Færsluflokkur: Spaugilegt
13.2.2014 | 22:08
Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð?
Spurningin sem margir spyrja sig - og nokkra aðra - er: Hvað eru Bjarni Ben og Sigmundur Davíð? Svar við spurningunni áleitnu brennur á íslenskum almenningi (og í bland nokkrum útlendingum með bakpoka). Mér er ljúft og skylt að upplýsa málið - fyrst að ég á annað borð veit svarið. Í stuttu máli er Bjarni Ben djúpsteiktur fiskur (nánar tiltekið fiskborgari). Sigmundur Davíð er hakkað naut (í formi nautaborgara).
Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru nýjustu réttirnir á veitingastaðnum Texasborgurum við Grandagarð.
Fram til þessa hafa hamborgararnir á Texasborgurum verið 140 gr. Bjarni Ben og Sigmundur Davíð eru hinsvegar 90 gr. Þeir eru afgreiddir í hamborgarabrauði og með frönskum kartöflum, sósu og salati. Verðið er sniðið að kaupgetu fólks í skuldaánauð; 690 kall.
Hlutverk nafngiftar þessara málsverða er að minna ráðamenn landsins á að skuldugir landsmenn eru langþreyttir á bið eftir skuldaleiðréttingu. Þeir bíða og bíða og bíða og bíða eftir skuldaleiðréttingu sem boðuð var á vormánuðum og átti að ganga í gegn einn, tveir og þrír. Svo gleymdist hún. Að mér skilst. Í atinu þurfti að einbeita kröftum að kvótagreifum sem toguðust á um að borga sér 800 milljónir í arð (í stað 700 milljóna). Eða eitthvað svoleiðis.
Ég þekki ekkert til þessara mála og skipti mér ekkert af þeim. En ég held að framtak Texasborgara sé skemmtilegur flötur á skuldaánauðinni.
Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Texasborgara. Aftur á móti snæði ég oft á Sjávarbarnum. Hann er við hliðina á Texasborgurum og - að ég held - sami eigandi. Á Sjávarbarnum er boðið upp á glæsilegt sjávarréttahlaðborð í bland við kjúklingarétti. Það er í miklu uppáhaldi hjá mér.
Hér er eigandinn, Magnús Ingi Magnússon, með Bjarna Ben og Sigmund Davíð í fanginu.
Bjarni Ben spilar ekki á loftgítar. Þess í stað er hann liðtækur á loftklarinettu og loftfuglaflautu.
Spaugilegt | Breytt 14.2.2014 kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.2.2014 | 19:49
Sláandi myndir frá Sotsjí
Keppendur og aðrir gestir Ólympíuleikanna í Sotsjí er þrumulostnir yfir ýmsu þar á bæ. Meðal annars klósettaðstöðunni. Þar er um almenningssalerni að ræða í bókstaflegri merkingu. Þegar kvartað er undan þessu fyrirkomulagi benda Rússarnir á að tími leyndarmála og pukurs sé liðinn. Nú eigi allt að fara fram fyrir opnum tjöldum. Allt skuli vera uppi á borðum og gegnsætt.
Sum klósettin vekja upp fleiri spurningar en svör.
Merkingar í salernisaðstöðunni koma á óvart. Til að mynda að bannað sé að veiða með veiðistöng í klósettunum. Líka að stranglega bannað er að setja pappír í klósettin. Allan pappír á að setja í ruslafötu.
Rússar eru félagslyndir. Víða eru nokkrir stólar fyrir framan klósettin svo vinahópurinn geti sest niður og haldið áfram að spjalla á meðan einn úr hópnum brúkar dolluna.
Kranavatnið í Sotsjí er sagt vera eitt það hreinasta og tærasta í Rússlandi. Það er gult á litinn og bragðast eins og skólp. Hvernig veit fólk hvernig skólp bragðast?
Internetsamband er ágætt meirihluta dagsins þegar allt er saman talið. Hinsvegar þykir frágangurinn vera í anda mannsins sem reddar hlutunum fyrir horn án þess að eltast við þetta fínlega.
j
![]() |
Á Pussy Riot bretti í Sotsjí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 8.2.2014 kl. 13:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2014 | 21:52
Ævintýralegar breytingar á þyrlum Landhelgisgæslunnar
Það hefur lengi háð Landhelgisgæslunni að þyrlur hennar líta út eins og aðrar þyrlum. Fyrir vikið tekur enginn eftir þeim né ber tilhlýðilega virðingu fyrir þeim. Fólki finnst þær vera bara eins og hverjar aðrar þyrlur. Það er brýnt verkefni að ráða bót á þessu. Þegar hefur ein þyrlan verið sent til Noregs í tilraunaskyni. Norðmenn eru snillingar þegar kemur að því að breyta þyrlu úr því að vera venjuleg í það að stinga í stúf.
