Færsluflokkur: Spaugilegt
21.2.2020 | 06:14
Þegar Harrison hrekkti Phil Collins
Ýmsir tónlistarmenn líta á Phil Collins sem fígúru. Eða hafa að öðru leyti lítið álit á persónunni. Til að mynda Liam Callagher. Bítlarnir Paul McCartney, Ringo Starr og George Harrison líka.
1970 fékk sá síðastnefndi Phil til að spila á bongótrommur í laginu "Art of dying" fyrir plötuna flottu "All things must pass". Hann var þá í hljómsveitinni Flaming Youth. Þetta var nokkru fyrir daga Brand X og Genesis.
Þegar platan kom út var bongótrommuleikur Phils fjarri góðu gamni. Það var áfall fyrir unga manninn sem dýrkaði Bítlana og hafði stúderað trommuleik Ringos út í hörgul. Hann kunni ekki við að leita skýringar fyrr en mörgum árum síðar. Þá var hann orðinn frægur og kominn með sjálfstraust til þess.
George brá á leik. Hann var alltaf stríðinn og hrekkjóttur. Hann fékk Ray Cooder til að koma í hljóðver og spila afar illa og klaufalega á bongótrommur undir lagið. Svo skemmtilega vildi til að í lok upphaflegu hljóðritunarinnar á laginu heyrist George kalla: "Phil, við hljóðritum þetta aftur og nú án bongótrommuleiks."
Þessa upptöku með lélega bongóleiknum spilaði George fyrir Phil. Honum var verulega brugðið; miður sín yfir því hvað bongótrommuleikur "hans" var ömurlegur. Einnig við að heyra George í raun reka hann.
Phil sá sem George ávarpaði í upptökunni var ekki Collins heldur upptökustjórinn, Phil Spector. Mörgum árum síðar sagði George kauða frá hrekknum. Þungu fargi var af honum létt.
Spaugilegt | Breytt 23.2.2020 kl. 11:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2020 | 23:23
Illa farið með góðan dreng
Ég rekst stundum á mann. Við erum málkunnugir. Köllum hann Palla. Hann býr í lítill blokk. Í sama stigagangi býr vinur hans. Köllum hann Kalla. Þeir eru hálfsjötugir einstæðingar. Fyrir bragðið sækja þeir í félagsskap hvors annars. Fá sér stundum bjór saman; tefla, skreppa í bingó og svo framvegis.
Í hvert sinn sem ég rekst á Palla hefst samtalið á þessum orðum: "Ég er alveg að gefast upp á Kalla." Í kjölfar kemur skýring á því. Í gær var hún svona:
"Hann bauð mér út að borða. Þegar við héldum af stað bað hann mig um að aka að Bæjarins bestu. Það var allt í lagi. Mér þykir pylsur góðar. Hann pantaði tvær pylsur með öllu og gos. Ég hélt að önnur væri handa mér og hann myndi spyrja hvernig gos ég vildi. En, nei, pylsurnar voru handa honum. Ég pantaði pylsu og gos. Þegar kom að því að borga sqagði hann: "Heyrðu, ég gleymdi að taka veskið með mér. Þú græjar þetta." Ekki í fyrsta skipti sem hann leikur þennan leik. Þegar við vorum búnir með pylsurnar sagðist hann verða að fá eitthvað sætt á eftir. Við keyrðum að konditorí-bakaríi. Ég keypti handa okkur tertusneiðar og heitt súkkulaði. Hann kvartaði undan tertunni. Skóf utan af henni allt besta gumsið og borðaði það. Skildi sjálfa tertukökuna eftir. Lét mig síðan kaupa aðra og öðruvísi tertusneið."
