Lulla frænka og jólin - 2. hluti

hangikjöt og uppstúf 

  Lulla frænka var góður kokkur.  Það var gaman þegar hún bauð í mat.  Þá var alvöru veisla.  Ein jólin bauð hún mér og minni frú,  svo og systir minni og hennar manni, í hangikjöt á annan í jólum.  Á miðju stofugólfi stóð reisulegt jólatré,  glæsilega skreytt í bak og fyrir.  Lulla hóf þegar að leggja á borð í stofunni.  Systir mín settist í stakan stól með háu baki.  Skömmu síðar steyptist hún út í kláða á bakinu og kvartaði undan því.  Lulla útskýrði það eins og ekkert væri sjálfsagðra:  

  "Það er út af englahárinu.  Ég slétti það út á stólbakinu áður en ég setti það á jólatréð.  Það er svo voðalega mikið af glerflísum í englahárinu.  Þess vegna glitrar það svona fallega á jólatrénu."

  Vissulega var rétt hjá Lullu að englahár var samsett úr bómull og glerflísum.  Þess vegna gætti fólk þess að láta englahárið ekki snerta neitt nema jólatré.  Ég held að englahár sé ekki lengur selt.  En kláðinn hélt áfram að angra systir mína þó að hún skipti þegar í stað um sæti.  Kláðinn eyðilagði dálítið fyrir henni kvöldi. 

  Lulla frænka var ekki nísk þegar hún bauð í mat.  Alls ekki.  En hún var barnslega opin og hreinskilin.  Þegar hún bar á borð fat með nýsoðnu hangikjöti kallaði hún til okkar:

  "Sjáið þessa örfáu hangikjötsbita.  Hvað haldið þið að þeir hafi kostað?  Ég veit að þið getið ekki giskað á það.  Þeir eru miklu dýrari en þið haldið.  Mér alveg krossbrá þegar ég sá verðið.  Það lá við að ég hætti við að kaupa þá.  Ég hefði hætt við það ef ég hefði ekki verið búin að bjóða ykkur í hangikjöt."

  Lulla frænka upplýsti okkur um verðið á hangikjötsbitunum.  Það var hátt.  Þetta var 1977.  Ég man ekki upphæðina.  Við gestirnir fengum nett samviskubit yfir að að setjast við veisluborðið upplýst um þessi útgjöld fátæks öryrkja.  Það var ekki ætlun Lullu.  Hún var ætíð höfðingi heim að sækja og í engu til sparað.  Fimm manna veisluborðið hefði mettað fjölmennari hóp og samt verið nóg eftir.

  Í annað sinn bauð Lulla frænka sama hópi í glæsilega kjötbolluveislu.  Kjötbollurnar hennar voru hnossgæti.  Þegar allir höfðu borðað sig pakksadda og lagt frá sér hnífapör hvatti Lulla til frekara áts:

  "Fáið ykkur endilega meira.  Nóg er til.  Þetta eru góðar kjötbollur,  þó að ég segi sjálf frá."

  Mágur minn,  stór og mikill,  ýtti frá sér disknum og sagði:  "Þetta eru bestu kjötbollur sem ég hef smakkað.  Ég er áreiðanlega búinn að torga 10 eða 12 og er gjörsamlega sprunginn."

  Lulla leiðrétti hann:  "Nei,  þú ert búinn að borða sjö."   

----------------------------

  Fyrri hluti af jólum Lullu frænku: 

---------------------------
Hjarðhegðun:
hjar_heg_un.jpg

 

   

  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha kjarnakona hún Lulla frænka þín. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.2.2014 kl. 13:12

2 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  svo sannarlega!

Jens Guð, 3.2.2014 kl. 20:40

3 identicon

Gaman að þessu :-)

Gréta Hauks (IP-tala skráð) 6.2.2014 kl. 15:02

4 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ég bjó í Danmörku í nokkur ár á níunda áratug síðustu aldar. Þar varð ég fyrir dálitlu menningarsjokki. Danir reyndust nefnilega vera nýskupúkar. Þar þótti ekkert tiltökumál í matarboðum að diskútera það hvað kjötið hefði kostað. "Þessar grísakótelettur voru á svo svakalega góðu verði á tilboðinu í Bilka". Eða, "Þetta helvítis nautakjöt er ekki lengur kaupandi! Þetta kostaði hvítuna út augunum!" Svo þótti sjálfsagt að allir matargestirnir tækju nú örugglega með sér tómu bjórflöskurnar sem þeir höfðu haft með sér í partíið. Þetta voru nefnilega verðmæti.

Svo rukkuðu þeir hvern annan miskunarlaust. Íslendingar rukka ekki vini sína, þeir bera bara harm sinn og svekkelsi í hljóði og lána vinunum ennþá meira. Annars væru þeir auðvitað bara aumingjar.

Theódór Gunnarsson, 6.2.2014 kl. 22:28

5 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Ýpsilonið flækist stundum fyrir, nískupæúkar hefi þetta átt að vera.

Theódór Gunnarsson, 6.2.2014 kl. 22:39

6 Smámynd: Jens Guð

  Gréta,  takk fyrir það. 

Jens Guð, 6.2.2014 kl. 23:37

7 Smámynd: Jens Guð

  Theódór,  takk fyrir þessa fróðleiksmola frá Danmörku.  Ég veit ekki hversu almennt það er í Bandaríkjunum yfir heilu línuna en í Flórída og Texas er til siðs í matarboðum að gestir leggi í púkkið.  Það er að segja;  boðið er til að mynda í kalkúnaveislu.  Einhverjir gesta mæta með léttan forrétt.  Aðrir mæta með desert.  Enn aðrir mæta með drykkjarföng eða konfektkassa.  Engir sammælast um neitt.  Þetta þykir bara almenn kurteisi:  Að mæta ekki tómhentur í matarboð.

Jens Guð, 6.2.2014 kl. 23:45

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég mæti yfirleitt með rauðvínsflösku í matarboð, ef gestgjafar drekka ekki kem ég með blóm.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.2.2014 kl. 11:20

9 Smámynd: Jens Guð

  Ásthildur Cesil,  þetta er góður siður. 

Jens Guð, 8.2.2014 kl. 21:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband