Færsluflokkur: Spaugilegt

Berrassaður á hverfisbar

  Fyrir nokkrum árum var rekinn hverfispöbb á efri hæð í Ármúla 5 (fyrir ofan Vitaborgarann,  við hliðina á Broadway).  Pöbbinn var kenndur við rússneska kafbátaskýlið,  Pentagon.  Nafnið Pentagon þýðir fimmhyrnd bygging.  Mörgum þótti nafngiftin á pöbbanum sérkennileg vegna þess að hann var í ferhyrndri byggingu.  Núna heitir staðurinn Crystal. 

  Svo bar til eitt kvöldið að fjölmenni var inni á staðnum.  Virðulegur eldri maður klæddur í vandaðan jakka og með hálsbindi sat sem fastast úti í horni.  Þegar hann vantaði nýtt bjórglas kallaði hann á þjón og lét færa sér á borðið.  Að nokkrum bjórglösum liðnum þurfti maðurinn að bregða sér á klósettið.  Þá blasti við að hann var berlæraður.  Aðeins í hvítum nærbuxum með rauðum doppum.  En í sokkum og stífbónuðum spariskóm.  

  Þetta vakti kátínu annarra gesta, undrun og forvitni.  Siggi Lee reið á vaðið og spurði manninn hverju klæðaleysið sætti.  Sá berlæraði andvarpaði,  stundi þungt og svaraði hægt,  dapur á svip:

  "Æ,  ég lenti í vandræðum með leigubílinn sem skutlaði mér hingað.  Ég var orðinn peningalaus.  Leigubílstjórinn varð snælduvitlaus og tók buxurnar mínar í pant."     

buxnalaus.jpg


mbl.is Berrassaður maður í Hafnarstræti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maturinn í tómu rugli

  Kona var í blaðaviðtali fyrir nokkrum árum.  Viðtalið snérist að einhverju leyti um lífstíl konunnar sem grænmetisætu.  Vegna dýraverndunarsjónarmiða neytti konan hvorki kjöts né fisks eða annarra dýraafurða.  Mjólkurvörur og egg fóru ekki inn fyrir hennar varir né heldur eggjanúðlur.  Að því kom að konan var spurð um uppáhaldsmat.  Hún svaraði því til að hún elskaði kjúklingasalatið á tilteknum veitingastað í Kópavogi.

kjuklingasalat.jpg

Svona er Ísland í dag.  Ekkert nautakjöt í nautakjötsbökum.  Enginn hvítlaukur í hvítlauksbökum.  Nautakjöt drýgt með hrossakjöti.  Innfluttir kjúklingar og svínakjöt seld sem hágæða íslensk framleiðsla (eitthvað annað en útlenski óþverrinn sem er stútfullur af sterum og fúkkalyfjum).  Kjúklingur skilgreindur sem grænmeti.  Eins og pizzan í Bandaríkjunum.  Það er allt í rugli allsstaðar.  

  Í Ástralíu er asíuættað matvælafyrirtæki, Lamyong. Það hefur sett á markað grænmetisskinku með kjúklingabragði.  Þetta er snúið.  Skinka er reykt og soðið svínslæri.  Það getur ekkert annað hráefni verið svínslæri.  Síst af öllu er hægt að kalla grænmeti svínslæri.  Hvað þá grænmetisbúðing sem bragðast eins og kjúklingur.  

graenmetisskinka.jpg

 

     

  Lengsta hungurverkfall á Íslandi varð frétt fyrir fjórum dögum.  Fréttaefnið var að Höskuldur H.  Ólafsson fékk í fyrsta skipti mat frá bankahruninu 2008.  Vandamálið er að hvorki Höskuldur né aðrir muna lengur hvers vegna hann hóf hungurverkfallið fyrir hálfu sjötta ári.  Það var Gerður Kristný rithöfundur sem kom auga á þessa frétt.    

hoskuldur_h_olafsson_faer_mat.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