Fyrir mánuði rakst ég á Palla. Þá sagði hann:
"Ég er alveg að gefast upp á Kalla. Um daginn stakk hann upp á því að við myndum halda upp á jólin með stæl. Gefa hvor öðrum lúxus-jólagjafir. Samt eitthvað gagnlegt sem við myndum hvort sem er kaupa sjálfir fyrr eða síðar. Ég var tregur til. Enda auralítill. Honum tókst að tala mig til með þeim rökum að hann væri búinn að kaupa góða jólagjöf handa mér sem ég ætti eftir að nota oft. Er ég samþykkti þetta sagðist hann vera búinn að velja sér jólagjöf frá mér. Það væri tiltekinn snjallsími. Mér þótti heldur mikið í lagt. Um leið fékk ég þá flugu í hausinn að hann væri búinn að kaupa samskonar síma handa mér. Ég hafði stundum talað um að fá mér snjallsíma. Flestir eru með svoleiðis í dag. Á aðfangadag tók ég upp pakkann frá honum. Í honum voru tíu þvottapokar úr Rúmfatalagernum sem kosta 99 kr. stykkið"
Spaugilegt | Breytt 9.2.2020 kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.1.2020 | 22:50
EazyJet um Ísland og Íslendinga
Á dögunum fór ég á flandur með ensku flugfélagi, EazyJet. Skrapp til Edinborgar í Skotlandi. Skömmu síðar aftur til Íslands.
Í sætisvasa fyrir framan mig í flugvélinni fann ég bækling prentaðan í lit á pappír. Yfirskrift hans er EazyJet Traveller. Þar má finna fróðleik um þjónustu flugfélagsins. Líka auglýsingu um gott verð á skóm í tiltekinni verslun.
Skemmtilegasta lesefnið er tveggja blaðsíðna viðtal við íslenskan uppistandara. Ara Eldjárn. Af framsetningu þess má ráða að Ari sé vinsæll og virtur uppistandari í Bretlandi. Reyndar veit ég að svo er.
Í viðtalinu dregur hann upp spaugilega - en góðlátlega - mynd af Íslendingum. Hárfín og bráðfyndin kímnigáfan hittir glæsilega í mark. Stöngin inn með látum!
Gaman var að sjá hundruð flugfarþega frá öllum heimshornum lesa um Ara - og vita að mörgum sinnum fleiri eigi eftir að gera það.
Í sama bæklingi er grein sem ber (á ensku) yfirskriftina "3 topp húðflúrstofur í Reykjavík". Þar eru taldar upp nokkrar stofur og lýsing á þeim. Þessar stofur eru:
1. Black kross
2. Apollo ink
3. Reykjavik ink
Blaðamaður EasyJet hlýtur að hafa reynslu af þessum stofum. Einnig fleiri reykvískum stofum fyrst að hann getur raðað upp í toppsæti.
Íslenskir húðflúrarar eru þeir bestu í heimi. Ég skrifa af reynslu til margra ára. Minn frábæri húðflúrari er Svanur Guðrúnarson í Lifandi List tattoo studio. Hann er ekki á listanum yfir bestu reykvísku stofur vegna þess að stofan hans er í Hafnarfirði.
Spaugilegt | Breytt 19.1.2020 kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.1.2020 | 00:46
Frásögn bresks blaðs af íslenskum jólum
Hátíð ljóss og friðar, jólunum, varði ég í Skotlandi. Í góðu yfirlæti. Í Bretlandseyjum er gefið út götublað að nafni Daily Mirror. Það er frekar lélegt blað. En prentað á ágætan pappír. Þannig lagað.
Á aðfangadegi birti það grein undir fyrirsögninni "Jólasveinasnakk" (Santa´s snack). Þar segir:
"Jólin á Íslandi spanna 26 daga. Þar af telja 13 jólasveinar, svo og tröll sem ofan koma úr fjöllunum og gefa gjafir. Í þakklætisskini færa börnin þeim laufabrauð. Það smakkast eins og stökkar vöfflur."
