Færsluflokkur: Spaugilegt
17.5.2019 | 00:07
Fullur þingmaður
Eitt sinn er ég brá mér á Ólafsvökuna í Færeyjum þá var íslenskur alþingismaður í sömu flugvél. Bæði á leiðinni út og á heimleiðinni. Hann var blindfullur. Hann átti að ávarpa færeyska lögþingið. Hvernig það gekk fyrir sig hef ég ekki hugmynd um. Ég sá hann ekki aftur fyrr en á heimleiðinni. Þá var hann blindfullur. Hann stillti sér upp framarlega í vélinni og hóf að raða farþegum í sæti: "Sest þú hérna, góði minn" og "Sest þú þarna, góða mín." Fólkið hlýddi. Flugfreyjan stökk að honum og öskraði: "Hvern djöfulinn heldurðu að þú sért að gera? Allir eru með sætanúmerið sitt prentað á flugmiðann!"
Þingmaðurinn svaraði hinn rólegasti: "Ég var nú bara að reyna að hjálpa til."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
26.2.2019 | 00:03
Smásaga um bíleiganda
Jóhann og frú Þuríður eiga gamlan fólksbíl. Að því kom að ýmislegt fór að hrjá skrjóðinn. Um miðjan janúar gafst hann upp. Þuríður fékk kranabíl til að drösla honum á verkstæði. Þar var hann til viðgerðar í marga daga. Bifvélavirkjunum tókst seint og síðar meir að koma honum í lag.
Verkstæðiseigandinn hringdi í frú Þuríði. Tilkynnti henni að bíllinn væri kominn í lag. Þetta hefði verið spurning um að afskrifa bílinn - henda honum ónýtum - eða gera hann upp með miklum kostnaði.
Verkstæðiseigandinn útlistaði þetta fyrir frú Þuríði. Sagði: "Öll viðvörunarljós lýstu í mælaborðinu. Þú hlýtur að vita að rautt ljós í mælaborði kallar á tafarlausa viðgerð á verkstæði. Annars skemmist eitthvað."
Frú Þuríður varð skömmustuleg. Hún svaraði með semingi: "Fyrstu ljósin kviknuðu í október. Þau voru appelsínugul. Svo fjölgaði ljósunum í nóvember. Þar bættust rauð við. Hámarki náðu þau í desember. Okkur Jóhanni þótti þetta vera í anda jólanna, hátíðar ljóss og friðar. Þetta var eins og jólasería. Við erum mikil jólabörn. Við ákváðum að leyfa þeim að lýsa upp mælaborðið fram á þrettándann að minnsta kosti. Blessaður bíllinn stóð sína plikt og rúmlega það. Ekki kom á óvart að hann reyndi sitt besta. Við gáfum honum nefnilega ilmspjald í jólagjöf."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 20:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.2.2019 | 21:47
Pallbíll til sölu
Nánast splunkunýr pallbíll - svo gott sem beint úr kassanum - er til sölu á tíu milljónir króna. Samkvæmt ökumæli hefur hann verið keyrður miklu minna en ekki neitt; mínus 150 þúsund kílómetra. Góð framtíðareign; fasteign á hjólum. Slegist verður um hann á bílasöluplani Procar. Fyrstur kemur, fyrstur fær. Ryðblettirnir eru meira til skrauts en til vandræða.
Spaugilegt | Breytt 19.2.2019 kl. 19:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.2.2019 | 04:08
Samkvæmt teikningunni
Hver kannast ekki við að hafa sett saman skáp - eða annað húsgagn - samkvæmt teikningu frá Ikea og uppgötva síðar að hún snéri vitlaust? Að sú væri ástæðan fyrir því að hurðarhúnn er staðsettur of neðarlega og að hillur snúa á hvolf. Mörg dæmi eru til um abstrakt málverk sem hafa árum saman snúið á haus uppi á vegg. Ef fólk gætir sín ekki þeim mun betur er þetta alltaf að gerast: Að hlutirnir snúa á haus. Glæsilegt hús virðist líta einkennilega út. En teikningin er samþykkt og vottuð og "svona er þetta samkvæmt teikningunni." Í einhverjum tilfellum hefur þetta leitt til málaferla. Svoleiðis er aldrei gaman.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.11.2018 | 00:01
Uppfinningar sem breyta lífi þínu
Japanir eru allra manna iðnastir við að finna upp gagnlega hluti. Það er eins og þeir geri ekkert annað allan daginn. Hugmyndaflugið er ótakmarkað. Hér eru nokkur snjöll sýnishorn af vörum sem hafa ekki borist til Evrópu. Bara tímaspursmál um daga fremur en ár.