Ef Norðmönnum tekst vel upp með að breyta þessari þyrlu verður þeim einnig sigað á aðrar þyrlur. Verið er að skoða nokkra möguleika.
Einn möguleikinn er að líma mynd af jólasveini á þyrluhurðina og skreyta þyrluna með myndum af kartöflum. Það er glaðvær stemmning í því.
Sumir hallast að heimilislegri útfærslu.
Aðrir eru hrifnastir af timbruðu útgáfunni.
Ódýrast er að breyta engu í útliti þyrlanna öðru en því að hnýta á þær litríkar slaufur. Það er snyrtilegt.
Starfsmenn þyrlanna verða einnig að skera sig frá almúganum. Þeir fá húfur.
![]() |
Þyrlurnar verða mjög áberandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.2.2014 | 22:25
Blindraflug í bókstaflegri merkingu
Þessi saga er ekki léttúðlegt rangsannindagrín. Í áætlunarflugi frá borginni Seattle í Washington í Bandaríkjum Norður-Ameríku til borgarinnar San Francisco í Kaliforníu í sama landi þurfti óvænt að millilenda í höfuðborg Kaliforníu, Sacramentó. Í hátalarakerfi flugvélarinnar var farþegum tilkynnt um 50 mín. stopp. Þeim var boðið og ráðlagt að nota tækifærið og teygja úr fótunum inni í flugstöðinni. Flugstjórinn gekk frá borði á eftir farþegunum. Aðeins ein blind eldri kona sat áfram í flugvélinni ásamt blindrahundinum sínum.
Flugstjórinn þekkti konuna. Hann hvatti hana til að fara inn í flugstöðina og teygja úr sér. Nei, sú blinda vildi bara halda kyrru fyrir í flugvélinni. Hinsvegar taldi hún að blindrahundurinn hefði gott af því að fá að rölta um. Hún bað flugmanninn um að viðra hann fyrir sig. Sem var sjálfsagt mál af hans hálfu.
Þegar flugstjórinn kom inn í farþegasal flugstöðvarinnar leiddur af auðkenndum blindrahundinum greip um sig múgæsingur meðal farþega. Eflaust hafði sitt að segja að flugstjórinn var með sín dökku flugstjóragleraugu sem eru svipuð þeim er margir blindir nota.
Farþegar þyrptust að miðasölunni og létu breyta flugmiðanum sínum í annað flug. Margir létu sér það ekki nægja heldur keyptu nýjan flugmiða hjá öðru flugfélagi.
------------------------------
Hljótt hefur farið að hljómsveitin Of Monsters and Men gaf á dögunum Barnaspítala Hringsins 110 milljónir króna. Eina spurningin sem uppátækið hefur vakið er hvers vegna þetta fólk getur ekki fengið sér vinnu eins og annað fólk.
Spaugilegt | Breytt 6.2.2014 kl. 01:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.1.2014 | 22:43
Lulla frænka og jólin - 2. hluti
Lulla frænka var góður kokkur. Það var gaman þegar hún bauð í mat. Þá var alvöru veisla. Ein jólin bauð hún mér og minni frú, svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum. Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré, glæsilega skreytt í bak og fyrir. Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni. Systir mín settist í stakan stól með háu baki. Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því. Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:
"Það er út af englahárinu. Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð. Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu. Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."
Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum. Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré. Ég held að englahár sé ekki lengur selt. En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti. Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi.
Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat. Alls ekki. En hún var barnslega opin og hreinskilin. Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:
"Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita. Hvað haldið þið að þeir hafi kostað? Ég veit að þið getið ekki giskað á það. Þeir eru miklu dýrari en þið haldið. Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið. Það lá við að ég hætti við að kaupa þá. Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."
Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum. Það var hátt. Þetta var 1977. Ég man ekki upphæðina. Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja. Það var ekki ætlun Lullu. Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað. Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.
Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu. Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti. Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:
"Fáið ykkur endilega meira. Nóg er til. Þetta eru góðar kjötbollur, þó að ég segi sjálf frá."
Mágur minn, stór og mikill, ýtti frá sér disknum og sagði: "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað. Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."
Lulla leiðrétti hann: "Nei, þú ert búinn að borða sjö."
