Færsluflokkur: Spaugilegt
21.11.2013 | 00:30
Búðarhnupl úr sögunni
Í Asíu, til að mynda í Suður-Kóreu og Japan, er búðarhnupl óþekkt í stórmörkuðum. Vörurýrnun er engin, 0%. Hvernig stendur á því? Það er heilmikil vörurýrnun í íslenskum verslunum. Ekki síst stórmörkuðum. Ástæðan fyrir þessum mun hefur ekki aðeins að gera með mismunandi siðferði viðskiptavina á Íslandi og í Asíu að gera. Ástæðan er líka sú að verslanirnar eru ólíkar.
Í Seúl í Suður-Kóreu sér viðskiptavinurinn vörurnar sem hann girnist. En hann getur ekki tekið þær úr hillunum. Þess í stað ýtir hann á mynd af vörunum. Myndirnar eru snertiskjár. Um leið og viðskiptavinurinn ýtir á myndirnar færast viðkomandi vörur af lager verslunarinnar og fara í innkaupapoka. Þegar viðskiptavinurinn kemur að búðarkassanum bíða hans þar vörurnar í innkaupapokum ásamt upplýsingum um verðmæti þeirra. Viðskiptavinurinn borgar glaður í bragði og fær innkaupapokana afhenta.
Í fljótu bragði líta hillur stórmarkaðarins út alveg eins og hillurnar í Hagkaup, Nóatúni, Nettó og Fjarðarkaupum.
Það er líka hægt að gera innkaupin með snjallsíma. Ég veit hinsvegar ekkert hvað snjallsími er og veit þess vegna ekki hvernig það gengur fyrir sig.
Þangað til þessi tækni berst seint og síðar meir út fyrir Asíu þurfa verslanir að styðjast við eftirlitsmyndavélar og ljónharða afgreiðslumenn sem slá þjófa umsvifalaust í gólfið.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 19:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
15.11.2013 | 22:32
Lulla frænka komst í hann krappan
Lulla frænka var stundum á dagdeild stofnunar sem heitir Hvítabandið á Skólavörðustíg. Öryrkjabíll sótti hana á morgnana og hún föndraði þarna yfir daginn. Bjó til ávaxtaskálar úr trépinnum samskonar þeim sem eru í íspinnum. Og eitthvað svoleiðis. Þessar skálar og fleira dót gaf Lulla í jólapakka. Um kvöldið var Lullu ekið heim til sín. Hún talaði um þetta sem vinnuna sína.
Einn daginn gerði brjálað veður. Kafaldsbylur og gríðarleg niðurkoma lamaði allt höfuðborgarsvæðið. Það var ófært. Fólk komst ekki til vinnu. Skólastarf og bara allt lagðist niður. Það sá ekki handaskil utan húss.
Um kvöldið hringdi Lulla í mig og sagði: "Ég lenti í þvílíku puði í dag. Öryrkjabíllinn sótti mig ekki í vinnuna. Ég varð sjálf að keyra í Hvítabandið."
Ég skil ekki hvernig henni tókst það. Hún var ekki góður bílstjóri og átti gamlan Skoda.
Lulla hélt áfram: "Ég þurfti að gera allt á Hvítabandinu. Ég þurfti að sjá um símann. Ég þurfti að hella upp á kaffið og ég þurfti að sjá um allar kaffiveitingar. Ég þurfti að leggja á borð, setja í uppþvottavélina og ganga frá. Það lenti öll vinna á mér. Ég þurfti að sjá um alla föndurvinnu. Ég var alein þarna. Sem betur fer hringdi síminn aldrei. Ég kann ekkert á símkerfið. Ég hefði lent í vandræðum ef einhver hefði hringt."

---------------------------------
Fyrri færslur um Lullu frænku: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1326639/
Spaugilegt | Breytt 16.11.2013 kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
13.11.2013 | 23:41
Næpuhvítur bleiknefi náði kosningu með því að þykjast vera svertingi
Í Houston í ríkinu Texas í Bandaríkjum Norður-Ameríku fóru fram kosningar til bæjarstjórnar. Frambjóðandi nokkur, Dave Wilson, átti á bratta að sækja. Skoðanakannanir sýndu að hann vantaði örfá atkvæði til að tryggja sér sigur. Þar munaði um atkvæði blökkumanna. Hann var öruggur með atkvæði hvítra. Síðustu daga fyrir kjördag tók kauði upp á því að þykjast vera svertingi. Hann sendi út fjöldapóst með ljósmyndum af blökkumönnum. Myndirnar fann hann á netinu. Undir myndunum var textinn: "Vinsamlegast kjósið vin okkar og nágranna Dave Wilson."
