heimsæki fyrir utan bloggsíður:

- www.planet.fo

- www.portal.fo

- www.uf.fo

- www.sosialurin.fo

Fjórar bækur sem ég hef lesið oftar en einu sinni:

- Símaskráin

- Bankabókin

- Glósubók sem ég fann um daginn

- Eru ekki allir í stuði? Rokksaga Íslands eftir Dr. Gunna

Fjórir uppáhaldsréttir:

- Sjósiginn fiskur með hamsafloti

- Smjörsteiktur humar

- Selspik

- Súr hvalur

Fjórir staðir sem ég vildi helst vera á núna:

- Gata í Færeyjum

- Þórshöfn í Færeyjum

- Klakksvík í Færeyjum

- Svítan á Hótel Borg

Fjórir bloggarar sem ég klukka:

- Sigurður Þórðarson

- Siggi Lee Lewis

- Jón Steinar Ragnarsson

- Steini Briem


Svörin við þrautinni í síðustu færslu

  Hér eru upplýsingar um það hvaða ljósmyndir eru ófalsaðar og hverjar eru falsaðar í síðustu færslu.  Ef þú ert ekki þegar búin/n að spreyta þig á þrautinni skaltu fyrst tékka á myndunum áður en þú skoðar þessar upplýsingar.  Það er gaman að virða myndirnar fyrir sér og reyna að komast að niðurstöðu.

1 Ekta (stærsta brú í heimi)

2 Fölsuð (draugur)

3 Ekta (auga úti í geimi)

4 Ekta (aflagað hús)

5 Ekta (bátur)

6 Fölsuð (eðla)

7 Fölsuð (flóðbylgja)

8 Fölsuð (flugsýning)

9 Ekta (háir háhælaskór)

10 Ekta (hundur sem réðist á broddgölt)

11 Fölsuð (hákarl ræðst á þyrlu)

12 Ekta (skíðasvæði)

13 Ekta (Kólibrí-fuglar)

14 Ekta (laumufarþegi)

15 Ekta (leirgedda)

16 Ekta (ormur)

17 Fölsuð (ljósmynd á pilsi)

18 Ekta (albinóa-kálfur)

19 Fölsuð (11. sept. ´01)

20 Ekta (peningar)

21 Ekta (fiskur)

22 Fölsuð (hestur og hundur)

23 Ekta (kanína)

24 Ekta (köngulær)

25 Fölsuð (köttur)

26 Ekta (annar köttur)

27 Ekta (sandstormur)

28 Ekta (skógareldur)

29 Fölsuð (ský)

30 Fölsuð (tölva)

31 Fölsuð (sólsetur)

32 Ekta (tvíburar)


Spreyttu þig á þessu

  Myndirnar hér að neðan eiga það sameiginlegt að hafa birst í dagblöðum,  tímaritum og á netinu sem ófalsaðar og ekta.  Sú er samt ekki raunin með þær allar.  Áður en þú skoðar myndirnar skaltu skrifa á blað tölurnar frá 1 upp í 32.  Því næst skoðarðu hverja mynd fyrir sig og veltir fyrir þér hversu líklegt sé að myndin sé ekta eða fölsuð.  Þegar þú hefur komist að niðurstöðu skrifarðu E við þær myndir sem eru ekta og F við fölsuðu myndirnar.  Ath.  að skrifa ekki á tölvuskjáinn heldur á blaðið með númerunum.   

  Þessi leikur reynir á jafnvægið á milli þess að vera tortryggin/n og trúgjarn/gjörn.  Þekking á "fótósjoppi" hjálpar. 