Spaugilegt | Breytt 18.1.2020 kl. 19:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.1.2020 | 00:39
Ósvífin börn gerðu hróp að gömlum manni
Ég fagnaði jólunum í Edinborg í Skotlandi. Tók hvorki með mér tölvu né síma. Var bara í algjörri hvíld. Þannig hleður maður batteríin. Verra var að illa uppalin börn gerðu hróp að mér með uppnefnum. Og það í tvígang. Í bæði skiptin var um að ræða á að giska fimm ára stelpur. Í fyrra tilfellinu var ég á gangi í tívolí-garði. Skimaði þar eftir indverskum mat. Þá vatt sér að mér frekjuleg stelpa sem togaði í ermina á mér og sagði á ensku:
"Jólasveinn, komdu í heimsókn til okkar!"
Það lá við að ég gæfi barninu "fuck you" merki. En stillti mig. Veifaði bara í staðinn.
Næst var ég staddur á matsölustað. Fékk mér djúpsteiktan þorsk. Á næsta borði sat karl ásamt börnum. Hann var með bendingar á eitt barnið og hló dátt. Ég vissi ekki hvað það átti að þýða. Svo yfirgaf hópurinn staðinn. Þá snéri sér að mér stelpa sem hrópaði upp í opið geð á mér hátt og snjallt á ensku: "Hóhóhó! Gleðileg jól, jólasveinn!"
Spaugilegt | Breytt 4.1.2020 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
15.12.2019 | 23:07
Sýnishorn úr bráðfyndinni bók
Bókin heitir "Hann hefur engu gleymt ... nema textunum!" Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum. Guðjón Ingi Eiríksson safnaði sögunum saman úr ýmsum áttum og skráði. Þær eru eins fjölbreyttar og þær eru margar. Í formála segir meðal annars: "Farið er yfir holt og hæðir og beygjur teknar - sumar ansi krappar - með óteljandi hliðarsporum yfir drullupytti og aðrar vegleysur."
Hér eru dæmi:
Eftir að hljómsveitin Upplyfting hafði verið að spila á dansleik í Miðgarði fór Kristján Björn Snorrason, harmóníkuleikari hennar, út baka til og sá þar ungan sveitapilt, sem greinilega hafði skemmt sér fullvel þá um nóttina, liggja á grúfu úti undir vegg.
"Hvern andskotann ertu að gera þarna?" spurði Kristján Björn.
Eitthvað lífsmark var greinilega með pilti sem svaraði þvoglumæltur:
"Ég er að rannsaka íslenskan jarðveg."
*
Skúli Ágústsson, bóndi í Auðholti og Birtingaholti, en lengst af verslunarstjóri hjá Sláturfélagi Suðurlands í Reykjavík, var góður bassi og söng lengi með Karlakór Reykjavíkur.
Á efri árum Skúla fékk hann eitt sinn boð á árshátíð kórsins. Hann var þá hættur í kórnum og svaraði boðinu með eftirfarandi vísu:
Ég held ég láti hófið bíða,
mér hentar ekki þvílíkt rall.
Hættur að drekka, dansa og ríða.
Hvern djöfulinn á ég að gera á ball?
*
Magnús Þór Sigmundsson söng:
"Eru álfar kannski menn?"
Eitthvað var um að þetta tæki breytingum og yrði:
"Eru álfar danskir menn?"
*
Óskar Pétursson var gestur á hljómleikum Þuríðar Sigurðardóttur og fór að vanda á kostum. Þau spjölluðu og grínuðust heilmikið á milli laga og meðal annars kom Jesú Kristur til tals. Þá sagði Óskar:
"Ég skil ekkert í mönnum að kalla það kraftaverk þegar hann breytti vatni í vín, hérna á sínum tíma. Heima í Skagafirði kallast þetta nú bara að brugga landa!"
Spaugilegt | Breytt 16.12.2019 kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
21.11.2019 | 00:01
Skammir
Ég var staddur í matvöruverslun. Þar var kona að skamma ungan dreng, á að giska fimm eða sex ára. Ég hlustaði ekki á skammirnar og veit ekki út á hvað þær gengu. Þó heyrði ég að konan lauk skömmunum með því að hreyta í drenginn: "Þú hlustar aldrei á mig!"
Hún gat ekki varist hlátri - fremur en viðstaddir - þegar strákurinn svaraði hátt, snjallt og reiðilega: "Stundum finnst mér nú eins og ég hlusti of mikið á þig!"