Hann hampaði því að vera frændi þekkts blökkumanns (það var lýgi) sem ber sama ættarnafn, Ron Wilson. Talaði stöðugt um að þeir svörtu frændurnir hafi verið saman á kafi í körfubolta í gamla daga.
Þetta virkaði. Bleiknefinn vann með 26 atkvæða mun. Íbúar eru 2,1 milljón.
Verra er að Dave Wilson er ákafur hommahatari. Eins og flestir slíkir áreiðanlega skápahommi.
Eftir að hann vann kosningarnar segir hann að kosningabaráttan - með þessu útspili að þykjast vera blökkumaður - hafi verið saklaus hrekkur (prank).
Spaugilegt | Breytt 14.11.2013 kl. 22:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.11.2013 | 22:31
Bráðskemmtileg bók
Fyrir tæpum áratug kom út létt og fjörleg vísnabók eftir Akureyringinn Magnús Geir Guðmundsson. Sú heitir Geiravísur. Áður var Magnús Geir þekktur sem flottur blaðamaður hjá dagblöðunum Tímanum og Degi. Þar skrifaði hann um dægurlagamúsík og hélt úti plötugagnrýni. Ég keypti þessi blöð fyrst og fremst til að fylgjast með skrifum Magnúsar Geirs.
Nú var Magnús Geir að senda frá sér aðra vísnabók, Limrurokk. Nafnið bendir til þess að hún innihaldi limrur. Vísbendingin er rétt.
Eins og algengt er með limrur þá ræður kímni víða för í limrum Magnúsar. Þær eru flestar ortar í tilefni einhverrar fréttar eða einhvers atburðar. Þar á meðal er ort um fjölda nafngreindra íslenskra og erlendra stjórnmálamanna, tónlistarmanna, boltasparkara og fjölda annarra. Samtals eru limrurnar hátt á annað hundrað. Hverri limru fylgir frásögn af tilurð hennar. Frásögnin hefur mikið að segja. Hún útskýrir margt og gefur limrunni dýpt.
Þannig rifjar Magnús Geir upp þegar höfundur þessa bloggs vakti 2007 athygli á einelti sem átti sér stað á Veðurstofunni. Sýndist þar sitt hverjum og upphófst heilmikið þref. Þá varð Magnúsi að orði:
Jens minn, þú stendur í ströngu,
ert stöðugt í baráttugöngu.
Með kjafti og klóm
og kraftmiklum róm,
að greina hið rétta frá röngu!
Vert er að geta skemmtilegrar hönnunar á bókakápu. Höfundur hennar er Jakob Jóhannsson.
Það er óhætt að mæla með Limrurokki, hvort heldur sem er til jólagjafa eða til eigin brúks. Limrurnar laða fram bros. Það er upplagt að hafa bókina á náttborðinu og renna yfir nokkrar blaðsíður fyrir svefninn. Þá svífur maður með bros á vör inn í draumaheim.
Spaugilegt | Breytt 11.11.2013 kl. 02:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
9.11.2013 | 22:32
Lulla frænka - II
Um daginn kynnti ég til sögunnar á þessum vettvangi Lullu, föðursystur mína. Áður en lengra er haldið ráðlegg ég þér að fletta upp á þeirri færslu svo ég þurfi ekki að endurskrifa þá kynningu: http://jensgud.blog.is/blog/jensgud/entry/1301441/
Lulla átti það til að hafa allt á hornum sér gagnvart tilteknum manneskjum. Það þurfti lítið sem ekkert til. Þá málaði Lulla upp sterka og neikvæða mynd af viðkomandi og ýkti verulega allt sem að þeim snéri. Þetta átti einungis við um fólk sem var Lullu alls óskylt og ótengt fjölskylduböndum.
Í gegnum svilkonu sína kynntist Lulla systrum sem bjuggu saman. Lulla tók upp á því að heimsækja þær af og til. Ekki mjög oft. Kannski 3 - 4 sinnum á ári. Systurnar voru afskaplega gestrisnar og lögðu á borð fyrir gesti veglega veislu. Þær vissu að Lulla eldaði sjaldan eða aldrei heitan mat fyrir sig eina heima fyrir. Þess vegna lögðu þær sig fram um að tína til og útbúa heitan mat handa Lullu - þrátt fyrir að hún kæmi ætíð í heimsókn utan matmálstíma.