----------------------------
Fyrri hluti af jólum Lullu frænku:
Spaugilegt | Breytt 1.2.2014 kl. 23:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
29.1.2014 | 21:50
Sokkar sem gera þig að góðum dansara
Vond frétt fyrir danskennara og dansskóla. Góð frétt fyrir aðra. Sérstaklega þá sem girnist að dansa en kann það ekki. Svo ekki sé minnst á þá sem vita nokkurn veginn hver danssporin eiga að vera en á dansgólfinu fer allt úrskeiðis. Fæturnir fara í allar áttir og aðallega í vitlausar áttir. Snælduvitlausar áttir.
Eftir tvo mánuði koma á markað sokkar sem stýra fótunum í réttu danssporin. Sokkarnir líta út eins og venjulegir sokkar. Það má þvo þá í þvottavél og allt.
Sokkarnir eru úr næmum trefjum. Þær eiga samskipti við forrit í snjallsíma á meðan viðkomandi dansar.
Spaugilegt | Breytt 30.1.2014 kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
25.1.2014 | 21:29
Lulla frænka á jólunum
Jól og áramót voru Lullu frænku oft erfið andlega. Stundum fór hún svo langt niður á milli jóla og nýárs að hún var vistuð inni á Klepp eða geðdeild Borgarspítalans. Læknar sögðu hana upplifa einsemd sterkar á þessum árstíma en oftast annars. Jólin eru svo mikil barna- og fjölskylduhátíð. Engu að síður voru ættingjar og vinir Lullu duglegir að senda henni jólakort, jólagjafir og hringja í hana. Henni var líka boðið í jólakaffi og jólamat. Hún fékk einnig heimsóknir.
Ég veit ekki hvort eða hvernig það spilaði saman við annað að Lulla var mjög óánægð með nánast allar jólagjafir sem henni bárust. Það átti hún sameiginlegt með föður sínum, afa mínum.
Þegar ég heimsótti hana um jól þá sýndi hún mér jólagjafirnar með útskýringum:
"Foreldrar þínir gáfu mér þennan náttlampa. Ég skil ekki hvernig þeim datt það í hug. Ég er ekki með neitt náttborð. Ég les aldrei uppi í rúmi. Ég get hvergi haft lampann nema á eldhúsborðinu. Þar er hægt að stinga honum í samband. En það hefur enginn náttlampa á eldhúsborðinu. Ég verð að athlægi. Náttlampinn er bara til vandræða. Ekkert nema vandræða."
Og: "Frænka þín gaf mér þessa bók. Ég er ekki með neina bókahillu. Ég hef enga aðstöðu fyrir bækur. Alveg dæmalaust að einhverjum detti í hug að gefa mér bók."
Ég: "Það eru allir að tala um að þessi bók sé mjög skemmtileg."
Lulla: "Já, það má hafa gaman af henni. Ég hef gluggað í hana. En ég er í algjörum vandræðum með að leggja hana frá mér. Eini staðurinn sem ég get lagt hana frá mér er svefnherbergisgólfið. Það geymir enginn bækur á gólfinu. Bókin er alveg fyrir mér á gólfinu þegar ég skúra."
Fljótlega eftir að ég flutti til Reykjavíkur reyndi ég að gleðja Lullu frænku með jólagjöfum. Mér tekst ekki að rifja upp hvað varð fyrir valinu. Aftur á móti man ég að Lulla setti út á valið. Ég kippti mér ekkert upp við það. Þekkti viðbrögðin, bæði hjá henni og afa. Þau áttu það jafnframt sameiginlegt að taka sumar gjafirnar síðar í sátt. Og jafnvel verða ánægð með þær.
Í tilfelli afa voru upprunalegu óánægjuviðbrögð hans útskýrð af foreldrum mínum sem spennufall. Hann hlakkaði alltaf svo rosalega mikið til jólanna að þegar hann pakksaddur eftir aðfangakvöldsveisluna fór að taka upp pakka þá réði taugakerfið ekki lengur við spennuna. Hann hafði allt á hornum sér gegn öllum jólapökkum sem hann fékk. Ég tel að foreldrar mínir hafi haft rétt fyrir sér með spennufallið.
Ég veit ekki hvort að sama skýring nær yfir viðbrögð Lullu. Ég varð ekki var við sama spenning hjá henni fyrir jólunum og hjá afa. Kannski er það ekkert að marka. Lulla var á allskonar lyfjum og synti áfram í rólegheitum í vímu þeirra meðala sem hún tók inn.