1.  Brú

brú ö R

2.  Draugur (til vinstri á myndinni)

  Draugur (til vinstri) F

3.  Auga úti í geimi

Auga úti í geimi R

4.  Aflagað hús

Aflagað hús R

5.  Bátur

bátur R

6.  Eðla í Malasíu

 Eðla í Malaysíu F

7.  Flóðbylgja í Taílandi

flóðbylgja í Thailandi F

8.  Flugsýning 2006

Flugsýning F

9.  Háir háhælaskór

háir háhælaskór R

10. Hundur sem réðist á broddgölt

hundur sem réðist á broddgölt R

11. Hákarl reynir árás á þyrlu

Hákarl ræðst á þyrlu F

12.  Innanhúss skíðasvæði í Dubai

Inni skíðasvæði í Dubai R

13.  Kólibrí-fuglar drekka úr lófa

Kólibrífuglar drekka úr lófa R

14.  Laumufarþegi sem fannst við landamæraeftirlit

laumufarþegi R

15. Leirgedda étur gúmmíbolta

Leirgedda étur gúmmíbolta R

16. Ormabæli í auga

Lifandi ormur í auga

17. Ljósmynd á pilsi

Ljósmynd á pilsi F

18. Litlaus hjartarkálfur

litlaus hjartarkálfur

19. Mynd tekin 11. sept. 2001 í WTC

Óþekktur ferðamaður í WTC 11.sept.´01 F

20. Peningar sem lögregla fann í áhlaupi á dópsala

Peningar teknir í áhlaupi lögreglu á dópsala R

21. Fiskur

Risafiskur R

22. Smáhestur (póný) og stór hundur

risahundur F

23. Kanína

Risakanína R

24. Grimmar risaköngulær

Risaköngulær R

25. Köttur

risaköttur F

 26. Annar köttur

Risaköttur R

27.  Sandstormur

Sandstormur R 

28. Skógareldur

Skógareldur á fjalli R

29. Ský

Ský F

30. Tölva á sýningu 1954

Tölva á sýningu 1954 F

31. Sólsetur á Norðurpólnum

Sólsetur á Norðurpólnum F

32. Tvíburar

tvíburar R

Rétt svör verða birt í næstu færslu í kvöld.  Þangað til skaltu "kópera" tölurnar hérna fyrir neðan, "peista" í athugasemdir og skrifa E eða F fyrir aftan þær eftir því sem við á.

1

2

3

4

5

6

7

8

9

10

11

12

13

14

15

16

17

18

19

20

21

22

23

24

25

26

27

28

29

30

31

32


Neytendastofa leggur blessun yfir gróf vörusvik

 rautt eðal ginseng 

  Fyrir nokkru hóf heildverslunin Eggert Kristjánsson hf.  sölu á hvítu ginsengi úr rótarendum,  svokölluðum úrgangsendum.  Vörunni lét heildverslunin pakka inn í samskonar pakkningar og með samskonar útlitshönnun og Rautt eðal ginseng,  sem fyrir var á markaðnum.  Ekki nóg með það.  Hvíta ginsengið var kallað Rautt eðal ginseng á umbúðunum.

  Nafnið Rautt eðal ginseng er lögverndað vörumerki.  Uppátækið var kært og Eggerti Kristjánssyni hf.  gert að kalla vöruna öðru nafni og breyta útliti umbúðanna.  Nafninu var þá breytt í Rautt kóreskt ginseng og umbúðunum lítillega breytt.  Varan var þó áfram seld ólöglega í verslanir utan höfuðborgarinnar og í póstverslun femin.is.

  Neytendasamtökin létu efnagreina ginsengið til að sannreyna að um hvítt ginseng væri að ræða.  Reyndar þurfti þess ekki því liturinn er auðséður.  Rautt ginseng er með ljósum rauðbrúnum blæ.  Hvítt ginseng er það ekki.  Neytendasamtökin fengu staðfest í efnagreiningu erlendis að þetta sem kallað er Rautt kóreskt ginseng er aðeins hvítt ginseng.

  Það er mikill gæðamunur og stór verðmunur á rauðu ginsengi og hvítu.  Þarna er því um gróf vörusvik að ræða.  Neytendasamtökin kærðu vörusvikin til Neytendastofu.  Það vekur undrun að Neytendastofa skuli nú hafa tekið þá ákvörðun að aðhafast ekki í málinu og leggja þannig blessun sína yfir því að svikin vara sé á markaði.

  Neytendastofa vísar til þess að ekki sé til evrópskur staðall yfir það hvenær ginseng telst vera hvítt eða rautt.  Þannig staðall er hinsvegar í Kóreu og framfylgt af nákvæmni. 

  Myndin sýnir umbúðir ósvikna rauða ginsengsins.


mbl.is Ekki ástæða til aðgerða vegna ginsengs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.