Eitt sinn kom Lulla í heimsókn til svilkonu sinnar. Það var ólund í Lullu. Hún hóf upptalningu á öllu því sem henni datt í hug systrunum til vansa. Svilkonan brást til varnar og sagði hvasst: "Að þú skulir leyfa þér að tala illa um systurnar. Þær hafa aldrei sýnt þér annað en vinsemd. Þú ert ekki fyrr komin inn úr dyrum hjá þeim en þær eru farnar að tína til allt það besta matarkyns sem þær eiga og útbúa veislumáltíð fyrir þig."
Það hnussaði í Lullu af vandlætingu og hún sagði: "Þær nota mig nú bara fyrir ruslafötu. Henda í mig leifunum!"
Spaugilegt | Breytt 11.11.2013 kl. 02:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
7.11.2013 | 22:27
Þvottur á höndum léttir lund
Vísindaleg rannsókn, framkvæmd í Háskólanum í Cologne, hefur nú staðfest niðurstöðu sem kom út úr hliðstæðri vísindalegri rannsókn, framkvæmdri í Háskólanum í Michigan fyrir tveimur árum. Báðar rannsóknirnar snérust um þvott á höndum; hvaða áhrif hann hefur á andlega líðan fólks.
Niðurstaðan var afgerandi og óvænt: Þvottur á höndum léttir lund svo um munar. Því betur og rækilegar sem fólk þvær hendur sínar þeim mun glaðværara og hamingjusamara verður það. Þegar hendurnar eru skrúbbaðar í bak og fyrir með bursta svífur fólk á bleiku hamingjuskýi lengi á eftir.
Sálfræðilega skýringin á þessu er sú að á meðan hendurnar eru þvegnar þá notar undirmeðvitundin tækifærið og losar sig við sektarkennd, minnimáttarkennd, neikvæðni og aðrar niðurbrjótandi hugsanir. Eftir stendur manneskjan með tandurhreinar hendur, sjálfsöryggi og jákvæðar hugsanir.
Næst þegar þú sérð reiða, bitra og neikvæða manneskju þá veistu um leið að hún hefur ekki þvegið sér um hendur. Við höfum séð þetta í umræðuþáttum í sjónvarpi. Þangað hafa einstaklingar mætt úr jafnvægi, kófsveittir og æstir. Ef þeir bara hefðu haft rænu á að þvo sér um hendur eftir klósettferðir þá væru þeir ljúfir sem lömb; ósveittir og sáttir í sínu skinni.
Gott dæmi um mann sem þvær sér aldrei um hendurnar.
Spaugilegt | Breytt 8.11.2013 kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
31.10.2013 | 22:45
Ótrúlega hraðvirk aðferð til að læra tungumál
Það eru til ýmsar aðferðir til að læra enn eitt tungumálið. Flestar eru aðferðirnar seinvirkar og kalla á mikla og tímafreka yfirlegu. Það er líka til aðferð sem kallast ofurminnistækni (super learning memory). Gallinn við hana er að fyrst þarf að læra ofurminnistæknina. Það kostar margra daga námskeið. Kosturinn er að ofurminnistæknin er öflugt hjálpartæki við margt annað en tungumálanám.
Hraðvirkasta aðferðin við að læra tungumál er jafnframt sú einfaldasta. Aðferðin felst í því að læra orðin sögð með texta úr móðurmáli viðkomandi. Tökum dæmi af enskumælandi manneskju sem vill læra íslensku:
sömuleiðis = same old ladies
góða helgi = go to hell key
gerðu svo vel = go there so well
þökk fyrir = duck fairy
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.10.2013 | 13:13
Einkennileg vinnubrögð
Ég fór á pósthús. Við innpökkunarborðið var háaldraður maður að loka stóru bólstruðu umslagi. Hann var auðsjáanlega afar máttlaus og hreyfingar voru hægar. Hann teygði sig í breiðu glæru límbandsrúlluna og límdi þvers og kruss yfir framhlið umslagsins. Hugsanlega var ætlunin að styrkja umslagið. Samt eru þessi bólstruðu umslög níðsterk.
Ég þurfti að nota límbandið og fylgdist þolinmóður með vinnubrögðum gamla mannsins. Þau voru eins og kvikmynd í "slow motion". Ég beið og ég beið. Og beið og beið. Eftir óralangan tíma var maðurinn búinn að þekja framhlið umslagsins með glæra límbandinu. Hann ætlaði að taka umslagið upp. Þá kom í ljós að límbandsrenningarnir stóðu vel út fyrir umslagið. Það var límt fast á stóra og þunna skjalatösku sem lá undir umslaginu.