Þegar ég kvæntist áttaði konan sig fljótlega á því hvaða jólagjöf gæti glatt Lullu. Konan vann í sjoppu. Hún smalaði saman í stóran pakka þverskurð af sælgætinu í sjoppunni. Þetta hitti í mark. Lulla hringdi í mig á jóladag og lék við hvurn sinn fingur. Hún skammtaði sér hóflegan skammt fyrir hvern dag. Naut hvers bita og náði að láta nammið endast yfir marga daga.
Á annan í jólum hringdi Lulla aftur í mig. Hún hafði fundið súkkulaðistykkjum á borð við Bounti og Snickers nýtt hlutverk. Hún skáskar stykkin þannig að hver sneið leit út eins og tertusneið: Þykk í annan endann og örþunn í hinn endann. Lulla sagði:
"Ég raða sneiðunum á lítinn disk. Örfáum í einu. Fjórum sneiðum eða fimm. Svo geymi ég diskinn inni í ísskáp. Í kaffitíma helli ég mér í kaffibolla og næ í diskinn. Þá þykist ég vera með alvöru tertusneiðar. Fæ mér bita af þeim með litlum gaffli. Litla bita. Þetta er svo gaman. Sneiðarnar líta út alveg eins og alvöru tertusneiðar með kremi og öllu."
------------------------------------
Meira af Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1335376/
Spaugilegt | Breytt 26.1.2014 kl. 22:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.1.2014 | 20:02
Mannað geimfar lenti á sólinni
Í gærmorgun var sautján ára drengur, Hung Il Gong, á leið heim til sín - eftir nætursvall - í Norður-Kóreu. Að venju slagaði hann framhjá geimferðarstofnun landsins. Við honum blasti nett geimflaug og dyrnar voru ekki alveg lokaðar. Forvitni vaknaði, Hung Il Gong skreið inn í flaugina og litaðist um. Hann sá að allir takkar, handföng, mælar og annað var vel merkt og auðskiljanlegt.
Hung þótti ekki ástæða til að bíða með neitt. Hann ræsti flaugina, skaut henni á loft og setti stefnuna á sólina.
Svo heppilega vildi til að ferðalagið var eftir sólsetur og fyrir sólarupprás. Hung ferðaðist þess vegna í myrkri þangað til hann kom að sólinni. Þá stýrði hann flauginni lipurlega að bakhlið sólarinnar, sem er ekki eins heit og framhliðin, og lenti þar.
Frásögn af lendingunni á sólinni var aðalfréttin í n-kóreska sjónvarpinu. Þar sagði meðal annars að Norður-Kórea hafi skotið öllum þjóðum heims ref fyrir rass með geimferðinni til sólarinnar. Hvatt var til þess að Hung Il Gong yrði fagnað sem hetju við heimkomuna. Ferðin til sólarinnar væri stærsta afrek í sögu mannkyns frá upphafi.
Hung Il Gong er náfrændi Kim Jong-un, leiðtoga þjóðarinnar. Hung fyllti alla vasa af sjóðheitu sólargrjóti sem hann ætlar að færa Kim frænda að gjöf. N-kóreskir fjölmiðlar þreytast ekki á að halda því fram að Kim Jong-un sé kynþokkafyllsti maður í heimi. Jafnframt hamra n-kóreskir fjölmiðlar á því að Kim Jong-un hafi fundið upp herraklippingu sem farið hefur sigurför um heiminn. Þess á milli rifja þeir upp að faðir Kim Jong-un hafi fundið upp hamborgarann.
Kim Jong-un hefur tekið upp sið föður síns að drekka sig blindfullan af koníaki á kvöldin. Enda engin ástæða til annars. Kim Jong-un hefur þó ekki apað upp sið pabbans að sitja allsnakinn við drykkjuna. Kim Jong-un er svo kynþokkafullur að hann þarf ekki klæðaleysi til að flagga því.
Hung ráðleggur næstu sólarförum að hafa sólgleraugu með. Það er dáldið bjart á sólinni.
Spaugilegt | Breytt 25.1.2014 kl. 10:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.1.2014 | 22:19
Gamanmál eru ekkert grín
Gamanmál á kostnað annarra eru vandmeðfarin. Margt af því sem fórnarlömb upplifa sem einelti er af hálfu gerenda bara létt grín. Í versta tilfelli saklaus stríðni. Þetta á bæði við um einelti í skólum og á vinnustöðum.
Það er misjafnt hvort eða hversu mikinn húmor einstaklingar hafa fyrir sjálfum sér. Sumir kunna vel við að vera miðpunktur athygli, hvort sem það er í formi gríns sem aðrir gera um þá eða þeir sjálfir. Aðrir eru viðkvæmir fyrir athygli í formi gríns um þá. Einkum ef þeir upplifa grínið rætið og níðingslegt í sinn garð.