Sólarorkukveikjarinn sparar bensín og fé. Margnota líftíðareign. Fer vel í stóra vasa.
Augndropar eru til stöðugra vandræða. Þeir hitta ekki á augað. Lenda upp á enni eða niður á kinn. Þar fer dýr dropi til spillist. Augndropatrektin leysir málið. Snilldin felst í því að trektinni er haldið stöðugri með því að vera föst við gleraugu. Gleraugun tryggja að dropinn lendi á mitt augað.
Banani er hollastur þegar hann er vel þroskaður; orðinn mjúkur og alsettur svörtum deplum. Í því ástandi fer hann illa í vasa. Klessist og atar vasann. Bananaboxið er lausnin. Það er úr þunnu og léttu plasti og varðveitir lögun ávaxtarins. Algengt er að fólki með mikið dót í öllum vösum rugli öllu saman; man ekki stundinni lengur hvað er hvað. Bananaboxið lítur út eins og banani. Enginn ruglast á því.
Vatnsmelónur eru plássfrekar í verslunum og í flutningum. Þær staflast illa; kringlóttar og af öllum stærðum. Japanir hafa komist upp á lag með að rækta þær ferkantaðar. Þær eru ræktaðar í kassa. Þannig eru þær jafnframt allar jafn stórar.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 14:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.10.2018 | 07:05
Hugljúf jólasaga
- Viltu styðja við stigann, Tóti minn? Hann á það til að renna út á stétt.
- Ekkert mál. Tóti greip þéttingsfast um stigann.
- Ertu ekki með lykil að útidyrunum?
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 21:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
10.10.2018 | 04:55
Ennþá fleiri gullmolar úr "Ekki misskilja mig vitlaust!"
"Þrír skór á verði tveggja." Útvarpsauglýsing frá íþróttavöruversluninni Under Armour vorið 2018.
"Komið þið sæl - ég verð því miður að afboða forföll á sambandsþingið - óska ykkur góðs gengis. Kv. Vigdís." Vigdís Hauksdóttir.
"Það er hver höndin upp á móti annarri við að hjálpa hinni." Þórarinn Kristjánsson frá Hólum í Geiradal að lýsa hjálpsemi sveitunga sinna.
"Hann var frændi minn til fjölda ára, flutti svo háaldraður til Reykjavíkur og lést þar á besta aldri." Langi-Sveinn (Sveinn Sveinsson) vörubílstjóri á Selfossi.
"Ég er í vandræðum með að fá föt á stelpuna því hún er svo ermalöng." Ína frá Víðidalsá í Steingrímsfirði (Þorsteinsína Guðrún Gestsdóttir) að kaupa peysu á dóttur sína.
"Þetta voru ekki góð mistök hjá Herði." Bjarnólfur Lárusson í knattspyrnulýsingu á Stöð 2.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 05:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
4.10.2018 | 06:19
Fleiri sýnishorn úr bókinni "Ekki misskilja mig vitlaust!"
Í síðustu færslu sagði ég frá nýútkominni bók, "Ekki misskilja mig vitlaust!". Hér eru nokkur sýnishorn úr henni:
"Í Kína eru mannréttindi brotin daglega á hverjum degi." Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, fréttakona hjá RÚV.
"Það dregur úr vexti lambanna að slátra þeim of ungum." Páll Zóphóníasson.
"Hann hefur verið með meðfæddan galla frá fæðingu." Hörður Magnússon , íþróttafréttamaður Stöðvar 2.