Gamli maðurinn reyndi ítrekað að rykkja umslaginu af töskunni. Án árangurs. Það var pikkfast. Hann reyndi að toga umslagið af töskunni. Það gekk ekki heldur. Eftir töluvert streð náði kallinn í skæri og klippti umslagið laust. Eftir sat ferhyrndur límbandsrammi á töskunni.
Maðurinn snéri umslaginu við og ýtti töskunni til hliðar. Svo hófst hann handa við að þekja bakhlið umslagsins með límbandi. Að því loknu ætlaði maðurinn að taka umslagið upp. Þá var það kyrfilega límt við borðið og að hluta við töskuna. Nú var sá gamli kominn í æfingu við að leysa svona vandamál. Hann klippti umslagið laust. Á meðan notaði ég límbandsrúlluna í fljótheitum.
Áður - þegar ég sá að bið mín eftir límbandinu styttist - náði ég mér í afgreiðslunúmer. Útreikningurinn stóðst. Skömmu eftir að ég hafði límt minn pakka kom afgreiðslunúmer mitt upp á skjáinn. Um það bil sem ég snéri mér að afgreiðsludömunni ruddist sá gamli fram fyrir mig og rétti henni númerið sitt. Það var 15 númerum á undan mínu. Daman fór að hlæja og sagði eitthvað á þá leið að það væri ekkert mál að afgreiða okkur báða í einu. Sem hún gerði og var eldsnögg að afgreiða mig.
Á leiðinni út velti ég því fyrir mér hvernig gamli maðurinn haldi að númerakerfi póstsins virki. Ég komst ekki að niðurstöðu.
Spaugilegt | Breytt 30.10.2013 kl. 01:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.10.2013 | 21:23
Færeyskir brandarar
Færeyskur húmor er snilld. Brandararnir eru yfirleitt stuttir og hnitmiðaðir. Þeir geta líka verið langir þegar það á við. Lengdin þjónar þá þeim tilgangi að gera "lokahnykkinn" (pönslæn) áhrifameiri. Gott dæmi um færeyskan húmor er þegar eina helgi merktu hrekkjusvín saltgeymslu eyjanna rækilega með afar vel máluðum risastöfum sem mynduðu orðið PIPAR.
Hér eru nokkrir færeyskir brandarar:
- Þjónn! Það liggja tvær augnlinsur ofan á súpunni minni!
- Hvar? Hvar?
----------------------------------------------
Dani kom inn í Vesturkirkjuna.
- Prestur, ég vil skipta um nafn. Þú getur umskírt mig.
- Svo, hvað heitir þú?
- Hans Hommi
- Guð minn góður. Ég skil, ég skil. Hvaða nafn viltu taka upp?
- Karl Hommi
----------------------------------------------
Húsbóndinn mætir óvenju snemma heim og kemur að konunni allsnakinni.
- Hvað er í gangi?
- Ég er að fara í bæinn að mótmæla?
- Er það jafnréttisbarátta?
- Nei, ég ætla bara að láta alla í bænum vita að maðurinn minn sé svo nískur að hann bannar mér að kaupa ný föt?
- Og hvað? Ætlar þú að ganga ber niður í bæ?
- Já, alla leið niður að Vagli!
- Og framhjá Eikar-bankanum og allt?
- Já!
- Heppilegt. Taktu þetta umslag með þér og renndu því inn um bréfalúguna hjá Eik.

Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 23:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.10.2013 | 21:50
Það er svo undarlegt með unga menn í bakgrunni
Það er ekki alltaf nægilegt að "pósa", stilla sér upp fyrir ljósmyndatöku. Það þarf að hyggja að fleiru. Til að mynda öðru fólki. Fólkinu í bakgrunni sem veit ekki af fyrirhugaðri myndatöku. Það er sérlega skætt. En það er jafnframt það sem gerir marga ljósmyndina bráðskemmtilega þegar betur er að gáð.
Manninum í bakgrunninum er greinilega illa brugðið við að sjá tvær huggulegar dömur kyssast innilega. Hann gapir af undrun og augun standa á stiklum.
Hvað er maðurinn í bakgrunni að gera? Miðað við hvernig skyrtubolurinn lyftist og hvernig lúkurnar snúa virðist sem gaurinn sé í frjálsu falli. Ég hef séð mann drepast áfengisdauða á nákvæmlega þennan hátt.
Drengurinn neðst til vinstri á myndinni virðist vera að leita að einhverju sem hann hefur týnt.
Maðurinn montar sig af upphandleggsvöðvunum. Stelpan tekur ekki eftir því. Enda upptekin við að kasta upp.
Hvað ergir drenginn? Varla er bjórinn svona vondur.
Spaugilegt | Breytt s.d. kl. 22:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)