18.11.2019 | 00:01
Gangbraut, strætóskýli, kyrrstæðir bílar, sektir...
Margt er brogað hér í borg;
ég bévítans delana þekki.
Hagatorg er hringlaga torg
en hringtorg er það samt ekki!
Fyrir þá sem þekkja ekki til: Hagatorg er hringlaga torg fyrir framan Hótel Sögu. Bílar mega ekki stöðva þegar ekið er í kringum torgið. Sá sem stöðvar er umsvifalaust sektaður. Við torgið stendur veglegt strætóskýli. Vandamálið er að strætó má ekki stöðva við skýlið - að viðlagðri sekt. Sama á við um bíla sem þurfa að stöðva fyrir aftan ef strætó stoppar. Sjaldnast stoppar hann við skýlið. Þar híma viðskiptavinir bláir af kulda dögum saman og horfa upp á hvern strætóinn á fætur öðrum aka hjá án þess að stoppa.
Þvert yfir torgið liggur gangbraut. Bílstjórar mega ekki stöðva til að hleypa gangandi yfir. Stöðvun kostar fjársekt. Hinsvegar er refsilaust að keyra gangandi niður. Einhverjir embættismenn halda því þó fram að gangbrautin eigi réttinn. Hringtorgið sé nefnilega ekki hringtorg.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
30.10.2019 | 07:27
Bráðskemmtileg bók
Út var að koma bókin "Hann hefur engu gleymt... nema textunum!" Undirtitillinn er "Gamansögur úr íslenska tónlistarheiminum". Höfundur er Guðjón Ingi Eiríksson. Undirtitillinn lýsir bókinni. Gamansögunum fylgja áhugaverðir fróðleiksmolar um tónlistarmenn og heilmikil sagnfræði.
Sögurnar eru fjölbreyttar og skemmtilegar. Spanna marga áratugi og ná til margra músíkstíla. Örfá dæmi:
"Hljómsveitin Upplyfting á sér langa sögu og merka og hafa margir velt því fyrir sér hvernig best væri að þýða nafn hennar, ef hún ákvæði nú að herja á útlönd. Hinir sömu hafa væntanlega allir komist að sömu niðurstöðunni, nefnilega... Viagra!
Karlakórinn Fóstbræður fór í söngferð til Algeirsborgar í Alsír fyrir margt löngu síðan. Þegar kórinn kom aftur heim varð Bjarna Benediktssyni, þáverandi forsætisráðherra, að orði: "Þá er Tyrkjaránsins hefnt!"
Nokkrum árum eftir að Megas hafði búið á Siglufirði, eins og fyrr greinir, hélt hann tónleika þar. Opnunarorð hans voru: "Mér er sagt að ég hafi einhvern tímann búið hérna."
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.10.2019 | 05:42
Sökudólgurinn gripinn glóðvolgur
Í árdaga tölvunnar var sett upp tölvustofa í Háskóla Íslands. Tölvurnar voru frumstæðar og kostuðu skildinginn. Fljótlega kom upp sú staða að lyklaborðin biluðu. Þetta var eins og smitandi sýki. Takkar hættu að virka eða skiluðu annarri niðurstöðu en þeim var ætlað. Þetta var ekki eðlilegt. Grunur kviknaði um að skipulögð skemmdarverk væru unnin á tölvunum. Eftirlitsmyndavélum var komið fyrir í stofunni svo lítið bar á. Þær fundu sökudólginn. Hann reyndist vera ræstingakona; afskaplega samviskusöm og vandvirk með langan og farsælan feril.
Á hverju kvöldi skóladags þreif hún tölvustofuna hátt og lágt. Meðal annars úðaði hún yfir tölvurnar sótthreinsandi sápuúða sem hún þurrkaði jafnharðan af. Hún úðaði einnig vökvanum yfir lyklaborðin. Vandamálið er að enn í dag - nálægt 4 áratugum síðar - eru lyklaborð afskaplega viðkvæm fyrir vökva. Ég votta það.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 05:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)