  Ég kom hinsvegar sjálfur auga á skemmtilega útlenda Fésbókarfærslu sem vinsælt er að deila á þeim vettvangi.  Þar segir af konu sem var að hefja matreiðslu á kvöldverði heimilisins.  Eiginmaðurinn kom inn í eldhús og spurði hvort hann gæti hjálpað til.  Konan jánkaði því.  Sagði honum að taka kartöflupokann,  skræla helminginn og sjóða í potti.  Nokkru síðar blasti þessi sjón við konunni:

halfskraeldar_kartoflur.jpg 

 

 


Kvikmyndarumsögn

  - Titill:  The Secret Life of Walter Mitty

  - Leikstjóri:  Ben Stiller

  - Leikarar:  Ben Stiller,  Ólafur Darri,  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson

  - Einkunn: *** (af 5)

  Þessi bandaríska - allt að því stórmynd - ku vera endurgerð á eldri bandarískri mynd.  Um þá mynd veit ég fátt.  Engu að síður er ég sannfærður um að Ísland og Íslendingar leiki ekki jafn stórt hlutverk í frumgerðinni.  Jafnvel ekkert hlutverk.  Það væri búið að fréttast.

  Myndin segir frá uppburðarlitlum lúða sem vinnur í framköllunardeild ljósmynda hjá tímaritinu Life.  Hann er skotinn í samstarfskonu sinni.  Kjarkleysi kemur í veg fyrir að hann gangi lengra en láta sig dreyma dagdrauma um þau tvö.  Hann dettur óspart í dagdrauma um margt fleira.  Í dagdraumum er hann kjarkmikil ofurhetja,  andstæðan við það sem hann er í raunveruleikanum.  Andstæðurnar eru það skarpar að áhorfandinn á auðvelt með að greina dagdraumana frá raunveruleikanum.

  Örlögin haga því þannig að óvænt er mannræfillinn hrifinn úr sínu örugga umhverfi í framköllunardeildinni og þeytist í viðburðarríkar ferðir til Grænlands, Íslands og Himalayafjalla.  Allar senur þessara ferðalaga eru víst teknar á Íslandi.  Það er trúlegt hvað varðar Ísland.  Líka Himalayafjöll.  En assgoti tekst vel til með senurnar sem eiga að gerast á Grænlandi.  Ég hef þrívegis komið til Grænlands og flakkað dálítið um.  Þetta er alveg eins og Grænland.

  Senurnar á Íslandi og þær sem eiga að gerast á Grænlandi eru skemmtilegastar.  Ekki aðeins vegna þess hversu fallegt og mikilfenglegt landslagið er og hversu gaman er að sjá íslenska leikara fara á kostum.  Jú, jú,  það vegur þungt.  Það er virkilega gaman að sjá Ísland skarta sínu fegursta,  íslenska náttúru minna hraustlega á sig og það er góð skemmtun að sjá íslenska leikara "brillera" í útlendri mynd sem hundruð milljóna manna um allan heim ýmist hafa séð,  eru að sjá þessa dagana eða eiga eftir að sjá. Í þessum senum nær myndin hæstu hæðum í gríni.  Hvert vel heppnaða spaugilega atvikið rekur annað.  Ólafur Darri á stjörnuleik.  Ari Matthíasson,  Gunnar Helgason og Þórhallur Sigurðsson standa sig sömuleiðis með prýði.  

  Myndin skiptir mjúklega um gír þegar Íslandi sleppir.  Síðasti fjórðungur myndarinnar er fyrst og fremst drama.  Samt ekki leiðinlegt.  Það er verið að hnýta saman lausa enda til að ljúka sögunni með fyrirsjáanlegum "happy end".  Harmrænar myndir eða bara harmrænar senur hafa ekki verið hátt skrifaðar hjá mér.  Svo rakst ég á niðurstöður viðamikillar vísindalegrar rannsóknar Notre Dame háskólans á Indlandi.  Rannsóknin leiddi í ljós að fólk verði betri manneskjur við að horfa á dramatískar kvikmyndir.  Umburðarlyndi og samkennd með öðrum vex.  Fólk á auðveldara með að setja sig í spor þeirra sem eiga um sárt að binda.           