"Aðalverðlaunin eru ferð á páskamót sem Disney-garðurinn í París heldur í lok árs." Karl Garðarsson, fréttamaður á Stöð 2.
"Ég get bara alveg sagt ykkur að hérna úti við vegamótin fórum við Reynir framhjá að minnsta kosti 100 manna hreindýrahópi." Gugga Reynis á Vopnafirði.
"Jæja, þá erum við allir dánir, bræðurnir, nema ég og Gulla systir." Árni á Brúnastöðum í Fljótum eftir jarðarför bróður síns á Siglufirði.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.9.2018 | 08:38
Bráðskemmtileg bók
Í vikunni kom út bókin "Ekki misskilja mig vitlaust!". Hún inniheldur samantekt á spaugilegum mismælum og ambögum þjóðþekktra manna. Einkum þeirra sem hafa mismælt sig í beinni útsendingu í ljósvakamiðlum. Líka er vitnað til annarra. Til að mynda er titill bókarinnar sóttur í ummæli Guðbjarts Jónssonar. Hann var löngum kenndur við veitinga- og skemmtistaðinn Vagninn á Flateyri.
Allar tilvitnanir eru feðraðar. Þær eru ekki uppdiktaður útúrsnúningur. Það gefur textanum aukið vægi. Fjölbreytni er meiri en halda mætti að óreyndu. Margar tilvitnanir eru einnar línu setning. Aðrar slaga upp í smásögur.
Þrátt fyrir að bókin sé aðeins um 80 blaðsíður þá er textinn það þéttur - án mynda - að lestur tekur töluverðan tíma. Best er að lesa hana í áföngum. Japla á textanum í smáum skömmtum. Sum broslegustu mismælin eru þannig að maður áttar sig ekki á þeim við fyrsta lestur. Önnur er gaman að endurlesa og jafnvel brúka til gamans.
Höfundur bókarinnar er Guðjón Ingi Eiríksson. Í formála segir hann meðal annars: "Mismæli og ambögur ... og oft er útkoman algjör snilld! Merkir jafnvel eitthvað allt annað en upp var lagt með og kitlar þá stundum hláturtaugarnar. Tengist oft misheyrn og misskilningi og auðvitað öllu þar á milli."
Sýnishorn:
"Heilbrigðisráðherra tók ákvörðunina að höfðu samræði við lækna." Heimir Már Pétursson, fréttamaður á Stöð 2.
"Bíllinn er hálfur á hliðinni." Telma Tómasson, fréttakona á Stöð 2.
"Nú eru allir forsetar þingsins konur í fyrsta sinn." Páll Magnússon í fréttalestri í Ríkisútvarpinu.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
25.9.2018 | 04:00
Auglýst eftir konu
Eftirfarandi frásögn svipar til brandara sem fór eins og eldur í sinu á níunda áratug síðustu aldar.
Færeyskur piltur, Klakksvíkingurinn John Petersen, fékk sér far með Dúgvuni, farþegabáti sem siglir á milli Klakksvíkur og Leirvíkur. Um borð keypti hann lakkrís og súkkulaðistykki. Sætaskipan er þannig að allir sitja til borðs með öllum. Ókunnug stúlka settist við sama borð og John. Skyndilega tekur hún sig til og brýtur vænan bita af súkkulaðinu. Honum þótti þetta "ódönnuð" framkoma. Lét samt eins og ekkert væri og fékk sér sjálfur vænan súkkulaðibita. Hún braut sér annan bita. Þá fór að síga í John. Til að tapa ekki restinni upp í stúlkuna gerði hann sér lítið fyrir og sporðrenndi henni með látum eins og langsoltinn hundur.
Kominn á land í Leirvík varð John á að fálma í úlpuvasa sinn. Þar fann hann súkkulaðið ósnert. Rann þá upp fyrir honum að hann væri dóninn. Ekki stúlkan. Hann hafði étið súkkulaði hennar. Hún var horfin úr sjónmáli. Þess vegna hefur hann nú tekið til bragðs að auglýsa eftir henni. Honum er í mun að biðjast afsökunar og útskýra hvað fór úrskeiðis.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 06:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)