Fólk sem allflestir standa í trú um að sé með harðan skráp getur verið viðkvæmt fyrir gríni um sig. Kvótakóngurinn Halldór Ásgrímsson er dæmi um það. Hann var formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Almenningi þótti eðlilegt að störf manns í þeirri stöðu væru skoðuð í spaugilegu ljósi. En ekki honum. Hann upplifði grín Spaugstofunnar sem gróft einelti í sinn garð. Honum var ekki skemmt. Það situr ennþá í honum.
Það er ekki auðvelt að átta sig á því hver er með harðan skráp og hver er viðkvæm sál. Kjaftforir, yfirlýsingaglaðir og árásagjarnir einstaklingar eru í mörgum tilfellum afar viðkvæmir þegar deilt er á þá, hvort sem er í gríni eða alvöru. Dæmi eru um að þeir kvarti sáran undan ofsóknum og einelti í sinn garð í "kommentakerfum" netmiðla. Á Fésbók gerist það oft að slíkir einstaklingar slíti vinskap við aðra sem svara þeim með þeirra eigin orðfæri.
Á Freyjudaginn gengur Þorri í garð með tilheyrandi þorrablótum og þorrablótsannálum. Aðgát skal höfð í nærveru sálar. Jafnvel oftar en einu sinni. Gott grín á að vera þannig að allir hafi gaman af.
![]() |
Ósáttur við þorraannál og flytur úr bænum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Spaugilegt | Breytt 22.1.2014 kl. 19:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.1.2014 | 23:07
Nafnið skiptir meira máli en þú heldur
Þegar foreldrar velja barni sínu nafn er um stóra ákvörðun að ræða. Flestir velja nafn út frá því hversu vel það hljómar. Ekki síst hvernig það hljómar með eftirnafni (hvort sem um er að ræða ættarnafn eða barn kennt við föður eða móður). Margir velja nafn til heiðurs nánum ættingja eða vini. Enn aðrir velja nafn út frá merkingu nafnsins. Í sumum tilfellum er þessu öllu blandað saman og barnið fær tvö nöfn.
Strax í grunnskóla kemur í ljós vægi nafnsins. Sum nöfn bjóða upp á niðrandi uppnefni. Önnur bjóða upp á upphefjandi gælunafn.
Þegar einstaklingurinn eldist, þekking hans og jafnaldra á sögunni eykst, skiptir nafnið ennþá meira máli. Merking nafnsins hefur mikið að segja. Líka hvort að það sé samhljóða nafni afreksfólks. Nafnið hefur áhrif á sjálfsímynd ekki síður en hvernig það hljómar í eyrum annarra við fyrstu kynni. Það þarf sterk bein til að bera nafn á borð við Ljótur Karl, Selja Rán eða Lofthæna (engir heita þeim nöfnum í dag). Líka Hreinn Sveinn og Erlendur Sveinn Hermannsson (sonur óþekkts bresks eða bandarísks hermanns).
Nokkrar íslenskar konur heita Björk Guðmundsdóttir. Nafnið hefur mjög öfluga viðskiptavild. Ég held að engin heiti Vigdís Finnbogadóttir. Líkast til vegna þess að nafnið Finnbogi er ekki algengt.
Nöfnin Jón Sigurðsson, Egill Skallagrímsson, Ingólfur Arnarson og Grettir Ásmundarson eru gildishlaðin í sögulegu samhengi.
Í breska háskólanum í Cambridge voru 223.000 nöfn skráð í gagnagrunn og raðað upp eftir stöðu viðkomandi í samfélaginu út frá starfi. Niðurstaðan var afgerandi. Þeir sem bera "voldug" nöfn á borð við King, Prince og Lord tróna ofarlega í samfélaginu. Þeir sem bera nöfn eins og Farmer (bóndi), baker (bakari) og Cook (kokkur) komast ekki langt.
Í meira en hálfa öld hefur skemmtiiðnaðurinn verið meðvitaður um hlutverk nafns. Elton John hefði aldrei náð frama með sínu raunverulega nafni, Reginald Kenneth Dwight.
David Bowie heitir því auðmelta nafni David Jones. Svo illa vildi til að þegar hann var að hasla sér völl þá var breskur samlandi hans og alnafni að syngja með ómerkilegri bandarískri bítlahljómsveit, The Monkees. Bowie varð að greina sig frá kvikindinu.
George Michael hefði ekki átt mikla möguleika undir sínu rétta nafni, Georgios Kyriacos Panayitou.
Spaugilegt | Breytt 21.1.2014 kl. 15:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)