  Ben Stiller er góður leikari.  Það staðfestir hann ítrekað í trúverðugum senum,  hvort sem er í hlutverki lúðans eða hetjunnar í dagdraumunum.  Og líka þegar lúðinn hefur öðlast sjálfstraust eftir ævintýrin á Íslandi.  Sean Penn kemur einnig sterkur til leiks í stuttri senu.  Töffaraáran er nánast áþreifanleg.  

  Ég mæli með því að fólk upplifi myndina í kvikmyndahúsi fremur en bíði eftir henni í sjónvarpi eða á DVD.  Einkum vegna landslagssenanna.  Það er áhrifaríkt þegar tónlist Of Monster and Men kemur til sögunnar er leikur berst til Íslands.  Þegar upp er staðið er myndin öflug auglýsing fyrir Ísland.  Kannski ein sú mesta fram til þessa ef frá eru taldar heimsvinsældir Bjarkar,  Sigur Rósar og Of Monster and Men.  

 


Embættismenn skemmta sér og skrattanum

tempt_cider_1225667.jpg  Íslenskum embættismönnum þykir fátt skemmtilegra en setja reglur.  Ekki síst embættismönnum ÁTVR.  Þeir skríkja í kæti þegar þeim tekst að banna hitt og þetta.  Eitt sinn bönnuðu þeir sölu á cider-drykk.  Forsendan var sú að dósin var og er skreytt smáu blómamynstri.  Innan um blómin mátti - með aðstoð stækkunarglers - koma auga á teikningu af nöktum fótlegg.  

  - Viðurstyggð! Stórskaðlegt og gróft klám,  hrópuðu embættismenn ÁTVR.

  Heildsali cider-drykksins áfríaði ákvörðun ÁTVR til dómsstóls.  Þar voru embættismenn ÁTVR rassskelltir.  Klám fannst ekki á umbúðunum.  ÁTVR var skikkuð til að taka cider-drykkinn í sölu.  Síðan hefur hann selst vel - án þess að leiða til ótímabærs kynsvalls og óhóflegrar fjölgunar kynlífsfíkla.

  Í annað skipti komu embættismenn auga á smátt letur á bjórnum Black Death.  Þar stóð:  Drink in Peace.  

  - Grófur áróður fyrir neyslu áfengs drykkjar og getur leitt til ölvunar,  hrópuðu embættismenn ÁTVR.  black_death.jpg

  Í enn eitt skiptið bönnuðu embættismenn ÁTVR bjórinn Motorhead.

  - Þeir sem drekka Motorhead eru í mikilli hættu á að byrja umsvifalaust að hlusta á enska hljómsveit með sama nafni.  Þá er stutt í heróínneyslu og krakkreykingar

  Þetta var sameiginleg niðurstaða embættismanna ÁTVR.  motorhead_bjor.jpg

  Fyrir örfáum árum bönnuðu embættismenn ÁTVR íslenskan páskabjór.  

  - Það er teikning af svipljótum hænuunga á dósinni.  Veruleg hætta á að börn hamstri þennan bjór,  var útskýring embættismanna ÁTVR.  paskabjor.jpg

  Nú er bjórframleiðendum gert að farga öllum jólabjór.  Jólin eru búin.

  Af hverju samt að farga hollum og neysluvænum drykkjum þó að jólin séu að baki?

  -  Þetta eru reglur.  Við verðum einfaldlega að framfylgja reglum,  segja embættismenn ÁTVR.

  Hver setti þessar reglur?   

  - Við,  er svar þessara sömu embættismanna. 

jolasveinninn_minn.jpg


mbl.is Farga óseldum jólabjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljósmyndataka rænir ljósmyndarann minni

photographer-bull.jpg

 

 

 

 

 

  Margir taka ljósmyndir.  Sumir jafnvel flottar ljósmyndir.  Þegar eitthvað er um að vera má iðulega sjá margar myndavélar á lofti.  Þetta á við um áhorfendur og þátttakendur á skemmtunum,  einnig í afmælum,  fermingarveislum og brúðkaupum.  Nú hefur rannsókn staðfest það sem margir hafa lengi haldið:  Ljósmyndarinn skerðir minni sitt við hverja myndatöku.  Ekki nóg með það.  Ljósmyndatakan brenglar jafnframt skynjun ljósmyndarans á framvindu atburðarins.

  Vegna þessa hafa tónlistarmenn á borð við Björk og Prince bannað ljósmyndatöku á hljómleikum sínum.  

  Á áttunda áratugnum var ljósmyndaönn hluti af námi mínu í Myndlista- og handíðaskóla Íslands.  Í heilan mánuð var fátt annað gert en ljósmynda (og framkalla).  Í einhvern tíma á eftir dró ég stundum (rándýra) ljósmyndavélina fram og smellti af.  En ég fann að þetta fór illa með minnið og lagði myndavélinni.  Ég hafði grun um að það væri eitthvað efni í myndavélinni sem brenglaði minnið.  Ég hef ennþá sterkan grun um það.   

  Þeir sem stýrðu rannsókninni um þetta í háskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum vilja meina að það sé sjálf athöfnin,  ljósmyndatakan,  sem snúi upp á minnið.  Augnablikin fyrir, á og eftir að mynd er smellt af stelur athyglinni.  Annað sem gerist á meðan eða utan þessara augnablika fer meira og minna framhjá ljósmyndaranum.   

photographer_no_smoking.jpg


Lulla frænka í umferðinni

  Lulla frænka var tíður gestur á tilteknu bílaverkstæði.  Aðallega var gert við smádældir sem einkenndu iðulega bílinn hennar.  Hún rauk ekki með bílinn á verkstæði þó að ein og ein dæld og rispa bættist við.  Það var ekki fyrr en ljós brotnuðu líka eða stuðari losnaði eða eitthvað slíkt bættist við.

  Á meðan gert var við bílinn sat Lulla inni í honum og fylgdist með.  Hún skráði af nákvæmni í bók hvenær vinna við bílinn hófst og hvenær henni lauk.  Í hvert sinn sem viðgerðarmaður brá sér frá í kaffi,  mat,  síma (þetta var fyrir daga farsíma) eða annað þá tók Lulla tímann og skráði niður.  Með þessu afstýrði Lulla því að vera rukkuð um of.  Hún taldi sig merkja einbeittan vilja verkstæðisins til ofrukkunar.  Það réð hún meðal annars af því hvað starfsmenn þar lögðu hart að henni að koma út úr bílnum;  bíða frekar á kaffistofunni hjá þeim eða þá að þeir buðust til að skutla henni heim.   Lulla lét ekki plata sig.  Þó að viðgerð tæki 2 eða 3 daga þá var hún mætt í bílinn sinn á slaginu klukkan 8 að morgni og stóð vaktina til klukkan 18.00.     

  Afturendinn á bíl Lullu varð helst fyrir hnjaski.  Ég uppgötvaði einn daginn hvernig á því stóð.  Þannig var að Lulla bjó í bakhúsi við Laugaveg.  Að húsinu lá nokkurra metra löng innkeyrsla.  Við húsið lagði Lulla bíl sínum.  Pláss var ekki nægilegt til að snúa bílnum þarna.  Það þurfti að bakka til baka og út á Laugaveg þegar ekið var frá húsinu.  

  Svo vildi það til að ég var farþegi hjá Lullu er hún ók að heiman.  Hún leit ekki aftur fyrir sig né í spegla á meðan hún bakkaði út á Laugaveginn.  Þess í stað horfði hún aðeins fram fyrir sig og reykti af ákafa.  Hún bakkaði bílnum löturhægt á bíl sem ók niður Laugaveginn.  Hvorugur bíllinn varð fyrir eiginlegum skaða.  En það voru skrifaðar tjónaskýrslur.  Að því loknu nefndi ég við Lullu að hún þyrfti að gá aftur fyrir sig áður en hún bakki út á Laugaveginn.  Hún yrði að ganga úr skugga um að enginn bíll sé fyrir á Laugaveginum.  

  Lulla svaraði í rólegheitum:  "Nei,  ég hef prófað það.  Þá þarf maður að bíða svo lengi.

  Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1332896/


Eru allir að verða geggjaðir?

  Á rúnti um netheima rekst maður víða á ljósmyndir af fólki.  Sumt af þessu fólk hagar sér þannig að vandasamt er að átta sig á því hvað liðinu gengur til.  En kannski er bara gott að allir séu ekki steyptir í sama mót.  Þá er hægt að brosa eða skella upp úr þegar það allra skrítnasta ber fyrir augu.

eru allir orðnir geggjaðir - a

Ég veit ekki hvort þessi dama er að dansa eða hvað.  Hvort sem er þá átta ég mig ekki á því hvers vegna hún hefur troðið hendinni á sér alveg ofan í kok.  

eru allir orðnir geggjaðir - aa

Sumir hafa hring í eyranu.  Aðrir hafa hring í nefinu.  Ég hef ekki áður séð neinn með skæri í nefinu.  Þetta gæti orðið tískubylgja ef til að mynda Justin Bieber tæki upp á þessu.   

eru allir orðnir geggjaðir - b

 Skemmtileg fjölskyldumynd af mislítið sólbrúnu fólki.  En hvað er þetta með öxina?  Faðirinn hefur skorðað blaðið á bakvið brjóstið á stúlkubarninu. 

eru allir orðnir geggjaðir - bb

  Amma er fótalúin en vill ólm vera með í búðarrápinu.  Þá er bara að skorða hana ofan í innkaupakerrunni og hlaða ofan á kellu kókflöskum, kexkökum, pylsupökkum, mjólk og öllu hinu.  Sumar vörurnar kæla hana notalega í hitamollunni.

eru allir orðnir geggjaðir - c

 Bleika slímið er það kallað.  Það er einskonar kjötfars úr uppsópi af gólfum kjötvinnslunnar.  Það er þvegið upp úr ammoníaki og fínhakkað í leðju eða slím.  Slímið er notað til að drýgja hamborgara og fleiri kjötrétti.  Þarna er það hinsvegar notað í stað lambhúshettu.  Bleika slímið er einkum notað í Bandaríkjunum.  En einnig í Bretlandi.  Notkun þess er þó ýmsum skorðum sett.  Það má til að mynda ekki nota það í skólamáltíðir í Bretlandi.        


Verðsamanburður borgar sig!

  Það eru eins og samantekin ráð hjá helstu verslunum landsins að hringla með verð á öllum vörum nánast daglega.  Það er sama hvort um er að ræða stórmarkaði,  lágvöruverslanir,  hávöruverslanir,  byggingavöruverslanir eða hvað sem er.  Tilgangurinn er sá einn að koma í veg fyrir að nokkur manneskja læri verð á vörum.  Viðskiptavinurinn verður þannig ónæmur fyrir verði.

  Full ástæða er til að vera á verði.  Gera verðsamanburð á milli verslana af minnsta tilefni.  Það getur sparað háar upphæðir.

  Siggi Lee Lewis,  vinur minn,  var í dag að huga að kaupum á útiseríu.  Hann kannaði verð á 80 ljósa seríu í Blómavali.  Verðið reyndist vera 29.900 krónur.  Það þótti Sigga heldur ríflegt.  Í bríeríi datt honum í hug að kanna verðið í Byko.  Viti menn:  Þar fann hann 120 ljósa seríu á 4990 kr.  Siggi kemur ekki auga á neitt sem réttlætir að miklu minni sería í Blómavali sé 25 þúsund kalli (500%)dýrari.  80 ljósa serían í Byko kostar rúmar 3000 kr.  en Siggi er svo ánægður með verðið á 120 ljósa seríunni að hún er málið. 

  Tekið skal fram að ég hef engin tengsl við Byko eða Blómaval.

jolaseriur.jpg  


Vandræðalegt

  Öllum getur orðið á.  Meira en það.  Öllum verður á.  Sumum oft.  Það er misskilningur út um allt.  Bæði réttur og rangur.  Það átta sig ekki allir á því hvernig best er að nota regnhlíf.

me_regnhlif_1222408.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Það er heldur ekki öllum gefið að vita um mögulegt notagildi skyggnis á húfu.  

19-19-19skrytin_mynd_1222406.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

   Ef vel er að gáð sést að konan heldur spjaldtölvunni sinni upp að eyranu eins og símtóli (eða litlum farsíma)

stupid.jpg

me_tosku.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

  Sumum ferðatöskum fylgir enginn leiðbeiningabæklingur.  Fyrir bragðið dregur sumt fólk níðþunga tösku á eftir sér alla ævi.  Það veit ekki að taskan er á hjólum.  Til að þau komi að gagni þarf taskan að snúa rétt.  Þau koma ekki að gagni ef taskan snýr vitlaust.  

 

 

 

 

 

 

 

  Þessi tók mynd af lyftunni til að sýna vinum sínum.  Honum þykir svo heimskulegt að í lyftunni sé takki fyrir hæðina sem hann er á.  

lyfta.jpg


mbl.is Handrukkarar bönkuðu hjá lögreglu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lulla frænka og lögreglan

  Lulla frænka var það sem kallast "góðkunningi lögreglunnar".  Ekki vegna þess að hún væri í neinum afbrotum.  Það var hún ekki.  Alls ekki.  Ekki þannig lagað.  Lulla frænka var strangheiðarleg.  Hitt er annað mál að hún hafði annan skilning á umferðarlögum en flestir.  Hún tók lítið mark á umferðarljósum,  umferðarskiltum og öðru slíku.  Hún var svipt ökuréttindum.  Það breytti engu.  Hún ók eftir sem áður.  Svo fékk hún ökuskírteinið aftur.  Á sjöunda og áttunda áratugnum var mun meira umburðarlyndi gagnvart því að ökumenn túlkuðu umferðarlög frjálslega en er í dag. 

  Á þessum árum voru gangandi lögregluþjónar áberandi á gatnamótum.  Einkum í miðbænum.  Þegar Lulla ók yfir á rauðu ljósi eða virti ekki stöðvunarskyldu hlupu lögregluþjónarnir á eftir bíl Lullu og veifuðu ákaft.  Lulla veifaði á móti og flautaði til að endurgjalda þessa vinalegu kveðju frá þeim.  Hún var upp með sér af því:  "Ég er í miklu uppáhaldi hjá lögreglunni.  Hvert sem ég keyri þá veifa og veifa lögregluþjónarnir mér eins og ég sé gömul skólasystir þeirra eða eitthvað."   

  Þegar ég var í heimavistarskóla á Laugarvatni fékk ég einstaka sinnum bæjarleyfi.  Þá heimsótti ég alltaf Lullu frænku.  Það var svo gaman.  Í einu bæjarleyfi fékk ég Lullu til að skutla mér og Viðari Ingólfs frá Reyðarfirði,  skólabróður mínum,  á hljómleika í félagsmiðstöðinni Tónabæ.  

  Á leiðinni ókum við frammá mann sem gekk yfir merkta gangbraut.  Lulla sló hvergi af né beygði framhjá manninum.  Hún ók harkalega utan í hann.  Hann flaug í götuna.  Mér var brugðið og hrópaði í undrun og taugaveiklun á Lullu:  "Þú keyrðir manninn niður!"  

  Ég ætlaðist til að Lulla stöðvaði bílinn svo við gætum hugað að slösuðum manninum.  Lulla ók áfram og svaraði sallaróleg eins og ekkert væri eðlilegra:  "Hann á náttúrulega ekkert með það að vaða svona í veg fyrir umferðina."  

----------------------------

Fleiri sögur af Lullu frænku:  http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1328591/


mbl.is „Hef ekkert á móti lögreglunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband